04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7338 í B-deild Alþingistíðinda. (5340)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Enn einu sinni standa alþm. frammi fyrir nauðungarafgreiðslu á illa unnu þingmáli sem helst virðist vera metnaðarmál eins eða tveggja ráðherra með dræmum stuðningi annarra ráðherra og jafnvel mjög dræmum sumra þeirra. Og enn einu sinni virðist meiri hluti þm. ætla að láta hafa sig út í það að lögfesta illa unnið þingmál á þeim forsendum að lausir endar verði hnýttir í milliþinganefnd. Þessi vinnubrögð eru að verða regla hér á þinginu þegar um stórmál er að ræða fremur en undantekning. Tökum dæmi: Á síðasta þingi var staðgreiðslukerfi skatta afgreitt á þennan hátt. Vorið þar áður var það húsnæðiskerfið. Ljóst var við afgreiðslu beggja þessara mála að við þau var mikil vinna óunnin sem varð síðan mun minni og óvandaðri en efni stóðu til. Meinið er auðvitað það að með þessu vinnulagi er þm. og embættismönnum stillt upp frammi fyrir orðnum hlut sem þeir verða að lappa upp á og bjarga því sem bjargað verður.

Kvennalistakonur mótmæla harðlega slíkum vinnubrögðum og lýsa fullkominni andstöðu við afgreiðslu þessa þingmáls sem hér er á dagskrá. Jafnvel þeir sem hlynntir eru því að koma á virðisaukaskatti geta ekki fært nein haldbær rök fyrir því að nú liggi svo sérstaklega mikið á þessu máli að ekki sé tími til að gera það sæmilega úr garði.

Fullyrt hefur verið að þingmönnum sé engin vorkunn að afgreiða frv. um virðisaukaskatt svo lengi hafi það verið til umfjöllunar og undirbúnings og það hafi komið til kasta Alþingis tvisvar áður. En þrátt fyrir það að virðisaukaskattur hafi verið til umræðu hér á landi í einn og hálfan áratug, eins og kemur fram í grg. frv., og margvíslegar athuganir farið fram á þessu skattkerfi og það hafi verið til umfjöllunar á þinginu tvisvar áður, eins og sagt var, eru þó vinnubrögðin og undirbúningurinn nú ekki betri en svo að a.m.k. níu atriði þarfnast nánari athugunar og útfærslu að mati meiri hl. fjh.- og viðskn. og tíunda atriðið er afskaplega víðáttumikill liður sem heitir „Önnur atriði sem upp kunna að koma“. Allan tímann meðan málið var í umfjöllun nefndarinnar voru stöðugt að koma upp ný atriði og guð má vita hvað listinn hefði orðið langur ef okkur hefði unnist tími fram í júní á þinginu.

Svona afgreiðslu þekkjum við orðið mætavel. Hér er farið að á nákvæmlega sama hátt og við afgreiðslu húsnæðismálafrv. 1986. Kvennalistakonur samþykktu þá afgreiðslu einmitt í trausti þess að vel yrði unnið að úrlausn einna tíu atriða sem talin voru upp í nál. Reyndin varð þó sú að sumarvinnan var öll í skötulíki og frv., sem boðað var um haustið, nákvæmlega eins og sagt er í meirihlutaálitinu um virðisauka nú, sást aldrei ef frá er talið minni háttar atriði sem birtist í frumvarpsformi síðar. Reynslan sýnir nefnilega að undir miklu vinnuálagi, tímapressu og þrýstingi ráðríkra ráðherra beita menn sig þeirri sjálfsblekkingu að allt megi nú laga síðar með góðum vilja í góðu tómi. Meiri hl. ætlar því að láta bjóða sér það að stimpla þennan pappír án þess að nokkur geti í raun og veru vitað hvað í honum felst.

