30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7127 í B-deild Alþingistíðinda. (5145)

398. mál, akstur utan vega

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég kem hér aðeins til að lýsa stuðningi okkar kvennalistakvenna við þá till. sem hér var flutt áðan að frumkvæði hv. 2. þm. Austurl. Ég vil aðeins minna á örfá atriði varðandi þá till. sem hér er flutt, um akstur utan vega. Það er nauðsynlegt að komið verði á reglum um það hvað er leyfilegt í þeim efnum. Þó vildi ég fyrst af öllu telja til að ég tel að bætt vitund fólks og vitneskja um umhverfið og umgengni við náttúruna sé ein meginforsenda þess að auka skilning fólks á því hvaða skaða það er að valda með akstri utan vega. Í því sambandi vil ég minna á till. sem flutt var hér í haust af þingflokki Kvennalistans, um umhverfisfræðslu fyrir bæði almenning og innan skólakerfisins.

Það kom ýmislegt athyglisvert fram í máli hv. flm., t.d. varðandi þá miklu slysahættu sem slíkum akstri fylgir. Ég held að það sé kominn tími til, eins og dæmin sanna, að reynt verði að breyta því hugarfari hjá fólki í landinu að það líti á ökutæki sem leikföng. En það virðist því miður vera útbreitt viðhorf og slysin hljótast af því eitt af öðru vegna þess að litið er á ökutækin sem einhvers konar leikföng.

Ég ætlaði sem sé aðeins að lýsa yfir stuðningi okkar við þessa till. og ég vona svo sannarlega að þingið beri gæfu til að samþykkja till. okkar um umhverfisfræðslu núna áður en þingi lýkur. Miðað við þann hraða sem virðist eiga að vera á afgreiðslu stórra stjórnarfrv. sýnist mér leikur einn að ganga frá því að afgreiða þá till. sem hér var mælt fyrir áðan.