03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7233 í B-deild Alþingistíðinda. (5283)

Almennar stjórnmálaumræður

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir hlustendur. Fyrir réttu ári gafst landsmönnum kostur á að hlusta og horfa á fulltrúa framboðslista stjórnmálaflokkanna í hljóðvarpi og sjónvarpi. Við birtumst ykkur brosandi og ábyrg, töluðum ákaft um jafnrétti fólksins, jafnrétti milli landshluta, góðærið og hagsæld þjóðarbúsins sem stjórnað hafði verið af Steingrími Hermannssyni.

Það var uppi ágreiningur milli flokka hverjir hefðu notið góðærisins og hvort þjóðarskútunni hefði verið vel stýrt. En öll vorum við sammála um að leiðrétta þyrfti kjör þeirra lægst launuðu og að byggðaröskun þá sem átt hafði sér stað yrði að stöðva. Þegnar landsins skyldu búa við jafnrétti hvar svo sem þeir væru í sveit settir.

Og nú erum við hér, 63 þeirra sem töluðu til ykkar fyrir ári, við sem bentum þá á leiðir til þess að hægt væri að lifa góðu lífi, hvort sem búið væri í sjávarþorpum, til sveita eða í kaupstöðum og kauptúnum landsins. Og hvar stöndum við svo og hvert stefnum við?

Sú ríkisstjórn sem mynduð var síðastliðið sumar hefur hér mikinn þingstyrk svo ætla mætti að tekið hefði verið til höndunum. En því miður hefur reyndin orðið önnur. Sá málaflokkur sem allir voru sammála um fyrir ári að brýnast væri að taka á, staða landsbyggðarinnar og fólksflóttinn utan af landi á höfuðborgarsvæðið, hefur enga úrlausn fengið og engar þær ráðstafanir í sjónmáli sem snúa þessari ógnvænlegu þróun við. Þvert á móti hafa þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið og afleiðingar þeirrar stefnu sem fylgt er enn aukið á misrétti milli landshluta. Fjármagnið safnast í þjónustustarfsemi og peningamarkaði höfuðborgarsvæðisins. Á sama tíma þrengir að öllu atvinnu- og mannlífi úti á landsbyggðinni. Fólkið sem misst hefur atvinnuna tekur sig upp og flytur til höfuðborgarinnar í von um betri afkomu, þ.e. þeir sem geta flutt. Húseignir eru verðlitlar úti á landi og nær óseljanlegar. Hver kærir sig líka um að flytja í þorp eða kaupstað þar sem lítið er um atvinnu og fyrirtækin ramba á barmi gjaldþrots eða upp í sveit á jörð sem hefur lítinn fullvirðisrétt, að ekki sé talað um ef það fylgir jörðinni refabú eða stórir karföfluakrar? Hver kærir sig um slíkt? Og þurfa svo að borga langtum hærra orkuverð og hærra verð fyrir alla þjónustu en þeir sem byggja höfuðborgarsvæðið. Fólk neyðist til að velja borgina þó svo að hætta sé á að lenda þar í láglaunahópnum og verða að búa þröngt.

Hver eru svo ráð núverandi ríkisstjórnar? Þar má nefna að Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sjóður til þess að jafna stöðu sveitarfélaganna, var skorinn niður um hundruð milljóna króna og framlög til félagslegra framkvæmda verulega skert. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar eða réttara sagt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru að brjóta niður atvinnulíf landsbyggðarinnar.

Alþb. hefur á þessu þingi flutt tillögur sem mundu hafa í för með sér verulegar leiðréttingar fyrir landsbyggðina. Hér í þinginu liggja fyrir tillögur okkar um breytta tekjustofna sveitarfélaga og afnám skerðingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og um að gera hann að raunverulegum jöfnunarsjóði. Tillögur okkar um jöfnun raforkuverðs og um sama gjald fyrir símaþjónustu alls staðar á landinu eru nú fluttar af okkur þriðja árið í röð. Jafnframt höfum við flutt tillögur um tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Allar þessar tillögur skipta máli fyrir fólkið á landsbyggðinni og þjóðina í heild. Það er aðeins spurning um pólitískan vilja. Það að skera niður Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sýnir pólitískan vilja stjórnvalda, matarskatturinn gerir það líka.

Þrátt fyrir sameiginlega stefnu stjórnmálaflokkanna fyrir síðustu kosningar um að bæta kjör þeirra lakast settu hafa stjórnarflokkarnir gleymt öllum þeim markmiðum og halda enn fram þeirri stefnu síðustu ríkisstjórnar að skerða kjör láglaunahópa og láta almenning í landinu greiða fyrir óráðsíu síðustu stjórnar. Allir sjá nú hve illa var á málum haldið á síðasta kjörtímabili. Öllu var eytt og sóað og nú á almenningur að greiða fyrir með matarskatti og dýrari en jafnframt minni þjónustu hins opinbera.

