04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7359 í B-deild Alþingistíðinda. (5344)

431. mál, virðisaukaskattur

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég lagði fyrr í kvöld nokkrar spurningar fyrir hæstv. fjmrh. og hv. 2. þm. Norðurl. e. Sá síðarnefndi hefur nú farið yfir nokkur þau atriði sem ég nefndi. Ég get út af fyrir sig dregið þá ályktun að hann hafi svarað fyrir hæstv. ráðherra líka svo hollur var hann ríkisstjórninni í skattagleði sinni áðan þannig að ég hef út af fyrir sig enga ástæðu til að ætla að það gangi hnífurinn á milli hæstv. fjmrh. og hv. þm. Halldórs Blöndals í þessum efnum og ætla þess vegna ekki að þýfga hæstv. fjmrh. um svör við þeim spurningum sem hann lætur sér bersýnilega nægja að fóstbróðir hans, hv. 2. þm. Norðurl. e. svari.

Ég vil geta þess að þær ákvarðanir sem liggja fyrir í frv. varðandi skatta af menningarstarfsemi hafa vakið verulegar áhyggjur hjá þeim sem með þau mál fara í okkar samfélagi. Sem dæmi um það er leiklistarráð ríkisins sem er stofnun sem á að vera ráðgefandi stofnun fyrir menntmrh. í leiklistarmálum. Framkvæmdastjórn leiklistarráðs ríkisins hefur sent frá sér ályktun, sem er dags. 4. maí 1988, sem ég ætla að lesa, með leyfi hæstv. forseta, eins og til að sanna að það var ekki að ástæðulausu að við stjórnarandstæðingar lýstum áhyggjum okkar yfir ákvæðum þessa frv. En í ályktun framkvæmdastjórnar leiklistarráðs segir svo, með leyfi forseta:

„Framkvæmdastjórn leiklistarráðs lýsir áhyggjum sínum vegna þeirra áforma ríkisstjórnarinnar, sem birtast í frv. til laga um virðisaukaskatt, að taka upp skattlagningu á leiksýningar og aðra hliðstæða listastarfsemi. Í ljósi þess að aðgöngumiðaverð leikhúsa er nú eins hátt og mögulegt er talið mun 22% skattur á hvern þann sem ætlar að kaupa sér leikhúsmiða óhjákvæmilega leiða til minnkandi leikhúsaðsóknar. Því má allt eins búast við að ekki verði talið fært að hækka miðaverð sem skattinum nemur sem þýðir beinlínis að tekin yrðu 22% af miðasölutekjum leikhúsanna og gerð upptæk í ríkissjóð sem virðisaukaskattur. Hvor leiðin sem farin yrði mundi leiða til minnkandi tekna leikhúsanna sem aðeins yrði mætt með samdrætti í starfsemi þeirra.

Fyrir sjálfstæðu atvinnuleikhópana, sem hingað til hafa komið upp leiksýningum að verulegu leyti í sjálfboðavinnu, mundi þetta þýða, ef þeir á annað borð halda lífi, að öll vinnan yrði unnin í sjálfboðavinnu. Þar með væri hreinlega verið að taka af viðkomandi listamönnum þau litlu laun sem þeir hafa þó fengið til þessa.

Framkvæmdastjórn leiklistaráðs telur því fyrirsjáanlegt að með einum eða öðrum hætti yrði virðisaukaskatturinn beinlínis tekinn af rekstrarfé leikhúsanna með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir starfsemi þeirra og skorar því á ráðherra mennta- og fjármála sem og aðra alþm. að koma í veg fyrir þessa skattlagningu.“

Ég held að þessi ályktun leiklistarráðs ríkisins sýni það ákaflega vel hvaða áhyggjur eru meðal þeirra sem bera ábyrgð á menningarstofnunum íslensku þjóðarinnar yfir áformum ríkisstjórnarinnar um að leggja virðisaukaskatt á menningarstarfsemi. Ég er sannfærður um að þessi ályktun framkvæmdastjórnar leiklistarráðs endurspeglar einnig viðhorf sem er að finna meðal forvígismanna hliðstæðrar menningarstarfsemi í landinu, hvort sem er um að ræða hljómleikahald, kvikmyndasýningar eða menningarstarfsemi af öðru tagi.

Það er þess vegna ekki þannig, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér áðan, að við sem tölum fyrir stjórnarandstöðuna í þessu máli værum í rauninni hræsnin uppmáluð, þekktum ekkert til þessara mála, skildum ekki forsendur þeirra og það þýddi lítið fyrir okkur að tala um þessi mál við hv. þm. Halldór Blöndal sem þekkti þessi mál jafn vel og raun bæri vitni um.

