03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7255 í B-deild Alþingistíðinda. (5292)

Almennar stjórnmálaumræður

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Fyrir fáeinum dögum vorum við hér í þessum sögufræga sal og ræddum stjórnmálaástandið í áheyrn og augsýn alþjóðar. Tilefnið var tillaga stjórnarandstæðinga um að Alþingi lýsti vantrausti á ríkisstjórnina. Örlög þeirrar vanhugsuðu tillögu eru öllum kunn, hún kolféll. En samt var umræðan um vantraustið gagnleg. Hún var gagnleg vegna þess að hún sýndi þjóðinni hve fátæklega stjórnarandstaðan er til fara þegar litið er til málefnanna. Stjórnarandstaðan getur bara gagnrýnt og meira að segja það gerir hún ekki mjög vel. Þessi umræða var gagnleg vegna þess að hún sýndi þjóðinni og sannaði að hér situr nú sterk ríkisstjórn með skýr markmið, skýra stefnu.

Þeim flokkum sem nú skipa stjórnarandstöðuna eru mislagðar hendur um flest. Í sumar ýmist gátu þeir ekki, vildu ekki eða þorðu ekki að axla ábyrgð og stjórna landinu. Nú láta þeir hins vegar sem þeim séu allar götur greiðar. Svo er þó sannarlega ekki og það vitum við öll.

Nú skal ég, hlustendur góðir, nefna ykkur bara eitt dæmi um málflutning stjórnarandstöðunnar og hversu merkilegur hann er. Þeir borgaraflokksmenn lögðu fram till. til þál. hér á dögunum um að byggðar yrðu 1050 leiguíbúðir. Gott og vel, en lesum þessa tillögu til enda. Einhvers staðar þarf jú að taka peningana. Og hvað stendur hér? „Ríkisstjórnin gerir tillögur um fjármögnun.“ Svart á hvítu. Þessi sama ríkisstjórn og þeir borgaraflokksmenn stóðu að að flytja vantraust á hér á dögunum með hinum stjórnarandstöðuflokkunum. Borgaraflokkurinn treystir sér ekki til að gera tillögu um fjármögnun eigin tillögu, en treystir ríkisstjórninni til að gera það. Þeir treysta sér ekki til mikilla verka, þeir borgaraflokksmenn. (Gripið fram í: Búnir að því.) Er nema von að almenningur spyrji: Hvers konar rugl er þetta eiginlega? Því að rugl er það og ekkert annað.

Hv. þm. Hreggviður Jónsson sagði hér áðan orðrétt: „Hin farsæla fjármálastjórn Alberts Guðmundssonar.“ Nú er mér ekki alveg ljóst hvort hann átti við Hafskip eða Útvegsbankann, nema þá að hvort tveggja væri sem vel má vera.

En nú ætla ég að segja ykkur svolitla sögu. Daginn fyrir kosningarnar í fyrra kom ég á vinnustað vestur á Snæfellsnesi þar sem verið var að ræða frammistöðu stjórnmálaforingjanna í sjónvarpi kvöldið áður. Einhverjum þótti fulltrúi Kvennalistans hafa staðið sig nokkuð vel. En þá sagði ung stúlka sem var að kjósa í fyrsta sinni: „Já, en hún sagði ekki neitt. Hún bara spurði hina.“ Unga stúlkan hitti naglann á höfuðið. Þingmenn Kvennalistans geta verið einkar lagnir að spyrja, en séu þær spurðar verður fátt um svör. Hvar á að taka peningana til að gera öll hin góðu verk? Engin svör. Þær hafa ekki einu sinni þá hugkvæmni Borgaraflokksins að leggja til að ríkisstjórnin fjármagni það sem þær vilja láta gott gera. Það eru bara engin svör. Auðvitað er það pólitík út af fyrir sig en ég held að það sé ekki mjög góð pólitík.

Fylgi Alþb. heldur nú áfram að minnka undir nýrri forustu. Formaður Alþb. biður um gengislækkun á síðum Morgunblaðsins og Kvennalistinn og Borgaraflokkur taka undir. Gengislækkun er launalækkun og gengislækkun er ekki lækning, það vitum við vel. Ef svo væri, þá væru þessi mál sannarlega einföld. Alþb. biður um gengislækkun, takið eftir því.

Það er eins í þjóðlífinu og í lífi okkar hvers og eins, að þar skiptist á meðbyr og mótbyr. Nú um sinn höfum við hreppt mótbyr, Íslendingar. Ytri aðstæður ýmsar eru okkur óhagkvæmar og ýmsa af þeim erfiðleikum sem nú blasa við höfum við gert okkur sjálf með óskynsamlegri efnahagsstjórn og vitlausri fjárfestingu. Það kom strax í ljós í kringum kosningarnar í fyrra að erfiðleikarnir í þjóðarbúskapnum voru mun meiri en látið hafði verið í veðri vaka og síðan höfum við orðið fyrir enn nýjum áföllum.

Ríkisstjórnin hefur nú starfað í rétta 10 mánuði. Frá því að þing kom saman í haust hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar flutt um 80 stjórnarfrumvörp. Nú segja tölur ekki allt í þessu sambandi, langt í frá. Engu að síður hygg ég að það sé staðreynd að þessi ríkisstjórn hefur komið meiru í verk á 10 mánuðum en sumar aðrar á heilu kjörtímabili.

