04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7325 í B-deild Alþingistíðinda. (5339)

431. mál, virðisaukaskattur

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Einn ágætis sjálfstæðismaður í Kópavogi, einn af helstu forustumönnum Sjálfstfl. í Kópavogi, sagði að virðisaukaskatturinn skyti nú upp kollinum enn á ný eins og kölski hjá Leirulækjar-Fúsa. Það er mjög athyglisvert þegar maður horfir hér yfir hv. þingdeild að þm. Sjálfstfl. hafa kosið að hverfa allir af vettvangi nema hv. 2. þm. Norðurl. e., hann verður að vera hér sem formaður fjh.- og viðskn. Ed. Aðrir þm. Sjálfstfl. í Ed. hafa kosið að vera ekki viðstaddir þessa umræðu. Þykir mér það afar athyglisvert og geta þingdeildarmenn rennt í grun hvað mundi valda.

Ég gat áðan um þessi ummæli eins af forustumönnum Sjálfstfl. í Kópavogi. Mig langar til þess að lesa upp, með leyfi forseta, greinarkorn sem birtist í málgagni þeirra sjálfstæðismanna í Kópavogi, blaðinu Vogar. Þar koma fram mjög athyglisverðar athugasemdir við virðisaukaskattinn sem ég held að lýsi vel huga þm. og almennra flokksmanna Sjálfstfl. til þessa frv.

„Vaskurinn enn á ferðinni. Virðisaukaskattsmóri er nú enn á ný að skjóta upp kolli sínum á Alþingi rétt eins og kölski úr dýinu hjá Leirulækjar-Fúsa nema nú er hann illvígari en nokkru sinni fyrr, enda magnaður af öllum höfuðsæringarmönnum þjóðarinnar í stjórnarflokkunum. Umkomuleysi stjórnarandstöðunnar er slíkt að í þeim æmtir hvorki né skræmtir“ — en þetta mun vera áður en hv. 7. þm. Reykv. flutti ræðu sína rétt áðan og hefði betur verið að þessi forustumaður Sjálfstfl. í Kópavogi hefði verið viðstaddur þá ræðu. Hann hefði þá varla talað um að það hvorki æmti né skræmti í stjórnarandstöðunni undir þeim lestri.

„Virðist Ásmundur Stefánsson alveg hafa gleymt sínum fyrri skoðunum á þessu fyrirbrigði, a.m.k. heyrast nú ekki þær snjöllu fyrirbænir sem hann flutti gegn þessari sendingu við fyrri ásóknir hennar. Væntanlega hefur Ásmundur þó ekki skipt um skoðun eins og Jón Baldvin sem lét skírast til virðisaukatrúar af nafna sínum Sigurðssyni. Hvar er nú Guðmundur H. Garðarsson sem ekki var fyrr til viðtals um það að hækka húsbyggingarkostnað sinna umbjóðenda um meira en 10%? Hvað segir nú Magnús L. Sveinsson um virðisaukaskatt? Er Guðmundi J. bara sama? Er samtakamáttur alþýðunnar hans nú liðin tíð?

Hvaða áhrif eru af virðisaukaskatti? Nú blasir við sú fyrirætlan stjórnvalda að nota virðisaukaskattskerfið, „VASK“, til þess að stórauka skattbyrði almennings í landinu. Skv. þessu frv. skal nú skattleggja alla vinnu við húsbyggingar. Þokukenndar yfirlýsingar um það að ráðamenn muni kannski gefa fólki sem er að byggja í fyrsta sinn einhverjar bætur til baka eru heldur ótraustar tilsýndum því ekki verður alltaf sú sama stjórn við völd og sú sem semur frv.

VASK-prósentan er nú 22% samkvæmt frv. Hafi söluskattskerfið með öllum sínum undanþágum verið ónýtt, eins og Jón „skattvin“ orðar það, með 25% gjaldi þá er bersýnilegt að 22% er ætlað að skila mun meiri tekjum í heild vegna hinnar miklu víðtækari skattskyldu. Ef stiklað er á stóru í gegnum frv. þá má benda á eftirfarandi meginatriði sem varða framkvæmd hans í samanburði við söluskattskerfið:

1. VASK-kerfið er margfalt dýrara í framkvæmd. Vafi er talinn leika á því hvort skattstofur landsins hafi mannafla til þess að ráða við framkvæmdirnar né geti keypt þá vinnu sem til þarf.“

Hér langar mig til að skjóta því að að skattstofur landsins hafa oft mánuðum saman og jafnvel missirum saman árangurslaust reynt að auglýsa eftir starfsfólki til vinnu við þau störf sem eru unnin á skattstofunum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að manna virðisaukaskattskerfið ef rétt er að það þurfi 35–40 ný störf til að reka kerfið. Hvar á að fá þá hæfu menn til að sitja á skattstofunum og reikna út virðisaukaskattskerfið þegar ekki er einu sinni nokkur leið að manna skattstofurnar eins og þær eru reknar í dag? Ég spyr. Ég vildi gjarnan fá svör hæstv. fjmrh. við þessari spurningu, hvernig hann ætlar að manna skattstofurnar til að geta sinnt þessu hlutverki. Hvaða kaup á t.d. að greiða þeim starfsmönnum sem á að ráða til þessa verks? Ef þeir eiga að vera á þeim kjörum sem ríkisstarfsmönnum eru almennt boðin í dag er ég ekki í nokkrum vafa um að fáir munu hafa áhuga á því að sækja um þessar stöður.

„2. Innheimta söluskatts er mjög ódýr. Gjaldendur í því eru um 11 000 talsins.“ — Hér er átt við gamla söluskattskerfið að sjálfsögðu. — „Þar af innheimta 1600 aðilar um 85% skattsins og þar af um 300 aðilar 60% alls skattsins. Um 7400 aðilar innheimta 15% skattsins. Eftirlit með skattinum er almennt orðið allstrangt. Gjaldendur í virðisaukaskattskerfi eru taldir verða um 25 000 talsins samkvæmt frv.“

Ég skýt hér aftur inn í að ég tel að þau rök sem hafa verið færð fyrir því að gjaldendur verði u.þ.b. 25 000 talsins séu röng. Ég tel að þeir muni verða miklu fleiri og það sé stórkostlega vanmetið hversu margir verði gjaldskyldir í þessu nýja kerfi. Mér kæmi ekki á óvart þó að þeir færu langt yfir 30 000 og þar með er u.þ.b. þriðjungur allra vinnufærra Íslendinga orðinn virðisaukaskattskyldur.

