03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7215 í B-deild Alþingistíðinda. (5277)

Almennar stjórnmálaumræður

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Við þessi þingslit stöndum við Íslendingar enn frammi fyrir miklum erfiðleikum í efnahagsmálum. Erfitt er að sætta sig við slíkt eftir góðan árangur á síðasta kjörtímabili. Við framsóknarmenn töldum því nauðsynlegt að ræða efnahagsmálin ítarlega á fjölmennum miðstjórnarfundi fyrir rúmri viku. Eftirtektarvert er að miðstjórnarfundur okkar framsóknarmanna hefur valdið stjórnarandstöðunni og reyndar Alþýðublaðinu einnig að því er virðist miklum vonbrigðum. Vonbrigðin eru skiljanleg ef þessir aðilar hafa gert sér vonir um að miðstjórnarfundurinn sliti stjórnarsamstarfinu og við framsóknarmenn hlypum frá erfiðleikum þjóðarbúsins. Frá erfiðleikunum hlaupum við aldrei og stjórnarsamstarfinu munum við ekki slíta nema fullreynt verði að þessi ríkisstjórn sé ekki vandanum vaxin. Það teljum við hins vegar ekki ástæðu til að ætla. Auk þess fæ ég ekki séð að stjórnarandstaðan sé svo burðug að hún ráði við nokkurn vanda.

E.t.v. hafa þessir aðilar gert sér vonir um að við framsóknarmenn tækjum undir með stjórnarandstöðunni og krefðumst gengisfellingar með nýrri óðaverðbólgu. Í slíkum leik munum við ekki taka þátt. Segja má að menn hafi lært af reynslunni 1982 í samstarfi við Alþb.

Erfiðleikar atvinnulífsins verða ekki leystir með gengisfellingu einni. Staðan krefst fjölþættra aðgerða á flestum sviðum efnahagsmála sem ég mun ræða síðar. Vonbrigðin eru að vísu skiljanleg þegar haft er í huga að frá þessum miðstjórnarfundi kom Framsfl. einhuga og líklega sterkari en oftast fyrr.

Þeir sem telja ályktanir fundarins ekki nægilega harðar hafa ekki lesið þær nægilega vel. Á fundinum og í samþykktum hans er ítarlega fjallað um þau atriði í stjórnarsamstarfinu og sáttmálanum sem við framsóknarmenn teljum afar mikilvæg en ekki hefur tekist að framkvæma eins og að var stefnt.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að hún muni vinna að eftirgreindu, með leyfi forseta: „Að búa atvinnulífinu sem best starfsskilyrði, að tryggja jafnvægi í viðskiptum við útlönd, að jákvæðum en hóflegum raunvöxtum og að lækkun vaxta, að eðlilegri byggðaþróun.“

Þetta eru allt slík grundvallaratriði að án þeirra er í raun allt annað fyrir gýg unnið. Því verður jafnframt ekki neitað að á þessum sviðum hefur hallað undan fæti. Af ýmsum ástæðum, m.a. ytri skilyrðum, hefur starfsgrundvöllur atvinnulífsins versnað mjög, viðskiptahalli við útlönd hefur vaxið, raunvextir hækkað og byggðaröskun er mikil. Um þetta var ítarlega fjallað á miðstjórnarfundinum og m.a. ályktað, með leyfi forseta:

„Að ráðast eigi í róttækar aðgerðir sem duga til að skapa framleiðsluatvinnuvegunum rekstrargrundvöll, draga verulega úr viðskiptahalla, stöðva byggðaröskun og draga úr verðbólgu en standa vörð um kjör þeirra sem lægstu launin hafa.“

Miðstjórnarfundurinn tók fram að við framsóknarmenn erum reiðubúnir til þess að ræða allar leiðir til að ná ofangreindum markmiðum. Hins vegar var undirstrikað að það er „ófrávíkjanleg krafa miðstjórnarfundarins að slíkt verði gert.“

Miðstjórnin ákvað jafnframt að koma til fundar að nýju svo fljótt sem ástæða þykir til. Þá mun árangurinn verða metinn.

