04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7304 í B-deild Alþingistíðinda. (5337)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Eins og fram kemur á nál. 1005 mælir meiri hl. nefndarinnar með því að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem þar koma fram.

Eins og nákvæmlega er rakið í nál. komu fulltrúar hinna ýmsa atvinnuvega til viðtals við nefndina ásamt fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands eins og nánar verður rakið hér á eftir. Vil ég almennt segja að fulltrúar sjávarútvegs, iðnaðar og verslunar mæltu með því að virðisaukaskattur yrði tekinn upp í stað söluskatts með þó vissum athugasemdum varðandi einstakar greinar eða framkvæmd laganna. Jafnframt kom fram frá fulltrúum bænda að þeir sæju ekki annað en þessi skattalagabreyting í heild mundi koma vel út fyrir landbúnaðinn, en gerðu þó mjög sterkar athugasemdir varðandi það atriði frv. að þar er gert ráð fyrir einni skattprósentu eins og ég mun koma nánar að síðar.

Ég tel nauðsynlegt, herra forseti, að víkja nokkrum orðum að athugasemdum sem komu fram frá fulltrúum einstakra félagasamtaka sem komu til fundar við nefndina og mun rekja það í stuttu máli í tengslum við þær brtt. sem hér liggja fyrir og þau atriði sem rætt er um að sérstaklega verði athuguð af starfsnefnd ríkisstjórnarinnar nú í sumar sem mun vinna bæði að því að gera sér grein fyrir álitamálum í lagasetningu og eins hvernig hægt verður að tryggja sem öruggasta og réttlátasta framkvæmd laganna.

Ég tek fram, herra forseti, að slík vinna er auðvitað óhjákvæmileg um leið og lagasetningin hefur verið ákveðin og á ekki að koma neinum á óvart og ég vísa því algjörlega á bug, sem fram kemur í nál. minni hl., að þetta feli í sér að málið sé illa undirbúið af stjórnvöldum eða feli í sér nokkra viðurkenningu á því. Þetta eru þvert á móti eðlileg vinnubrögð þegar um jafnróttæka skattalagabreytingu er að ræða og hér er gert ráð fyrir.

Fulltrúar frá Meistara- og verktakasambandi byggingamanna komu á fund nefndarinnar og formaður landssambands iðnaðarmanna lýsti því sérstaklega yfir að þau samtök væru sátt við þessa skattalagabreytingu í heild og töldu að hún gerði ekki of mikið upp á milli atvinnugreina en höfðu þó sérstaka fyrirvara einkum varðandi byggingariðnaðinn eins og ég mun rekja hér á eftir.

Eins og hv. þingdeildarmönnum er kunnugt eru þær reglur nú um íbúðarhúsnæði og raunar byggingariðnaðinn almennt að sú vinna sem unnin er á byggingarstað er undanþegin söluskatti og sömuleiðis vinna við endurbætur eða viðhald húsa sem unnin er á íbúð eða í því húsi sem í hlut á og ef ekkert yrði að gert mundi sú skattalagabreyting sem hér er gert ráð fyrir auðvitað valda íþyngingu fyrir aðila sem ekki stunda atvinnurekstur, sérstaklega varðandi íbúðarhúsin. Af þeim sökum er það sérstaklega fram tekið í nál. að þessi atriði muni verða rædd sérstaklega af starfsnefndinni eða eins og þar stendur: Reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við nýbyggingar eða endurbætur og meiri háttar viðhald á íbúðarhúsnæði og annað sem tengist byggingarstarfsemi.

Meistara- og verktakasamband byggingamanna hefur bent á að til þess að koma til móts við þetta sé hægt að létta af ýmsum af þeim beinu sköttum sem nú gilda. Nefndu þeir sérstaklega í því sambandi launaskatt og vörugjald og aðra skatta og gjöld sem hvíldu á byggingariðnaðinum. Jafnframt lögðu þeir áherslu á að ef til endurgreiðslu kæmi yrði hún einungis gerð á móti framlögðum reikningum með álögðum virðisaukaskatti og að sú krafa yrði gerð að þessir reikningar væru dagsettir og númeraðir eins og eðlileg reikningsskil gera ráð fyrir, en hugsanlegt væri að setja eitthvert hámark krónutölu á fermetra upp að ákveðnu stærðarmarki bygginga. Í grófum dráttum er þetta í samræmi við þær hugmyndir sem fyrir liggja um endurgreiðslu virðisaukaskattsins af íbúðarhúsnæði þannig að ég álít að vel sé við þessu séð eins og gengið er frá því í nál. og í samráði við hæstv. fjmrh. Jafnframt er tekið fram að settar verði reglur er tryggi að jafnræði sé í samkeppni einkafyrirtækja og opinberra aðila en það var einn liðurinn í athugasemdum Meistara- og verktakasambands byggingamanna.

