10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 866 í B-deild Alþingistíðinda. (529)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég sé að nú þegar 2/3 af fyrirhuguðum fundartíma þessarar deildar eru liðnir er enn vel setinn bekkurinn. Hér er a.m.k. góðmennt og ég gleðst sérstaklega að sjá hæstv. félmrh. hér á meðal okkar þegar tekið er til umræðu frv. til laga um breyt. á lögum nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vek athygli virðulegs forseta á því að kannski átta menn sig ekki á því að nýtt mál sé komið á dagskrá, en hugsanlega hefur virðulegur forseti gert mönnum viðvart með hringingu að svo sé. Ég vænti þess að þetta sé áhugamál fleiri af mínu kyni en hér sitja á bekkjum þó að allir séu þeir — ekki er við þá að sakast eins og virðulegur forseti Sþ. minnir okkur oft á þegar hann finnur að fjarvistum manna, að hann sé ekki með tiltal til þeirra sem viðstaddir eru. (Forseti: Ég ætla, af því að hv. flm. minnti á það, að gefa merki um að annað mál sé komið á dagskrá. Það hafði ég ekki gert. Væntum við þess að einhverjir muni hlýða þessu kalli sem ég veit að eru hér í húsinu þó að þeir sitji ekki hér á bekkjum.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir að hafa tekið undir mitt ákall um það því að við vitum það þm. að það getur verið gott að átta sig á þegar þáttaskil verða hér í umræðum.

Réttindabarátta kvenna á öldinni, sem við lifum á, sýnir okkur að hún verður ekki farsællega til lykta leidd með lögum einum saman, hvað þá í hátíðaræðum. Þó viljum við ekki missa lögin og það skjól sem þau veita. Sannarlega marka lög áfangann í baráttu fyrir ákveðnum málum og málefnum í okkar samfélagi. Þegar konur fengu fyrst viðurkenndan kosningarrétt til Alþingis árið 1915 var hann miðaður við 40 ára aldur, en það aldursmark átti að lækka um eitt ár árlega og konur að ná jöfnum rétti á við karla að 15 árum liðnum, en þá var almennur kosningarréttur miðaður við 25 ára aldur.

Ég sé ástæðu til þess að rifja upp þetta ákvæði sem er að finna í stjórnskipunarlögum um breytingu á stjórnarskrá um hin sérstaklegu málefni Íslands sem samþykkt voru 1915. Það var ætlaður, sem sagt, 15 ára aðlögunartími fyrir konur undir fertugu til þess að hafa vit væntanlega að mati þáverandi valdamanna í samfélaginu til þess að taka þátt í kosningum til Alþingis og fá jafnrétti á því sviði á við karla. Þetta þykir sjálfsagt undarleg lagabót svona horft til baka, svo sjálfsagður sem jafn kosningarréttur kynjanna þykir nú á dögum. Samt eru konur aðeins um 20% þm. í aðalsætum á Alþingi Íslendinga, en varamannabekkurinn vekur vissulega vonir um að einnig á þessu sviði geti verið betri tíð í vændum þótt hægt gangi.

Árið 1961 voru sett fyrstu heildarlögin um launajöfnuð kvenna og karla og 12 árum síðar, 1973, lögin um Jafnlaunaráð, en samkvæmt þeim skyldu konum greidd jöfn laun á við karla fyrir sambærileg störf og atvinnurekendum gert óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Sannarlega voru þetta lagabætur. En blasir ekki óréttlætið og mismununin gagnvart konum hvað skýrast við í launamun, duldum og sýnilegum, á vinnumarkaðinum? Miðað við þá einstaklinga í okkar samfélagi sem vinna heilan vinnudag liggja fyrir um það tölulegar upplýsingar að munurinn á launum, launafúlgunni sem rennur annars vegar til karla og hins vegar til kvenna, sé hlutfallslega 40%. Þetta hefur verið dregið fram í könnun sem mikið var rekið á eftir hér á Alþingi og nú er búið að setja nýja nefnd, sem er góðra gjalda vert, til þess að reyna að átta sig á því hvernig í ósköpunum stendur á þessu. Hvernig stendur á þessu? Við vitum ekki svörin við því enn. Við höfum þau ekki fyrir framan okkur. Lögin um jafnrétti kvenna og karla frá 1976 eru og voru einnig talin réttarbót eins og endurbótin sem á þeim var gerð undir lok kvennaáratugar Sameinuðu þjóðanna með samþykkt laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt síðasttöldu lögunum, þeim sem nú eru í gildi, er tilgangurinn með lagasetningunni „að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum“, eins og það heitir í texta laganna og heimilaðar eru sérstakar tímabundnar aðgerðir til að bæta stöðu kvenna og koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna.