Að sjálfsögðu setjum við samstarfsflokkum okkar ekki úrslitakosti. Hins vegar fer ályktun fundarins ekki á milli mála. Hún er ákveðin og markviss. Við krefjumst þess að þeim markmiðum verði náð sem samþykkt voru við stjórnarmyndun. Við treystum því að núverandi ríkisstjórn hafi vilja og getu til að gera það.

Í viðureigninni við verðbólguna erum við framsóknarmenn hlynntir stöðugu gengi sem núverandi ríkisstjórn byggir á. Ég hef hins vegar oft lýst þeirri skoðun minni að fast gengi eitt og sér er vonlaust ef allur kostnaður innan lands leikur lausum hala og er jafnvel samtengdur í víxlgang verðbólgunnar. Sömu sjónarmið hafa fjölmargir haft og lýst sem um þessi mál hafa fjallað upp á síðkastið.

Að mati okkar framsóknarmanna er mikilvægast nú að draga úr innlendum kostnaðarhækkunum og tengja sem flest fastgengisstefnunni ef á henni á að byggja. Lítum á þróun nokkurra kostnaðarliða: Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands hafa raunvextir, þ.e. vextir umfram verðbólgu, hækkað úr u.þ.b. 6% í u.þ.b. 9,5% á einu ári og dráttarvextir úr 30% í yfir 50%. Þetta segir þó alls ekki alla söguna. Í upphafi síðasta árs var lánskjaravísitala 10% en er nú um og yfir 18%. Í lánskjaravísitölunni felst einnig fjármagnskostnaður að sjálfsögðu. Hann hefur því nálægt því tvöfaldast á einu ári. Þessum kostnaði velta þeir sem geta út í verðlagið. Það geta hins vegar ekki útflutningsatvinnuvegirnir eða þeir sem eiga í samkeppni við erlenda framleiðslu sem þarf ekki að bera slíkan fjármagnskostnað.

Ég leyfi mér að nefna það fásinnu þegar fastgengisstefnu er fylgt að heimila endurlán erlends fjármagns með lánskjaravísitölu og háum vöxtum, enda hafa að undanförnu birst fréttir um sjóði og stofnanir sem skila miklum hagnaði, jafnvel hundruðum milljóna kr. á sama tíma og útflutningsatvinnuvegirnir eru reknir með vaxandi halla. Hver skyldi borga brúsann? Úr reikningum vel rekins frystihúss er mér sýnt að orkukostnaður hefur hækkað um yfir 30% frá því í september á sl. ári og nú boðar Landsvirkjun sjálfvirka tengingu orkuverðs við gengi og verðlag. Er þá kominn enn einn þáttur í sjálfvirkan skrúfgang verðbólgunnar. Svipað má segja um annan innlendan kostnað.

Á þessum hlutum öllum verður að taka fyrst, koma í veg fyrir víxlhækkanir og tengja fastgengisstefnunni ef á henni á að byggja. Jafnframt er nauðsynlegt að stjórnvöld afli sér öruggari tækja en þan hafa haft til að hafa hemil á fjárfestingunni í landinu. Reynslan hefur kennt okkur að ekki er unnt að treysta á frjálshyggjuna eða markaðshyggjuna í þeim efnum. Slíkar ábendingar koma glöggt fram í stjórnmálaályktun miðstjórnarfundarins. Þær eiga ekki að koma neinum á óvart.

Launahækkanir hafa einnig orðið verulegar umfram gjaldeyristekjur útflutningsatvinnuveganna. Ekki verður því þó haldið fram að kröfur hinna lægst launuðu séu miklar. Raunar má segja að þær séu eðlilegar því fólkið hlýtur að álykta sem svo að þeir sem byggja glæsilegu verslanahallirnar hverja eftir aðra eða endurnýja óspart fiskiskipaflotann, sem allir viðurkenna að er þó of stór, hljóta að hafa fjármagn til að greiða 42 000 kr. í laun á mánuði.

