10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 850 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég efast ekki um góða meiningu flm. þessa frv., en hér er í rauninni um mál að ræða sem hefur verið til umfjöllunar undir öðru nafni áður hér á þingi. Það hefur verið talað um að koma upp kjarnorkuvopnalausum svæðum og þá sérstaklega á norðurhveli jarðar. Alþingi hefur í rauninni mótað afstöðu sína til þeirrar hugmyndar og sú afstaða er sú að til álita komi að vera þátttakandi í kjarnorkuvopnalausu svæði í samhengi við slökun í Evrópu og alþjóðasamninga af víðtækara tagi. Ég held að sú grundvallarafstaða Alþingis sé óbreytt. Í þeirri afstöðu felst jafnframt að menn telji ekki skynsamlegt að gefa út einhliða yfirlýsingar. Það muni ekki skila þeim árangri sem vakir væntanlega fyrir þeim sem eru flm. þessa frv. Þetta vildi ég árétta á þessari stundu vegna þess að efnislega er þetta frv. um að lýsa tiltekið svæði, Ísland, eitt sér kjarnorkuvopnalaust.

Um efnisatriði frv. tel ég þess vegna ekki ástæðu til að fjalla, en ég efast um að framsetning af því tagi sem hér er sé að því gagni sem menn ætla og sé ekki t.d. að viðurlög eins og hér er gert ráð fyrir séu mjög sannfærandi. Hverjir mundu hugsanlega koma „færandi hendi“ með kjarnorkuvopn eða kjarnorkuknúin farartæki eða á hverra vegum væri það? (SJS: Þú ættir að lesa athugasemdir við 5., 6. og 7. gr.) Það væri væntanlega á vegum þeirra sem stýra stórveldunum. Og ákvæði um tíu ára fangelsisvist á Gorbatsjoff eða Reagan held ég að sé ekki sérlega raunhæf aðgerð.