10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 840 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum. Þetta er 65. mál á þskj. 68. Hér er um endurflutning á frv. að ræða sem var lagt fram seint á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Frv. er lítillega breytt frá þeirri útgáfu sem þá var lögð fyrir þingið og eins og vera ber var tíminn notaður sl. sumar til að endurbæta þingmálið og fara yfir það og auka lítillega við það sem á þótti vanta. Ný grein hefur bæst við frá fyrra ári og er nú 11. gr. frv.

Frv. þetta til laga um friðlýsingu lands og lögsögu fyrir kjarnorkuvopnum og eiturefnavopnum er þannig til komið að vegna þeirrar miklu umræðu sem verið hefur á undanförnum árum um kjarnorkuvá, bæði vegna kjarnorkuvopna og eins vegna annarrar beislunar kjarnorku, hafa ýmis lönd og ýmsar þjóðir og hópar þjóða tekið sig saman um reglur. Friðlýsing af einhverju tagi fyrir kjarnorkuvopnum og jafnvel strangar reglur um kjarnorkunotkun yfir höfuð hefur verið lögfest í nokkrum löndum eða hópum landa. Er þar nýlegasta dæmið um Nýja-Sjáland sem á síðasta þingi þeirra Nýsjálendinga í Wellington lögfesti frv. sem var flutt af forsætisráðherra landsins, David Lange, um friðlýsingu Nýja-Sjálands fyrir kjarnorkuvopnum. Það frv. sem hér er lagt fram er að hluta til sniðið eftir hinu nýsjálenska frv., enda hófst vinnan að samningu þessa frv. með því að afla hinna nýsjálensku gagna og láta þýða þau að hluta til yfir á íslensku.

Helstu ástæður fyrir flutningi frv. eru tíundaðar í grg., en fyrst og fremst er það vegna þess að það er yfirlýst stefna á Íslandi að hér skuli ekki vera kjarnorkuvopn og því þykir eðlilegt og rökrétt í framhaldi af því að festa það í lög landsins. Það er jafnframt skoðun fyrri flm. a.m.k. að eðlileg næstu skref að slíkri lögfestingu væru almenn ákvæði í stjórnarskrá þar sem þetta væri enn þá betur bundið. Þetta er samanber ályktun Alþingis frá því í maí 1985 þar sem ítrekuð er sú stefna að á Íslandi skuli ekki vera kjarnorkuvopn. Einnig vil ég nefna yfirlýsingu hæstv. fyrrv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar frá 16. apríl 1985 um að þessi stefna okkar Íslendinga taki einnig til komu herskipa inn í íslenska lögsögu, inn í íslenska landhelgi og komu þeirra eða heimsókna til íslenskra hafna. Þá vil ég enn fremur nefna yfirlýsingu sem kom fram á Alþingi fyrir nokkrum dögum þegar hæstv. utanrrh. Steingrímur Hermannsson ítrekaði héðan úr þessum virðulega ræðustól ummæli sem hann hafði áður haft í fjölmiðlum þess efnis að þessi stefna, um að hér skyldu ekki vera kjarnorkuvopn, skyldi bæði ná til friðar- og ófriðartíma, þ.e. að vera altæk og án fyrirvara eða undanþága. Þar með tel ég, virðulegur forseti, að í raun sé rækilega yfirlýst orðið að Ísland á heimavelli sé kjarnorkuvopnalaust og kjarnorkufriðlýst svæði. Öðruvísi verður þessi stefna, þegar hún hefur bæði fulltingi Alþingis og ríkisstjórna og þessar yfirlýsingar tveggja hæstv. utanrrh., ekki túlkuð að mínu mati. Það sem þá vantar á að hægt sé að tala um Ísland sem kjarnorkufriðlýst svæði í hefðbundnum skilningi er hin alþjóðlega réttarstaða sem slík svæði eða lönd hafa aflað sér í tengslum við slíkar yfirlýsingar. Þetta frv. gerir ráð fyrir að slíkra yfirlýsinga, slíkrar alþjóðlegrar stöðu, réttarstöðuyfirlýsingarinnar verði aflað.

