04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7275 í B-deild Alþingistíðinda. (5303)

Forgangsröð mála

Egill Jónsson:

Virðulegur forseti. Það liggur alveg í hlutarins eðli að það er fullkomlega óeðlilegt annað en hefja umræður um þetta mál, framleiðslu og sölu á búvörum. Hér erum við að bera saman umræðu um tvö mál, annars vegar það sem búið er að vera hér á dagskrá á þremur fundum og bráðum í eina viku og hins vegar mál sem alls ekki er búið að útbýta nál. um í deildinni.

Mér finnst líka sérstök ástæða til að minna á í þessu sambandi að auðvitað hafa menn hlotið að gera sér það ljóst þegar menn voru að setja hér upp forgangslista að nefndir gætu þurft að vinna að málum áður en þau kæmu til umræðu í viðkomandi deild. Það er ekki nein nýlunda að nefndir taki til við að fara yfir mál og meta þau þótt þau séu ekki komin til þeirra formlega. Það er m.a.s. alkunna að nefndir sameinist um að fjalla um mál til að flýta störfum. Það þarf nákvæmlega ekki nokkurn skapaðan hlut að hindra það að virðisaukaskatturinn gangi hér fram með eðlilegum hætti þó að það sé gætt allrar sanngirni í þingstörfum. Það er að sjálfsögðu ekki nein sanngirni í því að skáka þessu máli til hliðar og kannski taka það til umræðu á þeim tíma sem væri þunnskipað í deildinni, kannski ekki neinn ráðherra við hendina sem ég þarf að tala við í þessari umræðu, og þar af leiðandi hindrar það ekki á nokkurn hátt störf þingsins þó að hér verði gætt þessarar eðlilegu sanngirni. Ég minni á að það eru orðin æðimikil tilefni, m.a. vegna þeirra ummæla sem hafa fallið í umræðum síðustu dagana, t.d. ummæla hæstv. viðskrh., að fjalla um landbúnaðarmálin. Ég geri ráð fyrir að ég hefði kosið að taka þau til umræðu utan dagskrár í Sþ. nema af því að þessi umræða hefur staðið til og að þessi ummæli eru til þess fallin að ræða einmitt efni nál. og frv. samtímis þeim ummælum.

Ég leyfi mér að minna á að þótt það sé sjálfsagt að hv. þm. og þó sérstaklega stjórnarþingmenn leggi sig nokkuð fram um að koma fram málum ríkisstjórnar verði að vera bærileg sátt á milli manna ef mál eiga að geta gengið greiðlega fram. Slíkt á alveg eins að gilda gagnvart okkur sem styðjum ríkisstjórn eins og þeim sem eru í stjórnarandstöðu hverju sinni.

Ég held að því verði ekki á móti mælt að ef mál er eitt eftir á dagskrá frá því í fyrri viku, er jafnstórt og veigamikið og hér um ræðir og ekki síst vegna þess að ríkisstjórnin hefur verið að fjalla um það kannski ekkert mikið skemmri tíma en ýmis stjfrv. hjá sér, þá sé fullkomlega eðlilegt að það mál sé tekið til umfjöllunar í upphafi þessa fundar.