Yfirstandandi verkfall vekur mann hins vegar til umhugsunar um þann frumskóg sem launabaráttan er orðin.

Tími minn leyfir ekki að ég reki nánar þau ýmsu atriði sem við framsóknarmenn bendum á og viljum að rædd verði. Þeim er öllum ætlað í raun að renna traustari stoðum undir fastgengisstefnuna og stuðla um leið að bættri stöðu atvinnuveganna, minni viðskiptahalla, lækkun vaxta og byggðajafnvægi eins og sá stjórnarsáttmáli gerir ráð fyrir sem við skrifuðum undir.

Þeirri upptalningu aðgerða sem fram kemur í ályktuninni er ekki ætlað að vera tæmandi heldur, eins og fyrr segir, erum við framsóknarmenn reiðubúnir til þess að ræða allar tillögur sem samstarfsflokkar okkar kunna að hafa og stefna að sama marki. Að sjálfsögðu eru því þó takmörk sett sem við treystum okkur til að samþykkja. Við munum t.d. aldrei fórna hinu íslenska velferðarkerfi, t.d. ágætu heilbrigðiskerfi sem öllum veiti frábæra þjónustu án tillits til efnahags, fyrir markaðskerfi þar sem þjónustan fer eftir efnum og aðstæðum.

Þegar allir kostnaðarliðir hafa verið vandlega athugaðir kann að reynast óhjákvæmilegt að laga gengi íslensku krónunnar að þeim aðstæðum sem ríkja, bæði til þess að skapa útflutningsatvinnuvegunum eðlilegan rekstur og fastgengisstefnunni traustan grundvöll. Gengisfelling ein sér mundi hins vegar aðeins auka verðbólguna og vandann. Henni yrðu að fylgja fjölmargar aðgerðir m.a. til þess að vernda kjör þeirra sem lægst hafa launin og til að koma í veg fyrir að þau mistök verði á ný sem orðið hafa á síðustu mánuðum.

Við framsóknarmenn getum tekið undir ýmislegt í framtíðarsýn alþýðuflokksmanna, enda hefur engin ríkisstjórn unnið jafnmarkvisst að nýsköpun í atvinnulífinu og framleiðniaukningu og sú síðasta. Allt slíkt eru hins vegar orðin tóm ef rekstrargrundvöllur atvinnulífsins er ótraustur. Fyrirtæki sem eru komin að því að stöðvast ráðast ekki í kostnaðarsamar aðgerðir til framleiðniaukningar. Einstaklingar hefja ekki nýja framleiðslu ef samkeppni við erlend fyrirtæki er vonlaus. Frumskilyrðið er heilbrigður rekstrargrundvöllur atvinnulífsins.

Við tökum einnig heils hugar undir það að skynsamlegt er að flýta þeirri búháttabreytingu sem unnið er að í landbúnaði, en það má ekki gera með því að kippa fótum undan afkomu bænda eða rekstri stofnana landbúnaðarins. Þetta verður ekki gert nema með því að flýta þeirri fjárhagsaðstoð sem um er samið næstu fjögur árin.

Þótt efnahagsmálin verði meginviðfangsefni þessarar ríkisstjórnar næstu vikurnar og muni ráða hennar framtíð leyfir tíminn mér ekki að ræða þau ítarlega. Ég tel mér enda skylt að fara nokkrum orðum um þann málaflokk sem ég hef haft með höndum, utanríkismálin.

