04.05.1988
Efri deild: 87. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7282 í B-deild Alþingistíðinda. (5317)

441. mál, ábúðarlög

Frsm. landbn. (Egill Jónsson):

Virðulegur forseti. Ég lýsi hér áliti landbn. Ed. Alþingis varðandi breytingar á ábúðarlögum. Eins og fram kemur í nál. hafa allir nefndarmenn undirritað þetta álit.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt eins og það hefur verið lagt fram á Alþingi. Eins og hv. þm. er væntanlega kunnugt var málið skýrt við 1. umr. og þá að sjálfsögðu tilefni þess að það er hér flutt, en það má kannski minna á að ástæðan fyrir því er sú að þegar sveitarstjórnarlögunum var breytt árið 1986 féllu niður heimildir til sveitarstjórna að ábyrgjast lán vegna bústofnskaupa á ábýlisjörðum sem hafði verið sú leið sem var valin til þess að ábúendur á ríkisjörðum gætu notið slíkra lána.

Við umfjöllun í nefndinni voru enn fremur könnuð áhrif þessara breytinga á lögin um Bjargráðasjóð. Eins og fram kemur í nál. eru þau hin sömu og varðandi Stofnlánadeild landbúnaðarins, en bæði er að nú eiga sér ekki stað lánveitingar úr Bjargráðasjóði vegna tjónabóta og líka hitt að þau lög eru í endurskoðun. Þá var ekki sérstaklega fjallað um þau efni við afgreiðslu málsins, en þess hins vegar vænst að við endurskoðunina, sem að sjálfsögðu kemur þá til kasta Alþingis að fjalla um, yrði á þetta ákvæði litið að því er varðaði Bjargráðasjóð.