Þegar ríkisstjórnin tók við voru menn sammála um að tekjuöflunarkerfið væri í molum, skattkerfið hriplekt og kannski handónýtt. Þar hefur verið tekið til höndum og ekki allt ráðstafanir sem eru til vinsælda fallnar, víst er um það, en nauðsynlegar ráðstafanir, ráðstafanir sem varð að gera. Staðgreiðsla skatta, breytingar á söluskatti sem undanfari virðisaukaskatts sem verður nú að lögum og tekur gildi um mitt næsta ár, ný tollalög, margháttaðar umbætur á dómskerfinu, aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði er í vændum. Lög verða sett um kaupleiguíbúðir, mikið hagsmunamál fyrir landsbyggðina. Það mál nær fram að ganga, enda þótt vissulega hafi verið reynt að bregða fyrir það fæti.

Svik og sýndarmennska, sagði hv. þm. Kristín Einarsdóttir, þm. Kvennalistans, hér áðan í sambandi við kaupleigukerfið. Ég vil vekja athygli á því að á fjárlögum eru ætlaðar 273 millj. til kaupleigukerfisins á þessu ári. Þær kvennalistakonur verða að lesa þau fjárlög sem Alþingi samþykkir og þær eiga að láfa Jóhönnu Sigurðardóttur félmrh. njóta sannmælis. Þær væru meiri menn að.

Annað mál mætti nefna hér, sem er löggjöf um framhaldsskóla sem verður væntanlega að lögum á þessu þingi. Fleira mætti svo sannarlega til taka þótt hér verði látið staðar numið.

Eins og ég nefndi áðan hafa ekki allar ráðstafanir verið til vinsælda fallnar. En þegar menn axla ábyrgð er það gjarnan svo að það verður að gera fleira en gott þykir. Þess sjást nú þegar merki að ýmis verk ríkisstjórnarinnar eru farin að bera árangur. Það sést m.a. á nýjum tölum um batnandi ríkisbúskap og betri skattskil.

En þótt margt stefni nú til réttrar áttar er kannski enn fleira ógert. Mikil vandamál blasa við í útgerð og fiskvinnslu. Gengislækkun er þar engin allsherjarlausn. Gengislækkun ein og sér, hvað er hún? Hún er ávísun á verðbólgu, kaupmáttarskerðingu og þyngri greiðslubyrði af lánum. Við verðum að bæta nýtingu framleiðslutækjanna í sjávarútvegi þannig að hann skili betri tekjum og geti greitt fiskvinnslufólki betri laun. Við lifum nú mikla breytingatíma og því aðeins getum við treyst grundvöll velferðarríkisins á Íslandi að hafist verði handa um róttæka endurskipulagningu atvinnulífsins.

Öllum þykir okkur með ýmsum hætti vænt um okkar ágætu höfuðborg, en öllum þykir okkur sjálfsagt vænna um landið okkar. Við viljum ekki borgríki við Faxaflóa og eyðibyggðir út um land. Það hallar og hefur hallað á landsbyggðina. Ævintýraleg fjárfesting í verslunarhúsnæði á Reykjavíkursvæðinu er ekki það sem þessi þjóð þarf núna. Og þegar ein Kringlan er risin ætlar borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík að reisa aðra, skopparakringlu, efst á Öskjuhlíðinni fyrir eins og 500 eða 600 millj. kr. Þetta er að gefa landsbyggðinni langt nef.

Eitt mikilvægasta verkefnið í landsstjórninni nú er að tryggja búsetu, bæta lífskjör og efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Óheillaþróun undanfarinna ára verður ekki umsnúið á einni nóttu. Þar verður í góðu samráði við sveitarfélögin að fylgja fram breyttum verkaskiptingarreglum sem skammsýni náði að stöðva um sinn, bæta fjármagnsþjónustu á landsbyggðinni og dreifa ríkisstofnunum meira um landið en nú er gert.

Í landbúnaði stendur nú yfir erfiður aðlögunartími, aðlögun að breyttum aðstæðum, aðlögun sem hófst allt of seint. En þegar við ræðum vanda landbúnaðarins erum við ekki bara að tala um peninga, prósentur og hagstærðir. Við erum líka að tala um fólk og sú staðreynd má aldrei gleymast eitt einasta augnablik. Stjórnmál snúast ekki aðeins um að leysa knýjandi verkefni líðandi stundar þótt þannig kunni stundum að líta út. Stjórnmál snúast um framtíðarsýn, um betra mannlíf, um mannúð og menningu. Þau snúast líka um vonina um samfélag:

Þar einskis manns velferð er volæði hins

né valdið er takmarkið hæst

og sigurinn aldrei er sársauki neins,

en sanngirni er boðorðið æðst.

Fáir hafa orðað þessa hugsun betur en íslenski bóndinn á sléttunum í skjóli Klettafjalla.

Það er kjarninn í stefnu okkar jafnaðarmanna að skapa hér samfélag um mannúð og menningu, velferðarríki sem ber fyrir brjósti hag hinna öldruðu og þeirra sem minna mega sín í samfélaginu.