Sami söngurinn er byrjaður: Kauphækkanir eru verðbólguvaldandi. Það ert þú, hlustandi góður, sem hefur rúm 30 þús. í mánaðarlaun, sem veldur verðbólgunni. Hvar er samviska þín, segja stjórnendur. En hver spyr um samvisku stjórnenda? Hver er t.d. samviska forustu framsóknar sem nú hefur verið lengur í ríkisstjórn en nokkur annar flokkur?

Kjör almennings í landinu, og þá sérstaklega þeirra sem búa úti á landi, hafa stórversnað. Sífellt verður erfiðara fyrir aldraða og öryrkja að láta enda ná saman. Allt hefur hækkað á síðustu mánuðum, nú síðast iðgjöld bifreiðatrygginga og sú hækkun bitnar einna verst á öryrkjum. Af iðgjöldum bifreiða renna 25% til ríkissjóðs í formi söluskatts og hefur Alþb. lagt fram frv. til l. um niðurfellingu þessa söluskatts af iðgjöldum bifreiða öryrkja.

Söngurinn um verðbólguna og lágmarkslaunin hljómar stöðugt. Þar hljómar samkór ríkisstjórnarflokka og vinnuveitenda sterkt. Nú síðast er svo samvinnuhreyfingin endanlega gengin í þann kór. Ég hélt þó, miðað við þær fréttir sem borist hafa af launagreiðslum á þeim bænum, að þar settu menn ekki fyrir sig að borga mannsæmandi laun. En raunin varð önnur og í yfirstandandi samningum verslunarmanna er hvað erfiðast að eiga við samvinnuhreyfinguna. Af því tilefni sendu samninganefndir þeirra 13 verslunarfélaga sem felldu miðlunartillöguna nú á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem m.a. segir, með leyfi forseta:

„Fyrir rösklega 100 árum stofnaði launafólk samvinnufélögin til að vernda viðskiptahagsmuni sína. Fram eftir árum áttu launþegahreyfingin og samvinnuhreyfingin samleið, óaðskiljanlegar greinar af sama meiði sem áttu þá hugsjón sameiginlega að berjast fyrir bættum kjörum launafólks. Það eru því merk tíðindi öllu launafólki er samvinnuhreyfingin skipar sér við hlið harðsvíraðasta hluta vinnuveitendaaðalsins í baráttu gegn sanngjörnum kröfum verslunarmanna og annarra launþega og hefur í hótunum við hin ýmsu samvinnufélög vogi þau sér að ganga til samninga.“

Þessi yfirlýsing segir ekki fallega sögu þeim sem eitt sinn treystu samvinnuhreyfingunni til að standa vörð um kjör sín.

Framsfl. á sér líka bakgrunn. Hann var sterkastur hjá bændum og fólkinu úti á landsbyggðinni. En nú er öldin önnur. Formaðurinn fluttur á mölina og baráttumálin orðin allt önnur. Þar skiptir orðið meira máli að ná tali af Arafat og höfðingjum erlendis en það að vernda landsbyggðina. Auðvitað er allt í lagi að flakka erlendis og styrkja samskipti við erlendar þjóðir, en ekki fyrr en tekið hefur verið á málum hér heima.

Tölur um íbúaþróun hér á landi síðustu átta ár segja sína sögu. Á árunum 1979–1983 fjölgaði landsmönnum úti á landsbyggðinni, þ.e. utan höfuðborgarsvæðis og Reykjaness, um 2448, en á árunum 1983–1987, þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar fór með völd, varð þróunin allt önnur og verri. Þá fækkaði landsbyggðarfólki um 381 en íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um 9200. Skyldi fylgismönnum framsóknar og byggðastefnu ekki vera eins farið og þeim sem áður treystu samvinnuhreyfingunni fyrir kjörum sínum? Eru þeir ekki farnir að efast um verk og stefnu Framsfl.?

Alþb. hefur eins og áður sagði lagt fram tillögur sem varða landsbyggðina og undirstöðuatvinnuvegina og réttindamál þeirra sem minnst mega sín. Allt eru þetta tillögur sem stuðla að raunverulegu jafnrétti allra þegna landsins.

Góðir hlustendur. Við stóðum keik, frambjóðendur allra flokka, fyrir framan ykkur fyrir ári. Hér komum við aftur, nú ekki bara til að segja hvað við ætlum að gera heldur líka til þess að standa skil á því sem gert hefur verið á þessu þingi. Enn þá eru allir borubrattir og eiga svör og loforð á reiðum höndum. En verum minnug þess að hver maður, hver stjórnmálaflokkur er það sem hann gerir en ekki það sem hann segir.