04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7347 í B-deild Alþingistíðinda. (5341)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það hafa komið fram margar mjög athyglisverðar athugasemdir við þessar umræður og væri hægt að drepa niður á mörgum stöðum, svo margt bar á góma, að vísu lauslega, hjá hv. stjórnarandstæðingum þannig að þeir gerðu ekki í máli sínu ítarlega grein fyrir því hvaða hugsun lá að baki ýmsum þeim fullyrðingum sem þeir höfðu uppi um ágæti eða galla þess skattkerfis sem hér er lagt til að tekið verði upp. Veit ég satt að segja ekki hvort ég á að drepa þar niður þegar hv. þm. Kvennalistans komst svo að orði að kostirnir við þetta frv., við þessa breyttu skattlagningu væru fyrst og fremst þeir að hún mundi styrkja stöðu útflutningsatvinnuveganna. Hann segir að þeir kostir séu þó það litlir að það vegi ekki upp á móti göllunum.

Nú er auðvitað mjög erfitt að fylgja þeim þanka hvernig við Íslendingar getum hafnað skattkerfi sem hefur þá miklu kosti að bæta stöðu okkar gagnvart erlendum þjóðum þegar til þess er hugsað hversu mikið við eigum undir milliríkjaviðskiptum. Við vitum það ef við reynum að bera saman kaupmátt hér í landinu frá einum tíma til annars að hann er fyrst og fremst undir því kominn hversu mikill hagvöxtur hefur orðið í útflutningsframleiðslunni, hversu arður hennar hefur verið mikill, og við vitum það líka að með mörgum hætti hefur verið reynt að standa á bak við útflutningsfyrirtækin til að vinna á móti því óhagræði sem söluskattskerfið hefur haft í för með sér. Væri óneitanlega fróðlegt að fá um það upplýsingar frá hv. 6. þm. Reykv. þegar hann talar um það nú að útflutningsatvinnuvegirnir geti áfram búið við söluskattskerfið þegar búið er að gera það fullkomnara, eins og hv. þm. komst að orði, hvernig þessi hv. þm. vill t.d. fara með uppsafnaðan söluskatt og skiptingu hans eða deilingu hans milli útflutningsfyrirtækja, milli fiskvinnslu og útgerðar, hvernig þessi hv. þm. vill velta fyrir sér uppsafnaða söluskattinum í sambandi við samkeppnisiðnaðinn og þar fram eftir götunum.

Nú er þetta auðvitað mjög flókið mál og kannski ástæðulaust að krefjast svara við því nú þó svo að hv. þm. hafi slegið því föstu að hann geri lítið úr því hagræði sem þetta breytta skattkerfi hefur fyrir útflutningsatvinnuvegina. Hitt var annað sem hv. þm. sagði sem hlýtur að gleðja hjarta mitt sem sjálfstæðismanns, að hann skuli leggja svo mikið upp úr velgengni smáfyrirtækja og mér skildist að þessi hv. þm. vildi hafa skattkerfið með þeim hætti að þau gætu vel dafnað hér í landinu. Og nú getum við kannski hugsað í söluskatti og velt fyrir okkur tveim fyrirtækjum. Annað fyrirtækið er mikið að vöxtum eins og t.d. Samband ísl. samvinnufélaga, eða eigum við að segja Kaupfélag Eyfirðinga, og hefur í sinni þjónustu hvers konar viðgerðarmenn og starfsmenn til þess að sinna hverju einu sem upp kemur í rekstrinum og nú vitum við um það að þessi vinna er auðvitað ekki söluskattsskyld þegar hún fer fram innan sama fyrirtækis nema að óverulegu leyti. Á hinn bóginn er það svo að ef smáfyrirtæki þarf að sækja slíka þjónustu til annars smáfyrirtækis verður að greiða af því fullan söluskatt og sá söluskattur kemur síðan ekki til frádráttar þegar það fyrirtæki sem þá þjónustu sótti þarf að verðleggja sína vöru. Þarna verður um uppsafnaðan söluskatt að ræða.

Má þá spyrja hv. þm. þegar hann veltir því fyrir sér að hann vilji styrkja stöðu smáfyrirtækjanna hvort hann hugsi sér að söluskattskerfinu verði breytt á þann veg að ekki skuli leggja söluskatt á vinnu þá og þjónustu sem eitt fyrirtæki selur öðru. Ef svarið við þeirri spurningu yrði já er hv. þm. undir eins farinn að fitja upp á nýrri gerð af virðisaukaskatti. Ef svarið við spurningunni er nei er hv. þm. um leið að segja að hann leggi ekki eins mikið upp úr því og maður gæti haldið af hans ræðu að skattkerfið yrði til íþyngingar einmitt smáfyrirtækjunum. Nú getum við tekið samanburð.