Eins og ég sagði, herra forseti, er þetta frv. í meginatriðum óbreytt frá síðasta þingi og þar af leiðandi gildir framsaga fyrir því í öllum meginatriðum og þarf í raun og veru ekki að hafa þar aðra fyrirvara á en sem ég hef þegar rakið, að nýsjálenska frv. er nú orðið að lögum, en það er nær óbreytt frá hinu upphaflega frv. og flm. sáu ekki ástæðu til að láta þýða hina endanlegu gerð laganna þar sem þau eru nánast samhljóða frv. sem er fyrsta fylgiskjal með þessu.

Síðan er það þessi nýja 11. gr. sem fjallar um flutninga á kjarnakleyfum efnum eða kjarnorkuúrgangi og bannar hann innan hins friðlýsta svæðis og bannar stranglega alla losun kjarnorkuúrgangs og geislavirkra efna hvort sem þau teljast lággeislavirk eða hágeislavirk, þar með taldir geislavirkir vökvar, innan hins friðlýsta svæðis. Þetta ákvæði er m.a. sett vegna þeirra umræðna sem verið hafa undanfarið um losun kjarnorkuúrgangs í sjó og hættu á geislamengun hafanna. Og þó að í gildi séu alþjóðlegir samningar sem takmarka þetta verulega og banna í flestum tilvikum eru þeir samningar, eins og Lundúnasamningurinn, ekki afdráttarlausir, auk þess sem það er ekkert því til fyrirstöðu að við íslendingar setjum okkur sjálfir sérstök og ströng ákvæði um þetta í okkar eigin lögum. Það eru í gildi á Íslandi ákveðin lög sem þetta snerta, en þau taka t.d. ekki afdráttarlaust til orða hvað varðar mismunandi skaðlegan úrgang.

Herra forseti. Ef ég renni í örstuttu máli yfir frv., þá felur það í sér í 1. og 2. gr. í raun markmiðssetningu laganna, þ.e. að gera allt íslenskt yfirráðasvæði kjarnorku- og eiturefnalaust, afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar, draga úr hættunni á kjarnorku- og eiturefnaóhöppum á Íslandi og í grennd við Ísland og stuðla að afvopnun og friði af Íslands hálfu. Þetta er nokkurn veginn samandregið megininntak laganna. Þeir sem ekki vilja lesa mikið lengra fá í raun og veru nokkra hugmynd um hvað frv. snýst um af lestri 2. gr. 3. gr. fjallar um þær skilgreiningar sem í raun er óhjákvæmilegt að hafa innan slíkra laga, þ.e. hvað sé átt við með orðunum kjarnorkuvopn, hvað sé átt við með orðinu eiturefnavopn, hvað sé átt við með hinu friðlýsta svæði sem er, eins og segir í 3. gr.:

„Íslenskt land, landhelgi, lofthelgi, efnahagslögsaga og landgrunn og allt íslenskt yfirráðasvæði samkvæmt lögum, þjóðarétti og ýtrustu fullveldisréttindum í og á landi, á og yfir hafsbotni, í sjó og ofan sjávar og í lofti.“ Hið „friðlýsta svæði“ merkir hið sama og Ísland eða íslensk lögsaga í þessu efni.

Varðandi skilgreininguna á kjarnorkuvopnum er í raun nægjanlegt að vísa til hefðbundinnar alþjóðlegrar skilgreiningar í þessum efnum sem er í stuttu máli sú að kjarnorkuvopn séu einungis sprengihleðslan sjálf og ekki flutningstækið svo fremi sem hægt sé að skilja þetta tvennt að. Þetta sé sem sagt þröng skilgreining sem nái eingöngu til sjálfrar sprengihleðslunnar. „Eiturefnavopn“ er hér látið ná yfir nánast allar hugsanlegar tegundir lífrænna orsakavalda sem nota má sem vopn.

Hvað varðar svo skilgreininguna á því hvað skal teljast kjarnorkuvopnað farartæki er nærtækast, sbr. 13. gr. og skýringar við hana, að vísa til þeirrar skilgreiningar sem stórveldin notast við í sínum samskiptum svo sem eins og í SALT-samningunum þar sem það er rækilega útskýrt hvað skuli teljast kjarnorkuvopnað farartæki eða stöð. Í 4., 5., 6., 7., 8., 9., 10. og 11. gr. frv. eru í raun tíundaðar þær kvaðir sem lögin setja á íslenska ríkisborgara og íslenska ríkið og aðra þá aðila sem hér falla undir, svo sem eins og menn sem eru í þjónustu íslenska ríkisins, hvort sem þeir eru hér á landi eða annars staðar, og í 12. gr. eru undanþáguákvæði sem óhjákvæmilegt er að hafa í lagasetningu af þessu tagi vegna þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist m.a. í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt friðsamlegrar umferðar farartækja í gegnum landhelgina. Þó er það skýrt tekið fram í 12. gr. að nær landinu en að 12 sjómílna mörkum og lofthelginnar þar uppi yfir skuli engar undanþágur af neinu tagi leyfðar, engin umferð kjarnorkuvopnaðra farartækja, engar heimsóknir kjarnorkuknúinna farartækja o.s.frv.

