03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7220 í B-deild Alþingistíðinda. (5278)

Almennar stjórnmálaumræður

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. „Það er ekki nokkur maður á 30–40 000 króna lágmarkslaunum svo ég skil ekki þessi læti“, sagði maður við mig í sl. viku í tilefni af verkfalli verslunar- og skrifstofufólks. Þarna talaði maður sem hefur árslaun láglaunafólksins í tekjur á hverjum mánuði, maður sem átti 350m2 einbýlishús, tvær lúxuskerrur fyrir fjölskylduna og haft hefur það fyrir reglu í mörg ár að taka fjölskylduna bæði í sumar- og vetrarfrí til útlanda.

Á þessu augnabliki, þegar ég horfði á mann sem var gjörsamlega úr tengslum við raunveruleikann og kjör láglaunafólksins, varð mér hugsað til unga mannsins sem hafði komið til mín í viðtal um morguninn. Hann rétti mér krumpaðan launaseðil yfir borðið, sem sýndi mánaðartekjur um 34 þús. kr., og spurði mig þeirrar einföldu spurningar hvernig hann gæti borgað 35 þús. kr. leigu á almenna markaðnum fyrir fjölskyldu sína. Annað húsaskjól stæði honum ekki til boða. Hann var á götunni með sína fjölskyldu.

Við jafnaðarmenn tölum gjarnan um að hér búi tvær þjóðir í einu landi. Það dæmi sem ég hef hér rakið sannar það. Sá hópur sem býr á Íslandi við raunverulega fátækt er allt of stór. Hvernig lífeyrismál þjóðarinnar eru er einnig dæmi um tvær þjóðir í einu landi. Er ekki eitthvað að í okkar lífeyrismálum þegar einn ellilífeyrisþegi fær úr sínum lífeyrissjóði 5–10 þús. kr. á mánuði meðan annar fær 100–150 þús. kr.? Hvað með skattsvikin þegar maðurinn sem rétt sleppur milli mánaða að standa undir brýnustu nauðsynjum er líka að borga skatta fyrir manninn í 350 fermetra einbýlishúsinu með lúxuskerrurnar, manninn sem skilur svo ekki að til er fátækt á Íslandi?

Við getum líka tekið gjána og trúnaðarbrestinn sem myndast hefur milli dreifbýlis og þéttbýlis. Þar finnum við líka tvær þjóðir í einu landi. Það er einmitt á þessum málum sem verður að taka og forgangsverkefni þessarar ríkisstjórnar verða að vera endurskipulagning húsnæðis- og lífeyriskerfisins, málefni landsbyggðarinnar og að uppræta skattsvikin.

Á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar hefur mjög mætt á fjmrh. sem hefur staðið í fararbroddi fyrir umfangsmestu skattkerfisbreytingu sem gerð hefur verið. Hann hefur einnig haft forustu um aðhald ríkisins í lánsfjármálum, að rétta af ríkisfjárhaginn og snúa margra milljarða halla í jöfnuð á fjárlögum á örfáum mánuðum. Þessar aðgerðir munu skila sér til fólksins í minni verðbólgu og lækkun á framfærslubyrði heimilanna og ekki síst létta verulega greiðslubyrði af lánum sem eru að sliga mörg heimilin. Þessar aðgerðir munu skila sér í því að jafna lífskjörin, ekki síst vegna þess að við höfum stigið fyrsta skrefið í að uppræta skattsvikin. Árangurinn er að koma í ljós í betri skattskilum. Ýmsar frekari aðgerðir eru í undirbúningi til að herða skattaeftirlit og uppræta skattsvik.

Við jafnaðarmenn höfum því á þessu fyrsta starfsári ríkisstjórnarinnar lagt traustan grunn og undirstöður að þeirri velferð sem við viljum búa fólkinu í jöfnun lífskjara, í húsnæðismálum, lífeyrismálum, tryggingamálum og fjölskyldu- og jafnréttismálum. Þar skilur á milli Alþfl. og annarra flokka sem kenna sig við félagshyggju að undirstöður þeirra eru veikburða og halda ekki uppi því veisluborði sem stjórnarandstaðan reynir að ýta að fólkinu. Veisluborð þeirra er gert út á framtíðina og er ávísun á halla á ríkissjóði, á auknar erlendar lántökur, á verðsprengingu, á aukna skuldabyrði heimilanna. Þeirra veisluborð er því ávísun á versnandi lífskjör. Við höfum dæmin úr tillöguflutningi stjórnarandstöðunnar.

Dæmi: Byggðar skulu 1050 leiguíbúðir, en ríkisstjórnin á að gera tillögur um hvernig fjármagna á íbúðirnar. Þeir vísa sem sagt til ríkisstjórnarinnar hvernig fjármagna eigi góðu málin þeirra. Stjórnarandstaðan ætlar ríkisstjórninni að baka brauðið, en vill sjálf borða það.

Okkar vinnubrögð eru öðruvísi því í þessu stjórnarsamstarfi höfum við lagt þær undirstöður sem gefa okkur svigrúm til að byggja upp það velferðarkerfi sem við jafnaðarmenn höfum boðað.