Landssamband iðnaðarmanna hefur löngum barist fyrir jöfnum skattskilyrðum atvinnugreina og jafnframt hvatt til þess að skattlagningu yrði stillt hóf og þess gætt að skattlagning mismunaði ekki atvinnugreinum eða framleiðsluaðferðum. Jafnframt hefur Landssambandið verið sérstakur málsvari þess að ráðist yrði gegn þeirri útbreiddu meinsemd sem skattsvik og önnur tengd lögbrot eru. Segir í umsögn Landssambandsins að afstaða þess til upptöku virðisaukaskattsins ráðist algerlega af því að hve miklu leyti frv. og ráðstafanir sem því tengjast samræmist þessari grundvallarstefnu. Þetta er kjarninn í álitsgerð þeirra. Jafnframt vara þeir við því og vekja sérstaka athygli á að þær miklu niðurgreiðslur sem nú eru, einkum varðandi ýmsar landbúnaðarvörur, skapi ójöfnuð gagnvart hinum sem framleiða óniðurgreidd matvæli, svo sem brauð og kornvörur, sem að sjálfsögðu eru í keppni við önnur matvæli. Mæla þeir með því að í stað niðurgreiðslna séu hækkaðar fjölskyldubætur og að matarskattinum yrði auk þess mætt í gegnum hið almenna trygginga- og skattkerfi. Þessi mál koma einnig til athugunar í nefndinni eins og annað í tengslum við landbúnaðinn.

Loks gera þeir athugasemdir um skattskil byggingarfyrirtækja, að þau verði einfölduð. Lýtur það ákvæði einnig að íbúðabyggingum þar sem þeir fara fram á að innskattur af byggingarefni sé endurgreiddur byggingarverktaka ef hann byggir íbúðir til sölu, en komi hins vegar til greiðslu þegar viðkomandi íbúð er seld. Þessi mál í heild hljóta að verða rædd sérstaklega. Ég sé ekki ástæðu til að víkja nánar að því, en ýmislegt í þessu er mjög flókið og margt orkar þar tvímælis, hversu langt eigi að ganga. Ef ekki koma fram sérstakar fsp. að þessu leyti mun ég ekki gera það mál frekar að umræðuefni.

Félag ísl. iðnrekenda hefur um árabil lagt mikla áherslu á nauðsyn þess að virðisaukaskattur verði tekinn upp í stað söluskatts. Ég tel, herra forseti, rétt að lesa upp stuttan kafla úr umsögn Félags ísl. iðnrekenda þar sem þar er í stuttu máli gerð glögg grein fyrir því hvaða ástæður valdi því að atvinnureksturinn, sem á í samkeppni við erlenda aðila, erlendar iðnaðarvörur eða sá hluti atvinnurekstrarins sem keppir á erlendum mörkuðum telur nauðsynlegt, að þessi skattalagabreyting nái fram að ganga. Í umsögn Félags ísl. iðnrekenda segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ástæður þess að iðnrekendur hafa lagt til að virðisaukaskattur komi í stað söluskatts eru í aðalatriðum eiginleikar virðisaukaskattsins eins og þeim er lýst í athugasemdum með frv. Veigamesti skattstofn ríkisins verður að uppfylla þá kröfu að hann hafi ekki áhrif á framleiðsluaðferðir, verkaskiptingu og neysluval. Virðisaukaskattur veldur ekki uppsöfnun skatts í framleiðslukostnaði og mismunar því ekki framleiðslugreinum eða framleiðsluaðferðum. Með virðisaukaskatti næst eðlilegri og hagkvæmari verkaskipting milli fyrirtækja og atvinnugreina en í söluskattskerfi. Skattheimta á ekki að hafa áhrif á verkaskiptingu eins og er í núverandi söluskatti. Virðisaukaskattur skv. frv. leggst jafnt á allar vörur og þjónustu til neyslu og hefur því ekki áhrif á val neytenda við kaup á vörum og þjónustu. Virðisaukaskattur bætir samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum sem búa við virðisaukaskatt, bæði á erlendum og innlendum markaði. Nær allar Evrópuþjóðir hafa nú tekið upp virðisaukaskatt, en um 2/3 hlutar allra utanríkisviðskipta Íslendinga eru við þessar þjóðir.

