14.10.1987
Neðri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

6. mál, almannatryggingar

Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:

Herra forseti. Hv. alþm. Ég er meðflm. að frv. sem hv. 13. þm. Reykv. var að mæla fyrir. Ég geri ráð fyrir að ástæðan fyrir því að við flytjum þetta frv. sé sú sama hjá okkur báðum. Við höfum setið frammi fyrir fólki sem á að lifa á þeim aurum sem það fær út úr sjúkrasamlaginu og við höfum gert okkur grein fyrir því að slíkt er ekki mögulegt.

Hæstv. heilbrmrh. minntist á sjúkrasjóði verkalýðsfélaganna. Bæði er það að þeir eru misjafnlega sterkir og það sem þeir greiða nálgast ekki þau laun sem fólk missir. Auk þess eru í mörgum þeirra þau ákvæði að fólk þarf að vera búið að vera í félaginu í sex mánuði til þess að fá úr sjúkrasjóði. Það getur náttúrlega enginn verið viss um að fólk sé búið að vera svo lengi í verkalýðsfélagi þegar það veikist.

Ekki eru einu sinni allir í verkalýðsfélagi. Ég minnist máls sem ég afgreiddi. Ég man að það var í apríl 1985. Það voru hjón sem ég þekkti. Maðurinn var nokkru eldri en konan og hann hafði bara ellilífeyri til að lifa á. Þessi hjón komu utan af landi og hún hafði ekki unnið utan heimilis. Síðan verður hún sjúklingur og ég fer að hvetja hana til að athuga hvað hún eigi að fá út úr sjúkrasamlagi. Hún kynnti sér það og það voru í apríl 1985 49 kr. á dag sem þessi kona gat fengið.

Ég býst við að við sem stöndum að þessu frv. séu sammála í því að við eigum ekki að vanþakka almannatryggingar. Við munum nefnilega sum þá tíma sem þær voru ekki til nema í litlum mæli. Við vitum að þær hafa gert mikið gagn. En við þykjumst vera svo stórhuga, Íslendingar. Við erum alltaf að tala um hvað við séum stórhuga. Og vissulega erum við það. Þær sýna það fínu, dýru byggingarnar okkar hingað og þangað úti um landið. En við erum ekkert afskaplega stórhuga þegar við erum að útdeila til þeirra sem eru sjúkir og aldraðir. Það erum við ekki. Við þurfum að taka okkur tak með það líka.

Ég vænti þess að hv. alþm. vilji hugsa um þetta og ég er sannfærð um að ef þeir gefa sér tíma til að hugsa um þetta og fara ofan í málin verða þeir sammála okkur um að þetta þarf að bæta og þetta þarf að bæta strax.