02.05.1988
Neðri deild: 86. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7202 í B-deild Alþingistíðinda. (5246)

514. mál, bann gegn viðskiptum við Suður-Afríku og Namibíu

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Varðandi það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, 6. þm. Norðurl. e., í lok máls hans, að við hefðum gott af því að sjá kvikmyndir sem sýndar hafa verið frá Suður-Afríku, þá var Amnesty-mynd í sjónvarpinu íslenska í gær sem við hefðum kannski haft alveg jafnmikið gott af að horfa á og hún var ekki frá Suður-Afríku. Við erum nýbúnir að sjá mynd frá viðureign Araba og Ísraelsmanna og ég held að heimurinn allur hafi haft gott af því að sjá þá mynd. Við erum ekki að tala eingöngu um Suður-Afríku. Mannréttindabrot eru víða, mjög víða.

En ég held að málflutningur hv. síðasta ræðumanns og málflutningur allra þeirra sem tekið hafa til máls sýni að það hjálpar betur að taka djarfari ákvarðanir til aðstoðar Suður-Afríku en þá sem hér er farið fram á. Ef Kjartan Jóhannsson, hv. 4. þm. Reykn., á erfitt með að skilja Borgarafl. yfirleitt vil ég segja að það var gagnkvæmt fram á síðustu daga, að þjóðin hefur bara aldrei skilið Alþfl. Hún hefur aldrei vitað til hvers hann væri til eða hvernig stendur á því að hann lifir fyrr en ég las bók, sem ég ætla að vona að allir þingmenn hafi lesið eða ættu að lesa, eftir sagnfræðing sem heitir Þorleifur Friðriksson og er um Alþfl., hans tilvist, hans tilveru og hans starfsaðferðir, hans samstarf við Norðurlöndin, hans samstarf út fyrir Norðurlöndin. Þá fór ég að skilja ýmislegt sem var hulið áður. Slík bók hefur ekki komið út um þennan ársgamla Borgaraflokk enn þá og kemur líklega ekki því að hann er svo íslenskur að slíkt samstarf held ég að sé alveg óhugsandi við nokkra þjóð eða nokkurt land eða samtök.

Það er enginn tvískinnungur í okkar máli. Ég get bent hv. þm. Kjartani Jóhannssyni á að það var viðtal í franska sjónvarpinu á laugardaginn við Tutu biskup sem var á ferðalagi í Evrópu. Ég trúi ekki öðru en íslenskar fréttastofur fylgist svo vel með, sérstaklega þegar áberandi menn í veröldinni eru á ferðalagi og sjónvarpsviðtöl eru birt, að íslenska fréttastofan geti útvegað hv. þm. okkar afrit af þessu viðtali.

Þar var hann beint spurður um viðskiptabann. Jú, hann sagði: Viðskiptabann og allt sem sýnir samstöðu með okkur, hvort sem það eru viðskiptabönn eða ekki, hefur sín áhrif, en engin úrslitaáhrif. Þau eru móralskur stuðningur. En þau hafa engin úrslitaáhrif. Og þá spyr sjónvarpsmaðurinn: Hvað er þá til bragðs að taka? Hvað álítur þú að hjálpi ykkur mest? Og þá svarar biskupinn: Það sem við höfum farið fram á við þjóðirnar er að slíta samskiptum við Suður-Afríku á öllum öðrum sviðum, á því diplómatíska sviði. Þá er spurt: Og hvaða afleiðingar hefur það? Þá svarar biskupinn: Það hefur þær afleiðingar að flugfloti Suður-Afríku getur ekki fengið lendingarleyfi. Það verður stoppað. Þeir verða teknir út af skráningu á heimsmarkaði um gjaldmiðla. Og hann telur upp 2–3 önnur atriði sem einangra hvíta minni hlutann, valdhafana í Suður-Afríku. Það mundi hjálpa, segir hann. Hitt er meira og minna táknrænt. Ef hv. þm. gerði sér far um að reyna að útvega sér þetta viðtal skildi hann kannski Borgarafl. betur. Afstaða mín, að ganga lengra, ef við á annað borð gerum eitthvað, en tillagan sem nú er til umræðu gerir ráð fyrir, er í samræmi við það sem hinn þeldökki meiri hluti í Suður-Afríku er að óska eftir og telur að mundi hjálpa. Það þarf kannski að koma að utan túlkunin til þess að alþýðuflokksmenn skilji þegar talað er hér þó talað sé áður en útlendingar láta í ljós sömu skoðun.