Þeir gallar á núverandi söluskattskerfi sem virðisaukaskatturinn eyðir sjálfkrafa verða ekki lagfærðir með breytingum á söluskattinum. Undanþágulaus söluskattur mundi lenda af fullum þunga á rekstrarvörum og fjárfestingu atvinnuveganna. Uppsöfnun söluskatts yrði því mun meiri en nú er þótt skatthlutfallið yrði lækkað verulega. Uppsöfnun söluskatts í framleiðslukostnaði verður ekki lagfærð að neinu gagni vegna þess að ógerningur er að reikna út uppsöfnunina af nákvæmni. Öll endurgreiðsla byggist á meðaltalsreglum sem hljóta að vera ónákvæmar.

Ein veigamesta ástæðan fyrir upptöku virðisaukaskatts á Íslandi er samkeppnisstaðan gagnvart erlendum keppinautum. Það er alkunna að samkeppni fer hvarvetna harðnandi. Íslensk fyrirtæki hljóta um margt að búa við lakari samkeppnisstöðu en erlendir keppinautar. Íslensk fyrirtæki eru nær öll lítil á alþjóðlegan mælikvarða og hafa því ekki það fjárhagslega bolmagn sem margir erlendir keppinautar hafa. Þegar um útflutning er að ræða eru Íslendingar langt frá markaði, en því fylgir jafnan óhagræði og aukinn kostnaður. Þetta á ekki síst við um ný fyrirtæki eða nýjar atvinnugreinar sem vilja hasla sér völl á erlendum markaði. Af þessum sökum er afar mikilvægt að aðgerðir hins opinbera, ekki síst opinber skattlagning, rýri ekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Aðgerðir hins opinbera ættu að miða að því að bæta samkeppnisstöðuna til þess að draga úr því óhagræði sem áður var nefnt.

Af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar leggur Félag ísl. iðnrekenda eindregið til að fyrirliggjandi frv. um virðisaukaskatt verði afgreitt frá Alþingi og að það komi til framkvæmda svo fljótt sem auðið verður af tæknilegum ástæðum.

Mikilvægt er að atvinnulífið fái nægan tíma til að undirbúa breytinguna, m.a. með því að nýta sér reynslu þeirra þjóða sem best hefur tekist að tryggja snurðulausa framkvæmd virðisaukaskatts.“

Þessu til viðbótar kemur einkum sú athugasemd fram um einstök atriði í umsögn iðnrekenda að þeir leggja áherslu á að settar verði reglur um gjaldfrest virðisaukaskatts við innflutning þegar fluttar eru inn meiri háttar fjárfestingarvörur, svo sem vélar, tæki og byggingarefni sem ekki er ætlað til endursölu, og hið sama gildir um innflutning hráefnis, enda sé hráefnið verulegur hluti heildarframleiðslukostnaðar, og telja að með þessu sé verið að styrkja samkeppnisstöðu hinnar íslensku framleiðslu.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Sambandi veitinga- og gistihúsa og vöktu athygli á því að ferðamannaiðnaður er vaxandi í íslensku þjóðfélagi og skilar verulegum hluta af íslenskum gjaldeyristekjum. Eins og frv. lá fyrir var gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur yrði greiddur af herbergjaleigu í hótelum eða gistihúsum. Fram kemur í gögnum frá Sambandi veitinga- og gistihúsa að heildarveita veitinga- og gististaða samkvæmt söluskattsframtölum nemi samkvæmt Þjóðhagsstofnun 7 milljörðum 563 millj. kr., en af þessu sé söluskattsfrjáls herbergjaleiga einungis 800 millj. eða rétt rúmlega 10% af heildarveltunni. Fulltrúar þessa sambands vöktu athygli á því að við Íslendingar stæðum nú illa að vígi í samkeppninni við önnur ferðamannalönd og lögðu ríka áherslu á að virðisaukaskattur yrði felldur niður af herbergjaleigu og er gert ráð fyrir að verða við þeirri beiðni eins og fram kemur í brtt. meiri hl. nefndarinnar.

Þá kom á fund nefndarinnar Magnús Hreggviðsson, formaður Samtaka útgefenda tímarita, og vakti athygli á því að eins og nú stæðu sakir væru öll aðföng til útgáfustarfsemi tímarita undanþegin söluskatti eða nánast öll aðföng og skiptir þá ekki máli hvort talað er um kaup á pappír, prentun eða öðru þvílíku, auk þess sem gildandi lög um söluskatt eru með þeim hætti að auglýsingar í blöðum og tímaritum eru undanþegnar söluskatti gagnstætt því sem við á um auglýsingar í útvarpi. Ég tek fram að í máli mínu þýðir útvarp bæði hljóðvarp og sjónvarp eins og það er skilgreint í lögum um útvarp.

