03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7251 í B-deild Alþingistíðinda. (5290)

Almennar stjórnmálaumræður

Stefán Guðmundsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þær stórkostlegu breytingar sem gerst hafa á Íslandi á sl. tveim áratugum hefur tekið aðrar þjóðir aldir að ganga í gegnum. Einangrun lands og þjóðar hefur verið rofin og nú heyrum við það æ sjaldnar en áður að Ísland liggi á mörkum hins byggilega heims. Sókn til bættra lífskjara í landinu byggist á því að veruleg nýsköpun eigi sér stað í atvinnulífinu. Sú nýsköpun verður að sjálfsögðu einnig og ekki síður að ná til hinna hefðbundnu atvinnuvega okkar. Þar sem annars staðar eru ónýttir möguleikar til aukinnar verðmætasköpunar.

Eitt af því allra nauðsynlegasta hvað þetta varðar er að efla markaðsleit. Við þurfum að fá ungt fólk til að fara í hagnýtt nám og kynnast tækninýjungum og framförum annarra þjóða og kynnast neysluvenjum þeirra. Það er afar áríðandi í þessari markaðsvinnu að hugsa að utan og heim en ekki öfugt, eins og einn ágætur maður orðaði svo vei.

Vegna þeirra miklu umræðna sem fram fara nú í þjóðfélaginu um byggðamál er nauðsynlegt að menn átti sig á þeim breytingum sem hafa verið að gerast í landinu, ekki bara í gær og í dag. Það er nauðsyn að nálgast málið með meiri víðsýni og reyna að leita að orsökum þess sem við er að fást. Þá fyrst, ef við þekkjum orsakir aðsteðjandi vanda, er ástæða til að ætla að við getum leyst hann.

Ef við lítum á atvinnuskiptingu þjóðarinnar má glögglega sjá hvað hefur verið að gerast í sveitum landsins og hinum ýmsu framleiðslubyggðarlögum. Árið 1960 unnu um 16% vinnuafls þjóðarinnar í landbúnaði, en árið 1986 var það komið ofan í 6%. Árið 1960 unnu um 18,3% af vinnuafli þjóðarinnar við fiskveiðar og -vinnslu. Árið 1986 eru ekki nema um 13% sem þar starfa. Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt í mannafla jókst framleiðsla þessarar greinar alveg ótrúlega mikið.

Svona er málið í hnotskurn. Þeim fer sífellt fækkandi sem að framleiðslu starfa. Sífellt stærri hluti af aflafé þessara framleiðslugreina og framleiðslu byggðarlaga fer til að standa undir aukinni samneyslu. Nú er svo komið að undirstöðuatvinnugreinar þjóðarinnar eru að sligast undan þessum álögum. Það er frá þessum sjónarhól sem rétt er að skoða vanda landsbyggðarinnar og leita leiða til að tryggja búsetu í landinu þannig að okkur takist að nýta sem best gögn þess og gæði.

Með þátttöku sinni í þessari ríkisstjórn vildu framsóknarmenn leggja sig fram um að verja það velferðarþjóðfélag sem hér hefur verið byggt upp. Það er mikill misskilningur að halda að hamingjan verði aðeins höndluð í höfuðborginni.

Nú í þinglok er ekki óeðlilegt að spurt sé: Var það röng ákvörðun hjá Framsfl. að ganga til stjórnarsamstarfs við Sjálfstfl. og Alþfl. eftir síðustu kosningar? Framsfl. gekk til þessa stjórnarsamstarfs með það í huga að haldið yrði áfram á þeirri braut sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar markaði, að ná niður verðbólgu og tryggja rekstrargrundvöll atvinnuveganna með viðskiptajöfnuð að markmiði.

Því miður verður að viðurkenna að þessi ríkisstjórn hefur ekki náð þeim árangri sem vænst hafði verið í þessum efnum. Verðbólgan er enn allt of há. Rekstrargrundvöllur atvinnufyrirtækjanna er vægast sagt bágborinn og nú stefnir í meiri viðskiptahalla en nokkru sinni. Þetta ástand er óþolandi og í algerri mótsögn við upphafleg stefnumið þessarar ríkisstjórnar. Ef svo heldur fram sem horfir með auknum erlendum lántökum og vaxandi viðskiptahalla gæti komið að því að menn færu að spyrja að nýju: Hver á Ísland?

Það þarf heldur ekki að halda ráðstefnur þar sem menn hittast og spyrja hver annan hvort lánsféð sé of dýrt á Íslandi. Það er nær að spyrja framkvæmdastjóra fyrirtækjanna, sem eyða nú allt of löngum tíma frá stjórnun fyrirtækja sinna í biðstofum bankastjóranna, um fjármagnskostnaðinn og vextina.

Það er tímasóun að reyna að telja Íslendingum trú um að lausn aðsteðjandi vanda sé e.t.v. í því fólgin að fjármögnunarfyrirtækin og álíka aðilar geti farið að kaupa fiskinn óveiddan í sjónum. Við skulum leyfa sjómönnum okkar að sjá um þann þáttinn enn um stund. Aðrir munu ekki duga þar betur. Það er hins vegar nærtækara fyrir þingmenn og ráðherra að einbeita sér að því að koma böndum á erlenda skuldasöfnun og margs konar skattsvik.

Ljóst er að undirstöður stjórnarsamstarfsins verður að treysta. Framsfl. mun hins vegar ekki hlaupast undan þeirri ábyrgð sem hann tók með þátttöku í þessari ríkisstjórn. Mörg mál sem þessi ríkisstjórn hefur borið fram og til heilla horfa hafa þegar verið afgreidd, önnur eru í umfjöllun og enn fleiri liggja á teikniborðinu. Framsóknarmenn eru tilbúnir að leggja sig fram um að leysa aðsteðjandi vandamál. Þeir erfiðleikar sem nú sækja að eiga að sameina menn til aðgerða. Af því munu menn vaxa.