Nú veit ég að hv. þm. ber mjög fyrir brjósti að skattkerfið verði þannig uppbyggt að sem minnstur undandráttur verði frá skattkerfinu. Þá vil ég spyrja hv. þm. og hann má svara því úr sætinu ef hann vill. Telur hv. þm. t.d. að bókhaldsþjónusta, endurskoðunarþjónusta, eigi að bera 25% söluskatt eins og önnur þjónusta eða telur hv. þm. að þessi þjónusta eigi ekki að gera það? Það væri mjög fróðlegt að fá svar við þessu. Og svarið er auðvitað lýsandi fyrir þann hugsunarhátt sem hv. þm. hefur varðandi skattkerfið.

Það má líka spyrja hv. þm. hvaða skoðun hann hafi t.d. á þjónustu ráðgefandi verkfræðinga. Er hv. þm. þeirrar skoðunar að slíka þjónustu beri að skattleggja samkvæmt söluskattskerfi eða er hann þeirrar skoðunar að slík þjónusta eigi að vera undanþegin söluskattinum eða er hann þeirrar skoðunar að slíkan uppsafnaðan söluskatt eigi að endurgreiða í einhverju formi og eigi síðan að skipta á milli fyrirtækjanna eftir einhverri óskýrri og tilviljanakenndri reglu? Staðreyndin er auðvitað sú þegar verið er að tala um þetta nýja skattkerfi að fulltrúar atvinnuveganna hafa lýst því yfir að þeir vilji þessa breytingu vegna þess að hún hefur það í för með sér að aðstöðumunur fyrirtækjanna ýmist minnkar eða hverfur. Það er höfuðröksemdin fyrir þessari breytingu. Og það er auðvitað líka höfuðröksemdin fyrir því að þetta skattkerfi er til þess fallið að styðja litlu atvinnurekendurna, smáreksturinn, vegna þess að sá rekstur þarf að sækja meira en stórreksturinn út fyrir sína veggi. Þess vegna er þetta skattkerfi einmitt fallið til þess að styrkja smáfyrirtæki. Væri raunar fróðlegt að fá efnislega eða skattalega umræðu einmitt um það atriði hvernig hv. þm. hugsar sér að kerfi sem felur í sér uppsafnaðan söluskatt sé til þess fallið að styðja smáfyrirtækin á móti hinum stóru. Þau rök hef ég ekki heyrt og það er einmitt ástæðan fyrir því að virðisaukaskatturinn er upp tekinn að menn gera sér grein fyrir því að hvers konar rekstur, lítill eða stór, græðir á þessari breytingu vegna þess að hann getur einbeitt sér að því að hafa innan sinna vébanda þá þjónustu eða þá starfsemi sem hagkvæm þykir út frá stærð fyrirtækisins, en skattaleg aðstaða kemur ekki inn í spurninguna um arðsemi þeirrar vinnu sem um er að ræða. Þetta er auðvitað kjarninn í þessu máli. Af þessum sökum er það algerlega út í bláinn, alger rökvilla að smáatvinnurekendur hafi óhagræði af þessum rekstri. Ef svo væri, ef smáatvinnurekendurnir hefðu óhagræði af þessum rekstri, hvernig stendur þá á því að fulltrúar þeirra manna sem eru með smáreksturinn, fulltrúar handverksmanna og smáiðnaðarmanna, sem eru kannski einir sér eða með fáa menn í vinnu, telja einmitt að þetta kerfi sé til þess fallið að jafna aðstöðumuninn og styrkja rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja auðvitað að því tilskildu að samkeppnisaðstaða þeirra við opinberan rekstur sé trygg? Það er sú forsenda sem atvinnureksturinn hlýtur að gera, hvort sem við erum að tala um söluskatt eða virðisaukaskatt, að slíkum skatti sé ekki beitt með þeim hætti að kostir einkaframtaksins njóti sín ekki gagnvart hinum opinbera rekstri. Þetta er auðvitað grundvallarforsendan fyrir hagræðingu í skattkerfi.