En hv. þm. sagði að það ætti að vera leiðarljós okkar að gera ekki víðtækari ráðstafanir en nauðsynlegt er og það átti að vera svar við því sem ég sagði. Sem sagt: það er ekkert atriði að gera svo víðtækar ráðstafanir að þær dugi kannski til. Atriðið er að vera aftaníossi þeirra sem oft er svo vitnað til sem samstarfsaðila Alþfl. á Norðurlöndum — og ég vitna aftur í Gullnu fluguna.

Ég hélt að það væri tilgangurinn með þessu öllu að auka mannréttindi, að brjóta niður það misrétti sem á sér stað í Suður-Afríku. Það hefur orðið til heimsstyrjöld af minni ástæðu en þar á sér stað. En menn vilja ekki ganga lengra en nauðsynlegt er hvort sem það hefur nú áhrif í þá átt sem menn tala eða hefur engin áhrif, er táknræn, „gesture“. Þarna skilur á milli mín og þeirra sem skilja svo vel aðra.

Meiri hluti í Suður-Afríku, þeir sem verða fyrir mannréttindabrotunum, óskar eftir stuðningi við viðskiptabann, segir hv. þm. Þeir óska eftir stuðningi veraldarinnar allrar til að breyta ástandinu heima fyrir og þeir leggja allt aðra áherslu á miklu stærri aðgerðir en hv. þm. gefur hér rangar upplýsingar um miðað við það sem ég hlustaði á fyrir tveimur dögum sem var viðtalið við Tutu biskup sem ég vitnaði til áðan.

Ég tek undir það að rödd okkar verður að skiljast, rödd okkar með þessari samþykkt skilst þannig að við viljum vera með í táknrænum aðgerðum vegna þess að hin Norðurlöndin hafa óskað eftir því. En gætum við ekki einu sinni orðið leiðandi fyrir hin Norðurlöndin ef við viljum á annað borð gera marktækar ráðstafanir sem hugsanlega gætu breytt ástandinu í Suður-Afríku? Gæti það ekki breiðst út, ef einhver tekur forustuna, að slíta öllum samskiptum sem ríki standa í við Suður-Afríku? Ég held nefnilega að Alþfl. bresti kjark til að taka ákvarðanir í þessu máli eins og öðru. Og ég sé enga ástæðu til þess að Íslendingar þurfi að gera sérstaka grein fyrir þeirri afstöðu sinni við hin Norðurlöndin ef þeir taka ákvörðun sem er áhrifaríkari en þau taka. Og ég vil segja að það svarar kalli hins kúgaða meiri hluta í Suður-Afríku miklu meira en það kratagaul sem kemur frá Norðurlöndum.

Við það að samþykkja þessa till. tek ég undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að eins dauði er annars brauð. Það kemur alltaf maður í manns stað. Viðskiptabann frá nokkrum löndum þýðir ekkert annað en að Suður-Afríkustjórn snýr viðskiptum sínum til annarra landa sem ekki hafa samþykkt bannið. (SJS: Þess vegna verða allir að samþykkja það.) Það verður ekki afgreitt á hv. Alþing'. Íslendinga. Eitt land er afgreitt að sjálfsögðu. Það hafa aldrei komið mótmæli við því frá Borgarafl. Hitt er annað mál að hv. þm. var að telja upp þær hörmungar sem eru í Suður-Afríku. Ég veit ekki betur en allt frá æsku hafi ég lesið um sams konar hörmungar hjá öðrum þjóðum. Og þegar ég gjammaði fram í og spurði hvort hann gæti ekki komið með dæmi frá öðrum þjóðum er hann of ungur til að muna eftir því eða kannski ekki haft vilja til að skýra frá því sem hefur verið í fréttum síðustu 40–50 árin eða jafnvel lengur.