Ég minni, herra forseti, á þessa áfanga í lögformlegri réttindabaráttu kvenna um leið og ég mæli fyrir breytingu á einni grein jafnréttislaganna sem við köllum svo, laganna frá 1985, til að leggja áherslu á það viðhorf að bókstafurinn er eitt og framkvæmdin annað. Lög eru aðeins viðspyrna og lítils virði nema þeim sé fylgt eftir með pólitískum vilja til framkvæmda og í þau sé blásið lífsanda af þeim sem ætlað er að njóta þeirra. Annars er hætt við að þau verði dauður bókstafur.

Frv. sem ég flyt ásamt hv. 13. þm. Reykv., Guðrúnu Helgadóttur, er breyting á lögunum nr. 65 frá 1985, efnislega fyrst og fremst viðauki við 12. gr. laganna, sem gerð er tillaga um að orðist svo með leyfi forseta:

„Leitast skal við að hafa sem jafnasta tölu fulltrúa beggja kynja í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum ríkis, sveitarfélaga og félagasamtaka.

Í nefndum, stjórnum og ráðum, sem skipuð eru beint af ráðuneytum eða á vegum opinberra stofnana og fyrirtækja, skulu ekki vera færri en 40% af hvoru kyni. Gildir það bæði um aðalmenn og varamenn.

Því aðeins er heimilt að gera undanþágu frá þessari reglu að sérstakar ástæður séu fyrir hendi sem geri það augljóslega ósanngjarnt að miða við slíka skiptingu og skal rökstuðningur þar að lútandi liggja fyrir Jafnréttisráði þegar ákvörðun er tekin.

Sveitarfélög skulu tilkynna Jafnréttisráði um nefndir, stjórnir og ráð sem kosin eru eða tilnefnd á þeirra vegum. Jafnréttisráð sendir sveitarstjórn athugasemdir ef það telur að ekki séu uppfylltar kröfur samkvæmt þessari grein. Sveitarstjórn getur að fengnum athugasemdum Jafnréttisráðs kosið eða tilnefnt á ný enda gangi það ekki gegn ákvæðum í öðrum lögum.“

Þetta er aðalgrein frv. sem ætlast er til að öðlist þegar gildi eftir að hafa hlotið samþykki.

1. mgr. skv. 12. gr. frv. er óbreytt frá gildandi lögum nema felld eru niður í lok málsgreinar orðin „þar sem því verður við komið“. Þetta er varnagli sem miðað við undanþáguákvæði sem hér eru byggð inn telst vera óþarfur að mati okkar flm.

Meginákvæði frv. eru að koma inn lagastoð til að tryggja aukinn hlut kvenna í stjórnum, nefndum og ráðum frá því sem nú er. Í þeim tilgangi er kveðið á um að ekki skuli vera færra en 40% af hvoru kyni þegar ráðuneyti, opinberar stofnanir og fyrirtæki geta haft úrslitaáhrif á samsetningu í slíkum nefndum eða ráðum. Að sama marki á að stefna á vegum sveitarfélaga, m.a. með bættum samskiptum sveitarstjórna og Jafnréttisráðs og íhlutunarrétti Jafnréttisráðs eins og fram kemur í tillgr.

Skv. 3. mgr. er heimild til undanþágu ef sérstakar og gildar ástæður eru fyrir hendi. Þá er m.a. haft í huga varðandi hugsanlegar undanþágur að vinnumarkaðurinn er mjög kynskiptur. Það gæti t.d. talist ósanngjarnt að karlar væru full 40% í nefnd sem fjalla ætti um málefni sem nær eingöngu snertu starfsvettvang eða aðstöðu kvenna. Ég nefni til kynskiptar starfsgreinar eins og hjúkrunarstarfsmenn þar sem konur eru í yfirgnæfandi meiri hluta, nánast 100%, tæp þó ef allt er talið. Frá slíkum frávikum ber hins vegar að skýra opinberlega og kynna Jafnréttisráði málavöxtu áður en ákvörðun er tekin.

