30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7116 í B-deild Alþingistíðinda. (5126)

Vinnubrögð og fundahald

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Það kemur mér svolítið einkennilega fyrir eyru að menn séu fyrst núna á síðustu dögum þingsins að átta sig á því að tillögum um samgöngumál hefur verið vísað til atvmn. í allan vetur. (SvH: Og allshn.) — Allflestum til atvmn. Mér fannst þetta strax einkennilegt. Ég er formaður atvmn. og þetta kom mér spánskt fyrir sjónir og ég gerði athugasemdir um það við forseta að mér sýndist skv. þingsköpum að til atvmn. ætti einungis að vísa þeim málum sem í deild er vísað til atvinnumálanefnda, þ.e. landbúnaðar, iðnaðar og sjávarútvegs. En þar sem engin samgn. starfar í hv. Sþ. skildist mér að þetta ætti að vera svona.

En ég vona að þetta verði tekið til athugunar fyrir næsta þing þó að ég sjái enga ástæðu til þess að við förum núna að gera eitthvert veður út af þessu heldur verði þetta mál endurskoðað á næsta þingi og á því ráðin bót.