30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7108 í B-deild Alþingistíðinda. (5115)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Hæstv. forseti. Af því að hæstv. samgrh. er genginn í salinn leyfi ég mér að rifja upp fyrir honum að hér er til umræðu till. til þál. um samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar, 133. mál á þskj. 138, og fyrir liggur nál. um að vísa till. til ríkisstjórnarinnar. — Ef hv. þm. gæfi ráðherranum frið augnablik má hann kannski heyra það sem við hann er sagt. — 1. flm., sem hér talar, hefur reyndar lýst þeirri skoðun sinni að það hefði verið æskilegra og myndarlegra af hv. Alþingi að samþykkja tillöguna og fela ríkisstjórninni síðan verkið og gefa hæstv. ríkisstjórn þannig beinni leiðsögn um það hvernig í þessi mál skyldi farið. Ég ætla engu að síður ekkert að lasta þá afgreiðslu að vísa þessu verkefni sem slíku með tillögunni til ríkisstjórnarinnar, en vil þá gjarnan spyrja hæstv. samgrh. um hans hug til þessa máls og hvort þess megi vænta að hæstv. ríkisstjórn taki þá á málinu. Ég er þeirrar skoðunar og hef verið um nokkra hríð að það skorti sárlega á um heildarsamræmingu á þessum sviðum.

Ég bendi hæstv. samgrh. á, vona að það sé leyfilegt þar sem hann er ekki minna en samstarfsráðherra Norðurlanda eða hvað það nú heitir, að kynna sér ofurlítið hvernig unnið er að þessum málum í nálægum löndum. Ég hygg að hann komist fljótt á snoðir um að ýmiss konar samræmingarstarf af þessu tagi og áætlanagerð fram í tímann þar sem reynt er að skoða öll samgöngumálin í heild sinni eru miklu, miklu lengra á veg komin — ja, mér liggur við að segja alls staðar í nágrannalöndunum en hér.

Ég vil fyrst og fremst spyrja hæstv. ráðherra hvaða hug hann beri til verkefnisins og hvort þess megi vænta að ríkisstjórnin taki þá myndarlega á málunum í ljósi þessarar afgreiðslu á tillögunni.