Þetta eru forkastanleg vinnubrögð sem þinginu eru ekki sæmandi. Kvennalistakonur eru andvígar frv. og munu greiða atkvæði gegn því eins og kemur reyndar fram í því nál. minni hl. fjh.- og viðskn. sem við styðjum en ég er áheyrnarfulltrúi í nefndinni og get því ekki skilað sjálfstæðu nál. En ég vil lesa þetta nál. vegna þess hversu vel það er unnið og hversu nauðsynlegt það er fyrir meiri hl. að heyra það eina ferðina enn þannig að þeir megi draga nokkurn lærdóm af því, með leyfi forseta:

„Þó að frv. um virðisaukaskatt væri tilbúið í haust var það ekki lagt fram fyrr en á síðustu dögum þingsins [eins og ég reyndar vitnaði til áður] og hefur því ekki fengið nógu rækilega meðferð að mati minni hl. Því er tillaga minni hl. sú að frv. verði fellt. Minni hl. mun síðan fyrir 3. umr. málsins leggja fram brtt. við frv. ef í ljós kemur að það verður samþykkt við 2. umr." — Og hef ég þegar nokkrar brtt. á takteinum.

„Minni hl. lýsir beinni andstöðu við frv. um virðisaukaskatt á eftirfarandi meginforsendum:"

Í fyrsta lagi — að hætti hæstv. fjmrh.: „Að framlengja illræmdan matarskatt og leggja skatt á menninguna.

Með lögfestingu virðisaukaskatts er gert ráð fyrir því að framlengja hinn illræmda matarskatt sem lagður var á af núverandi ríkisstjórn og hefur í för með sér 6000 millj. kr. skattheimtu af almenningi í landinu.

Þá er gert ráð fyrir sérstakri og víðtækri skattlagningu á menningarstarfsemi í þessu frv. Er þar gengið lengra en í virðisaukaskatti grannlanda okkar.“ — Og nægir að vitna til þeirra ljósrita af dönskum og norskum lögum sem okkur voru borin á nefndarfund af embættismönnum fjmrn.

Í öðru lagi: „Gegn virðisaukaskatti í einu þrepi. Í frv. er gert ráð fyrir því að leggja virðisaukaskattinn á með einni prósentu, — þ.e. að hafa sömu skattprósentu á öllum vörum og allri þjónustu. Þessu mótmælir minni hl. og bendir á að í aðildarríkjum OECD [Efnahagsbandalagslandanna] er oftar um fleiri en eina prósentu að ræða og þar er matur sums staðar undanþeginn að fullu, jafnvel í Bretlandi.“ — Og mun ég víkja að því síðar.

„Þess ber að geta að Alþýðusamband Íslands lagðist sérstaklega gegn frv. um virðisaukaskatt á þeirri forsendu að skattinn ætti að taka með flatri prósentu yfir línuna.“

Og mig langar reyndar að vitna í ummæli þeirra fulltrúa Alþýðusambands Íslands sem komu á fund nefndarinnar. Þeir voru mótfallnir virðisaukaskatti fyrst og fremst vegna matarskattsins en líka vegna ýmissa annarra atriða sem komu fram í grg. sem þeir fluttu okkur á fundinn. Það var í fyrsta lagi vegna aukningar á skattskyldum aðilum og vandkvæðum við innheimtu. Í öðru lagi fannst þeim mjög óljóst með húsnæðismálin og þá hvernig íbúðabyggingar kæmu út í þessum skatti. Í þriðja lagi gerðu þeir athugasemdir t.d. við útgáfuefni félagasamtaka. En brýnast af öllu töldu þeir þó að snúið yrði aftur með skattinn sem þegar hafði verið lagður á matvælin. Þeir töldu einnig að Íslendingar væru að marka sér sérstöðu með álagningu þessa skatts og í raun mundi það fela í sér að einhvern tíma í náinni framtíð yrði snúið til baka með þennan skatt og það yrði kannski erfiðara en menn grunaði. Ég vísa til þess sem áður kom fram þegar hv. 7. þm. Reykv. vitnaði í ummæli forsvarsmanna Alþýðusambandsins þar sem þeir höfðu skrifað grg. um virðisaukaskattinn og vísað til endurskoðunar sem nú á sér stað í Efnahagsbandalagslöndunum. Þeir lögðu ríka áherslu einmitt á að það þyrfti að sinna því tekjujöfnunarsjónarmiði með þessum skatti sem hlýtur að vera grundvallaratriði í allri skattlagningu.

Í þriðja lagi er um að ræða „á annað hundrað ný störf í skriffinnsku.