Ég tók eftir því og mér þótti það mjög merkilegt hversu mikla og ríka áherslu fulltrúar stjórnarandstöðunnar lögðu allt í einu á það að nú ætti að fara að auka skatteftirlit. Á síðasta þingi fyrir einu ári fóru á þessum árstíma fram miklar umræður hér í þinginu einmitt um þá svörtu atvinnustarfsemi sem menn töldu víst að væri rekin hér í þjóðfélaginu og á grundvelli skýrslu sem hafði verið lögð fram um þá starfsemi. Nú kemur allt í einu í ljós að einn hv. þm., hv. 6. þm. Reykv., kemst svo að orði að eftir að þessi skattkerfisbreyting hafi átt sér stað muni svört atvinnustarfsemi blómstra. Og hvar á hún að blómstra? Hvernig rökstyður hv. þm. að hin svarta atvinnustarfsemi eigi að blómstra m.a. hjá handverksmönnum, m.a. hjá því fólki sem vinnur að byggingariðnaði og hjá því fólki sem annast viðhald og endurbætur húsa? Ástandið er þannig núna að kaupandinn, íbúðarbyggjandinn, íbúðareigandinn verður undir öllum kringumstæðum að greiða söluskatt af því efni sem keypt er til verksins. Á hinn bóginn liggur það fyrir að vinnan heima hjá viðkomandi eða í íbúðarhúsinu er undanþegin söluskatti. Samkvæmt því sem hér er verið að tala um er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur leggist bæði á aðföng og alla þá vinnu sem unnin er við viðhald, endurbætur og byggingu íbúðarhúss. Þá koma hér upp stjórnarandstæðingar og segja þótt þeir viti betur: Þetta mun hafa í för með sér hækkun á byggingarkostnaði. Þetta mun hafa í för með sér hækkun á viðhaldi. Þetta mun hafa í för með sér hækkun á endurbótum. Þó vita þessir hv. þm. að með því að segja þetta eru þeir að gera okkur upp að við séum að tala hér þvert gegn okkar hug. Þetta þýðir á íslensku að hv. þm. séu að segja við okkur sem í stjórnarmeirihlutanum erum að við séum lygarar í þessu efni, að við segjum ósatt, að við séum að blekkja þegar við leggjum á það ríka áherslu að við ætlum að setja reglur um að þetta hagræði haldi sér, að verð á íbúðarhúsum hækki ekki, að menn sem þurfa að láta vinna meiri háttar viðhaldsvinnu heima hjá sér, vinna að endurbótum við sína íbúð fái sama hagræðið og nú er í sambandi við óbeina skatta. Þetta er margyfirlýst stefna okkar allra. Og það liggur líka fyrir að þeir menn sem eiga að vinna verkin, trésmiðirnir, múrararnir og þeir aðrir sem eru í Meistarasambandi byggingamanna, vita að á bak við okkar yfirlýsingar er fullkomin alvara. Á hinn bóginn leggja þeir ríka áherslu á að endurgreiðslurnar verði á grundvelli reikninga. Og þeir gera meira en það. Þeir tala um að þessir reikningar eigi að vera númeraðir. Að öðrum kosti fáist þeir ekki endurgreiddir. Og hvað erum við að tala um þegar við segjum þetta? Hvað eru litlu atvinnurekendurnir að tala um? Þeir eru ekki að kinoka sér undan þessu bókhaldi. Þeir eru að segja að þeir vilji heldur hafa nákvæmt og gott bókhald en sitja undir þeim ásökunum og dylgjum um skattsvik sem þeir vita að fylgja þeirra störfum. Svo koma hér hv. þm. upp og segja að það sé af hinu illa að sett er hér á fót nýtt skattkerfi sem byggir á því að bókhald fyrirtækjanna sé í lagi. Um hvað hafa umræðurnar verið á umliðnum árum þegar talað er um skattsvikin? Hvað hafa stjórnarandstæðingar sagt þá? Hafa þeir þá komið þegar við erum í skattsvikaumræðunni, hafa þá þessir hv. þm. komið upp og sagt: Það er allt of mikil bókhaldsvinna í fyrirtækjunum? Hefur hv. 7. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. eða hv. 7. þm. Reykn. haft af því áhyggjur þegar um skattsvikin er rætt að viðkomandi atvinnurekendur þurfi að færa til bókar þær tekjur sem þeir fá? Ég man ekki eftir því. Þetta er í fyrsta skipti á ævinni sem ég heyri það frá þessum hv. þm. að þeir hafi af því þungar og miklar áhyggjur að bókhald atvinnufyrirtækjanna í landinu sé í góðu lagi.