Þeir bentu á að þessi lagabreyting mundi nánast hafa það í för með sér að útgáfukostnaður hækkaði um 20–22% og töldu að það mundi valda því að til verulegs hruns hlyti að koma í þessari atvinnugrein jafnframt því sem þeir bentu á að samkeppnisstaða þeirra á auglýsingamarkaði mundi skekkjast eða raskast vegna þess að virðisaukaskattur legðist nú á auglýsingar í tímaritum sem mundi, þó hann sé innskattur og yrði endurgreiddur í atvinnurekstrinum, samt sem áður, a.m.k. fyrst í stað, valda batnandi samkeppnisstöðu útvarps. Af þessum sökum er lagt til í brtt. nefndarinnar að sala tímarita sé undanþegin söluskatti. Það er auðvitað álitamál hvort það sé nægilegt og hlýtur að koma til skoðunar hvort rétt sé að ganga lengra í þeim efnum. Ég vil taka fram í þessu sambandi að í brtt. nefndarinnar er gert ráð fyrir að afnotagjöld útvarps séu undanþegin virðisaukaskatti og er það skv. 12. gr. frv. sem þýðir það að allur innskattur kemur til frádráttar sem er í samræmi við það að í frv. er gert ráð fyrir því að sú regla gildi um útgáfu dagblaða og héraðsfréttablaða.

Fulltrúar Stéttarsambands bænda lögðu áherslu á að söluskattsstigin yrðu tvö og voru það aðalathugasemdir þeirra við frv. eins og það liggur nú fyrir. Jafnframt var rætt um hversu uppgjöri virðisaukaskatts skyldi háttað, en eins og fram kemur í nál. yrði þetta mál rætt sérstaklega í starfsnefndinni.

Það kom fram líka ótti bændasamtaka við erfiðleika í sambandi við að bændastéttin gæti tileinkað sér nægilega vel og fljótt þá bókhaldslegu þekkingu sem nauðsynleg er við uppgjör virðisaukaskatts. Kom það fram hjá Garðari Valdimarssyni ríkisskattstjóra og einnig hjá forustumönnum bænda að áhersla yrði lögð á það og mikil vinna að leiðbeina bændum við skattuppgjörið sem er auðvitað ekki erfitt og augljóst að það kemur sér að því leyti vel fyrir landbúnaðinn að gert er ráð fyrir því að innskatturinn verði endurgreiddur á tveggja mánaða fresti jafnframt því sem heimildir eru fyrir því að til sérstaks uppgjörs komi ef keyptar eru rekstrarvörur í miklu magni eins og t.d. áburður á vorin. Þá er það jafnframt ljóst að virðisaukaskattur gagnvart mjólkurbændum mun hafa í för með sér rekstrarlegt hagræði.

Skattanefnd starfsráðs verslunarinnar gerði m.a. athugasemdir við það að ekki skyldi vera gert ráð fyrir því að velja mætti á milli reikningsaðferðar eða greiðsluaðferðar, eins og það er kallað, við uppgjör virðisaukaskatts og rökstyður það með því að aðstæður fyrirtækja séu misjafnar, sérstaklega með tilliti til þess að afborgunarviðskipti eru mjög ríkur þáttur í rekstri sumra verslunarfyrirtækja eftir eðli þeirra, en eins og brtt. bera með sér og raunar líka frv. er gert ráð fyrir því að stilla svo gjalddaga virðisaukaskattsins að þeir falli ekki saman við uppgjörsdaga greiðslukorta heldur komi í kjölfar slíkra uppgjörsdaga þannig að það veltufé sem þannig kemur inn í verslunina gangi beint til greiðslu virðisaukaskattsins og er að því auðvitað mikið hagræði.

Fulltrúi Sambands ísl. sláturleyfishafa var mjög jákvæður gagnvart þessari breytingu og færði m.a. þau rök fyrir því að hún kæmi í veg fyrir mismunun milli atvinnugreina. Lýsti hann sérstakri ánægju yfir því að gert er ráð fyrir að sauðfjárbændur séu ekki innheimtumenn virðisaukaskatts heldur falli virðisaukaskatturinn af sláturafurðum til við sölu, en á hinn bóginn geta sauðfjárbændur fengið innskattinn greiddan reglulega eins og ég sagði. Taldi fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga og raunar þeir fulltrúar bænda sem ég hef rætt þetta við að með þessum hætti væri komið í veg fyrir sérstaka rekstrarfjárörðugleika sláturleyfishafa vegna upptöku virðisaukaskatts.