„3. Greiðandi söluskatts og VASK er neytandinn. Hann borgar líka innheimtukostnaðinn. Samkvæmt frv. um VASK er gjaldskyldan ótvíræð, 22% skal lagt á vörur og þjónustu með fáum undantekningum. Gegn 22% hækkun á lífsnauðsynjum neytandans og sömu hækkun á húsnæðiskostnaði hans auk aukins orkukostnaðar stendur aðeins viljayfirlýsing ráðherra í grg. með frv. um ótilgreindar niðurgreiðslur á verði hefðbundinna landbúnaðarafurða og niðurgreiðslu á fermetraverði í nýju húsnæði.

4. Flugnám á Íslandi verður 22% dýrara en það var. Það er eina námið á Íslandi sem hefur verið alfarið á kostnað nemandans sjálfs meðan það er á vegum herja í nágrannalöndunum að miklu leyti. VASK verður hér mjög íþyngjandi á þessu sviði hagnýtrar menntunar.

5. Uppsöfnun í atvinnurekstri af völdum söluskatts er mjög haldið fram sem röksemd fyrir upptöku VASKsins og talið standa í vegi fyrir útflutningi. Félag iðnrekenda hefur metið þetta til að vera á bilinu 1–3% eftir greinum. Margt hefur verið gert til að koma í veg fyrir þessi áhrif söluskatts og er ekki tiltakanlega torvelt í framkvæmd. Rökin eru því harla léttvæg.

6. Í frv. er gert ráð fyrir skattskyldu skilorðsbundins afsláttar til almennings. Dæmi hér um er staðgreiðsluafsláttur og magnafsláttur af steinsteypu sem er verulegur og skiptir húsbyggjandann máli, e.t.v. 3% af byggingarkostnaði. Þessi afsláttur hlyti að minnka til almennings og rýra kjör hans.

7. Skv. frv. um VASK er gert ráð fyrir því í grg. sem því fylgir að ráðherra setji upp víðtækt niðurgreiðslukerfi á hefðbundnum matvælum. Möguleikar til ákveðinnar neyslustýringar sem mun beinast að hinum hefðbundna landbúnaði á kostnað annarra neysluvara virðast þarna vera mjög svo fyrir hendi og eru reyndar greinilega komnir fram í neyslustýringunni sem felst í núverandi niðurgreiðslukerfi.

8. VASK hefur í för með sér mikla aukningu á rekstrarfjárþörf fyrirtækja. Staðgreiða verður virðisaukaskatt af öllum innflutningi. Hvar skyldi verslunin eiga að fá peninga til þess að fjármagna þetta? Launin við bókhald í verslun eru talin munu hækka um 50–60% vegna virðisaukaskattsins. Vaxtakostnaður af þessu hlýtur að fara beint út í verðlagið.

9. Fleira en eitt skatthlutfall er talið flækja framkvæmd skattsins af fylgismönnum hans hér á landi. Í Bretlandi, Þýskalandi, Svíþjóð og í Frakklandi eru mismunandi skatthlutföll notuð án vandamála. Vandalaust virðist þannig að hafa fleiri skatthlutföll í VASK-kerfi. Um leið bendir þetta til þess að auðvelt muni að gera VASK-kerfið jafngötótt og söluskattskerfið er orðið með tímanum.

10. Hin háa skattprósenta í frv. og niðurgreiðslukerfi það sem boðað er með skattinum eyðir hlutleysi skattsins sem átti að vera hans höfuðdyggð að mati fylgismanna hans. Ekki virðist markvisst að niðurgreiða matvörur jafnt fyrir tekjulága og tekjuháa fremur en láta skattakerfið um að mæta auknum útgjöldum tekjulægri heimila með barnabótum eða persónuafslætti eða þá með neikvæðum tekjuskatti.

11. Ekki er almennt talið að VASK-kerfið hafi yfirburði yfir söluskattskerfið til þess að koma í veg fyrir nótulaus viðskipti manna á milli sem vitað er að eru algengustu söluskattsmisferlin.

Niðurstöður: Að öllu þessu athuguðu grunar hinn almenna mann að virðisaukaskattskerfið verði notað til aukinnar skattheimtu hvað sem líður yfirlýsingum ráðamanna um hið gagnstæða. Víst er að frv. eins og það liggur fyrir gefur ráðamönnum kost á slíku án þinglegrar meðferðar þegar aðeins þarf að breyta reglugerðum um niðurgreiðslu til þess að hlutur neytandans rýrist að óbreyttum neysluvenjum.

Hér er sem oft áður verið að leggja þungan skatt á almenning en skattþungann sjálfan á að ákveða með reglugerðum ráðherra. Þetta er í andstöðu við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem segir að skatta megi aðeins leggja á með lögum. Af framansögðu má ráða að upptaka virðisaukaskatts verður ekki til að bæta lífskjör hins almenna manns á Íslandi vegna stóraukinnar skattheimtu. Endurgreiðslurnar verða háðar duttlungum ráðherra sem sitja í framtíðinni. Hver veit hvernig þeir munu hugsa.

Það er nöturlegt að hugsa til baka þegar ungir sjálfstæðismenn undir skeleggri forustu Geirs H. Haarde börðust gegn ríkisafskiptum undir kjörorðinu „Báknið burt“. Nú berst þm. Geir H. Haarde hart fyrir því að taka upp virðisaukaskatt sem í framkvæmdinni mun kalla á mesta niðurgreiðslubákn Íslandssögunnar. Tekur það virkilega ekki lengri tíma fyrir ungan mann að breytast í kerfiskarl?"