Svo skulum við koma að hinu. Þeir eru að segja það, þessir hv. þm., að það sé gífurlega mikil vinna sem felist í því að færa til bókar þá reikninga sem þeir greiða vegna síns atvinnurekstrar, því fylgi geysileg vinna, geysilegt bókhald. En þá spyr ég á móti: Hafa þessir hv. þm. kynnt sér bókhaldslögin? Hvílir ekki sú lagaskylda á öllum atvinnurekendum hér á landi nú að færa daglega kassabókhald? Er það ekki? Þurfa menn ekki að skrifa niður bæði inn og út? Þurfa ekki atvinnurekendur, þeir sem standa fyrir sjálfstæðum rekstri, að vera við því búnir hvaða dag sem er að skattrannsóknarlögreglan komi til þeirra, heimti pappírana og vilji fá að sjá hvernig reksturinn gengur? (Gripið fram í: Og ýmsir fleiri.) Og ýmsir fleiri. Og um hvað er þá verið að tala? Hvaða skriffinnsku er verið að ræða um? Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því hvernig hv. þingdeildarmenn hugsa þessi mál.

Ég vil líka spyrja: Er það óeðlilegt þegar menn standa fyrir heilbrigðum rekstri þó ætlast sé til þess af þeim að þeir leggi kassabókina saman einu sinni í mánuði? Eða halda þeir að einhver maður sem stendur fyrir vel reknu fyrirtæki fylgist ekki svo með rekstrarútgjöldum og tekjum síns fyrirtækis að hann viti ekki í mánaðarlokin hvernig staðan sé í stórum dráttum? Auðvitað er hann búinn að færa það til bókar hvernig einstakir útgjaldaliðir eru. Auðvitað er það gert í vel reknum fyrirtækjum að fylgjast með kassabókinni. Ég veit ekki betur og veit ekki annað.

Ég vil líka spyrja hv. þm. þegar við tölum um þessi framtöl til virðisaukaskatts: Á hverju byggja þeir það, sá þeirra sem sagði það, ég man ekki hvort það var hv. 7. þm. Reykv., að það mundi kosta bóndann nokkra klukkutíma á viku um hásláttinn að gera sér grein fyrir virðisaukaskatti? (SvG: Í þurrki aðallega.) Aðallega í þurrki. Ég geri ekki ráð fyrir því að hægt sé í raun og veru að taka ummæli eins og þessi alvarlega né hátíðlega. En hitt liggur auðvitað alveg ljóst fyrir og er enginn vafi á því að það að mönnum sé gert að fylgjast vel með rekstri síns fyrirtækis hefur ekki aðeins til lengdar heldur líka í bráð góð og holl áhrif á afkomu þess fyrirtækis sem viðkomandi stendur fyrir, hvort sem hann er einyrki fram til dala eða stendur fyrir sjoppurekstri hér í Reykjavík.

Annað hefur mér líka fundist mjög athyglisvert og er í beinni andstöðu við þá reynslu sem ég hef af bændum hér á landi að hv. þm., a.m.k. sumir hverjir, skuli hafa mestar áhyggjur af því að þetta muni vefjast fyrir bændum eins og þeir séu ekki einmitt vanir slíkri bókfærslu. (Gripið fram í.) Ja, þeir eiga tölvur. Þeir fylgjast nokk með hvernig ættir hrossa þeirra og dilka eru. Þeir vita nokk hvað þeir eru að gera. Þeir færa ærbókina sína. Það var ekki aðeins faðir Jóhannesar úr Kötlum sem færði ærbókina. Hann kunni alveg það bókhald og ég geri ráð fyrir því að fyrir bændum muni ekki vefjast það, sem hér er um að ræða, að hafa annars vegar einn dálk yfir útgjöld og annan fyrir tekjur. Þetta er ekki mál sem ástæða er til að gera mikið úr, enda kemur það glögglega fram í viðræðum við þá menn sem eru í forsvari fyrir þessa atvinnurekendur að þeir hafa ekki ýkja þungar áhyggjur af þessu atriði, svo fremi sem búið er að kynna mönnum hvernig eigi að standa að þessum skýrslum. Og eins og hv. þm. vita er ekki gert ráð fyrir því að sauðfjárbændur eigi að standa skil á virðisaukanum. Þess vegna liggur það alveg ljóst fyrir þegar talað er um 5000 bændur í þessu samhengi í sambandi við skil á virðisaukanum að talan er miklu lægri. En hitt hélt ég að menn vissu að bændur eins og aðrir atvinnurekendur og raunar eins og aðrir Íslendingar kunna vel að halda til haga og til skila þeim pappírum þar sem þeir eiga von á að fá endurgreiðslu og munu ekki telja eftir sér.