Nefndin átti fund með fulltrúum útgerðaraðila og fiskverkenda og lýstu fulltrúar útgerðar og fiskvinnslu sig samþykka frv. í meginatriðum, en settu þó fram eftirfarandi athugasemdir:

1. Tryggja þarf að uppgjörstímabil fiskvinnslufyrirtækja verði aldrei lengra en sjö dagar, enda þarf fiskvinnslan að standa skil á hráefniskaupum sínum jafnóðum. Á þessu ári er reiknað með að hráefniskaup fiskvinnslunnar verði um það bil 15 milljarðar og virðisaukaskattur verði um það bil 3,3 milljarðar væri hann kominn til framkvæmda. Skiptir því meginmáli að endurgreiðsla til fiskvinnslunnar eigi sér stað innan sjö daga frá því að fiskkaup fóru fram.

2. Tryggja verður jafnræði varðandi skil útgerðar á útskatti, hvort sem hann verður til í viðskiptum á milli skyldra eða óskyldra aðila í sjávarútvegi. Þannig hafi útgerð jafnlangan skilafrest á útskatti hvort sem um skyldan eða óskyldan aðila er að ræða. Hér er auðvitað átt við það, ef borin eru saman fyrirtæki, að annað fyrirtækið á þau fiskiskip sem sækja aflann í sjóinn, hitt fyrirtækið kaupir fiskinn t.d. á fiskmarkaði. Þá er gert ráð fyrir því eins og málið liggur nú fyrir að uppgjör virðisaukaskattsins verði eftir löndun í báðum tilvikum á sama tímapunkti þannig að virðisaukaskatturinn valdi ekki íþyngingu vegna útgerðarvara og aðfanga þó svo að fiskverkandinn geri skipið út. Þetta er auðvitað mjög nauðsynlegt og eins hitt að virðisaukaskatturinn af hráefniskaupunum komi til fiskvinnslunnar eins fljótt og kostur er til þess að þar hlaðist ekki upp sérstakur rekstrarfjárvandi. Eins og fram kemur í nál. víkur eitt atriði sérstaklega að þessum punkti.

Á fund nefndarinnar komu fulltrúar frá Landssambandi veiðifélaga og vöktu athygli á því að veiðihlunnindi eru mjög ríkur þáttur í tekjum bænda þeirra sem slík hlunnindi hafa, að vísu mjög mismunandi. Sumar jarðir hafa mjög mikil veiðihlunnindi, aðrar minni. Ég hef einhvern tíma séð tölu þeirra jarða sem hafa einhver veiðihlunnindi. Er það mjög verulegur fjöldi bújarða í landinu. Það liggur ljóst fyrir að eins og frv. liggur núna fyrir leggst virðisaukaskatturinn á sölu veiðileyfa. Þetta þýðir fyrst í stað 22% rýrnun á tekjum viðkomandi eigenda hlunninda. Það hefur verið bent á að þessar tekjur séu í sumum sveitarfélögum verulegur hluti af útsvarstekjum viðkomandi sveitarfélags og bent á hátt fasteignamat af hlunnindajörðum. Þetta eins og annað sem varðar landbúnaðinn sérstaklega verður tekið til athugunar í sumar.

Fulltrúar Alþýðusambandsins, sem komu á fund nefndarinnar, lögðu áherslu á það sjónarmið að virðisaukaskattur yrði ekki lagður á nauðsynjavörur og töldu það nægilega ástæðu til að lýsa andstöðu við frv., en höfðu jafnframt áhyggjur af því að ákvæðin varðandi íbúðabyggingar væru óljós. Fulltrúar Alþýðusambandsins sáu ekki ástæðu til að ræða einstök efnisatriði frv. af þessum sökum, en samkvæmt minni beiðni sendi Alþýðusambandið eldri umsagnir um frv. til nefndarinnar þannig að þær lágu fyrir hjá nefndarmönnum og þeir gátu kynnt sér þau gögn. Hef ég raunar ekki meira um það að segja.

Nefndinni barst athugasemd frá Sambandi ísl. hitaveitna þar sem því er í raun slegið föstu að virðisaukaskatturinn mismuni fólki mjög verulega vegna þess hve mikill munur er á húshitunarkostnaði í landinu, en virðisaukaskatturinn leggist ofan á húshitunarkostnaðinn. Þessi fullyrðing er á misskilningi byggð. Það hefur aldrei verið gert ráð fyrir því að virðisaukaskatturinn bætist ofan á húshitunina heldur er þvert á móti gert ráð fyrir því að hann verði endurgreiddur að fullu eða komi jafnvel til verðjöfnunar. Þessi athugasemd er því á misskilningi reist, en nauðsynlegt er auðvitað að fjalla um þetta atriði nánar.

