03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7244 í B-deild Alþingistíðinda. (5287)

Almennar stjórnmálaumræður

Kristín Einarsdóttir:

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Það er vor í lofti þó víða sé enn vetrarlegt á Íslandi. Við í Kvennalistanum skynjum gróandann og þær góðu undirtektir sem málstaður okkar hefur fengið með þjóðinni. Hugmyndir okkar um að bæta stöðu kvenna og skapa hér samfélag þar sem allir, konur, karlar og börn, eru jafnvirtir og jafnréttháir, hafa fallið í frjóa jörð og eru að skjóta æ fleiri rótum.

Að þessum hugsjónum höfum við þingkonur Kvennalistans reynt að vinna af fremsta megni á þinginu sem er senn að ljúka. Við erum hér hins vegar í stjórnarandstöðu ásamt fleirum og getum víst ekki vænst þess að uppskera mikið í formlegum samþykktum á þessari hefðbundnu karlasamkomu. Það er stuðningslið ríkisstjórnarinnar sem ræður úrslitum um afgreiðslu mála hér á þinginu og það virðist oft vera bundið fyrir bæði augun.

Ríkisstjórnin hefur verið dæmalaust lánlaus það sem af er starfsferli sínum. Hún hefur staðið hér að lagasetningu og efnahagsaðgerðum sem í stað þess að jafna kjör þegnanna auka enn frekar á óréttlæti og misskiptingu. Um áramótin var knúinn í gegn matarskattur þrátt fyrir eindregin mótmæli og aðvaranir stjórnarandstöðunnar. Því var haldið fram að barnabætur og lækkun á nauðsynjavörum öðrum en mat mundi bæta upp þá miklu skattheimtu. Þið heyrið fjmrh. enn fara með þá tuggu. Hver varð niðurstaðan? Er ekki best að hver svari fyrir sig?

Með efnahagsaðgerðum sínum hefur ríkisstjórnin þrengt að heimilunum í landinu og mest þeim barnmörgu. En ríkisstjórnin hefur komið við á fleiri bæjum. Sveitarfélögin hafa farið sérstaklega illa út úr samskiptum sínum við hana á liðnum vetri. Í þeim efnum átti að vinna mikið og stórt til hagsbóta fyrir sveitarfélögin. En reyndin hefur orðið þveröfug. Tekjur sveitarfélaganna hafa verið stórlega skertar með staðgreiðslukerfinu og niðurskurði meiri hlutans hér á Alþingi á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Skömmu fyrir jól rigndi yfir þingið mörgum stórmálum. Eitt af þeim var frv. um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það var boðað sem sérstakt fagnaðarerindi og upphaf að öðru meira. En þegar innihaldið var skoðað aðeins nánar kom annað í ljós. Í stað þess að leggja fyrst fjárhagsgrunninn var fimbulfambað um verkaskiptingu sem á heildina litið reyndist vera sveitarfélögunum óhagstæð. Sérstaklega þeim minni. Nokkrir af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar urðu meira að segja svo óttaslegnir að þeir slógust í lið með stjórnarandstöðunni og málið sofnaði í félmn. Ríkisstjórnin leitaði hins vegar hefnda við fyrsta tækifæri og skerti enn Jöfnunarsjóð og fleiri framlög í svokölluðum „efnahagsaðgerðum“ í febrúar. Og þar voru allir stjórnarliðar samstiga.

Launafólk hefur verið að reyna að rétta hlut sinn síðustu mánuði og lái því hver sem vill. Frá síðasta hausti fór kaupmáttur umsaminna taxta síminnkandi, rýrnaði t. d. frá október og fram til áramóta um 10% og þá bættist matarskatturinn við. Lágmarkslaun voru þá rétt um 30 þús. og eftir langvarandi samningaþóf tókst aðeins að hífa þau upp um rúmar 2000 kr. Er að undra þótt verslunarfólk vildi ekki una þessu og legði jafnvel út í tvísýnt verkfall til að knýja fram leiðréttingu og færi fram á 42 þús. kr. á mánuði? Sú harka sem mætir þessu fólki af hálfu atvinnurekenda er með fádæmum.

Launamálin á Íslandi eru í þannig ástandi að fólki með réttlætistilfinningu hlýtur að blöskra. Sjálf launakerfin eru orðin svo flókin eftir breytingar undangenginna ára að fáir botna í þeim.

Við kvennalistakonur höfum lagt til að sett verði lög sem banni að greidd séu lög undir ákveðnu marki en síðan semji aðilar vinnumarkaðarins um laun fyrir ofan það. Allir þurfa að taka höndum saman um að launafólk geti haft bærilega framfærslu af 40 stunda vinnuviku. Hér má ekki ríkja viðvarandi láglaunastefna og vinnuþrælkun. Við hlustum ekki á þá sem kalla sig efnahagssérfræðinga og sækja vit sitt í ímynduð lögmál sem gilt hafa í Mesópótamíu fyrir 3000 árum og vilja heimfæra þau á nútímann til að verja óréttlætið.

Ísland er ótrúlega langt á eftir nágrannalöndunum á mörgum sviðum. Það er tæpast hægt að segja að við lifum í velferðarþjóðfélagi, slík er misskiptingin og öryggisleysið hjá stórum hópum. Þó ætti, miðað við framleiðslutölur og þjóðartekjur, að vera unnt að skapa hér gott samfélag. Til að ná því marki þarf hins vegar margt að breytast. Til þess þarf m.a.:

Lífvænleg laun fyrir alla og skaplegan vinnutíma. Aðstæður sem tryggi öryggi og gott uppeldi fyrir börnin.

