04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7278 í B-deild Alþingistíðinda. (5308)

389. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. allshn. (Jóhann Einvarðsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1003 um frv. til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Nefndin hefur rætt frv. og farið yfir þær umsóknir sem borist hafa ásamt fylgigögnum. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu sem tillaga er flutt um á sérstöku þingskjali.“

Undir þetta nál. skrifar öll allshn.

Eins og þingdeildarmenn hafa sjálfsagt orðið varir við er mikil fjölgun frá upphaflega frv. sem lagt var fram. Ég vil geta þess strax að eitt nafn, sem var á upphaflega frv., er fellt niður í núverandi frv. vegna upplýsinga frá dómsmrn. um að þar hefðu orðið á mistök að taka það með þá vegna skorts á tíma hjá viðkomandi umsækjanda. Vegna misskilnings og mistaka fór þetta inn í frv. Það er ekki af öðrum ástæðum sem það nafn er fellt niður en tímaskorts.

Það er alltaf flókið að ræða um ríkisborgaramálin og til hliðsjónar höfum við haft eins og undanfarin ár álit allshn. frá 2. maí 1978 þar sem settar eru viðmiðunarreglur um veitingu ríkisborgararéttarins. Ég tel það til mikilla bóta að gera þetta tvisvar á ári en ekki einu sinni eins og hefur verið undanfarin ár. Þó hygg ég að við ættum að setja okkur þá reglu að í fyrra skiptið, rétt fyrir jólin, eigum við aðeins að taka þá inn sem farið er með eftir ströngustu reglum um veitingu réttarins og einungis til viðbótar ef einhver — ja, sem ég kalla neyðartilfelli eða ef alveg sérstakar ástæður mæla fyrir um. En þar sem um matsatriði er að ræða sé það tekið inn á vorþinginu þannig að allir séu metnir eins, þeir sem einhver vafamál eru um, á sama þingi.

Um það er eining að ganga frá þessu eins og kemur fram á brtt. á þskj. 1004 og tel ég ekki ástæðu til að lesa öll þau nöfn upp, enda vafasamt að ég gæti borið þau öll rétt fram.

Þetta hefur verið unnið í samráði við Ólaf Ólafsson á skrifstofu Alþingis eins og hefur verið undanfarin ár og í samráði við formann allshn. Nd.

Ég geri það að tillögu minni til hæstv. dómsmrh. að þar sem þessar viðmiðunarreglur eru frá því 1978 að þær verði teknar til skoðunar. Ég álít að það væri ekki óskynsamlegt að formenn allshn. beggja deildanna hittust ásamt Ólafi Ólafssyni og fulltrúa frá dómsmrn. í sumar og ræddu það þannig að við getum metið það í haust hvort ástæða væri til að breyta einhverjum atriðum. Það er satt best að segja gott að hafa viðmiðunarreglur og nánast fara eftir þeim því það eru margir sem til okkar leita og t.d. núna nokkru fleiri en við samþykktum að taka inn í frv. Það er vont að þurfa að vera með mismunandi svör til umsækjenda. Ég geri því þessa tillögu til ráðherrans. Að öðru leyti hef ég ekki fleiru við þetta að bæta.