Við mig talaði sérstaklega Pétur Stefánsson, sem er formaður félags ráðgefandi verkfræðinga, eftir að störfum nefndarinnar var lokið og hafði áhyggjur af því að virðisaukaskatturinn, eins og raunar söluskatturinn nú, mundi skerða samkeppnishæfni sjálfstæðrar verkfræðiþjónustu gagnvart sveitarfélögum og ríki. Eins og segir í bréfi sem hann lét mig fá, þá erum við raunar að tala um 10% söluskattinn um síðustu áramót, þar sem hann segir:

„Þessi skattur rýrir samkeppnisaðstöðu óháðrar verkfræðistofu gagnvart opinberum stofnunum og þeim einkaaðilum sem eru eða geta verið sjálfum sér nógir um tækniþjónustu. Þannig mun þessi skattlagning smám saman auka við ríkisgeirann en lama tæknilega framþróun og hagvöxt. Þó mun steininn fyrst taka úr ef virðisaukaskattur verður upp tekinn í samræmi við frv. það sem nú hefur verið lagt fyrir Alþingi, en samkvæmt því eru opinberar stofnanir undanþegnar virðisaukaskatti af eigin þjónustu.“

Þessar áhyggjur eru að mínu viti ekki á rökum reistar. Þvert á móti verða í reglugerð settar reglur um hversu farið skuli með skil af virðisaukaskatti á verkfræðiþjónustu og það er einmitt mjög skýrt fram tekið í nál. að í þessum efnum sé ástæðulaust að vera með slíkar fullyrðingar að svo komnu. En hitt er auðvitað jafnsjálfsagt að þeir sem eru í forustu fyrir einstökum atvinnugreinum hafi samband við nefndina, og eftir atvikum þá starfsnefnd sem síðar tekur við, til að fullvissa sig um að framkvæmd laganna verði með þeim hætti að jafna samkeppnisstöðu fyrirtækja, gera ekki upp á milli rekstrar, eins og er hið yfirlýsta markmið með virðisaukaskattinum og staðfastur vilji stjórnvalda að framkvæmd hans verði með þeim hætti.

Ég vil þá, herra forseti, leggja áherslu á að auðvitað er löggjöf um virðisaukaskatt viðamikil og flókin. Það er erfitt að sjá alla hluti fyrir fyrir fram og nauðsynlegt þess vegna að skyggnast enn betur um gáttir, kynna sér enn betur en þegar hefur verið gert hvernig framkvæmdin er í nálægum löndum til að læra af reynslu annarra þjóða. En þau atriði sem hér eru talin upp og tengjast störfum þeirrar starfsnefndar sem mun vinna nú í sumar eru eftirfarandi og mun ég fara nokkrum orðum um hvert þeirra til þess að útskýra hvað á bak við liggur:

Hér er fyrst talað um mat á skattprósentu virðisaukaskatts. Það gefur auga leið að eftir því sem fyllri upplýsingar liggja fyrir um það hvaða tekjur menn geta vænst að fá af virðisaukaskattinum hlýtur matið á skattprósentunni að koma til endurskoðunar í tengslum við fjárlagagerð á hausti komanda eins og við vitum að liggur í augum uppi. Hitt atriðið, hvort rétt sé að hafa skattprósentu eina eða tvær, er svo annað mál. Sú ákvörðun var tekin með söluskattinum nú í vetur og er ekki beint efnisatriði varðandi setningu laga um virðisaukaskatt nú.

Í öðru lagi segir hér: „Reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við nýbyggingar eða endurbætur og meiri háttar viðhald á íbúðarhúsnæði og annað sem tengist byggingarstarfsemi.“

Það sem vakir fyrir stjórnvöldum er að þessi breyting hafi ekki í för með sér hækkun á byggingarkostnaði íbúðarhúsnæðis né hækkun á meiri háttar viðhaldi eða endurbótum. Ég vil í þessu sambandi einnig minna á að þegar hér var til umfjöllunar hvernig unnt yrði að draga úr skattsvikum hér á landi var einmitt skattlagning þessarar vinnu mjög til umræðu og ekkert launungarmál að Verktaka- og meistarasamband byggingamanna svo og Landssamband iðnaðarmanna hafa hvað eftir annað ályktað um að einfaldari og fyllri reglur yrði að gera um skattskil af slíkri vinnu til að koma í veg fyrir — ég veit ekki hvort ég á að segja þau skattsvik sem menn vita að viðgangast eða hvort menn eigi að hafa einhver vægari orð um það. En það er auðvitað miklum erfiðleikum bundið, jafnvel þó menn vilji vera eins nákvæmir og þeir frekast geta verið, að greina nákvæmlega á milli þess hvaða vinna er unnin t.d. á verkstæði og hvaða vinna er unnin á byggingarstað. Eins liggur það í augum uppi að það er ekki hagkvæmt að færa þung og mikil áhöld á byggingarstaðinn til að komast undan söluskattsálagningu með þeim hætti.