Svo skrifar Halldór Jónsson verkfræðingur sem er formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Kópavogi. Til hvers er þá verið að taka upp VASK á Íslandi? gætu margir spurt. Iðnrekendur sérstaklega hafa barist fyrir því í mörg ár að virðisaukaskattur verði tekinn upp á Íslandi. Þeir munu hafa tekið virðisaukaskattsbakteríuna um svipað leyti og verið var að ganga frá samningum um inngöngu Íslands í EFTA. En alveg eins og hv. 7. þm. Reykv. gat hér um í ræðu sinni hef ég grun um að fulltrúum iðnrekenda og kerfiskarlanna í ráðuneytunum hafi liðið dálitið illa í hanastélsboðunum í Genf þegar þeir voru að gera grein fyrir skattkerfinu í þessu 250 þús. manna þjóðfélagi hérna norður í Dumbshafi og urðu að segja eins og helberir sveitamenn: Ja, við erum nú bara með gamaldags söluskatt hérna, en við skulum reyna að flýta okkur að taka upp virðisaukaskatt.

Ég skil vel röksemdir iðnrekenda hvað það varðar að þeir leggja að sjálfsögðu áherslu á að samkeppnisstaða þeirra sé jafngóð og þeirra fyrirtækja sem þeir eiga í samkeppni við innan Efnahagsbandalagsins og EFTA. Ég mun heils hugar taka undir hvers konar aðgerðir sem mættu verða til þess að bæta þá samkeppnisaðstöðu og a.m.k. að koma í veg fyrir að iðnrekendur og verslunin á Íslandi hafi lakari samkeppnisstöðu en hliðstæð fyrirtæki í helstu samkeppnislöndum okkar. En að eina leiðin til að ná því marki sé að taka upp virðisaukaskattskerfi á Íslandi, því neita ég alfarið.

Annars er það með ólíkindum og ég hef oft velt því fyrir mér hvað því má valda að íslenskir embættismenn virðast iða í skinninu og þeim líður illa ef þeir vita af einhverju flóknu skattkerfi úti í löndum sem þeir hafa ekki tekið upp hér á Íslandi. Það virðist vera svo að embættismenn fylgist mjög grannt með og hafi þar allan heiminn undir smásjá til að leita uppi hvar sé nú flóknast skattkerfi til, flýta sér þangað til að ná sér í það og reyna að koma því á hér á Íslandi. Þá varðar engu þó að þessi skattkerfi séu hönnuð og upphugsuð fyrir tugmilljóna þjóðfélög. Þessi fámenna þjóð verður að fá svona því að, eins og var talað um áðan, annars erum við ekki menn með mönnum.

Ég minnist þess fyrir nokkrum árum að einn ágætasti embættismaður fjmrn. fékk ársleyfi frá störfum til að kynna sér staðgreiðslukerfi skatta. Þetta var líklega fyrir einum 10 árum, um það bil sem við í alvöru fórum að tala um að taka upp staðgreiðslukerfi skatta hér á landi. Svo leið árið og ég man sérstaklega eftir því að þessi ágæti embættismaður kom fram í sjónvarpsviðtali og sagði nú frá athugunum sínum og þeirri reynslu sem hann hafði hlotið eftir þetta ár í leyfi. Hann sagði m.a.:

„Ég hef nú aðallega kynnt mér staðgreiðslukerfi skatta í Bandaríkjunum og síðan hef ég kynnt mér staðgreiðslukerfi skatta í Vestur-Þýskalandi og ég held að bandaríska staðgreiðslukerfið mundi henta okkur betur.“

Svo mörg voru þau orð. Ég sat í sófanum og horfði á þetta og hugsaði með mér: Skyldi manninum ekki hafa dottið í hug að fara til Lichtenstein eða til Andorra og kanna hvers konar skattkerfi væri í þeim löndum? Væri ekki nær að athuga hvernig skattkerfinu er háttað í fámennu þjóðfélögunum sem við getum að einhverju leyti borið okkur saman við? Nei, nei. Þessi 240 þúsund manna þjóð norður í Dumbshafi skal hafa sama skattkerfi og gildir í þjóðfélögum sem eru þúsund sinnum fjölmennari, tugmilljóna ef ekki hundraða milljóna þjóðfélögunum, iðnaðarþjóðfélögunum þar sem allar aðstæður eru allt aðrar og í engu líkar því sem hér gerist.

Mér þykir vænt um að sjá að hv. 14. þm. Reykv. er mættur til leiks. Ég saknaði hans mjög hér áðan og vona nú að hann eigi eftir að taka þátt í þessari umræðu um virðisaukaskattinn eða virðisaukamóra eins og komist var að orði í þeirri blaðagrein sem ég vitnaði til áðan.

Þá áráttu embættismannanna og margra forráðamanna atvinnulífsins hér á landi að taka upp svona flókið skattkerfi sem virðisaukaskatturinn er hef ég stundum kallað kommuskekkjuna. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort einhver kommuskekkja sé komin inn í tölvuforrit fjmrn. og Íslendingar séu í tölvum fjmrn. 2,5 millj. eða jafnvel 25 millj. Það er eina skýringin á því að það flæðir út úr ráðuneytinu það hrikalega kerfi og öll þau flóknu skattafrumvörp sem hér hafa séð dagsins ljós í vetur. Enda minnist ég þess að í ræðu hér fyrir jólin, að ég held, þegar við vorum að ræða eitt af þessum margumræddu skattafrumvörpum spurði hæstv. utanrrh. hæstv. viðskrh. að því hvort hann héldi að hann væri viðskrh. í 20 millj. manna þjóðfélagi. Mig minnir að þeir hafi verið að tala um vextina.

Það er kannski rétt að víkja nokkrum orðum að sögu VASKsins. Frakkar fundu þennan draug upp, þennan Móra, og sá hann dagsins ljós dálitlu eftir seinni heimsstyrjöldina. Það er talið að um 1955 hafi virðisaukaskattur haldið innreið sína í Frakklandi. Frakkland er eitt af þeim löndum Evrópu þar sem skriffinnska er í hávegum höfð og er mér tjáð að hvergi í Vestur-Evrópu sé önnur eins skriffinnska við lýði og einmitt í Frakklandi. Mun það jafnast á við skriffinnskuna eins og hún gerist austantjalds, en þar mun hún slá öll met í víðri veröld.