Það þarf ekkert að hvetja okkur í Borgarafl. til að hafa samstöðu um aðgerðir sem eru einhvers virði. Ég held að þó að við tölum fyrir því að taka ákvarðanir sem þarf kjark til séum við ekki þar með að segja að viðskiptabann frá lítilli þjóð, sem hefur sama og engin viðskipti, sé ekki sú táknræna aðgerð sem hafi enga þýðingu eða beri engan árangur. Það ber vissan árangur vegna þess að Ísland hefur gott orð á sér í samskiptum þjóðanna. Ísland hefur gott orð á sér hjá Sameinuðu þjóðunum, hjá Evrópuráðinu, hjá Norðurlandaráði og yfirleitt í öllum samskiptum við útlendinga hefur Ísland gott orð á sér. Þess vegna hefur þetta táknrænt vissa þýðingu og þá er það ekki viðskiptalegs eðlis heldur er það sá „goodwill“ sem Ísland hefur sem getur orðið að einhverju liði í þessu táknrænt.

En ég tek undir að ástandið í Suður-Afríku, af þeim fréttum sem ég hef haft um langan tíma, er eins slæmt og hér hefur verið talað um. Og ástandið er slæmt víða um heim. Við sáum myndir frá Guatemala í gær sem sendar eru út á vegum Amnesty International. Við sáum hræðilega meðferð á einstaklingum sem sendar voru út frá Ísrael núna fyrir skömmu. Við höfum séð hræðilegar myndir um aðgerðir á Írlandi sem er nær okkur. Sú starfsemi sem þar á sér stað frá báðum aðilum er ekki til fyrirmyndar hvað mannréttindi snertir. Ég segi enn einu sinni: Aðgerðir sem þarf að gera eru þær sem Tutu biskup óskaði eftir. Aðgerðir sem hér eru lagðar til eru bara táknrænar og hafa lítil áhrif eins og Tutu biskup sagði í þessu fréttaviðtali.

Ég vil benda á að einn banki, mig minnir að það hafi verið Barclays-banki, hér geta þingmenn allir leiðrétt mig, þetta var í fréttum, íslensku fréttunum, lokaði allri starfsemi í Suður-Afríku og það kom viðskiptalífinu þar úr jafnvægi að þessi eini breski banki lokaði sínum dyrum. Mig minnir að það hafi verið einn elsti viðskiptabanki í Suður-Afríku. Það eru aðgerðir sem slíkar sem hafa áhrif. En ég er kannski of harður, ætlast til of mikils. Ég held að yfirleitt vilji þingmenn ekki ganga skemmra en þeir telja að þurfi til að árangur náist, nema kratarnir. Þeirra lífsskoðun er að elta aðra krata og ég vitna í þriðja sinn í sagnfræðirit um tilvist Alþfl. og samskipti hans á öllum sviðum við hina kratana á Norðurlöndum.

Ég tek undir það með hv. 6. þm. Norðurl. e., úr því að þetta mál er komið á dagskrá virðulegustu og valdamestu stofnunar þjóðarinnar, Alþingis, að málflutningurinn einn viðurkennir þörfina á aðgerð. Alþingi Íslendinga getur ekki rætt svona mál, viðurkennt vandann og gert ekki neitt. Og ég tek líka undir þegar hann segir að álit Íslendinga yrði minna ef þeir sýndu tómlæti. Það þýðir að ágreiningur við mig er enginn annar en sá: Ætlum við að vera með bara til að vera aftaníossar annarra krata, vera með í einhverju táknrænu sem ber líklega lítinn eða engan árangur eða ætlum við að verða við þeim óskum sem hafa komið frá þjóðarleiðtogum eins og Tutu biskupi og taka skrefið til fulls?