Þannig er ýmislegt í sambandi við álagningu og skil söluskattsins nú með þeim hætti að nær ógerningur eða kannski alveg ógerningur er fyrir menn að gera glöggan greinarmun á þeirri vinnu sem skattskyld er og hinni sem ekki er skattskyld. Það er þess vegna mjög þýðingarmikið að þær endurgreiðslureglur sem samdar verða einmitt varðandi þessi atriði, nýbyggingar eða endurbætur og meiri háttar viðhald á íbúðarhúsnæði, verði með þeim hætti að ekki ýti undir þá tilhneigingu að menn reyni að skjóta sér undan réttlátri skattheimtu. Eftirtektarvert er í því sambandi að Meistara- og verktakasamband byggingamanna leggur einmitt til að reikningar sem til endurgreiðslu komi verði dagsettir og númeraðir og hins fyllsta aðhalds gætt í þessum efnum.

Þá er hér í þriðja lagi talað um reglur um endurgreiðslu virðisaukaskatts af orkugjöfum til hitunar íbúðarhúsnæðis. Um það hef ég þegar rætt. (Gripið fram í.) Ég veit ekki hvort gengið er frá reikningum endilega á byggingarstað, hv. þm. En auðvitað er hægt að hugsa sér að setja það inn í reglurnar að menn eigi að skrifa reikninga fyrir verkum sem eru skattskyld samkvæmt virðisaukaskatti á þeim stað sem verkin eru unnin. Þetta kann auðvitað að vera einfalt í sniðum ef maður hugsar sér þá sem vinna á byggingarstaðnum, en hitt kann að vera erfiðara að hafa þennan hátt á fyrir þá menn sem aka steypunni á staðinn. Þá gæti kannski verið að þeir yrðu ógreinilega skrifaðir, reikningarnir, eins hastir og steypubílarnir eru.

4. Reglur um skattskil á hráefni til fiskvinnslu sem tryggir jafna stöðu fiskvinnslufyrirtækja hvort sem þau gera út eigin skip eða ekki. Tryggt verði að endurgreiðsla á virðisaukaskatti þeim sem leggst á hráefni fiskvinnslufyrirtækja gangi það greiðlega fyrir sig að ekki valdi íþyngjandi rekstrarfjárvanda. Ég hef áður gert grein fyrir þessu vandamáli.

5. Reglur um hvernig með virðisaukaskatt af menningar- og listastarfsemi skuli farið. Þetta er líka álitamál sem menn verða að athuga mjög vandlega. Það er svo nú um styrki til menningar- og listastarfsemi að hún er aðallega með tvennum hætti. Sumpart er hún með þeim hætti að undanþága er veitt skv. söluskattslögum, en sumpart er hún með þeim hætti að beinir styrkir eru veittir til þessarar starfsemi skv. fjárlögum, ýmist beint eða þá í gegnum hina ýmsu sjóði sem standa undir liststarfsemi og einnig til skóla á þessu sviði. Það verður auðvitað að samræma þetta hvort tveggja, gera sér grein fyrir því hvernig þannig verði að þessu staðið að hafi örvandi áhrif á menningar- og listastarfsemi í landinu, en um leið gætt þess aðhalds og eftirlits í meðferð opinberra fjármála sem ég veit að allir hv. þingdeildarmenn eru sammála mér um að nauðsynlegt er, bæði varðandi menningar- og listastarfsemi sent allt annað sem ríkið skattleggur þegnana fyrir að standa undir. Ég vona að hv. stjórnarandstæðingar fallist á þau sjónarmið að þetta tvennt hljóti að fara saman. Það er auðvitað gagnslaust að breyta frv. að þessu leyti í einstökum atriðum ef það yrði síðar allt tekið til baka í gegnum fjárlög með því að minnka þær fjárveitingar sem til þessarar starfsemi renna. Ég þarf í rauninni ekki að hafa fleiri orð um þetta, svo augljóst sem það er að hugur stjórnvalda stendur til þess að standa myndarlega á bak við þessa starfsemi.

Hér er talað um reglur sem tryggja að jafnrétti sé í samkeppni einkafyrirtækja og opinberra aðila, reglur um það hversu skattskilum skuli háttað af útgáfu tímarita. Eins og brtt. liggja fyrir er augljóst að sá þáttur útgáfustarfseminnar sem fellur undir auglýsingar, kostnaður við að afla þeirra, prenta þær, pappír undir auglýsingasíður og annað þess háttar, mundi falla undir ákvæðin um endurgreiðslu innskatts, en á hinn bóginn ekki sá þáttur sem lýtur að ritstjórninni eða prentun á lesefni í viðkomandi tímariti og pappír undir það. Það yrði að finna þarna ákveðna reglu ef sá háttur yrði á hafður að láta útgáfu tímarita falla undir 2. gr. eins og hér er gert þegar talað er um sölu tímarita. Þarfnast þetta mál nánari athugunar.

