30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7115 í B-deild Alþingistíðinda. (5122)

Vinnubrögð og fundahald

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það hefur lengi verið venja að þegar deilt er á ráðherra eru þeir boðaðir í salinn. Nú vill svo til að það hefur verið deilt mjög harkalega á forseta Sþ. af tveimur þm. Sjálfstfl. og hlýtur að vera eðlilegt að hann verði kallaður í salinn. Þeir hafa tveir ráðist hér hart gegn því hvert tillögum hefur verið vísað til nefndar og talið að þar hafi menn farið villir síns vegar.

Ég verð að segja eins og er að með þeirri umræðu hér og nú, þegar málin koma úr nefndum, eru þeir fyrst og fremst að tilkynna þinginu að þeir hafi ekki gegnt sinni þingskyldu að vera hér í salnum þegar málum var vísað til nefndar. Þá hefðu þeir átt að láta ljós sitt skína og gera grein fyrir því og leiðbeina forseta í störfum, sýna honum fram á hvert væri eðlilegt að vísa málum. Þeir hefðu sjálfir átt að bera fram tillögu um það hvert málum væri vísað ef þeir telja að forseta hafi orðið á slíkar reginskyssur að ekki sé hægt að ræða málin í þinginu vegna þess að hann hafi tekið undir tillöguflutning um að vísa málinu til rangrar nefndar.

Ég tel að svona vopnaburður dugi ekki. Menn verða að hafa þrek til þess hér að gera sér grein fyrir því að við erum að taka við málum úr nefndum. Að sjálfsögðu er þá ekki hægt að fara að taka upp umræðu um það hvort þeim hafi einhvern tíma verið vísað í vitlausa nefnd.

Ég minnist þess einu sinni á mínum þingferli að augljóst var að það höfðu átt sér stað mistök og máli hafði verið vísað í ranga nefnd. Ég óskaði eftir því að málið yrði fært úr þeirri nefnd yfir í aðra. Það var af og frá að það fengist samþykkt og þó var það í deild.

Ég tel þess vegna að eðlilegt sé að ekki verði haldið áfram ádeilum á forseta Sþ. af ræðumönnum hér án þess að hann sé viðstaddur og að þeir endurtaki þá sínar athugasemdir í viðveru hans um að þeir telji að hann hafi ekki gert tillögur um að málum væri vísað til þeirra nefnda sem eðlilegt væri.