Góðir áheyrendur. Ég hygg að flestum sé orðið ljóst að staðan í húsnæðismálum kallar á aðgerðir. Hvaða val hefur fólkið? Jú, að velja um 2–3 ára bið eftir láni til að koma sér upp húsaskjóli eða leita á almennan leigumarkað þar sem leigukjörin eru langt fyrir ofan getu venjulegs launafólks. Þetta gengur ekki lengur. Stjórnmálamönnum ber að viðurkenna að fólki var lofað of miklu í nýja húsnæðislánakerfinu, kerfi sem stenst ekki og er í raun og veru gjaldþrota og alls ekki til hagsbóta fyrir fólkið. Það hefur kallað fram óendanlegar biðraðir, sprengt upp íbúðaverð, leitt til hærri útborgunar og sífellt lækkandi lánshlutfalls miðað við kaupverð íbúðar. Forgangsmál þessarar ríkisstjórnar nú hlýtur að vera endurskipulagning á húsnæðislánakerfinu og að leggja grunn að húsnæðislánakerfi sem stenst til frambúðar. Ég legg áherslu á að nýtt húsnæðislánakerfi komi til framkvæmda um næstu áramót og að hugmyndir um breytingu á niðurgreiðslu vaxta af húsnæðislánum bíði þess tíma.

Okkur stjórnmálamönnum ber líka skylda til að lyfta þessu máli, húsnæðismálunum, yfir dægurþras stjórnmálanna. Fólk gerir til þess kröfu. Ég hef því kallað til þessa verks sem nú þarf að vinna bæði stjórn og stjórnarandstöðu ásamt aðilum vinnumarkaðarins. Ég treysti því að með þessu fyrirkomulagi geti tekist góð samvinna milli stjórnar og stjórnarandstöðu og nýtt og breytt húsnæðislánakerfi geti tekið gildi um næstu áramót. Við höfum alla möguleika á því að búa fólki góða kosti í húsnæðismálum og að því er nú unnið. Ég mun sem húsnæðismálaráðherra leggja allt kapp á að fólk sjái betri tíma fram undan í húsnæðismálum.

Kaupleiguíbúðir, sem samþykktar verða hér á Alþingi fyrir þinglok, eru liður í því, en til þeirra eru tryggðar 273 millj. á fjárlögum þessa árs. Ég treysti því að sveitarfélögin láti nú reyna á þennan nýja valkost í húsnæðismálum sem hentar mjög vel landsbyggðinni, en á þessu ári verður væntanlega hægt að hefja framkvæmdir við 120–150 kaupleiguíbúðir.

Með kaupleiguíbúðum opnast líka hvort tveggja í senn: möguleikar á að koma á skipulögðum leigumarkaði og að fólk geti eignast húsnæði með hóflegum mánaðargreiðslum og engri útborgun. Íbúar kaupleiguíbúða vel;a um leigu eða kaup og þeim er tryggður leiguréttur í a.m.k. fimm ár ef þeir óska. Í kaupleigukerfinu er hægt að leigja með hóflegum mánaðargreiðslum og ráðast síðan í kaup á íbúðinni þegar vilji og geta leyfir, líka með föstum mánaðargreiðslum án útborgunar. Þetta léttir húsnæðiskostnað láglaunafólksins.

Val í kaupleigukerfinu stendur líka um það að fólk getur keypt sér afnotarétt af íbúðinni svo lengi sem það óskar með því að leggja fram 30% kaupverðs, en aldraðir og fatlaðir leggja fram 15% kaupverðs. Þegar hætt er afnotum af íbúðinni er framlagið endurgreitt með verðbótum.

Í félmrn. er nú unnið að ýmsum málum sem miklu skipta fyrir landsmenn. Ég nefni umfangsmikla breytingu á verkefnaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og tekjustofnum sveitarfélaganna sem miða að því að auka sjálfsforræði sveitarfélaga. Í undirbúningi er löggjöf um bætta skipan skipulags- og byggingarmála. Næsta haust verður einnig væntanlega lagt fram frv. um félagslega þjónustu sveitarfélaga sem hefur það að markmiði að koma á samræmdri heildarstjórn þeirra mála.

Í félmrn. er einnig unnið að tillögum um starfsmenntun í atvinnulífinu, um styttan vinnutíma, um leiðir til að styrkja stöðu kvenna á vinnumarkaði og stuðla að jafnrétti kynjanna. Hafinn er undirbúningur að heildarendurskoðun félagslegra íbúða á Íslandi og fjármögnun þeirra, einnig að gerð áætlunar um umbætur í húsnæðismálum aldraðra, en í ráði er að gera heildarúttekt á húsnæðiskjörum aldraðra hér á landi. Unnið er að tillögu um framtíðarskipan sólarhringsstofnana fatlaðra og áætlunargerð um uppbyggingu sambýla og verndaðra vinnustaða fatlaðra.

Þá vil ég nefna frv. dómsmrh. um lögfræðiaðstoð við almenning og um breytingu á barnalögum þess efnis að við skilnað sé foreldrum gefinn kostur á sameiginlegu forræði barna sinna. Þessi breyting er gerð til að gæta hagsmuna barnanna þannig að þau geti notið samvista við báða foreldra sína. Þetta er í senn réttlætismál fyrir börnin og jafnréttismál milli kynjanna, en hér hallar oftast á föðurinn. Í þessu efni þarf að tryggja jafnrétti til að rétta hlut karlmanna.

Í lokin vil ég nefna frv. dómsmrh. um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdarvalds sem er ekki bara mikil réttarbót heldur felur í sér byggðastefnu. Valdið er fært út í héruðin og þjónustan bætt við fólkið á landsbyggðinni.

Góðir áheyrendur. Við eigum enn langt í land að brúa bilið milli auðuga og fátæka mannsins sem ég nefndi í upphafi míns máls og við eigum enn langt í land að jafna eigna- og tekjuskiptinguna í þessu þjóðfélagi, en það er og verður verkefni okkar jafnaðarmanna í þessari ríkisstjórn að jafna kjörin og búa fólkinu betri framtíð.