Efnahagsbandalagslöndin fylgdu síðan hægt og rólega á eftir. Danir munu hafa sett í lög 1967 að þar skyldi tekinn upp virðisaukaskattur og Norðmenn tóku upp virðisaukaskatt 1969. Bæði þessi lönd ákváðu að taka upp virðisaukaskatt með hliðsjón af því að þá var ljóst að þessi lönd ætluðu sér bæði að ganga í Efnahagsbandalagið, voru bæði búin að sækja um inngöngu, þö svo að Norðmenn felldu það síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu 1971, en Danir hins vegar gengu í Efnahagsbandalagið eins og öllum er kunnugt.

En þá kannski mundu margir spyrja: Var þetta þá ekki heimskulegt skattform og var það þá ekki rangt af þessum löndum að koma þessu skattformi á? Ég held að svo sé ekki. Eftir því sem ég hef best getað kynnt mér tel ég að einmitt virðisaukaskattskerfið henti ákaflega vel löndum Vestur-Evrópu, þ.e. iðnaðarlöndunum sem einmitt eru aðilar að Efnahagsbandalagi Evrópu.

Við verðum að átta okkur á því að aðstæður þar eru allt aðrar og mjög ólíkar þeim sem gerast hjá Íslandi. Í fyrsta lagi eru samskipti milli landanna miklu meiri en við þekkjum hér. Hálfunnar vörur flæða fram og til baka milli landanna, yfir landamæri með bílum og hraðlestum og því nánast ógerningur að koma við neinum landamærasköttum.

Ef við tökum stóru löndin eins og Frakkland, Þýskaland, Ítalíu, England og jafnvel smærri löndin eins og Danmörku með, þá er um 80% af öllum neysluvarningi sem er til sölu í búðum og almenningur kaupir til daglegs brúks framleiddur í landinu sjálfu þó svo að hluti af framleiðsluvörunum hafi kannski komið við í einhverjum öðrum Efnahagsbandalagslöndum áður en hann endaði t.d. í búð í Kaupmannahöfn. Aðeins 20% af þeim varningi sem er í búðum í þessum löndum er innflutt vara í hefðbundnum skilningi eins og við skiljum það hugtak. Þar af leiðandi er þessi skattheimta mjög heppileg og æskileg fyrir þessi lönd.

Á Íslandi háttar þessu allt öðruvísi. Ég gæti trúað því að þarna snerust þessar prósentur við, að aðeins um 20% af þeim neysluvörum sem eru til sölu í búðum á Íslandi væru framleiddar í landinu sjálfu, á Íslandi, en um 80% af öllum neysluvörum væru innfluttar. Þá er ekki um það að ræða að landamæri okkar séu með þeim hætti að hér streymi bílar út og inn og hraðlestir á ótal stöðum á landamærunum. Hér koma allar vörur inn á tiltölulega fáum höfnum og þar stoppar varan vegna þess að það þarf að skipa henni upp úr skipum og það tekur tíma. Hún situr föst á hafnarbakkanum. Það er ekki um það að ræða að vörurnar flæði inn og út um landamærin eins og gerist í Evrópu.

Í svokölluðum GATT-samtökum þar sem rætt er um tollamál á alheimsgrundvelli hefur verið lögð á það áhersla að fallið verði frá landamærasköttum en þess í stað teknir upp skattar innan lands, einmitt eins og virðisaukaskattur. Þetta er ofur eðlilegt vegna þess að iðnaðarþjóðfélögin ráða ferðinni í GATT-umræðunum. Hvað haldið þið að land eins og Ísland, með sína sérstöðu, þetta einangraða eyríki norður í Dumbshafi, hafi að segja í GATT-umræðunum innan um allar stórþjóðirnar?

Ég hef sjálfur setið alþjóðaráðstefnu fyrir hönd Íslendinga og ég hef ekki orðið var við að það sé mjög mikið hlustað á okkur. Við erum meðhöndlaðir af fyllstu kurteisi og ef við óskum eftir fáum við að sjálfsögðu að taka til máls. En ég er ekki viss um að stóru þjóðirnar séu reiðubúnar að taka okkar tillögur og gera þær að sínum þó svo við mundum reyna að leggja á það áherslu. Þess vegna þykir mér ekkert skrýtið þó að sú stefna hafi orðið ofan á að það skyldi fallið frá landamærasköttum. En það er engin ástæða fyrir Íslendinga að aðhyllast þá skoðun. Íslendingar eiga bara að búa sér til skattkerfi sem hentar þessu þjóðfélagi, þessu fámenna þjóðfélagi hér langt norður í Dumbshafi. Við eigum að búa okkur til skattkerfi sem passar fyrir þessa fámennu þjóð og okkur varðar ekkert um það hvað milljónaþjóðirnar úti í heimi gera.

Þetta virðisaukaskattsfrv. sem hér liggur fyrir er fyrst og fremst byggt á dönskum lögum um virðisaukaskatt. Það varð fræg kynnisferð nokkurra embættismanna til Danmerkur veturinn 1985–1986. Þeir töluðu þar hnarreistir við álíka kerfiskarla og embættismenn og þeir sjálfir voru og sungu saman í kór um ágæti virðisaukaskattsins. En þeim láðist alveg að tala við forstöðumenn smáfyrirtækjanna í Danmörku, forstöðumenn handverksmanna og fulltrúa atvinnulífsins á breiðum grundvelli og spyrja þá hvað væri að gerast í Danmörku eftir að virðisaukaskatturinn var tekinn upp.

Eins og hér hefur komið fram áður í þessum umræðum er þetta mál keyrt í gegnum þingið af miklu offorsi og það gefst því miður allt of lítill tími til að grandskoða afleiðingar þess að taka upp virðisaukaskatt, hvað þá að við höfum tíma til að skoða einstakar frumvarpsgreinar. Það virðist því miður stefna í það að þetta frv. verði samþykkt hér á þinginu því að eins og reyndar kom fram í umræðunum áðan ræður Alþfl. hér algerlega ferðinni. Sjálfstfl. er týndur og Framsfl. veitir þessari stjórn aðeins hlutleysi og skiptir sér að öðru leyti ekkert af þessum málum.

