02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7199 í B-deild Alþingistíðinda. (5244)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér var fyrr í umræðunum vitnað í svar hæstv. þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar við fsp. frá mér á árinu 1985 varðandi aðgerðir gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku. Ég man það vel að í þeirri umræðu, sem þá varð, og svo í umræðu um skýrslur utanrrh. bæði á árinu 1985, 1986 og 1987 var tónninn í raun og veru einn og afstaða ég hygg þriggja hæstv. utanrrh. á síðustu árum hefur fyrst og fremst grundvallast á því að við Íslendingar mundum hafa samflot með hinum Norðurlandaþjóðunum um aðgerðir gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku.

Á árinu 1985, þegar það svar sem hér var lesið upp var gefið, voru aðstæður talsvert aðrar. Þá hafði ekkert Norðurlandanna enn þá gripið til viðskiptabanns. Þá voru í gangi tilraunir til að ná árangri með tilmælum stjórnvalda og ríkisstjórnir Norðurlandanna samþykktu á fundi utanríkisráðherra sinna á árinu 1978 í fyrsta sinn að reyna með tilmælum til fyrirtækja, verkalýðshreyfingar og samtaka atvinnulífsins að draga úr þessum samskiptum. Þessi tilmæli hafa endurtekið verið ítrekuð, en þegar kom fram á árið 1986 þótti mönnum sýnt að meira þyrfti til, auk þess sem ástandið fór þá og fer enn reyndar hríðversnandi í Suður-Afríku.

Það var því síðla árs 1986, en aðallega á sl. ári, árinu 1987, sem fjölmörg ríki bættust í hóp þeirra sem áður höfðu sett á algert viðskiptabann, Norðurlandaþjóðirnar þar með taldar sem ég hygg að hafi allar á seinni hluta sl. árs að okkur undanskildum verið búnar að setja viðskiptamann. Reyndar er þar í raun um meira en viðskiptabann að ræða því að það tekur til ýmissa fleiri samskipta, fjárfestinga og annarra hluta sem við þurfum í raun ekki að hafa af afskipti því hér eru málin einfaldari og samskiptin fyrst og fremst í formi tiltölulega lítils vöruútflutnings og vöruinnflutnings á milli landanna. Það er því, eins og reyndar þegar hefur komið hér fram, í beinu framhaldi af yfirlýstri stefnu þriggja hæstv. síðast verandi utanrrh. þjóðarinnar að við grípum nú til þessa viðskiptabanns og stígum skrefið til fulls.

Ég vil vekja á því sérstaka athygli að hér er í raun spurning um að þjóðirnar sýni samstöðu vegna þess að það er auðvelt og auðskiljanlegt að um leið og ein þjóð setur viðskiptabann getur hagnaðarvon þeirra sem eftir eru og skipta við ríkið vaxið ef þeir eru ekki þeir menn að sýna þá samstöðu og fara ekki inn og nýta sér það svigrúm sem kannski skapast af því að stórar viðskiptaþjóðir hafa ákveðið að hætta samskiptum við landið. Þannig reynir á hvort samstaðan heldur í þessum efnum. Hér er hvað okkur varðar fyrst og fremst um táknræna aðgerð að ræða. En ég svara því hiklaust játandi. A.m.k. hefði það ekki breytt minni afstöðu þó að í Suður-Afríku hefði verið mikilvægur markaður fyrir íslenskar vörur, enda held ég að við hljótum í svona málum að reyna að taka grundvallarafstöðu og vera menn til að halda okkur við hana, það sem við teljum rétt og skylt, burt séð frá því hvernig það kemur við okkar eigin hag.

Ég vek á því athygli að rétt eins og menn hafa bent hér á gera talsmenn svarta meiri hlutans í Suður-Afríku sér mætavel grein fyrir því að viðskiptabann þýðir vaxandi harðræði fyrir það fólk. Það gera allir Suður-Afríkubúar sér ljóst að eigi viðskiptaþvinganirnar að ná takmarki sínu mun það þýða vaxandi erfiðleika í öllu þjóðlífinu í Suður-Afríku og þannig er meiningin að knýja stjórnvöld frá þessari ranglátu stefnu sinni. Engu að síður er það eindregin afstaða allra talsmanna svarta meiri hlutans í Suður-Afríku, hvort sem það er Desmond Tutu, hvort sem það eru talsmenn Afríska þjóðarráðsins eða hvaða forustumenn sem það nú eru. Um það atriði er alger samstaða að biðja um viðskiptabann.