Það kunna að vera uppi þjóðréttarleg álitamál um það hvort 12 sjómílna landhelgin og lofthelgin þar uppi af haldi hvað þetta ákvæði varðar, en það er skoðun margra, sem ræðumaður hefur rætt við um þetta efni, að lagasetningin af Íslands hálfu sé grundvölluð á þeirri skilgreiningu okkar að við teljum ekkert friðsamlega umferð farartækja sem bera kjarnorkuvopn eða eru kjarnorkuknúin sem kemur nær landinu en upp að 12 sjómílna mörkum. Hér er frv. talsvert frábrugðið hinu nýsjálenska sem í raun dregur þessi mörk við 3 sjómílna landhelgi og lofthelgi.

Í 13. gr. er fjallað um heimsóknir herskipa eða herloftfara og kafbáta inn fyrir 12 sjómílna land- eða lofthelgi og þar er einfaldlega tekið fram að engar slíkar heimsóknir skuli leyfðar nema óyggjandi teljist að í því felist ekki brot á friðlýsingu Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum skv. lögum þessum. Íslensk yfirvöld skulu í vafatilfellum ætíð leita bestu fáanlegra upplýsinga óháðra aðila sem völ er á til að byggja á ákvörðun sína og ríkisstjórn og Alþingi skulu hafa náið samráð sín í milli þegar taka þarf slíkar ákvarðanir.

Hér er e.t.v. komið að þeirri grein frv. sem einna vandmeðförnust gæti orðið í framkvæmd vegna þess að á þetta ákvæði er líklegt að mundi reyna oft og iðulega eða í tengslum við velflestar heimsóknir herskipa og herloftfara til landsins. Ég vísa aftur í skilgreiningar afvopnunarsamninga stórveldanna þegar ákveða skal hvaða farartæki eða stöðvar eru skilgreind sem kjarnorkuvopnuð.

14. gr. lýtur að því hvernig skal leitast við að afla hinu friðlýsta svæði alþjóðlegrar viðurkenningar með bindandi samningum grundvölluðum á alþjóðarétti við einstök ríki, samtök ríkja og alþjóðastofnanir. Þetta er í samræmi við það sem gert hefur verið í Suður-Ameríku með kjarnorkufriðlýsingu Antarktíku, með kjarnorkufriðlýsingu Suður-Kyrrahafs, með kjarnorkufriðlýsingu Nýja-Sjálands og í fleiri hliðstæðum tilfellum, enda gerir lokaályktun aukaþings Sameinuðu þjóðanna, sem fjallar sérstaklega um kjarnorkufriðlýst svæði, ráð fyrir að þannig sé staðið að málum. Einnig er í 14. gr. fylgjandi ákvæði um að íslensk yfirvöld skuli leita viðurkenningar á rétti Íslands til að fylgjast með eða láta fylgjast með hinu friðlýsta svæði og til að refsa fyrir eða mótmæla eftir atvikum brotum á friðlýsingu þessari. Þetta er sömuleiðis í samræmi við önnur hliðstæð tilfelli.

15. gr. er refsiákvæðagrein og er hliðstæð þeirri sem er í nýsjálensku lögunum.

16. gr. felur forsrh. framkvæmd þessara laga, en hafa skal hann samráð við Alþingi og utanrmn. Alþingis um allar meiri háttar ákvarðanir er tengjast framkvæmdinni, sbr. 15. gr. laganna nr. 52/1985, sem eru lög um þingsköp Alþingis og skilgreina hlutverk utanrmn. Síðan segir að forsrh. sé heimilt að fela utanrrh. eða samgrh. eða öðrum ráðherrum, sem aðstæður kunna að mæla með, að fara með einstaka hluta framkvæmdarinnar í samráði við sig.

