04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7273 í B-deild Alþingistíðinda. (5299)

Forgangsröð mála

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Það vill reyndar svo til að ég á að mæla fyrir 1. málinu á dagskrá þegar það verður tekið fyrir, en ég kemst ekki hjá því að vekja athygli virðulegs forseta á því að 5. málið á þessari dagskrá, framleiðsla og sala á búvörum, er búið að vera á dagskrá í þessari virðulegu deild frá því fyrir helgi. Það er náttúrlega alveg ljóst að ég uni því ekki að þessi fundur verði með þeim hætti að þetta mál verði ekki tekið í upphafi fundarins til umræðu.

Það vill svo til að ríkisstjórnin hefur sýnt þessum málum svo mikla virðingu að hafa tvívegis tekið það á dagskrá, fyrst að ósk Framsfl. og síðan að ósk Alþfl. Það kemur ekki til mála að hér fari ekki fram eðlileg umræða um þetta mál. Til viðbótar við það hefur nú ýmislegt gerst í umræðum um landbúnaðarmálin að undanförnu, bæði í sambandi við vantraustsumræðu, sem fór hér fram, og eins í gær þegar rætt var hér á eldhúsdegi. Það er vitanlega engin lifandi leið önnur en sú að koma af stað umræðu um þessi mál. Inn í þá umræðu hljóta m.a. að blandast ummæli hæstv. viðskrh., sem ég hef reyndar sagt honum frá, frá því í umræðunni á dögunum.

Ég verð þess vegna mjög eindregið að óska eftir því að þetta mál sé tekið hér á dagskrá og ég vek líka athygli á því að það er ýmislegt sem á okkur er lagt sent styðjum þessa stjórn og greiðum fyrir framgangi hennar mála þannig að okkar réttur í þessum efnum er ótvíræður.

Ég vil þess vegna, virðulegur forseti, fara þess á leit að hér verði farið eftir aldri mála á þessari dagskrá og fundurinn hefjist með því að mál nr. 5, framleiðsla og sala á búvörum, verði tekið til umræðu.