Hitt er auðvitað alveg rétt að ef slíkir pappírar týnast stendur viðkomandi maður ekki aðeins frammi fyrir því að þurfa að greiða virðisaukann af þeim nótum heldur verður hann einnig að greiða tekjuskatt og útsvar af þeim útgjöldum sem að öðrum kosti yrðu frádráttarbær. Ég held þess vegna að virðisaukaskatturinn sé til þess fallinn að skattskil verði réttlátari og betri og menn haldi pappírum sínum betur til haga. Auðvitað má alltaf búast við því að einn og einn maður læri seint á þetta, en við getum með sama hætti sagt: Það hefur komið í ljós að einn maður lærir seint að búa. Það eru til búskussar. Það eru til lélegir læknar. Það eru til vondir blaðamenn. Allt þetta er til og ástæðulaust að gera of mikið úr því.

Ég tók eftir því að hv. 7. þm. Reykv. gladdist mjög yfir þeirri stefnu sem þessi ríkisstjórn fylgir í skattamálum og tíundaði hér með bros á vör að nú hefði okkur tekist að koma skatthlutfallinu svo hátt upp að það væri að nálgast þá góðu velmektardaga skattpíningarinnar þegar hann var hér síðast í vinstri stjórn og er það kannski eðlilegt. Hann hefur ævinlega verið manna orðhvatastur þegar um það er að ræða að auka skattheimtuna, en hefur auðvitað sínar skoðanir á því hvaða skatta eigi að hækka.

En ég held ég verði að rifja upp líka aðra gamla ræðu sem ég held að ég hafi haldið sennilega á hverju einasta þingi mörg undanfarin ár, að það er valt að treysta skatthlutfallinu á því ári sem er að líða. Það er ævinlega reiknað of hátt þótt skrýtið sé. Formúlan fyrir því hvernig eigi að reikna út skatthlutfall líðandi stundar virðist seint ætla að lærast þeim í Þjóðhagsstofnun og öðrum þeim sem reynt hafa að giska á það, en undir hitt tek ég, sem hv. þm. sagði, að við höfum af ráðnum hug þyngt skattana með það að markmiði að skila greiðsluhallalausum ríkissjóði og ég skal ekki við þetta tækifæri fara nánar út í það, en vil við þessar umræður taka undir áhyggjur hv. 7. þm. Reykv. yfir afleiðingum þess að markaðir okkar erlendis standa nú verr en áður. Við erum af þeim sökum að tapa gjaldeyristekjum og auðvitað hefur þetta strax áhrif inn í atvinnureksturinn, bæði inn í sjávarútvegsfyrirtækin, þjónustugreinar sjávarútvegs og síðar út í annan rekstur.

Hér hefur því mjög verið haldið fram að við Íslendingar eigum að finna upp okkar eigin skattkerfi. Það er að vísu eftirtektarvert að hlýða á það í ræðu hv. 7. þm. Reykn. hversu ríka áherslu hann lagði á það hvernig skattheimtan væri í þeim löndum sem hann vildi sækja dæmi til og það var líka mjög athyglisvert að hlusta á það sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um Margréti Thatcher. Ég verð líka að segja að þá gladdist mitt gamla og trúa íhaldshjarta þegar ég heyrði að hún vildi sækja fyrirmynd sína um ríkisfjármál og annað sem lýtur að ríkisbúskapnum til Margrétar Thatcher. Auðvitað veit ég að hv. þm. er ekki svo mikið barn að vita ekki að ef maður vill sækja tekjuöflunina til Margrétar Thatcher, það sem ríkið fær í aðra hönd, verður maður líka að sækja til hennar fyrirmyndina um það hversu mikið eigi að fara í sameiginlegar þarfir hjá þjóðinni. Það var þess vegna mjög athyglisvert að heyra að hv. þm. virtist vera þó í nokkrum vafa. Hann var byrjaður að sjá að það væri þó ýmislegt gott um Thatcher og ég geri mér nú miklar vonir um það að þessi hv. þm. muni smátt og smátt, eftir því sem hann fer oftar til Englands og hefur meiri og fleiri tækifæri til að tala við íhaldsmenn þar, koma með mola og mola til okkar hér heima hvernig við eigum að stjórna þjóðfélaginu. (GA: Þjóðartekjum á mann.) Og ég er viss um að með hverjum einasta smámola sem hún kemur með með sér, því ég veit að hv. þm. er fljót að læra, muni skoðanir hennar smátt og smátt snúast, smátt og smátt muni hún nálgast okkur og má vel (Gripið fram í.) vera eftir nokkur ár að við getum verið sammála um hvernig eigi að stjórna þjóðfélaginu. Það yrði nú ekki dónalegt og hlakka ég sannarlega til þess samstarfs úr því að ég finn fyrir veikleikanum gagnvart Thatcher.