Með upptöku virðisaukaskatts eykst hvers konar skriffinnska stórkostlega. Þannig er gert ráð fyrir því að starfsmenn skattstofanna verði tvisvar sinnum fleiri en nú er.“ — Og þar kemur nú nýsköpunin í atvinnulífinu, eins og hv. 7. þm. Reykv. minntist á, sem sárlega er vant nú, sérlega á landsbyggðinni. „Enn fremur er gert ráð fyrir stórfelldri fjölgun framteljenda frá því sem er í söluskattskerfinu.“ — Og hefur það komið fram áður.

„Samkvæmt upplýsingum ríkisstjórnarinnar sjálfrar er fjölgun framteljenda frá söluskatti til virðisaukaskatts“ samkvæmt þeirri töflu sem birtist í nál. og ég mun ekki lesa upp hér en vísa hv, þm. á.

„Það er því ljóst að upptaka virðisaukaskatts hefur í för með sér verulega skriffinnsku — fyrst hjá opinberum aðilum þar sem skattheimtumönnum fjölgar úr 35 í 70 og einnig hjá þeim sem telja fram en þar fjölgar ársverkum ekki minna en hjá opinberum aðilum. Því má gera ráð fyrir að upptaka virðisaukaskatts hafi í för með sér a.m.k. 100 ný störf úti í þjóðfélaginu og auki einnig vinnuálag fyrirtækjanna, einkum smáfyrirtækjanna og einyrkjanna sem hafa síður yfir að ráða þjálfun eða þekkingu á bókhaldsverkefnum.“ — Það kom glögglega fram á fundum með fulltrúum ýmissa samtaka, bæði hagsmunasamtaka og starfsgreina sem komu á fund nefndarinnar, að þeir óttuðust talsvert þessi auknu bókhaldsumsvif og erfiðleika fyrirtækjanna við að sinna þessu hlutverki.

„Minni hl. telur að fjölgun framteljenda samkvæmt þessum gögnum ríkisstjórnarinnar sé stórlega vanmetin.“

Í fjórða lagi: „Gegn smærri fyrirtækjum. Samkvæmt upplýsingum sem minni hl. hefur aflað sér [og var vitnað til áðan] liggur fyrir að svört atvinnustarfsemi í Danmörku hefur aukist eftir að virðisaukaskatturinn var tekinn upp.“ — Ég vil enn vitna til ýmissa þeirra sem komu á fund nefndarinnar. Þar var bæði um fulltrúa iðnaðarmanna að ræða, fulltrúa frá Landssambandi veiðifélaga og ýmsa aðra sem voru þegar löngu búnir að sjá hvernig svarta atvinnustarfsemin mundi blómstra þegar þetta skattkerfi yrði tekið upp. Það var að sjálfsögðu með stækkun fjölskyldna, stórfjölskyldur mundu spretta upp. Eins og t.d. fulltrúar Landssambands veiðifélaga bentu á mundu eigendur hlunnindajarða, sem hefðu laxveiðiár til umráða, skyndilega eignast mjög stórar fjölskyldur til þess að sleppa við greiðslu á virðisaukaskatti og flestir fulltrúar iðnaðarmanna höfðu líka einhverjar athugasemdir fram að færa á þennan veg. — Og ég vík aftur að nál.:

„Þar liggja einnig fyrir rannsóknir [þ.e. í Danmörku] á því að þessi skatttegund leggst þyngst á barnmargar fjölskyldur og þá sem hafa þunga framfærslubyrði.“ — Og þetta vissu reyndar Danir um það leyti sem þeir voru að taka upp virðisaukaskattinn og höfðu miklar áhyggjur af eins og ég vitnaði til í 18 ára gamalli klassískri grein eftir Björn Matthíasson um virðisaukaskatt. — „Að sama skapi er það mat nágranna okkar að virðisaukaskatturinn komi best út fyrir þá efnaðri í þjóðfélaginu“ — og það getur nú varla hafa verið ætlun hæstv. jafnaðarmannsins fjmrh. — „Þar hefur enn fremur verið bent á að gjaldþrot smáfyrirtækja hafi verið tíð eftir að virðisaukaskattur var á lagður vegna þess að forráðamenn smáfyrirtækja ráða ekki við alla þá skriffinnsku sem kerfið gerir ráð fyrir. Þetta er auðvitað sérstaklega alvarlegt mál hér á landi þar sem eru hlutfallslega fleiri smáfyrirtæki en annars staðar.“

Ef allt þetta er ekki rétt vil ég biðja hæstv. fjmrh. að hrekja þessar staðhæfingar.

