10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 857 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

65. mál, friðlýsing Íslands fyrir kjarnorku- og eiturefnavopnum

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það er kannski ekki til að uppbyggja umræðuna, sem hefur að öðru leyti verið efnisleg og málefnaleg, að við förum að sakast á mikið um útúrsnúninga á orðum hvers annars, hv. þm. Hafi ég sagt eitthvað sem skilja mátti sem svo að ég væri að saka hv. þm. um greindarskort eða eitthvað af því tagi er það stórlega vítavert og ég biðst þá afsökunar, en tek fram að forseti hefði átt að víta mig ef slíkt lá í mínum orðum. Það var ekki meiningin. En hitt segi ég án þess að skammast mín fyrir það, að ef ég stend í umræðum við hv. þm. og mér sýnist á málflutningi þeirra að þeim hafi yfirsést við lestur frv. greinar sem skýra tilefni deilunnar vek ég á því athygli og mun halda því áfram.

Það er ekki rétt að ég hafi hér sagt að það fælist alls ekki í þessu frv. einhliða yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaust svæði á Íslandi. Það sem ég sagði og margendurtók var að það er villandi að fjalla um þetta frv. með þeim hætti vegna þess að það felur meira í sér. Frv. er miklu víðtækara en bara einhliða yfirlýsing um kjarnorkuvopnalaust Ísland, punktur. Í sjálfu frv., í sjálfum væntanlegum lagagreinum þess, eru ákvæði um það hvernig skal vinna að öðrum hlutum, margþættum ráðstöfunum til að tryggja svæðið. Þar með tel ég að þetta frv. sé meira og miklu víðtækara plagg en bara ein setning um að lýsa einhliða yfir kjarnorkuvopnalausu svæði á Íslandi. Hafi menn eitthvað efast um skoðun ræðumanns er hún auðvitað sú að hver einasta ferð verði að byrja á einu skrefi. Ég er ekki feiminn við að það skref yrði einhliða yfirlýsing Íslands um kjarnorkuvopnalaust svæði. En sjálf grundvallarhugsunin, eins og hv. 4. þm. Reykn. vakti athygli á, um kjarnorkuvopnalaust svæði, gerir ráð fyrir miklu víðtækari málsmeðferð. Þetta frv. er, eins og í framsögu var margundirstrikað, í fullu samræmi við yfirlýsingu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þetta efni frá 1978 og alla aðra alþjóðlega stöðu málsins sem felur í sér mjög víðtæka málsmeðferð og framhald á því að ríki ákveði að yfirlýsa sig kjarnorkuvopnalaus. Það er þetta samhengi sem ég vil að menn muni og hafi í huga og þess vegna endurtek ég það, herra forseti, að það er villandi að fjalla um þetta frv. eitt sem ekkert annað en einhliða yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust svæði. Það breytir því hins vegar ekki, eins og ég sagði, að menn komast aldrei langt að heiman frá sér ef þeir eru ekki tilbúnir að taka fyrsta skrefið.