30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7147 í B-deild Alþingistíðinda. (5162)

429. mál, vinnuvernd í verslunum

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd okkar kvennalistakvenna lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu og þakka ég hv. flm. hennar forgöngu í málinu. Eins og fram kemur í grg. hefur vinnuálag á verslunarfólk aukist til muna á síðustu árum, enda sýnir það sig að sú kjaradeila sem nú er uppi hefur að miklu leyti snúist um vinnutímann sem er í flestum tilfellum orðinn óhóflega langur og reyndar kominn út fyrir öll skynsemismörk í sumum tilvikum.

Ég vil aðeins minna á nokkrar tillögur sem við þingkonur Kvennalistans höfum flutt og tengjast þessu máli að hluta til.

Í fyrsta lagi er till. á þskj. 718 um réttindi og skyldur fólks á vinnumarkaði. Sú tillaga felst í því að lögð verði meiri áhersla en nú er á að fólk sé frætt um réttindi sín og skyldur.

Þá höfum við einnig á þskj. 807 lagt fram tillögu um eflingu kjararannsókna og verður væntanlega mælt fyrir henni í næstu viku. Tillaga sú felur í sér að gera kjararannsóknir áreiðanlegri en nú er með því m.a. að á skattagögnum megi fá upplýsingar um vinnustundafjölda og starfsheiti starfsfólks. Það er reyndar mikið umhugsunar- og áhyggjuefni hversu stór hluti þjóðfélags okkar svo að segja gengur á yfirvinnunni.

Ég minnist á þessar tillögur hér því mér finnst þær að vissu leyti tengjast efni þeirrar þáltill. sem hér er til umræðu. Ég þykist nærri viss um að sá fjöldi unglinga og barna sem við sjáum í stórmörkuðunum veit allt of lítið um réttindi sín og skyldur. En ég lít reyndar einnig á það sem alvarlegan hlut hve mikið unglingar og börn allt niður í 10–11 ára virðast þurfa að taka þátt í brauðstriti foreldranna. Á þskj. 150 hafa þingmenn allra flokka undir forustu hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur flutt till. til þál. um að gerð verði könnun á launavinnu framhaldsskólanemenda. Í grg. með þeirri till. kemur fram að skyndikannanir í einstökum framhaldsskólum benda til þess að í efstu bekkjum skólanna vinni allt að 70% nemenda samhliða námi. Vegna þeirrar þenslu sem verið hefur í verslun undanfarið, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hafa þessir nemendur einmitt ráðist til starfa í verslunum. Vonandi verður þetta þó ekki viðvarandi ástand að nemendur og svo ung börn þurfi að leggja á sig svo mikla vinnu samhliða námi.

En þá vil ég víkja að þeim hópi fólks sem er stærstur fastráðinna starfsmanna í verslunum. Það eru konur eins og fram kom hér og var gerð ágætlega grein fyrir í máli hv. 1. flm., Guðmundar H. Garðarssonar. Konur hafa farið út á vinnumarkaðinn í æ ríkari mæli á undanförnum árum hvort sem þær óskuðu eður ei og það segir sig sjálft að þessi langi vinnutími kemur í öllum tilfellum niður á heimilis- og fjölskyldulífi fólks.

Íslensk vinnulöggjöf er að stofni til frá 4. tug aldarinnar og miðast því við aðstæður þess tíma, en vegna örra breytinga hafa aðstæður gerbreyst og því hlýtur að teljast eðlilegt að endurskoða þurfi þá löggjöf að hluta til eða í heild sinni. Ég tel að till. sem hér er fram borin sé nauðsynleg leið til að koma á einhverjum reglum um þessi mái. Vinnuálag fólks í verslunum er óhóflegt eins og ég gat um áðan og tek ég því fyllilega undir þann ásetning sem birtist í tillögu þessari.