10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 872 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þórhildur Þorleifsdóttir:

Herra forseti. Nú held ég að veiti ekki af að nota skammelið og hækka sig aðeins.

Menn hafa verið að gamna sér við það stundum að nota samlíkingar þar sem þeir bera saman Alþingi og leikhús. Sjálfri hafa mér ekki fallið þessar samlíkingar mjög vel og tel ómaklega að leikhúsinu vegið með slíkum samlíkingum, en ég get þó ekki stillt mig um að ... (AG: Forseti. Ég mótmæli svona umræðum.) Ég gæti rökstutt, Albert, hvað ég á við. Ég gæti gert það. (AG: Þetta er óverðskuldað.) (KH: Þm. er á mælendaskrá.) Hann bætir bara um betur. Ég get þó ekki stillt mig um að nota þessa samlíkingu aðeins núna.

Við búum við það í leikhúsinu að þegar of margir hverfa af vettvangi, sem þeir gera aldrei í leyfisleyfi, getur maður ef vill náð eyrum fleiri en viðstaddir eru; þá hefur maður aðstöðu til þess að fara í hljóðnemann og kalla: Allir á svið! Og það er brugðist hart við. Hér býr maður ekki við það að geta kallað: Allir í sal! og þm. birtist.

Aðra samlíkingu má líka nota. Stundum falla leiksýningar, það er ekki aðsókn að þeim og það er vanalega talið að til þess liggi tvær orsakir eða önnur tveggja. Það er annaðhvort að sýningin sé einfaldlega vond, léleg eða leiðinleg og nái þess vegna ekki hylli áhorfenda, eða hún sé að einhverju leyti svo framúrstefnuleg að áhorfendur séu ekki enn þá móttækilegir fyrir því sem þar kemur fram. Slíkt mætti kannski halda um það mál sem nú er hér til umfjöllunar.

Við kvennalistakonur viljum þakka flm. þessa frv. og teljum okkur auðvitað bæði ljúft og skylt að taka til máls í tilefni þess.

Það eru margar spurningar sem vakna við lestur þeirrar skýrslu sem er hvati þessa frv. um breytingar á lögum um jafnan rétt karla og kvenna nr. 65/1985. Í fyrsta lagi hversu sá munur sem er á hlutfalli kynja kjörinna fulltrúa og því hlutfalli sem blasir svo við í nefndum og ráðum er mikill. Það er lítið samræmi þar í milli, þó finna megi undantekningar þar á, jafnvel þar sem engar konur eiga sæti, t.d. í sveitarstjórnum, en skipa nefndarsæti, en hitt er miklu algengara að hlutfall kvenna í nefndum og ráðum sé langt undir hlutfalli kjörinna kvenna. Það er sama hvort litið er til Alþingis og þeirra nefnda sem það kýs, skipar eða tilnefnir í eða bæjar- og sveitarstjórna, félagasamtaka. Niðurstöður eru svipaðar. Þetta misræmi blasir alls staðar við þó greina megi blæbrigðamun.

Um tölulegar niðurstöður þessarar skýrslu ætla ég ekki að fjölyrða, þær tala sínu máli, en snúa mér aðeins að verkaskiptingunni. Hún kemur svo sem ekki á óvart. Konur fá að vera með við að sinna heilbrigðis-, mennta-, menningar- og félagsmálum, en karlarnir eru næstum einráðir við að sýsla með peninga, atvinnuvegi, samgöngur og stjórnun. Að maður tali nú ekki um stjórnunarstörfin svokölluðu. Þar eru konur oftast fjarri góðu gamni. Þetta lýsir auðvitað hefðbundinni verkaskiptingu kynjanna vel og áhugasviðum býst ég við að sumu leyti líka, en þó eru alltaf uppi raddir sem segja að kyn skipti ekki máli, hæfileikar og dugnaður eigi að skera úr. Hvar sér þess stað í þessari skýrslu?

Forvitnilegt hefði verið að vita aðeins meira um það af hverju niðurstöður skýrslunnar eru eins og þær eru. Í fyrsta lagi er ljóst að hinn almenni kjósandi treystir konum. Það hefur mér vitanlega ekki staðið nokkrum framboðslista fyrir þrifum að þar væri of margar konur að finna. Heldur mætti finna dæmi um hið gagnstæða. En karlarnir, starfsfélagar þessara kjörnu kvenna, treysta þeim verr en þjóðin og sannast kannski það sem oft er haft á orði að íhaldssömustu öfl þjóðfélagsins sé að finna í stjórnkerfinu og því hærra sem dragi í valdapíramídanum, því ljósari verði íhaldssemin og afturhaldið. Og taki þeir til sín sem eiga.