Ég held líka, herra forseti, að það sé kannski nauðsynlegt, og ég hélt reyndar að það væri vel kunnugt, að menn rifjuðu það upp fyrir sér hvers eðlis þessi kynþáttaaðskilnaðarstefna er. Menn eru hér að tala um mannréttindabrot og vissulega eru þau slæm og af margvíslegum toga. En það er algerlega viðurkennt á alþjóðavettvangi að ástand mála í Suður-Afríku hefur sérstöðu. Þannig hefur innan Sameinuðu þjóðanna starfað um árabil sérstök nefnd að þessu verkefni og það hefur fengið algerlega sérstaka stöðu í meðferð mála af þessu tagi hjá Sameinuðu þjóðunum og þarf enga deilu um að þetta mál og ástandið þarna er í algerum sérflokki og er ekki sambærilegt við nokkuð annað sem þekkist annars staðar í heiminum eftir að minnihlutastjórn Ian Smiths í Ródesíu féll frá. Menn verða að hugleiða að það eru ekki bara í gildi neyðarlög í þessu landi. Það er ekki bara hægt að fangelsa menn án dóms og laga og halda þeim inni lon og don. Það eru í gildi alls kyns lög sem takmarka rétt manna í daglegu lífi með svo óskaplegum hætti að annað eins þekkist hvergi nokkurs staðar. Til skamms tíma var þessum meiri hluta þjóðarinnar bannað með öllu að eiga eignir. Þeim var bannað að eiga eigið húsnæði til þess að þetta væru undantekningarlaust réttindalausir leiguliðar í eigin landi. Þeim er bannað að eiga lönd. Þeim er bannað að eiga húseignir. Að vísu hefur einhver breyting orðið á því, a.m.k. fyrir ákveðna kynþætti sem þarna búa. Öll stjórnmálaleg réttindi eru í raun afnumin fyrir þetta fólk. Þeim er bannað að bindast félagasamtökum. Núna hafa síðustu samtökin sem máttu starfa verið bönnuð. Það tíðkast enn í Suður-Afríku að bannfæra fólk, lýsa fólk í bann, sem þýðir að því er bannað að fara út fyrir eigin hús og því er bannað að tala við nema eina manneskju í einu. Menn mega ræða við fjölskyldu sína, konu og börn, en ekki tala við nema einn einstakling í einu þar fyrir utan. Hvert þurfum við að fara, hvað langt aftur í tímann, til að finna einhverjar hliðstæður af þessu tagi? (AG: Segðu okkur það.) Sem betur fer er það býsna langt aftur í tímann, hv. þm. Ég held að til þess að menn átti sig á því hversu sérstakt mál er á ferðinni þurfum við bæði að þekkja til sögu málsins á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og annars staðar, þar sem þetta mál hefur haft algera sérstöðu um langa hríð sem betur fer, og menn þurfa líka að skilja og vita hvers eðlis þau hroðalegu mannréttindabrot, sem viðgangast í skjóli þessarar aðskilnaðarstefnu, eru til að skilja það og viðurkenna að það er eðlilegt að taka á þessu vandamáli með alveg sérstökum hætti.

Menn hafa spurt hér: Verða menn þá ekki að líta til fleiri landa? Verður þá ekki að setja viðskiptaþvinganir hér og viðskiptaþvinganir þar? Það er t.d. afstaða allra Norðurlandanna að þetta mál sé í algerum sérflokki og það þurfi ekki að breyta afstöðu Norðurlandaþjóðanna í grundvallatatriðum á neinn hátt þó að gripið verði til þessara aðgerða gagnvart Suður-Afríku. Menn hafa ekki yfirleitt farið út í aðgerðir af þessu tagi gagnvart t.d. þeim löndum öðrum sem eru efst á lista Amnesty International yfir pólitíska fanga eða mannréttindabrot þar sem fólk er fangelsað án dóms og laga o.s.frv. Ég nefni Tyrkland sem um árabil hefur notið þess vafasama heiðurs að vera efst eða í einhverju efstu sætanna á lista Amnesty International yfir menn sem fangelsaðir eru án dóms og laga. Þar sitja þúsundir í fangelsum án þess að hafa fengið eðlilega meðferð á sínum málum. En það er þó ekki hægt að styðjast við að það sé á grundvelli litarháttar eða á grundvelli sérstakrar stöðu einstaklinganna í þjóðfélaginu sem þau mannréttindabrot viðgangast. Það er ekki á grundvelli trúar eða annarra slíkra hluta og má þó reyndar víðar finna dæmi um mannréttindabrot sem tengjast slíkum hlutum. En allt ber þetta að sama brunni. Hér er um svo sérstakt brot að ræða og mannréttindabrotin eru svo sérstaks eðlis og svo víðtæk, þar sem þau bitna á meiri hluta þjóðarinnar, að allar þjóðir heimsins í raun og veru sem um þessi mál fjalla, nema þá kannski Suður-Afríkumenn sjálfir og leppar þeirra í Namibíu, hafa samþykkt að taka þetta mál út fyrir sviga og meðhöndla það með alveg sérstökum hætti.

Að lokum bara þetta, herra forseti: Það er mat allra sem til þekkja að eftir þær aðgerðir sem ríkisstjórn hvíta minni hlutans greip til nú í vetur, þar sem síðustu möguleikar manna til friðsamlegrar andstöðu voru í raun og veru bannaðir, sé engin leið eftir sem geti hugsanlega náð fram friðsamlegri lausn þessara mála önnur en utanaðkomandi þvinganir, það sé engin önnur leið en þessi og svo bara blóðug borgarastyrjöld sem blasir þarna við með tilheyrandi hörmungum, ekki bara fyrir Suður-Afríku heldur fyrir allan suðurhluta afríska meginlandsins.

Þetta bið ég menn að hafa í huga þegar þeir gera upp hug sinn gagnvart þessu frv. sem ég vona að sem flestir styðji og við sameinumst um að afgreiða á þessu þingi.