En hitt þykir mér líka merkilegt þegar hv. þm. tala hér mjög um hvað þessi ríkisstjórn sé menningarfjandsamleg. (Gripið fram í: Hún er nú það.) Ég man ekki betur en sumir hafi komið við stjórn ríkisfjármálanna áður, a.m.k. menn sem eiga sæti hér í tveim stjórnmálaflokkanna, bæði Borgarafl. og Alþb. En þó var það nú svo þegar þeir fóru frá völdum, hvor um sig, að sitthvað var eftir sem lagt var á listina. Mig minnir samt sem áður að okkur hafi tekist að laga ýmislegt t.d. í sambandi við tollafrv. og í sambandi við frv. um vörugjaldið. Þar var um ýmsar lækkanir að ræða sem einmitt komu menningunni vel, listunum vel. Þessar fullyrðingar, sem þessir hv. þm. höfðu um menningarfjandsamlega stjórn fjmrh. á ríkisfjármálunum að segja, voru á misskilningi byggðar eða út af gleymsku.

Hitt er svo annað mál þegar við erum að tala um undanþágur frá sköttum og þegar við erum að tala um með hvaða hætti við viljum styðja ákveðna starfsemi í landinu að við hljótum að vega og meta hvað við teljum heilbrigðast, hvað við teljum eðlilegast.

Hv. 7. þm. Reykv. tók sem dæmi að ef um mikla stórviðburði menningarlega yrði að ræða hér á landi væri svo að skilja á frv. að greiða yrði virðisaukaskatt af aðgöngumiðunum á þennan mikla konsert eða hina miklu listsýningu. Þá spyr ég á móti: Hverjir hafa greitt bróðurhlutann af því, þegar hingað hefur verið flutt t.d. mikil og merk málverkasýning? Hverjir hafa staðið fyrir listahátíð? Hverjir greiða bróðurhlutann af þeim kostnaði sem fæst af því að kalla til landsins kannski heimsfræga tónlistarmenn að leika með Sinfóníuhljómsveitinni? Eru það þeir sem njóta listarinnar eða er það svo að miklum fjármunum sé varið úr ríkissjóði og frá einstökum sveitarfélögum einmitt til að styrkja og styðja þá menningarviðleitni og menningarstarfsemi sem er á viðkomandi stað, ýmist á þjóðarvísu eða staðarvísu? Eitt af því ánægjulegasta t.d. sem við höfum lifað nú er sú aukna áhersla sem lögð er t. d. á tónlistarkennslu og ýmislegt það sem tengist menningunni.

Þó tel ég að ég hafi á stundum viljað leggja ýmislegt fram hér á Alþingi sem dragi úr útgjöldum t.d. leikfélaga. Ég man eftir því að þegar fjármálin voru í höndum Alþb. var ég að berjast við að ná því fram að ekki yrði lagður söluskattur á Leikfélag Akureyrar. Þó svo maður hafi verið að berjast fyrir því að tollurinn yrði lækkaður á flyglum, þó svo maður hafi verið að berjast fyrir því að vörugjald og tollur yrði felldur niður af vörum sem notaðar eru til myndlistar og þó svo maður hafi barist fyrir ýmsu sem víkur að þessu fann maður undir eins þegar farið var að tala um menninguna hér áðan að maður var nú eiginlega ekki merkilegur. Það voru komnir aðrir þingmenn sem hafa miklu, miklu, miklu meiri áhuga fyrir menningunni en við hinir og tala um menninguna af miklu, miklu meira innsæi en við hinir. Hafa kynnst menningunni miklu, miklu, miklu betur en við hinir og hafa miklu meiri skilning á því að það þurfi að standa á bak við menninguna, aðstoða hana, örva hana með opinberu fé en við hinir. Það er mjög ánægjulegt til þess að vita að maður skuli fá slíka liðsmenn í allri þessari miklu menningarviðleitni sem maður hefur þó verið að reyna að sýna. Það er auðvitað mjög ánægjulegt. En kjarni málsins er sá, þegar við erum að tala um þetta frv. og þegar við erum almennt að tala um skattlagningu í landinu, að við verðum að reyna að finna því opinbera fé sem við viljum leggja til menningarmála og til lista betri farveg en nú er. Ég er ekkert fyrir fram á móti því, kannski miklu fremur hlynntur því að í virðisaukaskattsfrumvarpinu verði ítarlegri ákvæði en nú eru um þessi atriði. En ég segi um leið: Ef það að ná einhverju slíku fram yrði til þess að maður gerði sér ekki grein fyrir því hvernig staða ríkissjóðs er í heild gagnvart menningunni, ef maður gerði sér ekki um leið grein fyrir því hvernig fénu er varið til menningarmálanna í heild heldur léti við hitt sitja að setja að vanhugsuðu máli örfá orð hér á pappír, þá væri illa farið. Ég þykist vita það og ég er sannfærður um það að allir þeir menn sem vilja íslenskri menningu vel eru ekki aðeins að ætlast til þess heldur krefjast þeir þess að þessi mál verði athuguð frá rótum. Það er einmitt það sem verið er að tala um í okkar lista. Við erum að tala um hvernig rétt sé að koma að þessu máli, að menningarmálunum, að liststarfseminni í þessu frv. og við erum að tala um það um leið hvernig rétt sé að koma að þessu máli í annarri löggjöf og í sambandi við fjárlög.