„Allir ættu að sjá hve fráleitt það er að ætla hverjum einasta einyrkja, bónda, bílstjóra eða trillukarli að stunda smásmugulegt bókhald fyrir hvert einasta viðvik. Ekki verður þetta síður fráleitt gagnvart nýrri atvinnustarfsemi sem er að hasla sér völl, oft með hluta starfs til að byrja með. Hér er því verið að leggja á skatt sem byggist á kerfi sem er fjandsamlegt nýjungum í atvinnulífinu og þeirri einyrkjastarfsemi sem alltaf hlýtur að verða stór þáttur atvinnulífs á Íslandi. Hér er verið að apa eftir milljónaþjóðum eins og oft áður í skattafrumvörpum ríkisstjórnarinnar í vetur.

Það er enn fremur ljóst að ekkert liggur fyrir um að þessi tegund óbeinna skatta skili sér betur í ríkissjóð en söluskatturinn.“— Þessar athugasemdir komu reyndar líka fram í máli ýmissa sem komu á fund nefndarinnar eins og ég hef áður vitnað til í sambandi við svarta atvinnustarfsemi. — „Vissulega er söluskattskerfið gallað. En nær hefði verið að leggja vinnu í nýtt kerfi óbeinna skatta á Íslandi en að apa það eftir milljónaþjóðunum eins og hér er gert.“

Í fimmta lagi: „Ný byrði á húsbyggjendur: 200 til 300 millj. kr.“ sem er sannarlega áhyggjuefni. „Virðisaukaskattur hækkar verð á íbúðarhúsnæði, fyrst á nýju húsnæði og síðan almennt. Þetta er viðurkennt í athugasemdum með frumvarpinu. Virðisaukaskattur mun leggjast á vinnu iðnaðarmanna á byggingarstað, en sú vinna er nú undanþegin söluskatti. Þetta hefur í för með sér 5–7% hækkun byggingarkostnaðar. Þannig hækkar ný íbúð sem nú kostar um 4 millj. kr. um 200–300 þús. kr. Og heildartekjuauki ríkissjóðs af húsbyggjendum nemur með þessum hætti hundruðum milljóna króna. Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir að þessi tekjuauki ríkisins verði endurgreiddur húsbyggjendum en ekkert liggur fyrir um það nákvæmlega hvernig að því verður staðið. Það er því ljóst að þetta frv. hefur óbreytt í för með sér lakari kjör fyrir húsbyggjendur og skerðingu á kjörum þeirra. Þeir eru gerðir að sérstökum skattstofni.“

Og í sjötta lagi: „Illa undirbúið mál, viðurkennt af stjórnarflokkum. Hér hafa verið tíndar fram nokkrar ástæður þess að minni hl. er andvígur frv. þessu. Fleira mætti tína til og verður það gert nánar í umræðum um málið. Skal þó bent á eitt atriði sem vegur þungt en það er sú tillitslausa innheimta skatta af menningarstarfsemi sem frv. gerir nú ráð fyrir.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með viðbrögðum stjórnarflokkanna við þessu máli. Þingmenn allra flokkanna eru meira og minna andvígir málinu. Þess vegna neyddist fjmrh. til að mismuna málinu gegnum stjórnarflokkana þannig að það er í rauninni aðeins hálfafgreitt og fjöldi óleystra vandamála bíður úrlausnar. Hér er ekki um að ræða tæknileg vandamál heldur líka pólitísk vandamál.“ Og ef við tökum dæmi:

„1. Skattprósentan óafgreidd: Í frv. er gert ráð fyrir því að skattprósentan verði 22%. Í nefndaráliti meiri hl. er þetta meginatriði talið eitt þeirra vafaatriða sem verði að athuga nánar.“ — Og ég spyr af þessu tilefni: Hvað hafa menn í huga, fleiri en eina skattprósentu eða breytingu á þeirri sem tiltekin er í frv.?

„2. Reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af byggingarstarfsemi er vísað til embættismannanefndar.“ — Og í raun má segja að flestir þeir liðir sem á eftir fara eru verkefni nefndarvinnu í sumar.