Það má ugglaust ræða hvort það sé einboðið að fela þessa framkvæmd forsrn. eða forsrh., en flm. telja það eðlilegt og það er í samræmi við nýsjálensku lögin og það er að mörgu leyti í samræmi við aðra málsmeðferð sem eðlileg má teljast í þessu tilfelli. Síðan er gert ráð fyrir að allnokkur tími líði þar til lögin taki gildi sem er í raun og veru nauðsynlegt til þess að nægur tími vinnist til að undirbúa gildistöku þeirra og framkvæmd með eðlilegum hætti.

Herra forseti. Ég hef lítillega, og í eins stuttu máli og mér er í raun unnt, farið yfir meginefni frv., enda er það í sjálfu sér ekki mjög langur lestur og hv. þm. verða ekki lengi að kynna sér það með því einfaldlega að lesa það yfir. Ég teldi einnig gagnlegt fyrir marga hv. þm., sem eru þá ekki þegar vel að sér um alþjóðlega stöðu þessara mála og þá hreyfingu sem hefur verið á þessu sviði, að kynna sér mörg fylgiskjalanna. Ég nefni sem dæmi samninginn um kjarnorkuvopnalaust svæði í Suður-Ameríku sem er einn fyrsti samningur þar sem mörg ríki tóku sig saman og lýstu yfir kjarnorkuvopnaleysi og hófu að afla slíkri yfirlýsingu alþjóðlegrar viðurkenningar. Þróun þess samnings er að mörgu leyti einnig lýsandi fyrir það hvernig slík kjarnorkuyfirlýsing ríkis eða ríkja getur í framhaldinu greitt fyrir víðtækari alþjóðlegri viðurkenningu og hvernig hægt er að afla slíku svæði smátt og smátt traustari stöðu, samanber þá viðaukasamninga sem gerðir hafa verið við Suður-Ameríku-samninginn, Tlatelolco-samninginn, en þeir eru nú orðnir tveir eða þrír og tryggja betur stöðu svæðisins og afla því víðtækari viðurkenningar m.a. með því að önnur ríki undirrita slíka viðaukasamninga og skuldbinda sig til að virða yfirlýsinguna. Það er einmitt gert ráð fyrir að slík yrði tilhögun mála hér og lögin fela beinlínis framkvæmdaaðilum málsins að afla slíkra viðurkenninga.

Herra forseti, ég ætla svo í lokin að víkja lítillega aftur að rökunum fyrir því að flytja slíkt frv. og rökstyðja einnig þar með þá ósk mína og okkar flm.utanrmn. Alþingis og gjarnan hæstv. utanrrh. í samvinnu við hana taki frv. til ítarlegrar og vandaðrar skoðunar, enda er það, eins og segir í grg., ekki síst lagt fram til kynningar, til að hefja umræðuna um þetta efni, þó að frv. sé út af fyrir sig það vel á veg komið og hafi verið það mikið unnið að það ætti að geta myndað nokkuð brúklega beinagrind að slíkri friðlýsingarlöggjöf þegar hún verður sett.

Rökin eru að mínu mati þau í fyrsta lagi að hér er í raun og veru eingöngu lagt til að lögfest verði yfirlýst stefna þjóðarinnar í þessum efnum. Í jafnviðamiklu og örlagaríku máli og sambúð manna við kjarnorkuvopn og kjarnorkuvá er tel ég varla verjandi að ganga ekki tryggilegar frá hnútum en svo að brúkast þar eingöngu við yfirlýsingar og viljayfirlýsingar og stefnuyfirlýsingar einstakra hæstv. ráðherra, með fullri virðingu fyrir þeim að sjálfsögðu, herra forseti. Það er væntanlega öllum ljóst að sjálfstæð lagasetning um málið er miklum mun traustari umgjörð um slíka stefnu en við höfum í dag.

Ég vil einnig ítreka, herra forseti, að ég tel að þetta frv. sé í raun og veru eingöngu beint framhald af yfirlýstum vilja þjóðarinnar sem hvað eftir annað hefur komið fram í skoðanakönnunum og í umræðum þar sem yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar lýsir sig fylgjandi hugmyndum um kjarnorkufriðlýsingu, um kjarnorkuvopnalaus svæði, og get ég vitnað þar til endurtekinna kannana félagsvísindadeildar Háskóla Íslands á þessu efni. Ég vil einnig sérstaklega leggja áherslu á umhverfisþátt þessa máls. Frv. er ekki síst ætlað að vera liður í því, sem er sömuleiðis yfirlýst stefna okkar, að reyna með öllum tiltækum ráðum að draga úr hættunni á því að hér verði óhöpp eða slys í tengslum við kjarnorku eða kjarnorkuvopn.

