03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7230 í B-deild Alþingistíðinda. (5282)

Almennar stjórnmálaumræður

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Getur það verið að á Íslandi sitji ríkisstjórn sem ekki er í tengslum við ykkur, fólkið í landinu og umbjóðendur sína?

Hvað um forsrh. og flokk hans Sjálfstfl.? Er hugsanlegt að þessum aldna flokki Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar sé orðið sama um íslenskt atvinnulíf annað en verslun og viðskipti á einu landshorni?

Hvað um Alþfl.? Líklega taka margir undir með Guðríði Elíasdóttur, varaforseta ASÍ, sem núna 1. maí sagðist vera afskaplega óánægð með matarskattinn um leið og hún minnti á að það væri enn til láglaunafólk á Íslandi.

Hvað um Framsfl.? Nýtur formaður hans hylli út á það að hafa hlaupið úr þingsæti sínu á Vestfjörðum suður á Reykjanes með byggðastefnuna í rassvasanum? Kannski eigum við að þakka fyrir á meðan hann tekur hana ekki með sér út í lönd og gleymir henni þar á einhverju hótelherberginu.

Þið hafið orðið vitni að því að þingmenn stjórnarflokkanna vottuðu ráðherrunum allir sem einn hollustu sína í atkvæðagreiðslu í þessum sal síðastliðinn fimmtudag. Aðeins einn framsóknarmaður sýndi á sér ólund. Allir gáfu þeir ráðherrunum óskorað umboð og nú vilja þeir senda þingið heim svo að það sé ekki að þvælast fyrir.

Það hefur verið einkennilegur svipur á þessu þinghaldi. Stjórnarandstaðan hefur flutt mál inn í þingið jafnt og þétt eins og starfsreglur þingsins gera ráð fyrir. Þingflokkur Alþb. hefur flutt á annað hundrað mál, lagafrv., þáltill. og fsp. En ríkisstjórnin og stuðningslið hennar hefur verið eins og svefngengill mikinn hluta þingtímans, en hrokkið upp með andfælum á jólaföstu og útmánuði og henti hér inn í þingsali hátt í 50 frv. í hvort skipti. Þeir hafa komið kjagandi með þennan farm ofan úr Gutenberg, formenn flokkanna, og kastað pappírnum hér inn fyrir dyrnar líkt og kerlingin sálinni hans Jóns síns forðum inn um Gullna hliðið. Reyndar hefur Steingrímur sjaldnast verið heima til að hjálpa til og hlaupa undir bagga, en Halldór Ásgrímsson hefur þá komið í staðinn og ekki talið það eftir sér, enda þykir fáum vænna um ríkisstjórnina.

Og þegar inn fyrir dyr Alþingis er komið hafa þeir tekið við, formenn þingflokkanna, Páll á Höllustöðum, Eiður Guðna og Ólafur G., og reynt að finna út úr því hvað af þessum ógnarhaug væru stjfrv. og hvað óskadraumar einstakra ráðherra. Ekki hefur þeim þó alltaf tekist að draga rétt í dilka og lái þeim hver sem vill.

Stjórnarandstaðan og nokkrir varamenn með sín áhugamál báru þinghaldið uppi fyrstu mánuðina eða allt fram á jólaföstu. En þá kom líka gusan, skammdegisverk fjármálaráðherrans, afrakstur langrar og strangrar og einmanalegar næturvinnu: matarskattur, tollar, vörugjöld og staðgreiðsla. Þá birtist líka eina frv. hans Halldórs, kvótinn úr smiðju Kristjáns Ragnarssonar, nú með kveðju til fjögurra ára. Og innan um annan málagrúa ráðherranna hlykkjaðist rosalegur bandormur sem enginn stjórnarliða vildi almennilega kannast við, en á höfuð hans var letrað: Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga. Það var enginn annar en blessaður forsætisráðherrann sem hafði laumast með þennan drelli hingað inn í Nd. eina skammdegisnóttina milli óttu og miðmorguns og þar liggur hann enn undir ráðherrastólunum og liðirnir farnir að morkna í sundur.