„3. Reglum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af orkugjöfum til hitunar íbúðarhúsnæðis er vísað til sérstakrar nefndar.

4. Reglum um skattskil fiskveiða og fiskvinnslu er vísað til nefndarvinnu.“ — Og það var einmitt eitt af þeim málum sem skutu upp kollinum meðan nefndin var að störfum. Hún hélt ekki marga fundi en nógu marga samt til þess að komast á berjamó á hverjum einasta fundi og finna lyng full af berjum sem þurfti að tína og geyma til nefndarvinnu í sumar.

„5. Reglum um virðisaukaskatt af menningar- og listastarfsemi er vísað til nefndarvinnu.“ — Það er athyglisvert að ég veit ekki til þess að þeir sem sömdu frv, hafi haft samband við nokkra þá er eru fulltrúar þeirra sem stunda menningar- og listastarfsemi.

„6. Reglum sem „tryggja jafnræði í samkeppni einkaaðila og opinberra aðila“ er vísað til nefndar.

7. Reglum um skatt af útgáfu tímarita er vísað til nefndar.“ — Eða reyndar er það sölu tímarita.

„8. Reglum um skattskil af viðskiptum bænda og afurðastöðva er vísað til nefndar, svo og öðru sem varðar landbúnað sérstaklega.“ — Og er nú hv. 5. þm. Austurl. fjarri góðu gamni. (EgJ: Hann er hér.) Hann er hér. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

„9. Reglum um gjaldfrest af innflutningi er vísað til nefndar.

10. Reglum um virðisaukaskatt af fólksflutningum er vísað til nefndar.

Eins og sést af þessum tíu dæmum er ljóst að meiri hlutinn, stjórnarflokkarnir, viðurkennir að málið er illa undirbúið og að ekki eru neinar forsendur fyrir því að afgreiða málið. Þar eru tæknileg atriði í lausu lofti en hið sama er einnig að segja um pólitísk grundvallaratriði. Því væri það öllum fyrir bestu að máli þessu verði hafnað.“

Og síðan er tekið fram að sú sem hér mælir hafi setið fundi nefndarinnar og sé sammála nál. Kvennalistakonur hafa frá upphafi haft miklar efasemdir um þetta kerfi sem ég lýsti reyndar í 1. umr. um málið, en margir virðast vera farnir að líta á þetta sem trúaratriði. Þetta kerfi hefur vissulega sína kosti eins og ég einmitt minntist á þá, og kannski er sá veigamesti að styrkja stöðu útflutningsatvinnuveganna, en þeir vega ekki upp á móti göllunum. Við hljótum að líta á þetta mál frá sjónarhóli neytandans, heimilanna og einstaklinganna. Það er lítið gert úr þeirri hlið í umfjöllun um þetta nýja kerfi. Þó er deginum ljósara, m.a. af upptalningu þeirra liða sem endurskoða á milli þinga, að þetta kerfi mun hafa margvíslegar breytingar í för með sér fyrir almenning. Lái okkur hver sem vill þótt við séum tortryggnar gagnvart stjórnvöldum og treystum þeim ekki til að létta byrðar almennings. Þau hafa verið gjarnari á að þyngja þær byrðar og nægir að minna hv. þm. á skattagleði þessarar stjórnar og þær verðlagshækkanir sem ráðstafanir hennar hafa leitt yfir fólk í ofanálag. Verði þetta frv. gert að lögum sem nú virðast nokkrar líkur á er óhjákvæmilegt að gera á því breytingar.

Við munum engar brtt. gera nú við 2. umr. en fari svo að hv. þm. láti hafa sig í það að afgreiða frv. með þeim hætti sem lagt er til í nál. meiri hl. og með brtt. þeim sem hann gerir flytjum við væntanlega brtt. við 3. umr. um málið eða þá síðar í umfjöllun Nd. En þar verður fyrst og fremst um að ræða brtt. sem varða undanþágur frá skatti á matvæli og ýmsa menningarstarfsemi. Við munum væntanlega takmarka okkur við þessa tvo liði.

