10.11.1987
Neðri deild: 10. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (533)

75. mál, jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við það frv. sem hér er til umræðu. Það verður þó að teljast önugt að við þurfum að vera að fjalla um það hér á hinu háa Alþingi árið 1987 að setja í lög ákvæði sem reyna að tryggja að konur hafi áhrif í ráðum og nefndum ekki síður en karlar. Konum er ýtt til hliðar þar sem ráðum er ráðið eins og m.a. kemur fram í könnun Jafnréttisráðs sem vitnað hefur verið til. Niðurstaða könnunarinnar kemur alls ekki á óvart því svo virðist vera að karlarnir spyrni strax við fótum ef konur vilja hafa áhrif. Þeim finnst oftast allt í lagi að hafa þær með svona meðan þær eru góðar. En ef þær vilja fara að ráða einhverju — nei, þá þarf að gera eitthvað í málinu. Það er jafnvel allt í lagi að hafa þær með í ríkisstjórn en ekki til að hafa of mikil áhrif.

Áður fyrr hafði ég miklar efasemdir um það að jákvæð mismunun væri konum til góðs og það örlar enn á þessum efa hjá mér. Ástæðan fyrir mínum efasemdum var sú að karlaveldið bregst alltaf við með kjafti og klóm gegn allri viðleitni til að rétta hlut kvenna.

Í Noregi var fyrir þó nokkrum árum ákveðið að ef tveir jafnhæfir einstaklingar, karl og kona, sæktu um stöðu þá skyldi konan, eða karlinn, fá stöðuna ef það kyn var í minni hluta í þeirri stétt sem staðan tilheyrði. Reynsla þeirra kvenna sem sóttu um stöðu við háskólann í Osló var ekki skemmtileg. Í stað þess að viðurkenna að kona og karl sem sóttu um sömu stöðu væru jafngóð eða konan jafnvel betri var forsendum fyrir stöðuveitingu breytt eftir hentugleikum þannig að í flestum tilfellum fékk konan vottorð upp á það að hún væri bara svona léleg og karlinn fékk stöðuna. Sömu sögu er að segja frá fleiri háskólum. Það hefur líka komið í ljós að konur sem eru lausráðnar við háskólann í Osló eru miklu betur menntaðar en þeir karlar sem eru í föstum stöðum við sama skóla. Það mætti spyrja hvernig ástandið væri ef ekki hefði gilt þar jákvæð mismunun við stöðuveitingar.

Fyrir nokkrum árum var ég að ræða við prófessor við Háskóla Íslands um ákveðna stöðuveitingu þar sem karl var tekinn fram yfir konu sem ég taldi vera hæfari en hann. Prófessornum fannst ekkert vafamál að karlinn hefði verið hæfari þótt hann hefði minni menntun en konan því hann hafði svo langa kennslureynslu sem væri mjög mikilvægt. Stuttu seinna barst talið að annarri stöðu sem karl hafði að sjálfsögðu líka hlotið og spurði ég hann hvers vegna hann teldi að karlinn hefði fengið stöðuna frekar en konan. Auðvitað verður að taka tillit til þess að karlinn er með meiri menntun og á því frekar að fá stöðuna en konan þótt hún sé með miklu lengri kennslureynslu. Það tók prófessorinn því ekki nema u.þ.b. 10 mínútur að skipta um skoðun á því hvaða forsendur áttu að liggja til grundvallar við stöðuveitingu. Það er hægt að velta því fyrir sér hvort það hefði verið meðvitað eða ómeðvitað að prófessorinn fann rök gegn konu í bæði skiptin.

Það sem einnig veldur mér áhyggjum er að undanfarin ár hefur það reynst þeim konum sem stunda kvennarannsóknir og konum sem hafa verið bendlaðar við kvennapólitík æ erfiðara að komast áfram. Í Bandaríkjunum t.d. eru konar farnar að forðast að starfa í kvennahópum ef þær vilja komast áfram í karlaheiminum og gildir það jafnt í pólitík sem annars staðar. Hér á landi hefur einnig borið á þessu. Það er ekki langt síðan hæstv. þáverandi menntmrh. réð karl í stöðu við Háskólann þótt Háskólinn hefði mælt með konu í starfið. Það skyldi þó aldrei vera að það hefði haft áhrif á ákvörðun ráðherrans að konan stundaði rannsóknir í kvennabókmenntum? — Nei, karlasamstaðan birtist í mörgum myndum.

Þótt það sé vissulega sorglegt að þurfa að setja í lög að konur eigi að hafa sama rétt og karlar í þjóðfélaginu þá er það e.t.v. það eina sem þeir skilja. Þó er það nú svo að þrátt fyrir þetta ákvæði í lögum hefur það skilað konum ákaflega litlu. Ég styð þó alla viðleitni til að rétta hluta kvenna. Þess vegna stend ég hér sem fulltrúi Kvennalista.

Það er einnig ánægjulegt að karl skuli vera fyrsti flm. þessa frv. og skora ég á aðra þingkarla, þó að þessa stundina séu einungis tveir hérna eftir fyrir utan fyrsta flm., að koma í ræðustól og segja skoðun sína á áhrifaleysi kvenna í þjóðfélaginu og hvað þeir vilja gera til að breyta því ef þeir telja þá breytinga þörf. Og hvar eru allir karlarnir í ríkisstjórninni núna með stjórnarsáttmálann í farteskinu en þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Kjör kvenna og aðstaða barna verði bætt og áhrif kvenna í þjóðlífinu aukin.“ — Og síðar: „Átak verður gert til að koma á jafnrétti kvenna og karla með sérstakri áherslu á launajafnrétti. Störf kvenna hjá hinu opinbera verði endurmetin. Við þetta endurmat verði m.a. höfð hliðsjón af mikilvægi umönnunar- og aðhlynningarstarfa og starfsreynslu á heimilunum.“

Hvernig á að ná þessum markmiðum? Það er ekkert um það í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar. Það er e.t.v. eina vonin um úrbætur að kona er í embætti jafnréttisráðherra.

Það frv. sem hér er til umræðu er skref í áttina ef það nær fram að ganga. En betur má ef duga skal.