Í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar segir, með leyfi forseta: „Ríkisstjórnin mun fylgja sjálfstæðri utanríkisstefnu.“ Og einnig: „Íslensk stjórnvöld leggja ávallt sjálfstætt mat á öryggis- og friðarmál og varnir Íslands.“

Þá segir í starfsáætluninni: „Eindregin afstaða verði tekin á alþjóðavettvangi gegn hvers kyns mannréttindabrotum og kúgun.“

Samþykkt Alþingis um afvopnunarmál frá maí 1985 er jafnframt mikilvægur leiðarvísir. Sjálfstæð utanríkisstefna hlýtur að byggja á sjálfstæðri athugun á öllum málavöxtum. Hún hlýtur að byggja á eigin mati á hinum fjölmörgu tillögum sem fluttar eru hjá Sameinuðu þjóðunum, á eigin mati á afvopnunarmálum þar sem þau eru til umræðu og eigin mati á mannréttindum hver sem á í hlut.

Ég mun í samræmi við þetta ræða við hvern þann sem ég tel að geti veitt mikilvægar upplýsingar, eins og ég hef gert, og ég hafna því að við Íslendingar getum látið afskiptalaust ofbeldi og kúgun þótt í fjarlægum heimshluta sé.

Í samræmi við þessa skoðun mína óskaði ég þegar sl. haust eftir samþykkt í ríkisstjórninni fyrir því að ég legði fram frv. um viðskiptabann á Suður-Afríku eins og öll hin Norðurlöndin hafa samþykkt. Ég lagði þetta enn til fyrir réttri viku. Ég fagna því að utanrmn. hefur nú tekið málið upp. Gera má ráð fyrir að slíkt frv. verði samþykkt fyrir þingslit.

Fyrst og fremst eru slík lög táknræn. Þau skipa okkur í hóp þeirra sem andúð sýna á því kynþáttamisrétti og kúgun sem framkvæmd er af hvíta minni hlutanum í Suður-Afríku. Án þeirra má jafnvel gagnálykta að við sjáum ekkert athugunarvert við slíkt framferði. Þá skoðun ætla ég engum Íslendingi.

Í raun er framferði Ísraelsmenna gagnvart Palestínumönnum á herteknu svæðunum sama eðlis. Þar er um að ræða kynþáttaofsóknir sem geta ekki staðist til lengdar og munu fyrr eða síðar leiða til tortímingar Ísraelsríkis ef ekki verður breyting á. Við höfum heils hugar stutt tilverurétt Ísraelsríkis og gerum það áfram. Í ljósi þess er staða okkar sterk þegar við krefjumst þess af Ísraelsmönnum að þeir láti af kúgun Palestínumanna.

Utanríkismálin verða stöðugt mikilvægari. Í heiminum gerast nú þeir atburðir sem munu hafa mikil áhrif á framtíð þessarar þjóðar. Í því sambandi þarf í raun að ræða afar margt en ég læt nægja að nefna þau atriði sem nærtækust eru: fækkun kjarnorkuvopna og bætta sambúð austurs og vesturs og þróun markaðsmála. Á þessum sviðum verðum við að beita okkur eins og við getum. Það hefur verið gert. M.a. hefur skipulagi ráðuneytisins verið breytt í mikilvægum atriðum. Því mun verða áfram haldið svo lengi sem ég fer með þessi mál.

Góðir Íslendingar. Núverandi ríkisstjórn hefur aðeins setið í tæpt ár. Á þeim tíma hefur þó mjög margt mikilvægt verið gert sem ráðherrar viðkomandi málaflokka hafa rakið eða munu rekja í þessari umræðu. Því fögnum við framsóknarmenn. Allt það er þó fyrir gýg unnið, jafnvel hallalaus ríkisbúskapur, ef undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar eru reknir með stórkostlegum halla, erlend skuldasöfnun mikil og byggðaröskun vaxandi. Þessi mál hljóta því að vera meginviðfangsefni ríkisstjórnarinnar næstu vikurnar. Við treystum því að þau verði vel og farsællega leyst.

Ég þakka þeim sem hlýddu.