03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7258 í B-deild Alþingistíðinda. (5293)

Almennar stjórnmálaumræður

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Í veikindaforföllum Aðalheiðar Bjarnfreðsdóttur, hv. 16. þm. Reykv., hef ég tekið að mér að tala í hennar stað. Aðalheiði er það einkar lagið að segja hlutina á þann hátt að allir skilja. Hún er vön að komast að kjarna málsins með fáum en skýrum orðum. Þingmenn gætu margir lært af henni og er sá sem hér talar engin undantekning. Það sem ég segi hér á eftir reyni ég því að segja með orðalagi Aðalheiðar.

Sú ríkisstjórn sem nú er að senda þingið heim að því er virðist til að fá frið fyrir sínum eigin mönnum á sér fáa formælendur þrátt fyrir mikinn þingmeirihluta að nafninu til. Við sem sitjum hér höfum séð og heyrt hversu ósammála þeir eru innbyrðis. Oft leikur vafi á því hvort þau frumvörp sem kallast stjórnarfrumvörp hljóti samþykki.

Út í frá láta stjórnarsinnar sem allt illt er kemur frá stjórninni sé ættað frá krötum. Það má rétt vera. Mér sýnist þó að krata-Jónarnir þjóni mjög vel þeim sem nú leiða Sjálfstfl. En það er sannarlega hryggilegt þegar flokkur sem kennir sig við alþýðu manna og er kosinn á þing af alþýðufólki, skulum við ætla, lætur hafa sig í að vera í forsvari fyrir því illvirki sem matarskatturinn er. Sá skattur bitnar illa á öllum en verst þó á barnafjölskyldum, öldruðum og einstaklingum. Hvað skyldu þau hafa sagt við þessu, Haraldur og Jóhanna Egils?

Kjaramálin hafa verið í brennidepli í allan vetur. Um langt skeið hefur ríkt mikil óánægja í röðum launamanna, ekki bara með lág laun heldur hið ógnvænlega launamisrétti sem stöðugt magnast. Formaður og varaformaður Verkamannasambands Íslands geystust um landið og sögðu sínar farir ekki sléttar. Alls staðar hittu þeir fólk tendrað glóandi reiði. Meðan þeir félagar stóðu í ströngu voru lagðir þræðir milli Arnarhvols og Ísafjarðar og Vestfjarðasamningar urðu til. Þeir samningar hafa í raun ráðið ferðinni síðan í öllum þeim samningum sem á eftir hafa komið. En ekki hefur ánægjan með þá verið mikil. Sums staðar voru þeir felldir einu sinni, annars staðar tvisvar og nú síðast þröngvað upp á verslunarmenn.

Og nú á að senda þingið heim svo ríkisstjórnin geti í næði í sumar setið við sína Rómarbrennu. Ekkert bendir þó til þess að sú seta verði friðsamleg. Þótt landsbyggðarmenn í Framsfl. hafi látið undan í deilunum á miðstjórnarfundinum á dögunum eru vandamálin í dreifbýlinu óleyst. Þau vandamál eru svo krefjandi að þeim verður ekki frestað. Efnahagsvandinn er meiri en svo að hann verði leystur með einhverjum hókus, pókus aðferðum. Hann vex stöðugt þrátt fyrir þær drápsklyfjar skatta sem hæstv. fjmrh. hefur lagt á launamenn.

Stærstu kjarasamningarnir eru liðnir hjá. En hún býr enn þá í fólki, þessi rjúkandi reiði sem formaður og varaformaður Verkamannasambandsins fundu fyrr í haust. Ég hef sagt það áður á þessu þingi að sú ríkisstjórn sem kallar yfir sig þunga reiði hins almenna verkamanns mætti vara sig. Sú reiði sem fyrir var hefur ekki dvínað nema síður sé.

Ég sagði það líka þá og segi enn að eftir hartnær 70 ára baráttu verkalýðssamtakanna hefur ekki tekist að ná því marki að átta stunda vinnudagur nægi til lífsframfæris. Það sem verra er, launamisréttið í landinu er orðið hrikalegt, svo hrikalegt að það er ekki hægt að leiðrétta það í kjarasamningum.

Fyrir nokkrum árum lá fyrir Alþingi tillaga frá Stefáni Jónssyni um að ekki mætti greiða hærri laun á Íslandi en tvöföld verkamannalaun. Nú bera flokksmenn hans fram svipaða tillögu en nú um fjórföld laun og eru þá forstjóralaunin ekki reiknuð með. Hjá svona lítilli þjóð getur mikið launamisrétti ekki gengið til lengdar, það hljóta allir að sjá.

Alþýðusamband Íslands, þessi risi sem mörgum finnst hafa dormað fram á lappir sínar í lengri tíma, kallar saman til þings í haust. Ég á von á því að þaðan heyrist hvassar raddir jafnvel þótt sumarið verði notað af stjórnarherrunum til þess að leggja ekki enn frekari álögur á hinn almenna mann.

Verið er að knýja virðisaukaskatt í gegnum þingið. Hann á eftir að taka sinn grimmilega toll. Menn trúa gjarnan því sem þeir vilja trúa. Þeir eru þó fáir og fer fækkandi sem trúa því að sú ríkisstjórn sem nú situr muni bæta hag manna. Við skulum ekki gleyma því að allir flokkar sem standa að ríkisstjórninni bera jafna ábyrgð á gerðum hennar. Það er ekki hægt að vera með og á móti. Þetta skilur fólk úti á landi þótt menn sem dvelja langtímum saman erlendis, þótt í opinberum erindagjörðum sé, sjái það síður. mg hvet alla til þess að vera vel á verði í sumar og búast ekki við neinu góðu.