Ég tók eftir því að hv. 7. þm. Reykv. átti erfitt með að skilja að almennar fréttir í Stöð 2, almenn starfsemi Stöðvar 2, afnotagjöld af Stöð 2 væru eitthvað skyld t.d. listum og talaði um kvikmyndahús, leikhús, hljómleika. Ég get líka spurt. Eins og frv. liggur fyrir er gert ráð fyrir því að Þjóðviljinn verði undanþeginn virðisaukaskatti og ég spyr á móti: Er Þjóðviljinn svona miklu, miklu betra lesefni en Íslendingasögur? Er Þjóðviljinn miklu betra lestrarefni en Salka Valka? Erum við með því að leggja til að Þjóðviljinn verði undanþeginn virðisaukaskatti að leggja listrænt mat á það sem þar stendur? Það má vel vera að hv. þm., úr því að hann gerði ekki athugasemd við það, úr því að hann gerði bara athugasemd við Stöð 2, hafi einmitt með þessu verið að undirstrika hversu Þjóðviljinn væri vel skrifaður. Það má vel vera. Ég get út af fyrir sig skilið að honum skuli finnast það ef ég reyni að setja mig í hans spor. En það sem liggur þarna á bak við er alls ekki spurningin um hvort Stöð 2 sé endilega jafnmikið og gott menningartæki og Leikfélag Reykjavíkur. Það er heldur ekki spurningin um hvort ríkisútvarpið og ríkissjónvarpið sé jafnmikið menningartæki og Leikfélag Reykjavíkur sem hv. þm. tók dæmið af. Ég minni á að hann hefur setið í ríkisstjórn svo að Leikfélag Reykjavíkur varð að borga söluskatt af öllum sínum aðgöngumiðum á sama tíma og ekki var lagður söluskattur á afnotagjöld hjá Ríkisútvarpinu og ekki á Þjóðviljann. Þannig hefur ýmislegt gerst í þessu. Þó svo að sá menningarlegi og mikli leikhúsmaður, Ragnar Arnalds, hafi komið þeirri breytingu fram eftir að hann varð fjmrh. að þessi söluskattur var lagður niður, sem ég var honum mjög þakklátur fyrir, hafði þessi hv. ráðherra þó setið í öðrum ríkisstjórnum áður þar sem hann lét söluskattinn haldast. En við vitum líka sem þekkjum þann hv. þm., sem ég vitnaði til, að áhugi hans fyrir einmitt leikstarfsemi er miklu, miklu meiri og dýpri en annarra þeirra sem nú eiga sæti á Alþingi nema ef vera skyldi hv. 18. þm. Reykv. og skal ég, til þess að brjóta ekki í bága við jafnréttislögin, ekki fara nánar út í samanburð á þessum tveim hv. þm. gagnvart leiklistinni.

Ég held þess vegna að þessi samlíking af Leikfélaginu hafi ekki við rök að styðjast og ég vil raunar segja líka: Á þeim tíma sem Leikfélag Reykjavíkur greiddi söluskatt af aðgöngumiðum fékk Leikfélagið miklu, miklu hærri greiðslur úr ríkissjóði þannig að í raun og veru greiddi Leikfélagið aldrei eina einustu krónu í söluskatt þó svo héti á pappírnum. Að síðustu voru eftir þær skuldir bæði af Leikfélagi Reykjavíkur og Leikfélagi Akureyrar að ríkið gaf þann söluskatt eftir.