Reynsla Dana er nefnilega alls ekki eins góð og kerfiskarlarnir vilja halda fram. Einn af hagfræðingum Vinnuveitendasambandsins í Danmörku, sem ég hafði samband við og átti langt samtal við í gær, sagði mér að það sem fyrst og fremst hefði borið á væri að mjög mörg smáfyrirtæki hafa lagt upp laupana í Danmörku og handverksmenn sérstaklega hafa orðið gjaldþrota vegna þess að þeir kunnu ekkert á þessa skriffinnsku. Þeir lentu í því að það voru kannski komnar á þá þungar álögur og sektir vegna þess að virðisaukaskattsbókhaldið þeirra var allt í molum. Þeir réðu ekkert við þetta, urðu einfaldlega gjaldþrota og lögðu upp laupana. Sérstaklega var þetta áberandi í afskekktari héruðum Danmerkur, á Norður-Jótlandi og víða á eyjunum í dreifbýlinu. Að sjálfsögðu gekk þetta betur í þéttbýlinu.

Hér kemur aftur fram sú sama afstaða ríkisstjórnarinnar og í mörgum öðrum málum að ekkert er hugsað um afleiðingarnar af þessum skattafrumvörpum fyrir dreifbýlið á Íslandi. Það kann vel að vera að þetta muni ganga nokkuð vel hér á höfuðborgarsvæðinu þar sem fyrirtækin eru yfirleitt stærri en gerist úti á landi en afleiðingarnar þar eru alveg fyrirsjáanlegar. Ég held að þær verði mjög hliðstæðar þeim sem urðu í Danmörku, að smáfyrirtæki og einyrkjar úti á landi hljóta að leggja upp laupana í mörgum tilvikum. Það er kannski það sem er ætlunin með þessu frv.

Ég og hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson fórum í ferðalag um Vestfirði í sumar sem leið, heimsóttum þar marga smærri staði, komum við víða og töluðum við menn og áttum mjög skemmtilegar viðræður við marga þar. Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig skyldi hún Ragna bóndi á Laugabóli fara að því að gera upp virðisaukaskatt? Hvar skyldi hún fá prentaðar þessar númeruðu nótur sem verða að vera prentaðar í tölusettri röð í prentsmiðju? (Gripið fram í.) Má vera, hv. þm. En ég er ekkert viss um að þetta gangi öllu betur hjá mörgum bændunum í Norðurl. e., á Melrakkasléttunni og víðar. (Gripið fram í.) Það má vel vera að hv. þm. finnist það allt í lagi, eins og kom reyndar fram áðan í ræðu hv. 7. þm. Reykv., að bændur hafi ekkert betra við sinn tíma að gera en sitja inni og færa þar skýrslur og ganga frá útreikningum vegna virðisaukaskatts. Það má vel vera að þeir hafi það góðan tíma aflögu að þá muni ekkert um þetta. Ef svo er er þessi umræða kannski óþörf hvað bændur varðar og skal ég þá taka það út af dagskrá.

Þessi ágæti hagfræðingur danska vinnuveitendasambandsins varð alveg hvumsa og missti nánast málið um stund þegar hann frétti að það væru íslenskir sósíaldemókratar sem beittu sér fyrir því að taka upp virðisaukaskatt á Íslandi. Þegar hann hafði náð sér eftir það áfall stundi hann upp: „En hafa þeir ekki gert sér grein fyrir því að virðisaukaskattur virkar andstætt öðrum sköttum sem er ætlað að vera tekjujafnandi?" Virðisaukaskatturinn er neikvæður í því sambandi. Hann leggst langþyngst á barnmargar fjölskyldur og fjölskyldur sem eru með lægri tekjur. Þeir sem hafa hærri tekjurnar í þjóðfélaginu verða minna varir við hann. Þess vegna spurði þessi ágæti viðmælandi minn: Hvers vegna sósíaldemókratar? En það er kannski ekki von að hann skilji að Alþfl. á Íslandi eins og hann er í dag er sennilega sá flokkur sem er lengst til hægri í íslenskum stjórnmálum. A.m.k. er það sá flokkur sem er mesti kerfisflokkur Íslendinga um þessar mundir.

Þessi ágæti viðmælandi minn sagði að nýleg skýrsla sem hefði verið birt og unnin hjá Socialforsknings Institutet í Danmörku sýndi að svört atvinnustarfsemi hefði aukist verulega í virðisaukaskattskerfinu. Um 20% atvinnustarfsemi hefði aukist verulega í virðisaukaskattskerfinu. Um 20% af efnahagslífi afskekktari byggða í Danmörku, sérstaklega á Norður-Jótlandi og á eyjunum, eru nú svört atvinnustarfsemi. Þetta eru geigvænlegar tölur. Hann tjáði mér að það væri alveg ljóst að við upptöku virðisaukaskatts mundi svört atvinnustarfsemi aukast verulega. Sérstaklega er þetta áberandi og verður áberandi, er talið, í byggingarstarfsemi, en í nánast öllum þjónustugreinum verður að búast við því að svört atvinnustarfsemi aukist. Þess vegna er það auðvitað alrangt þegar því er haldið fram að virðisaukaskatturinn muni eitthvað laga ástandið í þeim efnum. Það er hin mesta fásinna og ekkert sem rökstyður þá skoðun, sem ég hef komið auga á, í röksemdafærslu stjórnarliða í þessu sambandi.

Það er eitt athyglisvert sem verður vart við þegar komið er til Danmerkur. Virðisaukaskattskerfið hefur fætt af sér eitt furðulegt fyrirbæri sem eru svokallaðar „moms“-búðir. Það eru sérverslanir, miklar lúxusverslanir, sem þeir einir fá aðgang að sem hafa virðisaukaskattsnúmer. Þar geta þeir keypt lúxusvarning á hagstæðu verði og sauðsvartur almúginn sem hefur ekkert virðisaukaskattsnúmer horfir inn um gluggann með sultardropa á nefinu og lætur sig dreyma um dýrðina þar fyrir innan.

Ég held að það þurfi ekki að tala meira um skriffinnskuna sem mun fylgja þessum virðisaukaskatti. Hv. 7. þm. Reykv. gerði henni allgóð skil í ræðu sinni áðan. Mig langar hins vegar hér undir lokin að fara nokkrum orðum um þau lönd sem hafa ekki séð ástæðu til að taka upp virðisaukaskatt. Finnar eru um margt sérstakir meðal Norðurlandaþjóðanna. Þeir hafa dálitið farið sínar eigin leiðir í efnahags- og atvinnumálum. Við höfum mjög lítið sett okkur í samband við Finna — við eigum kannski erfiðara með að tala við þá en hina Norðurlandabúana — en ég held að við gætum einmitt lært mikið af þeim. Finnar eru með söluskatt sem er með virðisaukaskattssniði og ætla ég að fara betur inn í það hugtak hér á eftir.

Ein þjóð, sem er fræg um allan heim fyrir stórkostlegt undur í efnahagslífi sínu, er Japanar. Þeir hafa ekki séð ástæðu til að vera með nokkurn söluskatt, hvorki virðisaukaskatt né söluskatt, og sjá fyrir skattheimtu sinni með öðrum hætti. Í Bandaríkjunum er lágur söluskattur og ekki einu sinni í öllum fylkjum Bandaríkjanna. Þar ráða fylkin því hvað hann er hár. Ég er hræddur um að Bandaríkjamenn upp til hópa mundu reisa götuvígi og gera uppreisn ef þeir ættu að þola það að skattheimta færi upp í 22%. Ég held að Bandríkjamenn mundu ekki láta bjóða sér slíkt.

Svisslendingar eru um margt mjög athyglisverðir. Í upplýsingum um söluskattskerfi Evrópuþjóðanna kemur fram að Svisslendingar hafa tvisvar sinnum, þ.e. í júní 1977 og í desember 1978, hafnað virðisaukaskatti í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það væri nær að skoða söluskattskerfi Svisslendinga. Ég reyni að þýða eftir bestu getu þær örfáu línur sem lýsa því. En þar stendur að eins og stendur sé venjulegur söluskattur við lýði, þ.e. eins stigs skattur sem er lagður á sölu vöru af öllum skráðum framleiðendum eða skráðum söluaðilum, þ.e. heildsölum, til neytenda að upphæð 5,6% og til smásöluaðila að upphæð 8,4%. Allur innflutningur er lagður með 5,6% söluskatti nema vörurnar séu fluttar inn af skráðum verktaka. Þeir áætla þó að hækka þetta í 6,4% og 9,6%. Síðan kemur það sem mér þykir athyglisverðast en það er að þjónusta innan lands er ekki með söluskatti. Að vísu er undanþága frá þessu ákvæði að viss verktakastarfsemi er með söluskatti.

Í kosningabaráttunni í vor lagði ég fram hugmyndir um annars konar söluskattskerfi, þ.e. söluskatt sem yrði lagður á í tolli. Þetta voru mjög lauslegar hugmyndir sem því miður vannst ekki tími til að vinna neitt nánar. Ég varpaði þessu fram í kosningabaráttunni til athugunar einmitt með hliðsjón af því að ég tel að Íslendingar eigi að sníða sér sitt eigið söluskattskerfi, miðað við íslenskar aðstæður og án tillits til þess hvað er gert í öðrum löndum. Það stóð ekki á viðbrögðunum. Einn af forustumönnum iðnrekenda sá ástæðu til þess að koma strax með mikla sleggjudóma í Morgunblaðinu þar sem hann lýsti þessar hugmyndir algerlega óalandi og óferjandi og þær væru óframkvæmanlegar vegna þess að skatturinn yrði að vera svo hár.

Söluskattskerfi þetta var hugsað með þeim hætti að allur söluskattur yrði lagður á í tolli. Á allan innflutning sem kæmi til landsins yrði að leggja söluskatt í tolli. Hann yrði innheimtur samhliða tolli og öðrum aðflutningsgjöldum. Þar með mætti leggja niður allar söluskattsskrifstofur innan lands því að tollurinn tæki þá að sér að innheimta söluskattinn. En ég taldi að eitthvað yrði að gera fyrir samkeppnisiðnaðinn og þá yrði að taka upp einhvers konar endurgreiðslukerfi á uppsöfnuðum söluskatti í samkeppnisiðnaði. Það væri best gert með einföldu bókhaldskerfi og þyrfti að leggja áherslu á að hafa það kerfi sem einfaldast. Ég bar þetta undir nokkra mæta hagfræðinga við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Þeir tjáðu mér að ekki ólíkt kerfi hefði verið við lýði í Noregi áður en þeir tóku upp virðisaukaskattinn þar. Að vísu er sá munur á að í Noregi, fyrir upptöku virðisaukaskatts, fengu iðnfyrirtæki uppsafnaðan söluskatt greiddan og það varð samkomulag um það að það var farið mjög frjálslega með þetta þannig að sönnunarbyrðin hvíldi á ráðuneytinu, þ.e. fyrirtækin fengu þennan uppsafnaða söluskatt greiddan umyrðalaust. Ráðuneytið varð hins vegar að sanna það að þau færu með rangt mál og breyta þá söluskattsendurgreiðslunni ef ráðuneytið gat sannað að um rangar upplýsingar væri að ræða. Á Íslandi hefur þetta hins vegar alltaf verið með öfugum hætti. Hér hafa fyrirtækin ávallt verið sökudólgarnir. Það er gengið út frá því sem vísu að fyrirtækin séu fyrir fram sek þangað til að ráðuneytið hefur sannað sakleysi þeirra. Það er kannski þessi afstöðumunur sem ræður því að það gæti verið að illa gengi að taka upp slíka frjálslynda söluskattsstefnu sem ég lýsi hér og var að lýsa með hugmyndum mínum.

Með hliðsjón af því að þessum hugmyndum var ekki vel tekið af þessum forustumanni iðnrekenda sá ég ástæðu til þess að leita til Þjóðhagsstofnunar og spyrja hana álits á þeim. Ég bað þá um að reikna út gróflega hvað þessar hugmyndir mínar bæru með sér og gera það með þeim hætti að það hallaði á þannig að þetta kerfi yrði metið eins óhagstætt og þeir framast gætu.

Mig langar til, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp niðurstöður Þjóðhagsstofnunar, við fyrirspurn minni frá því í apríl 1987, en hún hljóðar svo:

„Nokkrir minnispunktar vegna fyrirspurnar frá Júlíusi Sólnes um nýtt söluskattskerfi:

1. Inngangur.

Hinn 13. apríl sl. óskaði Júlíus Sólnes eftir mati Þjóðhagsstofnunar á þeim tillögum sem hann hafði sett fram í blaðagrein í Morgunblaðinu 11. apríl um nýtt söluskattskerfi. Hér á eftir verður í stuttu máli leitast við að verða við framangreindum óskum án þess að efninu verði gerð ítarleg skil. Umfjöllunin verður í tvennu lagi. Fyrst verður fjallað um mat á líklegri hæð skatthlutfallsins en síðan drepið á þá annmarka sem kunna að vera á framkvæmd skattkerfis af þessu tagi.

2. Mat á hæð skatthlutfallsins.

Meginhugmyndin með hinu nýja söluskattskerfi er að innheimta söluskatt af öllum innfluttum vörum í tolli. Allar innlendar iðnaðarvörur yrðu skattlagðar að fullu hjá framleiðslufyrirtækjunum, en á móti fengju fyrirtækin að draga frá þann söluskatt sem þau hefðu áður greitt af rekstrar- og fjárfestingarvörum sínum.“ Hér vil ég skjóta inn að þetta voru afar lauslegar hugmyndir sem ég setti fram á sínum tíma. Ég tel að í raun mætti heimila þessum fyrirtækjum að færa aðeins bókhaldslegan virðisaukaskatt, þannig að þau þyrftu aldrei að greiða uppsafnaðan söluskatt en mættu bókfæra hann og síðan draga hann frá endanlegum söluskatti. „Uppsafnaður söluskattur á útfluttum vörum yrði endurgreiddur. Í reynd yrði því um að ræða eins konar virðisaukaskatt af iðnaðinum. Öll verslun og þjónusta yrði aftur á móti undanþegin skatti að fullu.

Fyrst er litið á innfluttar vörur. Á árinu 1986 nam heildarvöruinnflutningur til landsins 45,9 milljörðum. Gert er ráð fyrir því að ýmsir stórir liðir eins og olíuvörur og sérstakur innflutningur, eins og skip, flugvélar og fleiri fjárfestingarvörur, yrðu undanþegnir. Að því gefnu liti dæmið þá þannig út árið 1986 í milljörðum króna:

Innflutningur alls 45,9 milljarðar.

Eldsneyti og olíur 3,9 milljarðar.

Sérstakur innflutningur, skip, flugvélar, ál, járnblendivörur, virkjanir o.fl. 4,7 milljarðar.

Matvörur 0,7 milljarðar.

Skattstofn 37,3 milljarðar.

Framangreindan skattstofn mætti hækka um u.þ.b. 15% vegna tolla og vörugjalds. Það gerir 42,7 milljarða króna.

Skattstofninn á árslokaverðlagi 1986 yrði þá 44,8 milljarðar. Eftir sem áður er öll matvara með skatti, bæði innflutt og innlend.“ Þetta var áður en umræðan um matarskattinn fór fram og þyrfti að sjálfsögðu að endurskoða það.

„Næst er litið á skattstofn af innlendri iðnaðarvöru og rafmagns- og hitaveitum. Á árinu 1985 námu framleiðslutekjur í þessum greinum tæpum 72 milljörðum. Frá þessum skattstofni má draga öll hráefniskaup og einhvern hluta af öðrum rekstrarvörum og öll fjárfestingarvörukaup. Þessi frádráttur er nokkuð óviss, en hér er sú leið farin að draga frá hráefniskaup og allt viðhald en annað ekki. Telja má líklegt að þessi aðferð ofmeti fremur en vanmeti stofninn. Samkvæmt þessu verður skattstofninn af innlendum iðnaði sem hér segir árið 1986:

Framleiðsluvirði 1985 71,9 milljarðar.

Hráefniskaup 1985 34,7 milljarðar.

Viðhald 1985 12,7 milljarðar.

Skattstofn 1985 24,5 milljarðar.

Hækkun skattstofns til árslokaverðlags 1986 um 32% gerir að skattstofn á árslokaverðlagi 1986 verður 32,3 milljarðar. Þegar hér er komið er eftir að draga frá endurgreiddan uppsafnaðan söluskatt á útflutningi.

Á árinu 1986 nam vöruútflutningur 44,9 milljörðum fob. Á árslokaverðlagi gæti þessi fjárhæð jafngilt 47,5 milljörðum kr. Á að giska þriðjungur af þessari veltu, eða 15,8 milljarðar, er stofn við álagningu söluskatts og er þá byggt á sömu forsendu og áður við mat á skattstofni.

Á grundvelli þess sem hér hefur verið rakið má áætla að skattstofninn verði sem hér segir, og er þá miðað við árslokaverðlag 1986 í milljörðum króna:

Skattstofn af innflutningi 44,8 milljarðar.

Skattstofn af erlendri iðnaðarvöru 32,3 milljarðar.

Frá dregst endurgreiddur uppsafnaður söluskattur af útflutningi 15,8 milljarðar. Skattstofn á árslokaverðlagi 1986 verður 61,3 milljarðar króna.

