30.04.1988
Sameinað þing: 74. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7161 í B-deild Alþingistíðinda. (5178)

421. mál, íslenskunámskeið fyrir almenning

Flm. (Júlíus Sólnes):

Virðulegi forseti. Ég flyt till. til þál. um íslenskunámskeið fyrir almenning á þskj. 771, en flm. ásamt mér eru þeir Óli Þ. Guðbjartsson, hv. 6. þm. Suðurl., og Guðmundur H. Garðarsson, hv. 14. þm. Reykv. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntmrh. að láta undirbúa og halda íslenskunámskeið fyrir almenning í sjónvarpi og á vinnustöðum. Gera skal ráð fyrir því að fólki gefist kostur á að rifja upp beygingarfræði íslenskrar tungu, fá æfingu í réttritun og ritmáli, þjálfun í framsögn og kennslu í talmáli. Slík námskeið skulu haldin reglulega í sjónvarpi og útvarpi. Kostnaður vegna þeirra skal greiddur úr ríkissjóði.“

Öllum má vera ljóst að móðurmálið á nú í vök að verjast. Áhrif erlendra tungumála á málfar manna á Íslandi, einkum þó enskrar tungu, eru uggvænleg. Enskuslettur verða sífellt meira áberandi í málfari manna. Fólki verður æ tamara að grípa til enskra orða og hugtaka í máli sínu og virðist það vera farið að gleyma góðum og gildum íslenskum orðum. Þá er sú þróun mjög alvarleg að svo virðist sem það þyki ekki lengur fínt að nota íslensk orð í verslun og viðskiptum manna á meðal. Ég leyfi mér að minna á umræðu einmitt um þetta efni sem fór fram í Sþ. í haust sem leið, en þá lá fyrir þinginu till. sem laut að þeirri þróun að nefna verslanir enskum nöfnum eða erlendum heitum, og mig minnir að 1. flm. þeirrar till. væri hv. 13. þm. Reykv. Guðrún Helgadóttir.

Það er mikil hætta á því að ef ekki verður gripið í taumana geti farið svo að íslenskunnar bíði sömu örlög og gelískunnar á Írlandi, en móðurmál Íra, gelískan, er nánast horfið. Það finnst enn þá í afdölum uppi í sveit á Írlandi fólk sem talar gelísku, en að öðru leyti hefur enskan alveg yfirtekið hlutverk gelískunnar á Írlandi sem það mál sem almenningur talar og notar daglega.

Hér fyrir kannski rúmlega öld var mikil hætta á því að danskan ryddi íslenskunni alveg á braut. Við eigum það okkar ágætu mönnum sem gripu í taumana um miðja síðustu öld að þakka að við tölum þó íslensku enn þann dag í dag. En ef fer fram sem horfir er mikil hætta á því að svo sem að einni öld liðinni verði íslenska aðeins töluð uppi í afdalasveit og enska verði orðið það mál sem almenningur notar daglega á Íslandi. Þess vegna er ráð að grípa í taumana áður en um seinan er.

Setningaskipan, bæði í talmáli og ritmáli, er byrjuð að brenglast verulega og tekur meir og meir mið af enskri tungu. Allir þekkja þunglamalegt stofnanamálið og ofnotkun nafnorða. Málkennd manna virðist fara hrakandi. Beygingarvillur og ritvillur eru mjög áberandi bæði í talmáli og ritmáli og algengt er að heyra að fólk misskilur gömul hugtök og orðskviði og ruglar þeim saman. Þetta er mjög áberandi, því miður, sérstaklega meðal hámenntaðra manna, þeirra sem hafa farið í gegnum langskólanám.

Ef ég mæli hér af eigin reynslu átti ég heima í Danmörku í samtals 13 ár. Þegar ég kom heim aftur til Íslands varð ég fljótt var við að ég hafði gleymt að verulegu leyti undirstöðunni og var orðinn mjög ryðgaður í meðferð móðurmálsins þannig að ég varð að taka mér tak fyrstu árin sem ég var búsettur á Íslandi eftir þessa löngu dvöl í Danmörku og nánast læra íslensku upp á nýtt. Ég held að þetta sé mjög algengt hjá mörgum, að þrátt fyrir nokkuð góða og almennt góða íslenskukennslu í skólum landsins hættir mörgum til að ryðga í móðurmálinu, gleyma þessum gömlu og góðu reglum sem þeir þar lærðu og það á sinn þátt í því að málfar almennt er miklu lakara en það þyrfti að vera.

Íslenskan er erfitt tungumál, enda er beygingarkerfi hennar talsvert flóknara en í flestum þjóðtungum Evrópulandanna. Það er því ekki nema von að fólk eigi erfitt með að tala íslensku og sérstaklega skrifa hana þannig að vel fari.