Hv. 7. þm. Reykv. spurði mig að því hvort kæmi til mála að hafa tvær skattprósentur. Við gerðum þá breytingu fyrr á þinginu að leggja söluskatt á matvæli eins og þessum hv. þm. er kunnugt og það hefur ekki staðið til að breyta því.

Hv. þm. spurði mig jafnframt að því hvort þingmenn Sjálfstfl. mundu geta fallist á að hækka prósentutölu virðisaukaskattsins eða lækka. Um það er það sama að segja og ég sagði fyrr í kvöld. Þegar fyllri gögn liggja fyrir og við sjáum hvernig ríkisfjárlagadæmið verður munum við að sjálfsögðu eins og jafnan áður gera okkur grein fyrir því hvernig skattheimtunni verður hagað. Söluskattur hefur verið mjög breytilegur, prósentur hans hafa verið mjög breytilegar og hv. þm. veit jafn vel og ég að yfirlýsing stjórnmálamanns fram í tímann um það hversu mikil skattprósenta söluskattsins eigi að vera hefur reynst næsta léttvæg. Á hinn bóginn legg ég áherslu á að sem fyllstra upplýsinga verður aflað um grunn virðisaukaskattsins og síðan verður auðvitað lagt mat á hver skattprósentan verður. Að fullyrða eitthvað um það fyrir fram er út í bláinn vegna þess að þá væri maður um leið að segja að allar þær upplýsingar liggi fyrir sem maður telji nauðsynlegar áður en slík ákvörðun verður tekin.

Ég tók eftir því að ýmsir hv. stjórnarandstæðingar hafa mjög talað um að þessi skattur sé ekki tekjujafnandi, en hins vegar séu aðrir skattar tekjujafnandi og þá er sennilega átt við tekjuskattinn. Nú muna menn náttúrlega þegar hv. 4. þm. Norðurl. v., þá fjmrh., sendi út láglaunabæturnar. Menn muna hvert þær fóru sem sýnir auðvitað erfiðleikana við að ákveða mönnum tekjur og hversu ólíkar aðstæður manna eru, þannig að ekki hefur verið fundinn upp neinn sá skattur sem nákvæmlega mælir tekjur manna. Á hinn bóginn hefur þessi ríkisstjórn hækkað skattleysismörkin og komið til móts við hina tekjulægstu í gegnum tryggingakerfið, eins og hv. þm. er kunnugt, þó svo einn hv. stjórnarandstæðingur hafi gert lítið úr því eins og það skipti ekki máli.

Að síðustu vil ég segja, herra forseti, að það ber einmitt vott um það að frv. er vel unnið og að vandað er til þessarar lagasetningar að áfram verður unnið af fullum krafti til að íhuga einstök atriði þessa frv. í sumar, íhuga framkvæmdina og aðgæta hvar lausir endar séu. Það er hálfbroslegt að heyra hv. þm., eins og hér var gert áðan, halda því fram að í því fælist einhver viðurkenning á því að frv. væri illa unnið þótt menn vildu áfram íhuga framkvæmd þess og einstök efnisatriði. Þvert á móti hlýtur það að vera hlutverk fjmrh. og fjmrn. og raunar þingmanna almennt að hafa tekjuskattskerfið undir stöðugri endurskoðun. Og ég tala nú ekki um þegar um skattkerfisbreytingu er að ræða eins og hér er. Þá hlýtur að vera unnið að því alveg fram að þeim degi sem skattkerfisbreytingin á sér stað að reyna að vinna betur og betur að undirbúningi breytingarinnar, athuga einstök atriði og það sem betur má fara. Það var gert í sambandi við staðgreiðslukerfið, það var gert í sambandi við breytinguna á tollskránni. Það er yfirleitt gert þegar menn vilja standa vel að ríkisfjármálunum.

Það er rétt hjá hv. 7. þm. Reykv. að það hafa mörg frv. varðandi skattamál komið hér fram sem sýnir og staðfestir að tekjuöflunarkerfi ríkisins er í endurskoðun. Og meira en í endurskoðun, það er í endursköpun. Enginn vafi er á því að þessa þings og síðasta þings raunar líka verður lengi minnst fyrir þau merku nýmæli sem á þeim hafa verið tekin upp í sambandi við tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs.