03.05.1988
Sameinað þing: 76. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7269 í B-deild Alþingistíðinda. (5298)

Almennar stjórnmálaumræður

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Nú er nýliðinn 1. maí. Aðgerðir og fundahöld þann dag til að styðja kröfur verkafólks hófust í Bandaríkjunum í lok síðustu aldar. Þá var fylgt eftir kröfum um átta stunda vinnudag og kostaði átök og mannfórnir. Réttum 100 árum síðar er þetta orðinn hefðbundinn baráttu- og hátíðisdagur verkafólks um víða veröld. En hverju átti verkafólk á Íslandi að fagna þennan dag? Hver eru tilefni þess til hátíðahalda?

Í hnotskurn blasir við athafnaþjóðfélag þar sem þjóðarframleiðsla á hvert mannsbarn skipar okkur Íslendingum enn í sæti sjöttu ríkustu þjóðar heims. En hverjar eru áherslurnar og hvernig skiptum við auðnum á milli okkar? Að baki þjóðarauðnum liggur mikil vinna en allt of oft lágu verði keypt. Vinnuálagið leiðir til fjarvista foreldra frá heimili og aukinnar streitu þeirra, en húsnæðisvandi er oft hvati að auknu vinnuálagi. Börnin þurfa að hafa ofan af fyrir sér sjálf, jafnvel frá unga aldri, en tilfinningaleg áhrif slíks afskiptaleysis geta orðið alvarleg og valda mörgum foreldrum stöðugri sektarkennd.

Segja má að mörg heimili séu vanbúin til að gegna hefðbundnu uppeldishlutverki vegna breyttra félagslegra aðstæðna og foreldrar hafa þegar gert eindregnar kröfur til samfélagsins um að.það taki í ríkara mæli þátt í uppeldi barna. Langt er frá að það hafi brugðist við sem skyldi og er nú mikill skortur víða um land á samastað fyrir börn þar sem þau geta unað við nám, leik og hvíld í öruggu, uppeldislega jákvæðu umhverfi.

Mörgum ógnar hve fjölmiðlar skipa stóran sess sem afþreying barna og óttast neikvæð áhrif þess efnis sem þannig berst að ómótuðum barnshugum. Mikið af myndefni því sem börn horfa á er á ensku og þar sem tími til mannlegra samskipta er oft allt of naumur gefst mörgum börnum of lítill tími til að tala við fullorðið fólk og þjálfa móðurmál sitt, en kennarar hafa veitt því athygli á síðustu árum að kunnátta grunnskólanemenda í íslensku fer minnkandi.

Þess vegna hefur Kvennalistinn flutt frv. á Alþingi um átak í uppbyggingu dagvistarheimila fyrir börn þar sem sveitarfélögum og ríkissjóði er gert að fjármagna byggingarsjóð með álagi á aðstöðugjaldsstofn. Jafnframt hefur Kvennalistinn lagt fram frv. um breytingu á grunnskólalögunum og leggur til skólaskyldu sex ára barna, lengdan skóladag allra grunnskólabarna og samræmdan vinnudag barna og foreldra, einnig máltíðir í skóla, fækkun nemenda í hverri bekkjardeild og takmörkun í stærð skólahúsnæðis.

En þessar ráðstafanir þykja of dýrar.

Hvað eru menn eiginlega að hugsa? Hvers konar verðmætamat ræður gerðum þeirra?

Þegar knýja á þingmenn til að samþykkja afleita álsamninga er settur á þá gjaldmælir og sektarkennd þeirra espuð með skírskotun til tapaðs fjár og þegar stöðva á framkvæmdir við ráðhúsbyggingu í nokkra daga er spurt: Gerið þið ykkur grein fyrir því hvað biðin kostar á hverjum degi?

En góðir þingmenn, og þá sérstaklega beini ég orðum mínum til hæstv. ríkisstjórnar: Gerið þið ykkur hina minnstu grein fyrir því hvað það kostar íslensku þjóðina að búa ekki vel að börnum sínum? Hvað kostar það okkur á hverjum degi að tryggja ekki næga dagvistun, samfelldan skóladag og aðra daglega umönnun og menningarlegt uppeldi barnanna okkar? Ár hinna glötuðu tækifæra líða nefnilega víðar en í veröld efnahagsmálanna.

Hvenær bað þjóðin um seðlabanka eða flugstöð hvað þá Kringlu, svo ég nefni nú ekki ráðhús eða veitingahús sem snýst og nú allra síðast 300 millj. kr. íþróttahöll? Fyrir hvern er öll þessi yfirbygging í þjóðfélagi sem hugar ekki að undirstöðum sínum?

Og ég vísa á bug gagnrýni hv. þm. Eiðs Guðnasonar. Kvennalistinn hefur sannarlega lagt fram tillögur til fjáröflunar og skattlagningar, en með öðrum hætti og annarri forgangsröðun en þessi ríkisstjórn. Varðandi ásakanir vegna kaupleigufrv. endurtek ég einungis að við styðjum þær hugmyndir hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, en erum uggandi og óttumst að nægilegt fé fáist ekki til þeirra framkvæmda.

Kastljósið beinist einnig að kjaramálunum þann 1. maí. Enn blasir við það þjóðarmein sem óréttlát tekjuskipting er og tekjumunurinn fer ört vaxandi. Hann greinir óðfluga að þá sem geta lifað í þessu landi af launum sínum og hina sem stíað er í hóp þeirra sem geta ekki risið undir kröfum hins daglega lífs, fullfrískir þrátt fyrir langan vinnudag. Við skulum þó ætla að verkafólkið sem barðist fyrir átta stunda vinnudegi í lok síðustu aldar hafi ætlað sér að geta lifað af þeirri vinnu. Þess sama krefst verkafólk nú.

Þau lágmarkslaun sem rædd hafa verið í kjarasamningum verslunarfólks ná ekki einu sinni áætluðum framfærslukostnaði einstaklings, sem er um 50 þús. kr., hvað þá fjölskyldu. Enn er launafólki boðið upp á að geta ekki séð sér farborða af dagvinnulaunum en gert að mæta framfærslukostnaði sínum með óhóflega löngum vinnudegi í yfirvinnu eða ákvæðisvinnu. Ef það ekki dugar eru því ætlaðar félagslegar bætur þannig að endar nái saman.

Á sama tíma berast fregnir af óheyrilegum mánaðarlaunum ýmissa forstjóra fyrirtækja þannig að láglaunamanneskjuna sundlar að líta upp eftir launastiganum og margir velta því fyrir sér hverjar þær sérþarfir geti verið sem krefjast svo mikilla launa.

Verslunin hefur notið velvildar stjórnvalda á undanförnum árum. Á höfuðborgarsvæðinu hefur hún brotist fram með ótrúlegum krafti líkt og um sprengingu væri að ræða. Birtingarmyndir hennar eiga sumar vart sinn líka meðal stórþjóðanna. Hver trúir því að hún geti ekki greitt sómasamleg laun eða byggist velgengni hennar á því að borga konum og unglingum smánarlaun? Og hvernig stendur á því að vegna lélegra kjara er víða erfitt að fá fólk til fiskvinnslu, einnar veigamestu undirstöðuatvinnugreinar þessarar þjóðar? Hvernig stendur sú þjóð sem man ekki lengur á hverju hún lifir og hirðir ekki um virðingu og sæmandi laun fyrir fiskvinnslu og að tryggja rekstur þess atvinnuvegar sem ber uppi lífskjör hennar?

Ríkisstjórnin er í gengisfellingarbindindi þó hún hafi þegar fallið einu sinni og hún vill hafa efnahagsdæmið snyrtilegt. Fyrirtækin eiga að spjara sig, finna í sér hrygglengjuna og rétta úr henni. Það á að skilja sauðina frá höfrunum. Hangið þið á ef þið viljið með, sagði vinnumaðurinn sem þótti grænar baunir vondar. En hann sneri gafflinum öfugt og þær ultu allar ofan á diskinn aftur.

Fiskvinnslufyrirtækin víða um land eru nú rekin með allt að 15% tapi. Víða bera þau uppi byggðarlög sem standa og falla með afkomu þeirra. Vissulega þarf að grisja. Vissulega þurfa fyrirtæki að bera sig, en við þurfum að hafa byggðastefnu og hvaða ráðstafanir hefur þessi ríkisstjórn og þeir nafnar alþýðuflokksráðherrarnir gert til að leysa vanda fólksins ef fyrirtækin velta ofan af efnahagsráðstafanagafflinum?

Misréttið er ekki einungis á milli einstaklinga og atvinnugreina. Það er einnig á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Fjármagnið leitar á suðvesturhornið til ávöxtunar á hinum svonefnda gráa peningamarkaði sem hefur leikið ótrúlega lausum hala og ræður miklu um vaxtastig í harðri samkeppni um sparifé og lánsfé til ævintýralegra fjárfestinga. Á eftir fjármagninu fylgir fólkið og á þessum krossmessudegi vorsins í dag blasa félagslegar og menningarlegar krossgötur við íslenskri þjóð.

Dýrkun fjármagnsins eftir forskrift frjálshyggjunnar er andstæð vilja meiri hluta þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðmálakönnun Félagsvísindastofnunar árið 1986. Meiri hluti þjóðarinnar setur samhjálp ofar sérhyggju og einkarekstri, t.d. í heilbrigðis- og skólamálum. Þær sérhyggjuleiðir sem þó hafa verið farnar af ýmsum samtökum og starfsgreinum launþega á undanförnum árum til að leita betri kjara hafa veikt verkalýðshreyfinguna og boðið heim lögmáli frumskógarins. Ávinningur hefur reynst skammgóður og sundrungin gefið svigrúm til að deila og drottna yfir kjörum launþega.