Ég hef áður rætt um landbúnaðinn sérstaklega og um gjaldfrest á innflutningi og gert þar grein fyrir sjónarmiðum Félags ísl. iðnrekenda. Hér er talað um að nauðsynlegt sé að setja reglur um hvernig með virðisaukaskatt af fólksflutningum skuli farið. Þessi breyting hefur í för með sér mikið hagræði fyrir vöruflutninga að því leyti að innskatturinn kemur til frádráttar. Eins og kemur fram í frv. er ítarlega fjallað um það hvernig farið skuli með loftför. En á hinn bóginn er það álitamál hvort ekki sé rétt að virðisaukaskattur af fólksflutningum skuli falla undir 12. gr. og innskatturinn komi því til frádráttar. Hér er svo gert ráð fyrir öðrum atriðum sem upp kunna að koma.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að rekja brtt. sérstaklega. Það er ítarleg grein gerð fyrir þeim í nál. (Gripið fram í: Það væri ágætt að fá upplýsingar um það hvað er „hliðstæð menningarstarfsemi“.) Já, það er nú það. (Gripið fram í: Þetta er tölul. 1. c.) Já, það er nú þetta sem við ætlum að reyna að fara að hugsa um, hvað sé „hliðstæð menningarstarfsemi“. En ég gæti líka sagt við hv. þm. að ef hann gæti skilgreint fyrir mig skýrlega, þannig að ekki sé vafi á, hvað sé menningarstarfsemi væri það líka upplýsandi. Ég held að nákvæmar skilgreiningar um þetta hvort tveggja liggi ekki fyrir og megi kannski finna ýmsar skilgreiningar á þessum hugtökum. Hins vegar erum við vanir því, ef okkur sýnist svo, að misskilja orðalag af þessu tagi, eða reyna að skilja það, eftir því hvernig á okkur liggur. En allt ber þetta nú vott um að þessi orð eru sett niður með menningarlegu hugarfari og af manni sem er listhneigður.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli vikið að helstu efnisatriðum sem fram komu á fundum nefndarinnar. Ég legg áherslu á að það frv. sem hér liggur fyrir er þrautrætt, það hefur sést hér á Alþingi áður. Ég legg áherslu á að vinnan í nefndinni var mjög ánægjuleg og mikill samhugur nefndarmanna um að reyna að nota tímann sem best þegar farið var yfir frv., einstök atriði þess skýrð og rætt var við þá fjölmörgu aðila sem fyrir nefndina komu. Ég vil þess vegna nota þetta tækifæri, hæstv. forseti, til þess að þakka fyrir góða samvinnu og ánægjulega í nefndinni við umfjöllun þessa máls, um leið og ég legg áherslu á að margt hlýtur að orka tvímælis í einstökum smáatriðum þegar um jafnróttækar skattkerfisbreytingar er að tefla eins og hér liggja fyrir deildinni nú. Það er fátt í henni veröld sem er einsýnt.

Ég fullyrði að við samningu þessa frv. og þá vinnu sem síðan hefur farið fram hefur eftir megni verið reynt að draga lærdóm af þeirri reynslu sem nágrannaþjóðir okkar hafa af virðisaukaskatti í sínum löndum. Ég vil einnig leggja áherslu á það að höfuðástæðan fyrir þessari breytingu er sú að hún hefur það í för með sér að samkeppnisstaða þeirra atvinnugreina hér á landi sem ekki njóta fjarlægðarverndar styrkist. Það er enginn vafi á því að fyrir útflutningsiðnaðinn og samkeppnisiðnaðinn eru þessar breytingar nauðsynlegar til þess að þær geti haldið stöðu sinni gagnvart erlendum framleiðendum.

Þetta eru þau höfuðrök sem ég færi fyrir því að þetta frv. verði nú samþykkt. En eins og við erum öll sammála um í þessari deild er öflugur atvinnurekstur forsendan fyrir því að við megum halda hér uppi menningar- og velferðarsamfélagi. Af þeim sökum hvílir sú þunga skylda á Alþingi á hverjum tíma að reyna að skapa atvinnufyrirtækjunum þau ytri skilyrði, þá vinnustöðu í þjóðfélaginu, að þau geti spjarað sig í þeirri erfiðu samkeppni sem hlýtur að vera afleiðing bættra samgangna og örrar og mikillar tækniþróunar.