03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7242 í B-deild Alþingistíðinda. (5286)

Almennar stjórnmálaumræður

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Fyrir mig sem nýliða á þingi er ekki óeðlilegt að staldra við nú þegar hillir undir þinglok og líta yfir farinn veg. Eflaust halda margir að í þessu húsi ríki ætíð ágreiningur og ósamkomulag um flest þau mál sem hér er fjallað um. En víst er að markmið okkar sem hér störfum eru svipuð: Að veita öllum þegnum landsins sjálfsögð mannréttindi en leggja um leið á herðar þeirra þær skyldur sem mannlegu samfélagi fylgja.

En undarlegar eru þær leiðir sem núverandi ríkisstjórn hefur valið og skrýtin forgangsröðin. Það er þó óneitanlega alltaf ánægjuefni þegar stjórn og stjórnarandstaða geta sameinast um mál, sem vissulega gerist oft. Sú staðreynd að það sem af er þessu þingi höfum við afgreitt 42 mál og þar af aðeins 3 frá stjórnarandstöðunni vekur upp spurninguna um það hvort stjórnarandstaðan og flest hennar mál séu til einskis. Svo sannarlega ekki. Stjórnarandstaðan getur haft áhrif bæði í nefndum og umræðum en sagan kennir okkur að oftast liður langur tími frá því að hugmynd birtist þangað til henni er hrint í framkvæmd. Hins vegar er undarleg sú ofuráhersla sem lögð er á að stinga helst öllum málum okkar undir stólinn, jafnvel þó fulltrúar allra flokka geti tekið undir mörg þeirra. Það er greinilega ekki alltaf sama hvaðan gott kemur.

Oft þykir manni hægagangurinn með eindæmum, ekki síst okkur kvennalistakonum sem viljum sjá sjálfsagðar og réttlátar breytingar í þágu kvenna gerast hratt og vel og erum við reyndar ekki einar um það. Þeim fjölgar stöðugt sem sjá að auðvitað skilar bættur hagur kvenna sér í betra mannlífi fyrir okkur öll. Flestir, held ég, geti verið sammála um að það eru engin rök fyrir því hróplega misrétti sem konur búa við.

Síðustu daga þinghaldsins er dembt yfir okkur málum stjórnarinnar sem verða að hljóta afgreiðslu. Samhliða er dembt yfir þjóðina fréttum af önnum Alþingis. Það er með öllu óverjandi að mál sem mikið liggur á skuli koma svona seint fram sem raun ber vitni. Það þætti ekki góð húsmóðir sem lúrir á vetrarforðanum og hálfsveltir heimafólkið fram á sumarmál. Og ekki þætti sá kennari góður sem geymdi stærsta hluta námsefnisins fram á síðustu vikur skólaársins.

Þær annir sem ég nefndi eiga ekki aðeins við um þingmenn og býst ég við að fáir utanaðkomandi geri sér grein fyrir því mikla álagi sem er á starfsfólki Alþingis til þess að allt megi ganga rétt og vel fyrir sig.

Við kvennalistakonur tölum gjarnan um börn og hag þeirra. Það er einn mikilvægasti þátturinn í okkar pólitík. En eins og flestir vita tökum við afstöðu til allra mála sem fjallað er um á þinginu og tillögur okkar varða hina ólíkustu málaflokka. Jafnréttisbarátta kvenna hefur vissulega skilað konum aukinni menntun en um leið stórauknu vinnuálagi og ótrúlega bágum kjörum. Þessi undarlega staða hlýtur að vekja upp margar spurningar um viðhorf þjóðfélagsins til kvenna og þá um leið til barnanna sem þær annast í flestum tilfellum að stærstum hluta.

Um þessar mundir fer fram samnorræn könnun á uppvaxtarskilyrðum forskólabarna. Skv. tölum sem í henni birtast má ætla að á undanförnum 20 árum hafi atvinnuþátttaka mæðra aukist um 600%. Niðurstöður könnunarinnar benda til þess að íslenskir foreldrar séu mun minna samvistum við börn sín en foreldrar á Norðurlöndum.

Þá sýna skýrslur frá landlækni að hér á landi er slysatíðni barna upp að 14 ára aldri hæst af Norðurlöndunum. Orsök flestra slysanna er rakin til óaðgæslu og ónógs eftirlits fullorðinna með börnunum. Samhliða þeim öru breytingum sem nú eiga sér stað verður að leita lausna fyrir börnin. Það verður að tryggja þeim öruggt og gott uppeldi.

Það er illt til þess að vita að yngstu börnin skuli búa við öryggisleysi og vont er að skólabörnum þessa lands skuli hvorki boðið upp á jafnrétti til náms né þá aðstöðu sem nauðsynleg er í skólunum. Slíkt er skilningsleysi ráðamanna á skólastarfinu og mikilvægi þess.