Þess vegna þykir okkur flm. að það sé full þörf á því að bjóða almenningi upp á sérstök upprifjunarnámskeið í íslensku og reyna þannig að stuðla að betra málfari. Það má hugsa sér að það verði riðið á vaðið með þáttaröð í sjónvarpi og útvarpi þar sem helstu atriði beygingar- og setningarkerfis íslensku yrðu skýrð. Enn fremur yrði farið yfir helstu réttritunarreglur og notkun orðskviða. Þá er nauðsynlegt að fara yfir mismun á talmáli og ritmáli og kenna fólki að tileinka sér vandað málfar í ræðu og riti og veita því þjálfun í framsögn. Einmitt að veita þjálfun í framsögn er einkar mikilvægt því að það er mjög áberandi að talmáli fer sérstaklega hrakandi, e.t.v. mun meira en ritmálinu hrakar.

Það hafa margir á undan mér og héðan úr þessum virta ræðustól á hinu háa Alþingi lýst áhyggjum sínum yfir hrörnun íslenskunnar, móðurmálsins, og mér er kunnugt um að áþekkar tillögur hafa áður verið fluttar á hinu háa Alþingi. Ég er sannfærður um að ef alþm. beita sér ekki fyrir því að standa vörð um móðurmálið gerir það enginn.

Það má líka bæta við að það væri afar æskilegt að hnykkja á um útgáfu kennslubóka og hentugra uppsláttarbóka fyrir almenning. T.d. sárvantar málnotkunarbækur, uppsláttarbækur með dæmum og eins er orðið tímabært að gefa út nýja stafsetningarorðabók með beygingardæmum. Ég held að það væri líka tilvalið, sérstaklega ef það er hægt að koma á þessum námskeiðum sem till. gerir ráð fyrir, að gefa út hentugar upprifjunarbækur sem væru aðgengilegar öllum almenningi.

Með áróðri fyrir vönduðu íslensku máli, bæði í ræðu og riti, og samstilltu þjóðarátaki til að hefja móðurmálið til vegs og virðingar má koma í veg fyrir að íslenskukunnáttu þjóðarinnar hraki frekar en orðið er og snúa vörn í sókn. Það þarf að koma því á að þeir sem sletta erlendum orðum að óþörfu séu taldir hlægilegir. Enn fremur þarf að skapa almenna virðingu fyrir móðurmálinu svo að menn fyrirverði sig fyrir að tala lélegt mál og séu taldir aumkunarverðir fyrir málglöp að óþörfu.

Þá langar mig að lokum að fjalla um einn þátt málvöndunar sem birtist okkur í því að í útvarpslögum, sem voru samþykkt héðan frá hinu háa Alþingi vorið 1985, var talið að það þyrfti að vernda móðurmálið með því að krefjast þess að erlent sjónvarpsefni yrði ævinlega þýtt, þ.e. að allar slíkar sjónvarpssendingar sem bærust hingað um gervitungl yrðu textaðar eða að þulur þýddi þær jafnharðan. Ég hef barist fyrir því að þessari þýðingarskyldu væri aflétt og rökstyð það með því að ég tel að móðurmálinu sé hætta búin af allt öðrum orsökum en einmitt þeim að fólk horfi á sjónvarpssendingar erlendra sjónvarpsstöðva. Ef eitthvað, þá óttast ég þvert á móti lélegar þýðingar sem koma fram í slæmum textum á afþreyingarmyndum ýmiss konar sem almenningur horfir mjög á. Það er fyrst og fremst um að ræða engilsaxneskar sjónvarpsmyndir sem eru sýndar bæði í Ríkissjónvarpinu og á Stöð 2 með íslenskum textum. Ég hef rætt þetta við mjög marga og mönnum ber saman um að sérstaklega yngri börn, sem hafi ekki náð tökum á því erlenda máli sem talað er í þessum sjónvarpsmyndum, læri að sletta ýmsum orðum með því að þau læra einfaldlega að greina merkingu orðanna með þeim textum sem eru á myndunum. Þannig er raunverulega meiri hætta á því að þessar erlendu sjónvarpsmyndir hafi áhrif á málfar sérstaklega ungra barna, sem ekki hafa lært hið erlenda tungumál, en ef þær væru án texta. Ég tel að miklu nær sé að standa vörð um móðurmálið með þeim hætti sem flm. gera ráð fyrir í tillögunni en meina landsmönnum að horfa á erlent sjónvarpsefni.

Langar mig svo að lokum að vitna til þess að á vegum Evrópuráðsins er verið að vinna að gerð sáttmála milli allra Evrópulandanna um að það megi ekki leggja neinar hömlur í veginn fyrir sjónvarpsefni og dreifingu þess á milli Evrópulandanna. Þýðingarskyldan er einmitt dæmi um slíkar hömlur sem ekki mega vera samkvæmt þessum sáttmála sem er í burðarliðnum. Ég er hér með fréttablað frá Evrópuráðinu þar sem segir frá að nú sé verið að leggja síðustu hönd á gerð þessa sáttmála. En þessi till. er flutt vegna þess að við flm. ásamt vonandi öllum alþm. höfum áhyggjur af þeirri þróun mála sem er mjög augljós öllum sem vilja fylgjast með og væntum þess að hún fái góðar viðtökur.