02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7197 í B-deild Alþingistíðinda. (5243)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort ég skil málflutning þingmanna Borgarafl. fyllilega. Mér finnst að þeir séu á móti þessu máli bæði af því að það sé of mikið og af því að það sé of lítið. Það skín út úr málflutningi þeirra að það sé ekki rétt að grípa til aðgerða af þessu tagi, en að hinu leytinu virðast þeir vera að biðja um að aðgerðirnar séu víðtækari, taki til fleiri landa eða fleiri þátta að því er varðar samskiptin við Suður-Afríku. Ég get ekki séð annað en að í þessu felist mikill tvískinnungur og að röksemdafærsla af þessu tagi fái alls ekki staðist.

Hér áðan var lesinn upp hluti úr ræðu fyrrv. forsrh. og utanrrh. Geirs Hallgrímssonar. Í henni kom glögglega í ljós að hann hafði það að leiðarljósi í sínu starfi að við hefðum samstöðu með öðrum þjóðum í þessum efnum. Ég held að það liggi fyrir í gegnum öll okkar utanríkismál að við höfum lagt sérstaka áherslu á það hvenær sem við höfum getað að hafa samstöðu með hinum Norðurlandaþjóðunum. Það er það sem við erum að gera með samþykkt þessa lagafrv. og við erum þá að framfylgja þeirri stefnumörkun, sem hefur verið höfð að leiðarljósi hér á Íslandi, að hafa samstöðu með öðrum þjóðum og einkanlega með Norðurlöndum.

Auðvitað er okkur ljóst að della megi um gagnsemi aðgerðar af þessu tagi og ég held að það liggi ljóst fyrir að Íslendingar hafa valið að vera nískir á að beita aðgerðum af þessu tagi og að við viljum sýna varfærni í þeim efnum. Þess vegna líka hlýtur það að vera leiðarljós okkar að aðgerðir af þessu tagi séu takmarkaðar, að það sé ekki reynt að gera þær víðtækari en nauðsyn ber til. Nú þegar við sjáum ástæðu til að fordæma með þessum hætti hina illræmdu kynþáttaaðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku ætti það ekki að verða okkur tilefni til þess að við grípum til sams konar aðgerða gagnvart mörgum öðrum þjóðum.

Hv. þm. Geir Haarde gerði að umtalsefni ýmsar hliðar á þessu máli, en hann svaraði sér jafnframt sjálfur og sagði að það væri nú einu sinni svo að mannréttindabrot væru hvergi — og ég vitna í hann efnislega en ekki orð fyrir orð — jafnskipulega útfærð og í Suður-Afríku og ef ég man rétt að þau væru hvergi eins svívirðileg og þar. Það er af þessum sökum sem við viljum að afstaða Íslands í þessu máli liggi skýrt fyrir.

Sérstaða málsins að öðru leyti liggur í því að meiri hluti þjóðarinnar, ekki minni hluti, meiri hluti þjóðarinnar, óskar eftir því að fá stuðning við sinn málstað með þessum hætti. Meiri hluti þjóðarinnar í Suður-Afríku óskar sérstaklega eftir því að þjóðir heims láti í ljós skoðun sína og fordæmingu á þeirri illræmdu stefnu sem fylgt er í Suður-Afríku með því að setja á viðskiptabann. Það er áskorun frá meiri hluta þjóðarinnar.

Afstaða okkar Íslendinga í þessu máli hefur ævinlega verið ljós. Hún kom glögglega fram m.a. í því ræðubroti sem hv. þm. Hreggviður Jónsson flutti hér áðan, hluta úr ræðu Geirs Hallgrímssonar fyrrv. ráðherra. En rödd okkar verður að skiljast á erlendum vettvangi og hún má ekki misskiljast og það er líka hluti af málinu að rödd okkar hefur misskilist. Menn spyrja: Hvernig stendur á því að Íslendingar skera sig úr meðal Norðurlandaþjóða og hafa ekki sett viðskiptabann á Suður-Afríku? Og því er afstaða okkar misskilin.

Rödd okkar verður að vera skýr. Afstaða okkar liggur fyrir. Með því að samþykkja það lagafrv. sem hér liggur fyrir leikur enginn vafi á um afstöðu okkar og skilaboð okkar til umheimsins eru skýr: Við höfum svarað kalli hins kúgaða meiri hluta í Suður-Afríku með þeim hætti sem hann hefur beðið um.

Herra forseti. Hv. þm. Geir Haarde spurði líka: Mundu Íslendingar setja á viðskiptabann ef miklir viðskiptahagsmunir væru í húfi? Ég segi: Ýmsar þjóðir, sem hafa haft mikilla viðskiptahagsmuna að gæta, hafa gert það og þá er okkur vorkunnarlaust að gera það líka. En ég ætla að vona að sá manndómur sé í Íslendingum og ég ætla að trúa því að þeir láti ekki afstöðu sína ráðast af krónum og aurum í málum af þessu tagi.