30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7117 í B-deild Alþingistíðinda. (5129)

Vinnubrögð og fundahald

Níels Árni Lund:

Virðulegi forseti. Ég er einn af flm. „rusltillagna“ sem liggja hér fyrir að mati hv. 4. þm. Austurl. Ég er nýr í þingstörfum og hefði þess vegna mjög gjarnan kosið að hann væri hér til þess að leiðbeina mér og öðrum slíkum og að hann hefði getað komið hér í ræðustól og nefnt þó ekki væri nema eina eða tvær tillögur af sínum langa þingferli sem hann mundi flokka undir annað en „rusltillögur“. Það væri líka spurning hvort ætti að koma hér á einhvers konar nefnd með senatorum sem mundu leiðbeina ungum og nýjum þm. um það hvort þeirra tillögur mundu flokkast undir rusl eða annað.

En því miður, hv. 4. þm. Austurl. hefur eins og hér hefur komið fram ekki séð ástæðu til að sitja lengur en svo að hann kæmi þeim skoðunum sínum á framfæri að hér væru einungis fluttar rusltillögur. Því má segja að til lítils sé að tala við hann hér. En ég þykist vita að svo vandaður maður sem hann er til orðs og æðis komi til með að lesa þetta allt og ég kem því þessum skilaboðum til virðulegs þm. gegnum þingtíðindi.