30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7127 í B-deild Alþingistíðinda. (5144)

Nefndafundir á þingfundatíma

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég kann satt að segja ekki við þessa niðurstöðu forseta. Hv. þm. gerir það upp sig hvar hann sinnir sínum þingskyldum best. Skv. lögum — en þingsköp eru lög — er það þannig að okkur er skylt að sækja þingfundi nema lögleg forföll hamli. Sömuleiðis er okkur skylt að sækja nefndarfundi nema lögleg forföll hamli. Hvort er gildara í þessu efni, að sækja þingfund eða nefndarfund? Hvor skyldan er ríkari á herðum þm.? Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að stjórn þingsins geri það upp við sig hvorum megin menn eiga að vinna í dag þegar það stendur fyrir dyrum að halda hér fundi í fjölda nefnda á eftir. Ég kann ekki við það að menn séu hér slugsandi á milli herbergja til þess að reyna að mismuna í gegn málum ríkisstjórnarinnar sem eru auk þess misjafnlega vinsæl, a.m.k. frá okkar bæjardyrum séð. Ég vil að það sé alveg skýrt formlega hver sé skylda þm. í þessu efni. Á hann að sækja nefndarfund? Á hann að sækja þingfund? Það er óhjákvæmilegt að fá um það nokkra niðurstöðu því að það gengur ekki að segja að menn geri það bara upp við sig hvorum megin hryggjar þeir liggja.