Margir fyrrv. hæstv. utanrrh. hafa ítrekað þetta bæði heima fyrir og erlendis. Hæstv. fyrrv. utanrrh., Geir Hallgrímsson, hefur varið löngum hluta af ræðum sínum, bæði á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðstefnu um umhverfismál og víðar, til þess að ítreka þessa stefnu okkar Íslendinga. Því er frv. sérstaklega ætlað að taka á þessum þáttum. Það gerir frv. með ákvæðum um takmörkun á umferðarrétti kjarnorkuknúinna farartækja, með banni við losun geislavirks úrgangs og með því að banna til að mynda flutninga með kjarnakleyft eldsneyti í gegnum íslenska lögsögu nema að uppfylltum mjög ströngum skilyrðum.

Sá möguleiki er fyllilega fyrir hendi að flutningar með kjarnakleyf efni gætu innan tíðar átt sér stað um íslenska lögsögu ef ekki verður að gert, hvort heldur er kjarnorkuúrgang eða hráefni til vinnslu í kjarnorkuverum. Ég held að það sé beinlínis skylda okkar og það hljóti að leiða af sjálfu sér að við reynum að búa sem allra tryggilegast um hnútana hvað þetta efni varðar. Og það held ég að verði best gert með slíkri kjarnorkufriðlýsingu og með mjög ströngum ákvæðum um sambúð okkar við kjarnorku yfirleitt.

Herra forseti. Ég kýs að hafa ekki fleiri orð um þetta í ljósi þess að frv. er tiltölulega ljóst og öll þau gögn sem ég tel að menn þurfi til að kynna sér efni þess og taka afstöðu til þess er að finna í fylgiskjölum eða eru handhæg og aðgengileg annars staðar. Ég nefni til að mynda rit Öryggismálanefndar sem hefur sent frá sér ýmislegt efni sem þessu tengist þó að sérútgáfa þeirrar nefndar um kjarnorkuvopnalaus svæði sé reyndar þegar orðin að nokkru úrelt vegna þess að hlutirnir gerast nú mjög hratt á þessu sviði. Þriggja, fjögurra ára gömul skýrsla er í raun og veru þegar orðin verulega úrelt hvað þetta varðar.

Ég ítreka óskir mínar, herra forseti, um að þetta frv. fái vandaða meðferð í utanrmn. og ég ítreka óskir mínar um að hæstv. utanrrh. tjái sig einnig um efni þess og fylgist með framgangi þess þar. Hér er að vísu á ferðinni frv. flutt einungis af tveimur hv. þm., en það breytir ekki því að efni þessa frv. er viðamikið og að það snertir lífshagsmuni íslensku þjóðarinnar sem hér er verið að fjalla um í bráð og lengd. Við höfum nýleg dæmi um þá gífurlegu ógn sem manninum og auðlindum jarðarinnar getur stafað af kjarnorkuvánni, hvort heldur er á ferðinni vopn eða friðsamleg nýting. Sá tími er löngu liðinn að menn geti leyft sér að halda að Ísland sé eyja langt úti í hafi sem þurfi ekki að hafa áhyggjur af beislun eða notkun kjarnorkunnar. Nýleg dæmi hafa sýnt að öll jörðin er þar undirlögð. Og við eigum kannski þjóða mest í húfi að það takist að setja tryggilegar reglur um þessi efni og stuðla að kjarnorkuafvopnun sem er auðvitað mesta málið.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til hv. utanrmn. (Gripið fram í.) Virðulegur forseti. Ég viðurkenni fúslega að hér hefur ræðumanni orðið á. Það er þá væntanlega einhvers konar allsherjarnefnd eða „apparat“ af því tagi sem við notumst við hér í virðulegri neðri deild til þess að fjalla um svona mál sem ekki verða vistuð með góðu móti annars staðar. En það er vissulega lakara að utanrmn. sameinaðs þings, sem auðvitað fjallar um allra veigamestu þætti utanríkismálanna, skuli ekki geta, skipulagsins vegna, sinnt þessu efni. Taki menn þó ekki orð mín svo að ég vantreysti þeim ágætu hv. nefndarmönnum sem hljóta þá að fá þetta frv. til meðhöndlunar.