Ég vil geta þess, herra forseti, að við mótun frv. sem hér er til umræðu horfðum við flm. talsvert til norskra lagaákvæða um hliðstætt efni, ákvæða sem tekin voru upp í norsku jafnréttislögin sem samþykkt voru 1978, en þessi nýju ákvæði, sem varða einmitt efnislega hið sama og hér er gerð tillaga um, voru samþykkt á árunum 1981 og 1983. Þar er t.d. gert ráð fyrir að í nefndum með fjórum fulltrúum eða fleiri eigi hvort kyn a.m.k. tvo fulltrúa. Það er nánast það hlutfall sem hér er lagt til grundvallar. Samkvæmt norsku lögunum er einnig undantekningarlaust gert ráð fyrir að í öllum nefndum eigi bæði kyn fulltrúa. Þar er einnig að finna undantekningarákvæði ekki ósvipað og hér er gerð tillaga um og þessi ákvæði gilda ekki varðandi nefndir eða ráð sem samkvæmt lögunum eiga aðeins fulltrúa kosna af samkundum sem kosið er til með beinum hætti. Væntanlega er það Stórþingið norska sem þar er átt við og kannske hliðstæðir aðilar. Ákvæði varðandi sveitarfélög eru ekki ósvipuð í norsku lögunum en ég er ekki að rekja það hér sérstaklega. Þetta er 21. gr. norsku jafnréttislaganna sem hv. þm. hafa færi á að kynna sér og sú þingnefnd sem ég legg til að fái þetta mál til meðferðar.

Í grg. og fylgiskjölum með frv. er rakin staða kynjanna varðandi núverandi hlut þeirra í stjórnum, ráðum og nefndum á vegum ríkis og sveitarstjórna, svo og í stjórnum launþegasamtaka og hjá atvinnurekendum, þ.e. hjá Vinnuveitendasambandi Íslands og nokkrum félögum innan þess. Í þessum efnum liggja fyrir nýlegar upplýsingar og samantektir frá Jafnréttisráði sem kynntar hafa verið opinberlega ekki alls fyrir löngu. Tilefni þeirrar upplýsingaöflunar er m.a. að kanna framkvæmd á áðurnefndum ákvæðum 12. gr. gildandi jafnréttislaga og einnig er þar gerður samanburður á þróun sl. áratug, þ.e. frá árinu 1976 að telja.

Í grg. er rakið í samþjöppuðu formi það sem kemur fram ítarlegar í fylgiskjölum með þessu frv. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á að lesa það upp í einstökum atriðum vegna þess að áhugi er sýnilega á því að ræða þetta mál en minni á það að samkvæmt yfirliti Jafnréttisráðs voru hjá ríkinu ekki nema 12% fulltrúa í stjórnum, ráðum og nefndum kosnum af Alþingi konur og hlutur kvenna hafði batnað óverulega frá árinu 1976 að telja, samanburður að vísu ekki óyggjandi í þessum efnum vegna ákveðinna breytinga á forsendum, en sem sagt, ekki í raun marktækur munur svo að teljandi sé.

Varðandi hlut kvenna í nefndum og stjórnum á vegum borgar- og bæjarstjórna er gerður samanburður við árið 1974. Þar er vissulega hjá Reykjavíkurborg og 22 kaupstöðum eða bæjarfélögum, sem yfirlit er gefið um, um verulega fjölgun að ræða, marktæka, nánast tvöföldun, úr 14% í 27,4%, varðandi fulltrúa í þessum nefndum en í tæplega helmingi nefnda var alls engar konur að finna. Það kemur fram mjög áberandi greining eftir málaefnaflokkum sem út af fyrir sig þarf ekki að teljast mjög óeðlilegt.