Um matinn ætti að vera óþarfi að fjölyrða, svo mikið ræddum við það þegar matvæli voru gerð söluskattsskyld fyrir áramótin, en þá fóru meginumræðurnar fram. Afstaða okkar til skattlagningar á matvæli er öllum kunn, enda höfum við snúist gegn slíkri skattlagningu allt frá upphafi og er það fyrst og fremst vegna þess að þetta kemur sér afskaplega illa fyrir þá sem minnstar hafa tekjurnar og fjölmennastar fjölskyldurnar. Fyrir utan það er þetta grundvallarágreiningur í pólitík, hvort lagður er skattur á nauðsynjavörur eins og matvæli. Við erum því andvígar eins og ég lýsti ítarlega við 1. umr. þessa máls og mun ég ekki fjölyrða um það hér. Ég held að hæstv. fjmrh. hljóti að hafa móttekið þau skilaboð. Og ég vil vekja athygli hans á og minna hann á að það eru ekki bara kvennalistakonur sem hafa þessa skoðun, það eru mjög margir þeir sent fara út í búð með budduna sína til að kaupa í matinn. Ég vek líka athygli hans á því að flestir þeir sem það gera eru einmitt konur, eru húsmæður. Þær finna fyrst og fremst fyrir því. Þær eru andvígar þessum skatti og ég vil enn minna hæstv. ráðherra á það að þær eru í miklum meiri hluta andvígar þessari ríkisstjórn. Ég bið hann bara að reyna að leggja saman tvo og tvo. Ég bendi honum líka á almenna reiði launafólks, ég bendi honum á kaupgjaldskröfur í kjarasamningum og hver áhrif þessi skattlagning og önnur hefur í raun á þær kröfur sem fólk gerir um hærri laun. Það var viðbúið að þessi skattlagning mundi hafa áhrif á þá kjarasamninga sem við blöstu nú á þessu ári.

Síðan skulum við líka hugleiða, vegna þess að við höfum rætt þann pólitíska ágreining sem ríkir um það hvernig ber að skattleggja, að þegar verið er að leggja svona flata skatta á alla, líka lágtekjufólkið, þá á síðan að skila þeim aftur broti af þessari skattlagningu í einhvers konar bótum. Ég vil vekja athygli hans á því að jafnvel Margaret Thatcher hefur ekki látið sér detta í hug að hreyfa við því að leggja skatt á matvæli og barnaföt, alla vega eru matvæli algjörlega undanþegin skatti og ef barnaföt eru ekki algjörlega undanþegin skatti eru þau a.m.k. á talsvert miklu lægri skattprósentu. Hv. utanrmn. var á ferð í Englandi nýlega að heimsækja breska þingið. Þar heimsóttu íslensku þingmennirnir m.a. iðnaðarráðuneytið breska og þar var embættismaður eða þingmaður reyndar sem minntist á það við fulltrúa Kvennalistans að hæstv. forsrh. Breta mundi aldrei dirfast að hrófla við matvælum og barnafötum, svo rótgróin hefð væri skattleysi þeirra í bresku samfélagi.

Síðan eru það auðvitað menningarmálin. Ég hafði nokkur orð um það hér um daginn hversu mikilvægt það væri fyrir jafnfámenna þjóð eins og okkur sem eigum í vök að verjast í fjölmiðla- og upplýsingaþjóðfélagi nútímans. Menning okkar berst fyrir lífi sínu og við þurfum að gera allt til að hlúa að henni, til að næra hana og til að varðveita hana ef við ætlum okkur í framtíðinni að teljast sjálfstæð þjóð. Þess vegna ber okkur ekki að leggja á hana fleiri byrðar vegna þess að við styrkjum hana ekki nóg. Það er ekki af neinu að taka, hæstv. ráðherra. – Ég hlýt að gera örlítið hlé á máli mínu meðan hæstv. ráðherra sinnir erindum sínum því að ég vil endilega að hann heyri það sem ég segi. Það er kannski einhver að biðja um undanþágur að hringja í hann núna. Það væri fróðlegt að vita hvað bættist við í lið nr. 11 fyrir nefndina að leika sér að í sumar. Ég vona að ég þurfi ekki að þegja mjög lengi í ræðustól. (Forseti: Ég held að það sé algjörlega ástæðulaust. Ég vil biðja ræðumann að halda áfram sinni tölu.) Þetta hlýtur að verða stutt símtal. (Forseti: Það er ljóst að ráðherra er upptekinn í símanum.) Já, þessu er að ljúka, sýnist mér.