Framangreindar tölur eru allar á árslokaverðlagi. Hækkun til verðlags samkvæmt fjárlagafrv. 1987 gæti verið u.þ.b. 7%. Samtals gerir upphæðin þá 65,5 milljarða kr. Álagður söluskattur samkvæmt fjárlögum er 18,25 milljarðar kr. Samkvæmt þessu þyrfti skattprósentan að vera 27,8%. Þá er öll matvara skattlögð og allar landbúnaðarvörur. Rekja má 12–15% af framleiðsluvirði í iðnaði til slátrunar, kjöt- og mjólkuriðnaðar. Undanþága þessara greina frá skatti mundi skerða skattstofninn um á að giska 5 milljarða. Skattstofninn yrði þá um 60 milljarðar og skatthluti þyrfti þá að vera 30% til að skila sömu tekjum og núverandi söluskattur.“

Þetta eru ákaflega athyglisverðar upplýsingar og sýna að við að leggja tæplega 30% söluskatt á í tolli mátti ná sömu tekjum í ríkissjóð og gamla söluskattskerfið skilaði af sér. En þá er einn viðamikill atburður sem hefur gerst, að þjónusta innan lands ber engan söluskatt lengur, þ.e. verðlag mundi stórlækka í landinu við það að öll þjónusta, viðgerðarþjónusta á verkstæðum og hvers kyns verkstæðisvinna, yrði ekki með söluskatti lengur. Hugsið ykkur léttinn að vera laus við að þurfa að eltast við alla bílskúrseigendurna sem ekki þyrftu lengur að borga söluskatt eða alla verkstæðisvinnuna. Þvílíkur léttir. Það væri áreiðanlega þess virði að taka á sig þau óþægindi sem fylgja því að leysa vandamál iðnaðarins með því að taka upp bókhaldslegan virðisaukaskatt. Þá er talað um að öll fyrirtæki í samkeppni við erlend fyrirtæki fengju að nota bókhaldslegan virðisaukaskatt, þ.e. þau þyrftu aldrei að borga innskatt af aðföngum sínum. Þau mættu einfaldlega bókfæra innskattinn og síðan draga hann frá lokaskattstiginu þegar varan væri afgreidd frá fyrirtækinu.

Eins og ég gat um bað ég Þjóðhagsstofnun um að vinna og rannsaka þessar hugmyndir mínar á þann hátt að þeir drægju fram ókostina fremur en kostina þannig að ég fengi strax hinar neikvæðu hliðar á þessu en ekki jákvæðu hliðarnar. Því fjallar síðasti kaflinn um nokkra annmarka í framkvæmd og hann er með þessum niðurstöðum.

„Fljótt á litið virðast ýmsir alvarlegir örðugleikar á framkvæmd söluskattskerfis af því tagi sem hér er lýst. Hugmyndin er sú að skattleggja vöruna við innflutning, en til þess að slíkur skattur verki ekki eins og tollvernd er nauðsynlegt að skattleggja innlendan iðnað einnig. Slíkt leiðir aftur á móti til þess að endurgreiða þarf iðnaðinum þann skatt sem hann hefur greitt af rekstrar- og fjárfestingarvörum sínum þannig að í reynd yrði tekið upp eins konar virðisaukaskattskerfi fyrir iðnaðinn. Einnig yrði óhjákvæmilegt að taka upp víðtækar endurgreiðslur á uppsöfnuðum söluskatti af útflutningsvörum. Til þess að fullt jafnræði ríkti líkt og að er stefnt með virðisaukaskatti þyrfti raunar einnig að taka upp endurgreiðslur vegna þeirrar þjónustu sem er í samkeppni við innflutning. Má þar t.d. nefna tryggingar, flug, skiparekstur og fleira. Endurgreiðslur af þessu tagi, bæði vegna útflutnings og eins vegna innlends iðnaðar, yrðu þá í reynd mun flóknari og kostuðu e.t.v. meira eftirlit en í eiginlegu virðisaukaskattskerfi. Þessu veldur hin takmarkaða skattskylda í nýja kerfinu því í hverju einstöku tilfelli þyrfti að kanna hvort t.d. fjárfesting væri vegna iðnaðar, og söluskattur fengist þá endurgreiddur, eða fjárfestingin væri vegna þjónustu eða verslunar, en þá fengist skatturinn ekki endurgreiddur. Sérstaklega yrði þetta vandasamt í fyrirtækjum sem stunda bæði iðnað og annan atvinnurekstur, en einnig í fyrirtækjum sem selja bæði á innlendum markaði og til útflutnings.“

Allt þetta er eflaust rétt, en ég spyr engu að síður: Ef allri þeirri vinnu sem hefur verið eytt í virðisaukaskattinn á þessu þingi og undanförnum þingum hefði verið beint í þá átt að smíða nýtt söluskattskerfi sem væri sérhannað fyrir Íslendinga og þar væri tekið mið af þeim aðstæðum sem hér eru, værum við þá ekki að samþykkja frv. til laga um söluskatt sem væri miklu, miklu einfaldari, mundi skila nægilegum tekjum í ríkissjóð og skapa atvinnulífinu í landinu miklu hagstæðari ramma og rekstrarskilyrði? Ég er ekki í nokkrum vafa um það.

Virðulegur forseti. Ég hef rakið hér í nokkru máli afstöðu mína til þessa máls. Við þm. Borgarafl. í Ed. höfum lýst okkur andsnúna þessu frv. eins og það liggur fyrir. Að sjálfsögðu gerum við okkur grein fyrir því að meðan Alþfl., mesti kerfisflokkur Íslands í dag, ræður algjörlega ferðinni og Sjálfstfl. er máttlaus og reynir ekki að hafa nein áhrif á gang mála og Framsfl. veitir stjórninni eða öllu heldur Alþfl. hlutleysi við að berja í gegn þessar hugmyndir sínar nær þetta fram að ganga. Þess vegna munum við að sjálfsögðu reyna eftir megni að koma með hugmyndir og tillögur þess efnis að lagfæra frv. sem hér liggur fyrir, benda á leiðir til þess að draga úr verstu áhrifum þess og koma með brtt. sem sýna hvernig auðveldlega má sníða verstu agnúana af kerfinu. Við munum að sjálfsögðu fyrst athuga hvort frv. fær samþykki hér við 2. umr. en boðum að því loknu, ef frv. verður samþykkt, brtt. við 3. umr. Ég hef lokið máli mínu, virðulegi forseti.