Eftirminnilegust úr þeim umræðum sem hér stóðu daga og nætur eftir að ríkisstjórnin komst í jólastuðið eru mér orðaskipti virðulegs aldursforseta þingsins, Stefáns Valgeirssonar, við hæstv. forsefa Sþ. Hinn fyrrnefndi hafði með sér í ræðustól bók frá ríkisstjórninni með fangamarki fjmrh. upp á 450 bls. og leggur fyrir forseta vorn þessa einföldu spurningu: Hvenær á ég að lesa þetta? Svo viturlega hafði enginn spurt lengi og því varð fátt um svör.

Já, það verður fátt um svör hjá þingmönnum ríkisstjórnarinnar þegar spurt er einfaldra spurninga eins og menn leyfa sér stundum heima hjá sér yfir kaffibolla. Hvaða nauðsyn var á að leggja á þennan matarskatt? Hvernig á fólk á Íslandi að lifa af 32 þús. kr. á mánuði? Vitið þið ekkert hvað er að gerast úti á landi?

Þeir reyna að bjarga sér, blessaðir, með því að vísa hver á annan eins og krökkunum í sandkassanum hættir til ef slettist upp á vinskapinn. En sandkassaleikurinn er bara á róluvelli stjórnarliðsins. Utan veggja Alþingis og Stjórnarráðsins blasir við veruleikinn sem ráðherrar og þingmenn Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl. virðast eiga erfitt með að skilja. Úti í samfélaginu ræður frelsi peninganna sem þingmenn þessara flokka hafa gefið lausan tauminn. Frelsi fjármagnsins eykur nú hröðum skrefum á ójöfnuð í landinu. Klafi lánskjaravísitölunnar herðir að húsbyggjendum, okurvextirnir leggjast með ógnarþunga á fyrirtæki í fiskvinnslu og iðnaði. Þessi fyrirtæki bera uppi fastgengisstefnu ríkisstjórnarinnar og eiga enga leið undan kostnaðarhækkunum og verðbólgu hér innan lands. En peningarnir gufa ekki upp. Þeir safnast fyrir og vaxa í verðbréfum og fjármagnsleigum. Gullna hliðið ríkisstjórnarinnar vísar ekki á himnaríki heldur á musteri Mammons í Kringlumýrinni. Fiskvinnsla og gjaldeyrissparandi iðnaður er nú vísasti vegur til efnahagslegrar glötunar undir stjórn hægri flokka og miðjumoðsins á Íslandi.

Fráleitast af öllu samkvæmt hagfræðiuppskrift stjórnarflokkanna er þó að búa úti á landi, alveg sérstaklega í sveitum. Sveitafólk er gleymd stærð í efnahagsumræðunni. Sú eignaupptaka sem Framsfl. og Sjálfstfl. hafa leitt yfir fjölda bænda með stjórnleysi í landbúnaði í áratugi og síðan með því að svipta jarðirnar framleiðsluréttinum á sér enga hliðstæðu. Mest er óvissan og erfiðleikarnir hjá sauðfjárbændum, ekki síst þeim sem standa frammi fyrir niðurskurði og fjárskiptum vegna riðuveiki. Landsbyggðin eins og hún leggur sig er þolandi stjórnarstefnunnar. Jafnvel forsrh. getur ekki lengur lokað augum fyrir þeirri staðreynd og hefur beðið Byggðastofnun um sérstaka úttekt á ástandinu. Það er mikið búið að ganga á þegar rumskað er á þeim bæ.

Þingflokkur Alþb. hefur í vetur eins og á undanförnum árum flutt fjölda tillagna sem miklu skipta fyrir fólk á landsbyggðinni, sanngirnismál þar sem aðeins er spurning um pólitískan vilja. Þann vilja er ekki að finna hjá ráðandi meiri hluta hér á Alþingi og á meðan heldur öfugþróunin og byggðaeyðingin áfram. Róm brennur, segir formaður Framsfl., en situr sem fastast í ríkisstjórninni.