Það er einnig athyglisvert að hlutur kvenna í nefndum sem kosnar eru af bæjarstjórnum og borgarstjórn í Reykjavík er mun lægri í nefndum og ráðum en í stjórnunum sjálfum. Konur eiga þó orðið í þessum 23 sveitarfélögum á bilinu 37–40% fulltrúa sem er auðvitað veruleg framför frá því sem var fyrir áratug. En fjöldi fulltrúa í nefndum og ráðum sem kosnar eru af viðkomandi bæjarstjórnum er verulega lægri eða á bilinu 24–32%. Það er auðvitað ánægjuefni fyrir mig að sjá það í þessum talnagögnum að mín heimabyggð er talin í nokkrum sérflokki varðandi þessa stöðu, ánægjuefni og ánægjuefni ekki, þ.e. að sú staða liggur fyrir að þar eru þessi mál í skaplegu horfi, konur í meiri hluta nú í bæjarstjórn í Neskaupstað og hlutur þeirra í ráðum og nefndum yfir 40% að mig minnir, eða yfir því marki sem hér er lagt sem mælikvarði, en það er hins vegar ekki ánægjuefni að hluturinn skuli vera jafnlakur víða annars staðar og raun ber vitni. Alveg sérstaklega hlýt ég að vísa til þess hversu hlutur kvenna er rýr í því sem kallast æðri stöður eða embætti á vegum sveitarfélaganna og það er það sem liggur fyrir í okkar samfélagi almennt. Tölurnar einar, höfðatalan, segja ekki hálfa sögu í þessum efnum ef litið er til þess á hvaða valdapóstum, svo notað sé kannski ekki mjög vandað orðfæri, karlarnir sitja í samfélaginu og völd þeirra og áhrif þar af leiðandi miklu meiri en svarar til þeirra hlutfallstalna sem ég er hér að nefna.

Það er í grg. einnig vísað til stöðunnar hjá launþegasamtökunum og Vinnuveitendasambandinu og kemur fram að hjá launþegasamtökunum eru þessi mál misjafnlega á vegi stödd, mjög þokkalega hjá Bandalagi háskólamanna og BSRB, heldur lakar ef litið er til ASÍ, þó þokkalega í stjórnum einstakra sambanda innan Alþýðusambandsins, en ekki að sama skapi í stjórnum og ráðum innan Alþýðusambandsins. Þar er hluturinn lakari en svarar til hlutfalls kvenna í stjórnum svæðasambanda innan Alþýðusambandsins.

Ef litið er til Vinnuveitendasambands Íslands er nánast um eyðimörk að ræða á þessu sviði og kemur kannski ekki alveg á óvart þeim sem hér talar miðað við valdaáhrifin, völd karla í samfélaginu og sérstaklega á því sviði sem horfir til fjárráða og fjármagnsins og yfirstjórnar þess, sem eru kannski lykilatriðin í þessu samfélagi þegar allt kemur til alls.

Ég minni á það, herra forseti, að staða kvenréttindamála eða viljum við kalla það kvenfrelsismála og jafnréttis kynjanna var rædd talsvert hér á Alþingi sl. vetur. Tilefnið var m.a. skýrsla félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála, þáv. félmrh. Alexanders Stefánssonar, og skýrsla hans um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfsreynslu, svo og skýrsla sama ráðherra, væntanlega fyrir hönd þáv. ríkisstjórnar, um framkvæmdaáætlun þeirrar stjórnar eins og hún lagði hana fyrir til fjögurra ára um aðgerðir til að ná fram jafnrétti kynjanna.

Flm. þessa frv. og þm. Kvennalistans gagnrýndu margt í þessum umræðum að ég man. Ég var í hópi þeirra sem töldu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar allt of veikburða og ómarkvissa, en þó voru vissulega þar inni ýmis atriði sem horfðu til bóta og hæstv. núv. félmrh. hefur tekið þau upp í erindi sem kynnt er í fskj. með þessu frv., í sérstöku erindi til ríkis, til ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja ríkisins, og er þar að finna á bls. 18–19 og kem ég aðeins að því á eftir. Það sem þar kemur fram, í bréfi hæstv. ráðherra frá 22. júlí 1987, er vissulega góð viðleitni og ég vona að hlutaðeigandi, þ.e. konur sem ætlað er að njóta þess sem þar er lagt til, eigi eftir að uppskera nokkuð af þeirri áherslu sem þar er lögð af framkvæmdarvaldsins hálfu á að bæta stöðuna án þess að til lagaboða komi. Ég vænti sannarlega að svo verði í reynd og ég hef enga ofurtrú á lagabókstaf einum saman, en hins vegar tel ég tryggara, og ég vænti að hæstv: ráðherra sé mér sammála um það, enda þekki ég það af málflutningi ráðherrans á meðan hún var óbreyttur þm. í þessari deild og í sameinuðu þingi að áherslur hennar féllu mjög í þá átt einmitt, að styrkja lagagrunninn í jafnréttismálum.