Samfelldan skóla með vel menntuðu og ánægðu starfsliði.

Húsnæðiskerfi sem gefur fólki kost á að velja á milli séreignar eða leigu á viðráðanlegum kjörum. Atvinnulíf sem byggir á þekkingu starfsmanna og misbýður ekki umhverfi eða auðlindum.

Við kvennalistakonur höfum litið til þessara markmiða í málefnavinnu okkar hér á Alþingi. Við höfum sótt mikinn stuðning í grasrótina, í angana sem eru að skjóta rótum um allt land. Ég nefni aðeins nokkur dæmi: Við höfum lagt til að stórátak verði gert í uppbyggingu dagvistarheimila og að grunnskólabörn verði samfellt og lengur í skólanum að starfi og leik. Þetta er mikið hagsmunamál, bæði fyrir börn og foreldra. Við höfum lagt áherslu á jafnrétti til náms og viljum að framhaldsskólinn standi öllum opinn, jafnt fötluðum sem öðrum, jafnt þeim sem búa í þéttbýli sem dreifbýli.

Kvennalistinn hefur alltaf lagt mikla áherslu á umhverfismálin. Umhverfisfræðsla, endurvinnsla og fullnýting úrgangsefna, reglur um einnota umbúðir og mengun frá stóriðju eru mál sem við teljum mikilvægt að taka á. Við viljum stofna umhverfisráðuneyti þar sem allir meginþættir umhverfismála eiga heima. En nú er þeim dreift á nánast öll ráðuneytin.

Þrátt fyrir stór orð og fyrirheit í stjórnarsáttmála hefur nú orðið sú magalending að taka litinn hluta af þessum málaflokki og setja undir eitt ráðuneytanna. Það er undarlega tregða að vilja ekki taka þessi mál föstum og raunhæfum tökum. Við verðum að gera okkur grein fyrir að auðlindir jarðar eru langt frá því að vera óþrjótandi. Okkur sem nú lifum ber að hugsa til þeirra sem á eftir koma. Við höfum ekki fengið jörðina að gjöf frá foreldrum okkar, heldur að láni frá börnunum okkar.

Friðarmálin hafa verið stór þáttur í starfi Kvennalistans. Íslendingar hafa aldrei borið vopn á aðrar þjóðir. Því er eðlilegt að við gerumst boðberar friðar og afvopnunar í heiminum og látum til okkar taka á alþjóðavettvangi sem friðflytjendur, ekki síst vegna þess að við búum á milli risaveldanna tveggja. Kvennalistakonur taka virkan þátt í starfi friðarhreyfinga, bæði hér á landi og erlendis.

Í húsnæðismálum höfum við lagt áherslu á að mörkuð verði framtíðarstefna sem taki mið af því fjármagni sem er til reiðu. Brýn nauðsyn er á endurskoðun húsnæðislánakerfisins, sérstaklega félagslega hlutans og stórauka þarf framboð á leiguhúsnæði. Við höfum lagt áherslu á að þeir sem minna mega sín eigi að ganga fyrir lánum. Við vorum því hlynntar þeim breytingum sem gerðar voru til að draga úr lánveitingum til stóreignafólks. Við vöktum þó athygli á því að breytingarnar gengu á engan hátt nógu langt.

Þegar kaupleigufrv. kom fram lýstum við strax stuðningi við hugmyndina. Við lögðum til að frv. yrði fellt inn í þá heildarendurskoðun á húsnæðislánakerfinu sem boðuð hefur verið. Þessa afstöðu tókum við ekki síst vegna þess að fjárhagsgrundvöllur þessa nýja kerfis er óljós og ótryggur. Það eru bara svik og sýndarmennska og ekki á neinn hátt réttlætanlegt að vekja væntingar og falsvonir hjá fólki um að með þessu sé lausnin fundin á húsnæðisvandanum. Það er alveg sama hve gott kerfi er sett á laggirnar ef ekki fæst fjármagn.

Enn heyrist, þótt ótrúlegt megi virðast, að kvennalistakonur hafi ekki skoðun né áhuga á nema ákveðnum afmörkuðum málaflokkum. Þeir sem þannig tala hljóta að segja slíkt gegn betri vitund.

Það er vissulega rétt að við höfum lagt aðaláherslu á mál sem hafa orðið út undan hjá þeim sem hingað til hafa verið við stjórnvölinn. Það breytir þó ekki því að við tökum afstöðu til allra mála út frá okkar eigin forsendum. Okkar markmið er að gera viðhorf, reynslu og menningu kvenna að stefnumótandi afli í þjóðfélaginu, ekki síður en reynslu, menningu og viðhorf karla. Markmið Kvennalistans verður ekki að veruleika nema aðstæður og kjör kvenna batni og áhrif þeirra í stjórn samfélagsins aukist. Þetta er okkar pólitík.

Góðir áheyrendur. Róm var ekki byggð á einum degi. En það er hægt að brenna hana á einni nóttu. Ríkisstjórnin hefur brennt upp góðærið sem hún fékk í arf og logarnir hafa leikið um þá sem síst skyldi. Snúa þarf frá þessari eyðingarstefnu og hefja uppbyggingarstarf um land allt. Kvennalistinn er reiðubúinn að leggja hönd á plóg. Konurnar þekkja grasrótina og heimilishaginn, utan húss og innan. Á þeirri reynslu þarf þjóðfélagið að halda.