Hugmyndir stjórnarflokkanna um atvinnuþróun byggja fyrst og fremst á innstreymi erlends fjármagns. Hér kemur inn í þingið frv. eftir frv. frá ríkisstjórninni um að létta af hömlum fyrir útlendinga í iðnaði, í bönkum og almennt í atvinnurekstri. Í orkuiðnaði er innlent frumkvæði bannorð. Kísilmálmverksmiðju var ýtt til hliðar, en í staðinn er mikið lagt undir til að koma á fót erlendri risaálbræðslu í Straumsvík. Um þau glæfralegu áform, sem talið er að kosti litlar 45 þús. millj. kr., fjalla einvörðungu örfáir gæðingar stjórnarflokkanna. Alþingi má þar hvergi nærri koma nema sem stimpilstofnun. Raforkuverðið sem veifað er framan í útlendingana er ríkisleyndarmál á sama tíma og innlend fyrirtæki, frystiiðnaður og fiskeldi, borga tífalt á við stóriðjuna.

Jöfnuður á ekki upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn þar sem Alþfl. er þriðja hjól undir vagni. Misrétti fer vaxandi milli landsbyggðar og höfuðborgar, milli launafólksins innbyrðis, milli karla og kvenna. Þingmenn Alþb. hafa haft frumkvæði að fjölda tillagna hér á þinginu til að draga úr þessari mismunun. Ekkert af þeim hefur fengið náð fyrir augum þess meiri hluta sem hefur frjálshyggju og köld lögmál fjármagnsins sem áttavita.

En er þetta þá allt svona fjandi dökkt? Í utanríkismálum hefur aðeins rofað til þegar litið er til afstöðu Íslands á alþjóðavettvangi. Þar mátti líka verða á breyting frá hinni gaddfreðnu afstöðu Sjálfstfl. Frumkvæði Alþb. í málefnum Suður-Afríku er að bera árangur með lögum um viðskiptabann. En í hernaðaruppbyggingunni hér innan lands situr allt við hið sama undir verndarvæng Steingríms Hermannssonar. Þar er kalda stríðið enn í algleymingi með aukinni vígvæðingu, hernaðarratsjárstöðvum, nýrri stjórnstöð fyrir herinn á Keflavíkurflugvelli og olíubirgðageymslum í Helguvík.

Alþb. er andvígt þessari stefnu. Að okkar mati þarf að losa Ísland sem fyrst úr herfjötrum sem lýðveldið var reyrt í á árunum 1946–1951. Dvöl erlends hers í landinu og aðild Íslands að NATO hefur alla tíð verið í hrópandi ósamræmi við stöðu okkar sem vopnlausrar smáþjóðar.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Stefna ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum er í andstöðu við hagsmuni mikils hluta þjóðarinnar. Í menningarmálum er látið reka á reiðanum, í umhverfismálum ríkir stöðnun og andvaraleysi, í félagsmálum vex misrétti eftir efnahag og búsetu þegar þörf er á hinu gagnstæða.

Það er orðið knýjandi að breytt verði um stjórnarstefnu. Kusu menn Alþfl. í síðustu kosningum til að hann gerðist meðhjálpari á íhaldsheimilinu? Kusu menn Framsfl. til að hann gengi gegn hagsmunum landsbyggðarinnar og tæki höndum saman við þá sem vilja samvinnufélögin feig og hlut kaupfélaganna sem minnstan? Ég held ekki. Fólkið sem kaus þessa flokka á nú að krefjast stefnubreytingar.

Það er þörf á vinstri samstöðu í landinu, samstöðu félagshyggjufólks í stjórnmálaflokkum, verkalýðshreyfingu og fjöldasamtökum gegn íhaldi og sérhyggju. Að slíkri samstöðu ber Alþb. að vinna af auknum þrótti sem sósíalískum flokki með mikla reynslu að baki, í málefnalegri og heiðarlegri samvinnu við alla þá sem vilja efla lýðræði og jafnrétti meðal landsmanna.

Ég þakka áheyrnina. Góðar stundir.