Kvennalistinn hefur gripið til þeirrar neyðarráðstöfunar í þriðja sinn að flytja frv. nú um 50 þús. kr. lágmarkslaun til að tryggja þann siðferðilega rétt hvers vinnandi manns að geta framfleytt sér af afrakstri fullrar dagvinnu. Þegar vinnuveitendur bregðast skyldu sinni getur Alþingi ekki setið hjá aðgerðarlaust.

Eins og fram kom í stjórnarmyndunarviðræðunum í vor var þetta ekki vinsæl leið og óttuðust menn einkum að slík ráðstöfun mundi þjóta upp allan launastigann, valda víxlverkun launa og verðlags og leiða til verðbólgu. Sú aukaverkun var að sjálfsögðu ekki markmið okkar. Því fluttum við jafnframt þáltill. þar sem samstarfshópi fulltrúa þingflokka og aðila vinnumarkaðarins er falið að finna leiðir til að tryggja jákvæðan árangur lágmarkslaunabindingar.

Það er sameiginlegur ávinningur þessarar þjóðar að hér búi fólk sem getur séð sér farborða. Hins vegar verða þeir sem búa í samfélaginu að vera sammála um að þeir sem betur mega sín verði að færa ákveðnar fórnir. Hin mikilvæga samstaða sem launafólki er nauðsyn krefst einmitt fórna, en hún krefst jafnframt hugarfarsbreytingar þannig að menn sæki ríkari sjálfsvirðingu í þær aðgerðir sem efla heildarhagsmuni.

Ég trúi því að nægilega stór hópur fólks skilji þetta og muni finna metnað í því að segja: Nei, ég þarf ekki jafnmikla launahækkun og sá lægst launaði vegna þess að ég er tiltölulega vel settur.

Meiri jöfnun launabila má t.d. ná með krónutöluhækkun sem samsvarar ákveðinni prósentuhækkun og er mest á neðri hlutum launastigans en gengi ekki alla leið upp úr. Og hvers vegna þurfum við svona mörg þrep í launastigann? Mættu launaflokkarnir ekki að skaðlausu vera færri?

Ráðamenn hafa lagt megináherslu á stækkun þjóðarkökunnar áður en hægt sé að skipta henni þannig að þeir lægst launuðu njóti sómasamlegra kjara. Við önsum ekki lengur þessu pólitíska viljaleysi. Ef þjóðarkakan stækkar ekki verður að leita leiða til að skipta henni öðruvísi og réttlátar. Þessar leiðir hafa ekki verið farnar enn. Þeirra viljum við leita. Úrræðaleysi ráðamanna er verra en reynsluleysi kvennalistakvenna. Gamlar syndir eru erfiðari byrði en reynsluleysi.

Og í tilefni af orðum hv. þm. Salome Þorkelsdóttur vil ég vekja athygli á því að skoðanakannanir benda til þess að aukið fylgi Kvennalistans streymi frá öllum flokkum og er nokkuð svipað frá Alþb. og Sjálfstfl. Það hefur bara verið af meiru að taka hjá þeim síðarnefndu.

Og ég minni menn á að oft er það svo að þegar menn hafa hvað minnst til skiptanna deila þeir kjörum jafnast og bera mesta virðingu fyrir nauðsyn þess. Stærð þjóðarkökunnar skiptir ekki meginmáli fyrir sjöttu ríkustu þjóð í heimi. Meiri hluti fólks er í raun aflögufær sem betur fer og það er á valdi okkar sjálfra að byggja hér fyrirmyndarþjóðfélag ef við bara viljum. Ég trúi því að sá vilji sé að vakna með æ fleirum, vilji til umbóta, löngun til að breyta þjóðfélagsgerðinni, verðmætamatinu. Hugrekki til að hafa hugsjónir og standa við þær.

Hátíðahöld verkafólks þann 1. maí tengjast hefðbundnum hátíðahöldum í mörgum löndum til að fagna vori og frjósemi jarðar. Barátta jarðargróðurs fyrir tilveru sinni er sífelld og árangur hennar skilar sér til okkar á hverju vori með grósku og ilmi. Barátta manneskjunnar fyrir lífi sínu og réttindum er einnig sífelld. Hún leitar fram á mismunandi hátt á hverjum tíma, en er þó ávallt hluti af stöðugri viðleitni. Nýjar hugmyndir verka enn sem fyrr ögrandi og vekja tortryggni og varnarviðbrögð þeirra sem vilja vernda ríkjandi kerfi. Sá vorþeyr sem nú boðar róttækastar breytingar á þjóðfélaginu í þágu okkar allra, kvenna, barna og karla, kemur frá röddum kvenna. Og þjóðfélagið hefur ekki lengur efni á því að fara á mis við framlag kvenna. Konur una því heldur ekki lengur að vera skákað áhrifalausum í láglaunastöður en vilja taka forustu og frumkvæði um að semja sjálfar um þau kjör og þau lífsskilyrði sem þær kjósa fyrir sig og fjölskyldur sínar. Réttur okkar til að vera með í því að móta íslenskt samfélag er óskoraður og hans viljum við neyta.

Ég þakka áheyrnina. Gleðilegt sumar.