02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7194 í B-deild Alþingistíðinda. (5240)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 968 liggur fyrir álit fjh.- og viðskn. um málið. Það hljóðar svo:

„Nefndin athugaði frv. og mælir með samþykkt þess.

Ingi Björn Albertsson, áheyrnarfulltrúi Borgarafl., var ekki samþykkur meðferð málsins. Fjarverandi afgreiðslu málsins voru Einar Kr. Guðfinnsson og Kristín Halldórsdóttir.“

Undir nál. rita Páll Pétursson, Geir H. Haarde, með fyrirvara, Kjartan Jóhannsson, Steingrímur J. Sigfússon og Guðmundur G. Þórarinsson.

Þannig hljóðar nál. Hv. þm. Ingi Björn Albertsson lagði til að frv. yrði sent til umsagnar, en við því var ekki hægt að verða vegna þess að þá hefði það ekki náð afgreiðslu á þessu þingi og þarf ekki að hafa fleiri orð um það.

Hér er um að ræða lagasetningu sem í sjálfu sér er fyrst og fremst andmæli gegn stjórnarháttum hvíta minni hlutans í Suður-Afríku. Heimurinn horfir agndofa upp á aðfarir hvíta minni hlutans og svarti meiri hlutinn biður þjóðir heimsins um að reyna að einangra Suður-Afríku með viðskiptabanni. Við því hafa fjölmargar þjóðir orðið, þar á meðal Norðurlandaþjóðirnar. Við teljum einboðið að Íslandi beri að leggja sitt lóð á vogarskálina með þessari lagasetningu.