30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7129 í B-deild Alþingistíðinda. (5147)

398. mál, akstur utan vega

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir, um akstur utan vega, er mjög tímabær og á rétt á sér. Ég vil þakka flm. hennar fyrir að leggja hana hér fram. Þessi mál hafa orðið æ meira vandamál með árunum og kemur þar til aukinn fjöldi vélknúinna tækja sem notuð eru utan vega.

Ég hef orðið mjög var við þetta þar sem ég hef stundað svokallaða útiveru í fjölmörg ár. Þetta hefur verið mjög til baga og ama að sjá þessi tæki víða um hálendið og jafnframt hér í skíðalöndum í góðu veðri. Það fer ekki á milli mála að akstur utan vega á fjórhjólum hefur skaðað mjög náttúruna og eyðilagt. Maður sér merki þess víða þar sem maður fer um. Þegar maður er búinn að ganga hér um fjöll og firnindi rekst maður á þessi tæki þar sem þau hafa verið að spóla upp fjöll og börð. Það er því mjög mikilvægt að tekið verði á þessum málum þannig að akstur þeirra sé settur í einhvern ákveðinn farveg.

Þá er það atriði sem hv. 2. þm. Austurl. kom réttilega inn á, þ.e. slys á þessum tækjum. Þau hafa orðið mjög alvarleg og eiga vafalaust eftir að verða enn þá alvarlegri með tímanum. Það er áhyggjuefni þegar maður sér smábörn vera að aka bæði á fjórhjólum og á snjósleðum, geysast á miklum hraða þannig að ekki er útséð um hvernig sú ferð getur endað.

Það er mjög mikilvægt að það séu líka reglur um það hverjir megi stjórna slíkum tækjum og þeim sé fylgt. Það hlýtur að þurfa að tryggja það ekki síður en akstur á bifreiðum að þeir sem stjórna þeim séu komnir á þann aldur að ætla megi að þeir valdi því og hafi til þess þekkingu.

Ég hef margoft í gegnum árin, eins og ég sagði áðan, orðið vitni að því að akstur tækja utan vega hafa raskað náttúrunni að ástæðulausu. Fyrr á árum var e.t.v. ekki eins mikið um þetta og núna því þá voru það fyrst og fremst bifreiðar með fjórhjóladrif sem hægt var að aka utan vega. Þær fóru ákveðnar vegarslóðir og ekki mikið út fyrir það. En á síðari árum hefur bæði vegagerð og orðið betri og því auðveldara að komast til þeirra staða sem áður var útilokað að keyra til og hitt að fjórhjóladrifsbílum, fjórhjólum og snjósleðum hefur fjölgað allverulega. Mikill fjöldi fólks á slík ökutæki og hefur að sjálfsögðu áhuga á að nota þau. En það þarf greinilega að fylgjast betur með þessu og framfylgja því að þessi akstur verði ekki til þess tjóns á landinu sem hann hefur oft orsakað.

Ég held einnig að það megi hafa miklu strangara eftirlit með þessum akstri en verið hefur. Ég tek undir bæði það sem stendur hér í grg. og sumt af því sem stendur í tillögu Náttúruverndarráðs um akstur og umgengni í óbyggðum. Það er ljóst að náttúra landsins er viðkvæm og það þarf að passa mjög vel upp á að á henni verði ekki gerð þau spjöll sem erfitt er að lagfæra. En mörg af umhverfisspjöllum sem hafa verið gerð með þessum hætti í óbyggðum er erfitt að lagfæra eða bæta nokkru sinni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að þetta hefur komið upp á náttúruverndarráðsþingum og ég tel að við eigum að taka mark á því og reyna að beita kröftum okkar í að búa út reglur og framfylgja þeim þannig að þetta verði ekki það vandamál sem það er að verða.

Það er því ósk mín að þetta mál fái framgang á þessu þingi og það verði svo að hæstv. dómsmrh. beiti sér um það að gerðar verði reglur um akstur þessara tækja og þá þannig að það verði miklu harðari og betri reglur og lög um þetta en hefur verið.

Ég vil svo að lokum vona að þetta þing muni afgreiða þetta mál þannig að það verði hægt að taka á þessu máli sem allra fyrst.