30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7118 í B-deild Alþingistíðinda. (5131)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hefði gjarnan viljað að þeim tíma sem farið hefur hér í að ræða þingsköp hefði verið varið til að ræða efni þessarar tillögu. Ég tel nefnilega að það hafi komið fram, m.a. í orðum hæstv. samgrh., að hann hefur alls ekki skilið hvað málið snýst um. Það hefur hins vegar hv. 2. þm. Vestf., Ólafur Þ. Þórðarson, gert því að hann benti réttilega á að hér væri um samræmingarstarf að ræða. Hér er ekki verið að tala um einstaka liði samgöngumálanna út af fyrir sig.

Vandinn er nefnilega sá, hæstv. samgrh., að við erum allt of föst í þessum hólfum. Einn er í vegamálunum og horfir hingað. Annar er í flugmálunum og horfir hingað og sá þriðji er að hugsa um hafnir og horfir í norður og suður og austur og vestur. Og svo talast menn helst ekkert við. Hver og einn hefur áhuga á sínum málaflokki, gera veg hans sem mestan, fá í hann sem flestar krónur o.s.frv. Innan þessara geira hvers fyrir sig er út af fyrir sig unnið ágætt áætlunarstarf. En hér á Íslandi vantar algerlega þann aðila, þann þátt í starfsemina, sem samræmir þessa hluti, skoðar þá sameiginlega og tryggir að þessar áætlanir gangi ekki á misvíxl. Það er gert í nálægum löndum.

Hægt er að tína til þúsund dæmi hér á Íslandi um það að alger skortur á samræmingu í þessum efnum hefur kostað gífurlega fjármuni. Hvað halda menn að það hefði sparað mikla peninga í hafnargerð á Stokkseyri og Eyrarbakka ef brú yfir Ölfusárósa hefði verið komin 20 árum fyrr? Hefðu menn ekki staðið öðruvísi að uppbyggingu hafnarmannvirkja á þessari strandlengju ef menn hefðu vitað að brú kæmi yfir Ölfusárósa? Ég get nefnt svona dæmi um allt land. Þriggja km vegarspotti og ein lítil brú á strandlengju Eyjafjarðar hefðu sparað tugi ef ekki hundruð milljóna í hafnargerð á ónefndum stöðum o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég skal nú ljúka máli mínu. Þess vegna spurði ég hæstv. samgrh. að mér finnst skipta máli að þegar tillögu er vísað til ríkisstjórnar eigi þm. rétt á því að vita hug viðkomandi ráðherra og ríkisstjórnarinnar til málsins, vita hvort hæstv. ríkisstjórn ætlar að salta það, stinga því ofan í skúffu og gleyma því eða hvort hún hefur áhuga á því og vilja til að sinna því. Það er það sem skiptir máli og ræður því hvort það er jákvæð eða neikvæð aðgerð í sjálfu sér að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar. Það eru viðtökurnar sem þar skipta máli.

Að lokum þetta, hæstv. forseti: Hér er um að ræða samræmingarstarfsemi af því tagi sem er því miður meira og minna í molum hér á Íslandi. Ég nefni skipulagsvinnu. Nú fyrst er að komast skriður á og sæmileg tök á skipulagsvinnu hér á höfuðborgarsvæðinu, við Eyjafjörð og víðar. Menn eiga að skoða þau fordæmi og hugsa um samgöngumálin út frá því hvernig staðið er að skipulagsmálum þar sem margir þættir eru samræmdir undir eina stjórn. Sá tími kemur að menn öðlast skilning á þessu hér á Íslandi en hann er e.t.v. eitthvað undan ef marka má þá umræðu sem hér hefur farið fram. — Svo bið ég hæstv. forseta afsökunar á því að hafa nokkuð reynt á þolinmæði forsetans við fundarstjórnina.