02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7202 í B-deild Alþingistíðinda. (5245)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa séð myndina sem verið er að sýna, Hróp á frelsi, en hún er um Suður-Afríku og er gerð af fyrrverandi ritstjóra, hvítum manni, sem stóð með blökkumönnunum. Lýsingin í þessari mynd er af hans reynslu, hans flótta burtu, ofsóknir á fjölskyldu hans. Þetta er mjög fræðandi mynd um það sem er að gerast þar.

Það væri hægt að vitna í fleira eins og sögu Mandela um lífshlaup þeirra hjóna og hvernig þau hafa verið ofsótt og hann búinn að vera í fangelsi í 20 ár fyrir það eitt að hafa skoðanir.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Það kann að vera að það hafi ekki mjög mikla þýðingu fyrir framgang þeirra mála sem eru í Suður-Afríku hvernig á þessum málum verði tekið hér. En það hefur mikla þýðingu fyrir okkur og kannski álit á hinni íslensku þjóð í kringum okkur ef við einir t.d. á Norðurlöndum verðum meðal þeirra þjóða sem sýna tómlæti gagnvart þeim hörmungum sem eru að gerast í Suður-Afríku.

Það er í sjálfu sér sama hvort það er í Suður-Afríku eða einhvers staðar annars staðar. Við eigum á einhvern hátt að láta í ljós okkar skoðanir og okkar andstöðu og jafnvel okkar fyrirlitningu á slíkum vinnubrögðum eins og t.d. hefur verið og er að gerast í Suður-Afríku. Það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími Sigfússyni, að þó að víða sé dökkt og víða verið að troða á almenningi skoðunarlega og alla vega held ég að það sé hvergi dekkra eða jafndökkt og í Suður-Afríku eftir þeim fréttum sem við getum aflað okkur.

Ég ætla að láta þetta nægja. Ég vil endurtaka að ef hv. þm. eru búnir að sjá myndina Hróp á frelsi skilja menn betur hvað er að gerast þar. Þetta er ekki mynd sem blökkumenn hafa gert eða samið texta að heldur er það reynsla hvíts ritstjóra sem hafði aðstöðu til að fylgjast með málefnum Suður-Afríku á þeim tíma og það væri áreiðanlega hollt fyrir okkur að fylgjast með því.