Ég tek upp þráðinn þar sem frá var horfið og ég vil brýna það fyrir hæstv. ráðherra hve mikilvægt það er að hlúa að íslenskri menningu og hversu stórt hlutverk hans er fyrir hönd íslenskrar þjóðar að sjá til þess að íslenskri menningu sé mynduglega veitt til þess að hún megi blómstra og að hún sé ekki skattlögð því þar er af svo litlu fé að taka. Það er svo naumt til hennar skammtað þegar að hún getur varla gegnt því hlutverki sem henni er þó nauðsynlegt að sinna fyrir íslenska þjóð. Þess vegna munum við sannarlega bera fram brtt. til þess að verja hana fyrir skattlagningu.

Það er álit afar margra sem hafa kynnt sér virðisaukaskattskerfi að það sé þungt og viðamikið, flókið og dýrt kerfi, og hef ég vikið að því áður. Frumvarpshöfundar hafa ekki viljað gera mikið úr þeim þætti og reyndar er feimni þeirra við umfjöllun um það mál allt að því grunsamleg. Þetta er augljóslega miklu umfangsmeira kerfi en söluskattskerfið og það mun kosta margfalt meira í framkvæmd. Það er ekki einasta að það verði miklu mannfrekara og dýrara fyrir hið opinbera, heldur þýðir það gífurlega aukna vinnu og kostnað fyrir skattgreiðendur. Sérstaklega hlýtur þetta að koma illa við litla rekstraraðila og jafnvel gera þeim reksturinn of þungbæran og ég vitna til reynslunnar frá Danmörku. Grunur afar margra er sá að þetta kerfi muni reynast mannfrekara og kostnaðarsamara en látið er að liggja í grg. frumvarpshöfunda. Athyglisvert er að tæpast er minnst á kostnað atvinnurekenda við þetta kerfi, jafnvel látið að því liggja að þetta leiði til lækkunar vöruverðs og þjónustu. Þetta er trúlega blekking eða menn hafa kosið að loka augum og eyrum. Það er einmitt sannfæring margra, og ég hef áður vitnað í nokkra þeirra sem komu á fund nefndarinnar, og einnig til okkar kvennalistakvenna að kostnaður fyrirtækja við þetta kerfi verði svo mikill að hagkvæmnin, sem það á að skila, étist upp og í mörgum tilfellum meira en það. Fullyrðingar um betri skattskil eru ekki sannfærandi. Undandráttur fæst ekki upprættur í þessu kerfi. Sjálfvirknin er ofmetin. Nótulaus viðskipti verða áfram freistandi fyrir þá sem slíkt stunda, þ. e. hagnaðurinn verður trúlega meiri en sem nemur innskattinum af aðföngum í slíkum viðskiptum.

Lagfæring söluskattskerfisins gæti í raun skilað sama árangri og niðurstaðan er eiginlega sú að virðisaukaskattur hefur mikla galla sem réttlæta það engan veginn að leggja í þessar umfangsmiklu, kostnaðarsömu breytingar á sama tíma og margir þeirra sem hafa tekið upp þetta kerfi eru sem óðast að reyna að gera breytingar á því og jafnvel óska því burtu vegna þess hversu flókið það er.

Söluskattskerfið hefur vissulega líka sína galla, því getur enginn neitað, en úr þeim má draga, eins og reyndar þegar hefur verið gert, og það má bæta þannig að það verði mun heldara og virkara og skili meiru í ríkissjóð. Virkara eftirlit í söluskattskerfinu mundi margborga sig. En fyrst og fremst verð ég að segja að það nær auðvitað engri átt að viðhalda þessum matarskatti. Það hlýtur að verða framtíðarverk stjórnmálamanna og það e.t.v. í náinni framtíð að afnema skatt á matvæli. Ég tel hann afar hættulegan. Það er þegar búið að stíga þetta skref, ja, til hálfs a.m.k., drjúglega það, og ég held að það verði mun erfiðara að afnema þennan skatt heldur en það var að setja hann á og menn eigi eftir að sjá eftir þessari aðgerð.

En eins og ég sagði áður, við þessa umræðu leggjum við fyrst og fremst til að frv. verði fellt og munum ekki freista þess að gera neinar breytingar á því, en munum væntanlega hugleiða það síðar ef frv. verður samþykkt við þessa umræðu.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.