Ef ég hef rangt fyrir mér um vantraust karla á konum getur ástæðan hugsanlega verið einhvers konar valdafíkn. Það er valdafíkn þeirra sem fyrir eru í fleti og eru sko ekki á þeim buxum að víkja um fet þó að vilji kjósenda segi annað. Þessa skýringu skil ég betur en hina fyrri. Það er sjálfsagt erfitt skref fyrir marga að afsala sér af fúsum og frjálsum vilja þeim völdum sem þeir hafa og telja sig oft og tíðum eiga. Til þess þarf skilning og þroska sem er ekki öllum ætlandi. Ef skýringin er þessi sannar hún það, sem margar konur halda fram, að karlmenn ætli að spyrna við fótum eins lengi og þeir geta, þó þeir fæstir viðurkenni það í orði, og standi saman um að varðveita þau völd sem þeir hafa. Sú samstaða er svo sannarlega þverpólitísk. En það mun að sjálfsögðu fara fyrir þeim eins og öllum sem ætla sér að reyna að stöðva tímann, snúa við sögunni eða hindra þróun. Þeir eru dæmdir til að tapa. Konur sækja á brattann og skynsamlegra væri körlum að rétta þeim hjálparhönd og létta þeim gönguna.

Margir munu eflaust bera fyrir sig að konur vilji ekki, þær finnist ekki eða hafi ekki enn nægilegt vit og reynslu til að sinna störfum þar sem karlar eru nærri einráðir. Væri gaman að gerð væri könnun þar sem slíkt yrði rannsakað. Finnast mörg dæmi þess að konur skorist undan að takast á hendur störf sem eru boðin eða gefi ekki kost á sér eða vilji ekki eða finnast ekki nægilega margar konur með viðunandi menntun, reynslu eða þekkingu? Og í framhaldi af því: Gildir þá sama um þau störf þar sem konur eru fjölmennari? Vilja karlarnir ekki þau störf, skorast þeir undan, hafa þeir ekki þekkingu og reynslu eða treysta konur þeim ekki til að vinna þau störf? Við þessum spurningum væri fróðlegt að fá svör. Jafnvel væri það þess virði að fela Jafnréttisráði að kanna orsakir verkaskiptingar í nefndum, stjórnum og ráðum, hvort þar ræður áhugi hvers og eins kjörins fulltrúa eða hvort fulltrúum er stillt upp á lista á þennan veg, hvort upphaflegar tilnefningar eru í samræmi við útkomu o.s.frv.

Við kvennalistakonur vitum vel að það liggur mjög nærri konum að sinna hinum svokölluðu mjúku málum, kvennamálum, og síst viljum við að konur láti af afskiptum þeirra mála. En hitt vitum við líka að útdeiling fjármagns, ákvörðun forgangsraðar og vægi málaflokka eru ákveðin annars staðar og því mikilvægt að sjónarmið kvenna séu líka sýnileg og heyranleg þar sem málum er ráðið. Þess vegna segjum við að öll mál séu kvennamál og viljum ekki trúa því fyrr en á reynir að þetta hlutfall í nefndum og stjórnum og ráðum endurspegli vilja og áhuga kvenna eða öllu heldur vilja- og áhugaleysi, teljum að það endurspegli fremur afstöðu karla og vilja. Því munum við að sjálfsögðu styðja þetta frv. þó að segja megi að það sé hálfgerð nauðungarsamþykkt. Það er hart að slíkt skuli þurfa, en það þýðir ekki að berja höfðinu við steininn. Staðreyndirnar tala sínu máli.

Þegar þetta er útkoman þrátt fyrir stóraukna stjórnmálaþátttöku kvenna, þegar orsakirnar liggja í kerfinu sjálfu en ekki hjá hinum almenna kjósanda, verður að grípa inn í. En hart er að þurfa að koma lögum yfir karlmenn svo þeir standi ekki á móti lýðræðislegri þróun. Oftast endurspegla lög ríkjandi ástand og hugarfar en stundum eru lög á undan sinni samtíð, þ.e. þeim er ætlað að virka hvetjandi til að flýta fyrir þróun. Svo er vafalaust um jafnréttislögin. Það er marklaust að ætta lögum að þvinga fram hugarfarsbreytingu hjá þjóð en þegar sú hugarfarsbreyting gerist hraðar hjá þjóðinni en kjörnum fulltrúum hennar og embættismönnum verður að grípa inn í.

Við kvennalistakonur munum því styðja þetta frv. eins og áður sagði og skorum á hið háa Alþingi að samþykkja það og gera þannig bragarbót sjálft og ganga á undan með góðu fordæmi. En við vonum þó að sú lagabreyting, sem lögð er til í þessu frv., verði óþörf sem allra fyrst og munum þá með gleði taka undir lagabreytingartillögur til að fella hana og helst öll lögin úr gildi. Það verður þá kannski komin þjóðarbókhlaða og þar verða þessi lög höfð til sýnis undir gleri og foreldrar og kennarar munu koma með börn og unglinga þangað sem munu skemmta sér og undrast að slík lög skyldu einhvern tímann hafa verið nauðsynleg.