30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7119 í B-deild Alþingistíðinda. (5132)

133. mál, samræming áætlana á sviði samgöngumála og mannvirkjagerðar

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Vesturl. kvartaði undan því, eins og ég hef áður gert í þessum ræðustól og margir aðrir líka, að ráðherrastólarnir væru auðir. Ég hef verið að hugsa um eftir umræður um vantraust hvort það sé ekki ágætt að ráðherrar séu sem allra minnst í vinnunni ef það er þá tryggt að þeir eru ekki að gera eitthvað af sér einhvers staðar annars staðar á kostnað Alþingis.

En ég verð að segja eins og margir aðrir hér að ég harma þá fyrirlitningu sem kemur fram í orðum hv. 4. þm. Austurl. þegar hann talar um rusl. Hann er að tala um vinnu þína og vinnu mína, hv. þm., hann er að tala um þingheim, okkur öll, alla nema hann sjálfan. Hann talar um það rusl sem kemur frá ómerkilegum þingnefndum. Hann hefði betur farið í bankastjórastarfið eftir nokkra daga án þess að hafa sagt slík kveðjuorð til Alþingis og okkar sem starfsfélaga. En ég fagna því að hæstv. forseti gegndi skyldum sínum vel eins og vant er og gerði athugasemd við þetta orðbragð þó að hv. þm. á leiðinni í sæti sitt skildi ekki hvaðan á hann stóð veðrið.

En það sem hefur vakið athygli mína hér í umræðunum er það að enn þá einu sinni verðum við, stjórnarandstöðuþingmenn, að horfa upp á það að stjórnarþingmenn deila hart hver á annan og nú í þetta skipti ekki bara sín á milli um meðferð mála, um málið sjálft, heldur líka á forseta sameinaðs þings sem hefur til margra ára gegnt því embætti með mikilli prýði. Ég hef hvað eftir annað lýst ánægju minni með störf hans en aldrei heyrt deilt á störf hans sem forseta, hvorki í Ed. né í Sþ. Hann hefur verið okkur til sóma í öllum sínum störfum.

Þetta er náttúrlega ekki gott en undirstrikar svo ekki verður um villst að það er af brýnni nauðsyn sem ríkisstjórnin verður að leysa upp Alþingi og losna við þingræðið til þess að geta stjórnað sem algjört framkvæmdarvald án afskipta þjóðkjörinna fulltrúa, bara til þess að ráða við þau verk sem þeir hafa tekið að sér að vinna, fá að vera í friði fyrir sínum eigin stuðningsmönnum.

Það þarf ekki að vera neitt óeðlilegt við það að vegamál eða hvaða mál sem er fari til atvmn. Það getur vel verið að það sé einmitt hlutverk atvmn. að taka ákvörðun um uppbyggingu á viðkomandi stöðum, hvort sem það er í hafnargerð, vegagerð, flugvallargerð eða hvað annað sem er ef það er atvinnuspursmál á viðkomandi stöðum. Það þarf að leysa þann vanda á hinum ýmsu stöðum.

Ég vil segja við hv. flm. þessarar till. á þskj. 138, 133. mál, að ég skil þessa afgreiðslu þingnefndarinnar sem jákvæða, sem samþykkt á till. Það er ekki hægt að samþykkja hana á neinn annan veg. Það skiptir engu máli hvort verið er að rétta upp hönd með því fororði, með þeim texta, að till. sé samþykkt eða felld eða hvort hún er samþykkt á þann hátt sem farið er fram á í till. sjálfri, að verða vísað til ríkisstjórnarinnar. Hið síðarnefnda er eðlilegt vegna þess að það er enginn annar aðili sem ræður yfir þeim stofnunum sem geta framkvæmt það sem till. segir til um nema ríkisstjórnin. (Gripið fram í: Alþingi.) Alþingi hefur engar stofnanir til að framkvæma þetta. Alþingi getur skaffað peninga til að kosta menn til að framkvæma hana en ríkisstjórnin á vegum Alþingis, sem er framkvæmdarvald, hefur allar þessar stofnanir sem geta gert þessar áætlanir. (Gripið fram í.) Auðvitað markar Alþingi stefnuna með því að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar. (Gripið fram í.) Það er nákvæmlega það sama því að í till. segir hér í upphafi: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni“ o.s.frv. Alþingi sjálft, æðsta stofnun þjóðarinnar, er ekkert að vísa málum til ríkisstjórnarinnar til annars en að framkvæma samkvæmt tillögunni. Það er beðið um að Alþingi vísi þessu máli til afgreiðslu ríkisstjórnarinnar á þann hátt sem þar segir og nefndin gerir tillögu um það, enda eðlilegt.

Alþingi getur markað stefnu og Alþingi er að marka stefnu hér skv. till. með því að vísa málinu til framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldið hefur á öllum þessum sviðum sérstakar stofnanir til að vinna einmitt þessa vinnu. Þessi vinna er unnin árlega á vegum framkvæmdarvaldsins en sér fyrir hverja grein, hún er ekki samræmd. Og það er það sem till. er að fara fram á, þ.e. að samræma þessi vinnubrögð. Nefndin hefur afgreitt till. jákvætt. Þegar ég rétti upp hönd og greiði atkvæði með nál. meiri hl. þá er ég að samþykkja að vísa till. í þann farveg sem till. sjálf og tillögumenn leggja til.

Þetta er afskaplega víðtæk hugmyndatillaga vegna þess að þetta er ekki ein till., þetta eru eiginlega tvö frv. Fyrri hl. till. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta vinna að samræmingu áætlana á sviði samgöngumála og meiri háttar mannvirkjagerðar þannig að slíkar áætlanir fyrir einstaka landshluta og landið allt falli eðlilega saman í eina heild.“ Þetta er ein till. og gæti verið sérstakt frv.

Síðan kemur seinna frv.: „Stuðlað verði að samræmingu flutninga og flutningaleiða á landi, sjó og í lofti með opinberri stefnumörkun sem jafnframt taki mið af áformum um meiri háttar mannvirkjagerð, þróunarforsendum atvinnulífs og byggðasjónarmiðum.“

Þetta eru eiginlega tvö óskyld mál en þó það tengd að hægt er að hafa þetta svona. Þetta er það náskylt að það er hagræði í því að skoða bæði málin í einu því að sömu stofnanir yrðu tvímælalaust notaðar til þess og þarna kemur maður í veg fyrir tvíverknað ef hann er þá í myndinni.

Ég harma ástæðulaus ummæli sem féllu hér í garð okkar forseta Sþ. Ég fagna því að varaforseti sem nú gegnir störfum tók á málum eins og hún gerði og vítti viðkomandi. Ég lýsi stuðningi mínum við meirihlutaálit atvmn. sem ég skoða sem samþykki á till. og fyrirskipun frá Alþingi að framkvæma það sem tillögumenn fara fram á.