30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7105 í B-deild Alþingistíðinda. (5110)

394. mál, lækkun raforkukostnaðar í gróðurhúsum

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að lýsa fylgi mínu við þáltill. sem hv. 4. þm. Suðurl. flytur hér og raunar taka undir flest það sem fram hefur komið í máli ræðumanna um þetta mál. Hér er hreyft hinu þarfasta máli. Það er enginn vafi á því. Það var mjög vel rökstutt í ræðu flm., koma vel fram í grg. aðalatriðin í þessu efni, að t.d. lýsing við plöntuuppeldi skilar sér á marga lund í markaðnum. Það lengir markaðstíma íslenska grænmetisins, það eykur nýtingu gróðurhúsanna, betri nýtingu á þeirri fjárfestingu sem þar er og seinast en ekki síst skilar íslenskum neytendum betri vöru, ómengaðri vöru en ella væri.

En mig langar aðeins til að víkja að öðrum þætti þessu máli skyldum. Það er hin mismunandi aðstaða hinna ýmsu rafveitna til að ganga til móts við óskir garðyrkjumanna í þessu efni og í rauninni kannski annarra aðila líka, ekki síður á sviði fiskvinnslunnar. Í því efni langar mig til að minna á að það er einmitt þessi mismunandi aðstaða rafveitnanna við innkaupsverð á raforkunni sem veldur aðalmismuninum. Á sama tíma og Rafmagnsveita Reykjavíkur kaupir á 1,74 kr. kwst. kaupir Rafveita Hveragerðis á 2,46 kr. Mismunurinn er 41,4% í innkaupsverði raforkunnar. Ástæðan er fyrst og fremst sú að Rafveita Hveragerðis þarf að kaupa raforkuna með þeim millilið sem Rafmagnsveitur ríkisins eru, enda þótt Rafveita Hveragerðis sé mjög nærri uppsprettum raforkunnar, ef svo má segja, þar sem virkjunin fer fram.

Þessi er aðstaða sveitarfélagarafveitnanna fyrir austan fjall, allra. Þó eru þær stofnaðar um svipað leyti og raunar Rafmagnsveitur ríkisins, voru undanfari þess samstarfs sem þar var til efnt. Ég held að það sé meira en tímabært og væri vissulega til góðs ef þessi þáltill. hv. 4. þm. Suðurl. yrði til þess að þessu stórmáli yrði hreyft á jafnvel víðari grundvelli en hér er lagt til.

Ég lýsi einlægu fylgi mínu við tillöguna.