Í niðurlagi þessa erindis frá hæstv. ráðherra, sem ráðherrann kannski víkur sérstaklega að hér og er ástæðulaust fyrir mig að fara um mörgum orðum, kemur fram sérstök ósk til þeirra sem bréfinu er beint til að gert verði átak til að ná þeim markmiðum sem tilgreind eru í þessu erindi og ætlunin að fylgja því máli eftir.

Ég vil, herra forseti, áður en ég lýk senn máli mínu minna á ákvæði alþjóðasamningsins um afnám allrar mismununar gagnvart konum, samnings sem samþykktur var af Alþingi 13. júní 1985 og staðfestur af ríkisstjórn nokkrum dögum síðar. Þessi samningur hefur lagagildi hérlendis. Í 2. og 4. gr. hans er að finna atriði sem tengjast því máli sem hér er flutt. Þar segir m.a., með leyfi forseta, að gert sé ráð fyrir að „aðildarríkin hlutist til um án tafar að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að afnema misrétti gagnvart konum af hálfu einstaklinga, stofnana og fyrirtækja og gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til að breyta og afnema gildandi lög, reglugerðir, venjur og starfshætti sem fela í sér mismunun gagnvart konum“. Í 4. gr. þessa samnings er m.a. kveðið á um svonefnda jákvæða mismunun sem sérstakar bráðabirgðaráðstafanir sem miði að því að flýta fyrir að raunverulegt jafnrétti kvenna og karla náist. Ég hef reynt að ýta á eftir úttekt á þessum samningi og að við ákvæði hans sé staðið með markvissu starfi hjá okkur og ég minni á að Ísland var meðflutningsaðili að tillögu sem samþykkt var í efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland á sæti í sem fulltrúi Norðurlanda, líklega síðasta árið núna, að skv. þeirri till. lagði efnahags- og félagsmálaráðið sérstaka áherslu á í samþykkt vorið 1986 að aðildarríkin standi stranglega við skuldbindingar sínar skv. samningnum. Ísland er í hópi flytjenda. Ég held að það skorti ansi mikið á að það starf sé í gangi sem þyrfti að vera til að uppfylla þær kvaðir sem þessi samningur, sem hér var samþykktur samhljóða að tillögu utanrmn., að það starf sé í gangi þó að við skulum vænta þess að eitthvað sé verið að sinna því og ég treysti hæstv. félmrh. sannarlega til að gefa þeim málum gaum.

Ég vil svo, herra forseti, að lokum minna á það, sem hér hefur komið fram í mínu máli, að allt of hægt miðar að því að tryggja aukin áhrif kvenna á opinberum vettvangi og þess vegna er frv. hér flutt sem eitt af mörgum tækjum sem beita þarf til þess að komast þar úr sporum. Með ákvæðum frv. er leitast við að auka áhrif kvenna á stefnumörkun á ýmsum sviðum og á framkvæmd opinberra mála. Okkur flm. er þó ljóst að slík formleg aðild ein saman hrekkur skammt og jafnhliða þarf m.a. hlutur kvenna í ábyrgðarstöðum að vaxa til mikilla muna frá því sem nú er.

Aðstaða kvenna til virkrar þátttöku í félagsstörfum er enn mun lakari en karla, m.a. vegna þess að samfélagið tekur ekki nema mjög takmarkað tillit til móðurhlutverksins og ójöfn verkaskipting á heimilum gerir konum yfirleitt erfitt um vik að helga sig félagsmálum til jafns á við karla. Það er skoðun okkar að vinna beri að því að auka áhrif og réttindi kvenna á sem flestum sviðum þjóðlífsins. Sem jöfnust þátttaka kynjanna á opinberum vettvangi er mikilvægt markmið sem stuðningur fengist við með lögfestingu þessa frv.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. félmn. þessarar deildar.