Fjármálaráðherrar einn af öðrum slá fram fullyrðingum um vinnutíma kennara. Með sömu rökum og þeir nota gætu menn fullyrt að við þingmenn vinnum aðeins meðan þingfundir standa yfir. Ég tel ólíklegt að slíkar fullyrðingar verði til þess að gylla kennarastarfið fyrir fólki. Það er með öllu ótækt að sú deila sem nú stendur milli kennara og ríkisvalds virðist nú komin í það öngstræti að óvissa ein bíður um það hvort yfirleitt tekst að manna skóla landsins í haust. Og hvað verður þá um börnin og menntun þeirra?

Eitt af slagorðunum er „viðreisn velferðarríkisins“. Þeir sem það hrópa hafa algerlega gleymt hvar sú viðreisn á að byrja. Við kvennalistakonur erum ekki í vafa. Auðvitað byrjum við á börnunum, þessum hornsteinum framtíðarinnar, ekki á matarskatti. Auðvitað þarf að afla tekna í ríkissjóð, en það á ekki að taka af þeim sem minnst hafa. Menn eiga að borga mismunandi háa skatta miðað við tekjur hvers og eins. Það er einn mikilvægasti liðurinn í því að ná meiri efnahagslegum jöfnuði.

Það er með öllu óþolandi og okkur engan veginn sæmandi að samfélag allsnægtanna sé sem óðast að taka á sig hina ógnvekjandi mynd af samfélagi skortsins. Við verðum að gera okkur grein fyrir að þau verðmæti sem við byggjum tilveru okkar á eru ekki sköpunarverk mannanna. Þau eru fyrst og fremst gjafir náttúrunnar sem við eigum öll að eiga hlutdeild í og njóta.

Á þinginu í vetur hafa byggðamálin oft komið til umræðu og það hve misjöfn kjör fólks á landsbyggðinni eru, ekki síst ef miðað er við höfuðborgarsvæðið. Það var óneitanlega fagnaðarefni að heyra í Jóni Baldvin Hannibalssyni fjmrh., er hann í ræðu sinni sl. fimmtudagskvöld lýsti hugmyndum stjórnvalda um að flytja vinnslustöðvar landbúnaðarins út í landbúnaðarhéruðin og ríkisstofnanir til þéttbýlisstaða utan höfuðborgarsvæðisins. Þetta er mikilvægur liður í atvinnuuppbyggingunni. En jafnframt verður auðvitað að hlúa að þeim atvinnugreinum sem eru í uppbyggingu.

Þessa dagana standa þm. frammi fyrir þeim vanda að úthluta fé til vegagerðar, allt of fáum krónum á allt of marga km. Sá vegur sem er torfærastur í þeim efnum er vegur réttlætisins. Í vegagerð hafa stjórnvöld aldrei náð fram þeim markmiðum sem sett voru við gerð langtímaáætlunar. Þar sem bættar samgöngur eru eitt brýnasta hagsmunamál allra landsmanna hlýtur að vakna sú spurning hvort við endurskoðun vegáætlunar á næsta ári þurfi ekki að hugleiða nýjar leiðir til fjármögnunar.

Ein er sú atvinnugrein sem byggir öðrum fremur á góðum samgöngum, en það er ferðaþjónustan. Á síðasta ári var hún þriðja stærsta atvinnugrein okkar hvað gjaldeyrisöflun varðar. Því er afar mikilvægt að hlúa vel að henni. Hún er einn vaxtarbroddurinn í íslensku atvinnulífi og býður upp á marga möguleika, einkum fyrir landsbyggðina. Þar er fábreytni atvinnulífsins meiri, einkum fyrir konur.

En hvernig er staðið að málum núna af stjórnvalda hálfu? Ég hef þegar nefnt árlega skerðingu til vegamála. Ferðamálaráð hefur aldrei fengið sín lögbundnu framlög og er því illa í stakk búið til að sinna hlutverki sínu. Vinsælir ferðamannastaðir eru auglýstir upp án þess að nægilegt aðhald eða aðstaða sé fyrir hendi, hvað þá að verndunarsjónarmið séu virt. Erlendir leiðsögumenn án tilskilinna leyfa, sem hvorki þekkja land né þjóð, hvað þá heldur viðkvæma náttúru landsins, koma í síauknum mæli með ferðahópa hingað á meðan við höfum vel menntaða íslenska leiðsögumenn með verndað starfsheiti.

Þegar litið er á þau atriði sem ég hef nefnt er ljóst að við getum ekki talist vera í uppbyggingarstarfsemi á þessu sviði. Það þarf að gera stórátak í ferðamálum með uppbyggingu og fræðslu að leiðarljósi. Það gengur t.d. ekki upp til lengdar að beina öllum á sömu slóðir. Sú húsmóðir þykir ekki hagsýn sem gengur á sameiginlega sjóði fjölskyldunnar. Það er enn síður hagsýni að ganga á þann höfuðstól sem náttúruauðlindirnar eru okkur.