Mér þætti gott, hæstv. forseti, af því að umræðan er nú að lifna heldur og nóttin er ung, að fá í salinn hæstv. forsrh. Ég sé að hann er að sniglast í kringum salinn að tappa vonskunni af þingmönnum Sjálfstfl. og mér þætti vænt um ef hæstv. forsrh. vildi gera svo lítið að vera viðstaddur umræðuna. Ég ætla að ræða við hann um efnahagsmál, en það er málaflokkur sem heyrir undir hann og kemur óneitanlega við þessu máli. Og sömuleiðis hv. formaður þingflokks Sjálfstfl. sem nú læðist inn um dyrnar að gá að bjórnum sínum ef ég þekki hann rétt, en það er mesta áhugamál þessa þingmanns og hefur verið í vetur og í rauninni í einu skiptin sem ég hef séð hann með verulegu lífsmarki í þinginu þegar hann hefur verið að rótast áfram með þetta bjórmál sæla, og ætla ég ekki að fara að taka upp orðaskak við hv. þm. Ég veit að hann hefur fengið nóg af því hér í Nd. þegar hv. þm. Sverrir Hermannsson var að spjalla við hann og ég ætla ekki að endurtaka þau ummæli.

En vænt þætti mér um ef hæstv. forsrh. yrði kvaddur til og ég sé að forseti hefur tilburði í þá átt.

Ég hef kynnt ályktun leiklistarráðs og ég endurtek að ég tel að hún sýni ákaflega vel þau sjónarmið sem uppi eru meðal forvígismanna menningarstofnana í okkar þjóðfélagi hvarvetna.

Ég vil þá víkja aðeins, herra forseti, að ræðu hv. þm. Halldórs Blöndals. Hann spurði: Hvernig stendur á því að fulltrúar handverksmanna vilja taka upp virðisaukaskatt þegar þetta er svona ógnarlega þungt í bókhaldinu eins og við stjórnarandstæðingar viljum vera láta? Þá vil ég segja það fyrir mitt leyti og tala bara fyrir mig einan í því efni: Ég dreg mjög í efa að fulltrúar Landssambands iðnaðarmanna hafi verið að tala fyrir einyrkjahandverksmenn í þessu landi þegar þeir komu á fund fjh.- og viðskn. Ég dreg það fyllilega í efa líka að talsmenn Stéttarsambands bænda hafi verið að tala fyrir munn einyrkjabóndans þegar þeir lögðu blessun sína yfir frv. á fundi fjh.- og viðskn. Ég held að þessir menn séu komnir eins langt frá sínum umbjóðendum og ráðherrar Alþfl. eru komnir frá kjósendum sínum, svo ég vitni í orð Guðríðar Elíasdóttur, varaforseta Alþýðusambands Íslands, nýlega.

Ég fullyrði og það er mikið sagt: Þessir kontóristar hjá Landssambandi iðnaðarmanna eða Stéttarfélagi bænda eru ekki í neinum tengslum við einstaka bændur eða einyrkjahandverksmenn í þessu landi. Þeir eru það ekki. Þeir þekkja ekkert betur til þessara mála hjá einstökum bændum í landinu en bara hver annar þingmaður sem hefur á undanförnum árum eða áratugum kynnst högum bændastéttarinnar með einum eða öðrum hætti.

Þess vegna er það barnaskapur, að ég segi ekki einfeldni, herra forseti, af hv. 2. þm. Norðurl. e. að líta á kontóristana hjá Landssambandi iðnaðarmanna og þetta lið frá Stéttarsambandinu, sem kom á fundinn hjá okkur um daginn, sem eins og röddina úr þjóðardjúpunum, ym alþýðunnar. Drottinn minn dýri! Þessir menn geta kannski lesið sína pappíra og dálka í gegn, en að þeir átti sig á því hver eru tengslin við grunninn sjálfan, því fer svo víðs, víðs fjarri. Það er ofboðslegt til þess að hugsa þegar einstakir þingmenn eins og sá ágæti maður hv. þm. Halldór Blöndal eru farnir að bera þessa menn fyrir sig sem heimildir um það hver er vilji einstakra bænda eða einstakra handverksmanna í Landssambandi iðnaðarmanna.

Hv. þm. Halldór Blöndal kom líka að því að það væri skrýtið hvað við í stjórnarandstöðunni hefðum mikið á móti bókhaldi. Við værum alveg sérstaklega andvíg bókhaldi og vildum helst koma í veg fyrir að menn héldu bókhald. Auðvitað er þetta eins og hver annar útúrsnúningur. Auðvitað er það þannig að við viljum að menn haldi bókhald. Auðvitað er það þannig að við viljum að menn standi skil á sínum fjármunum til opinberra aðila. En við höfum verið að reyna að segja við þetta skriffinnskuglaða lið stjórnarliðsins í þinginu: Það er óþarfi að framleiða með sérstökum lagabálkum fallgryfjur handa fólki með alls konar nýjum lagaákvæðum sem er erfitt fyrir fólk að ráða við. Það á að hafa lög og reglur einföld og gagnsæ. Það á að hafa skattalög þannig að fólk átti sig á því hvaða ákvæði felast í þeim. Það á ekki að vera að búa til flækjur að óþörfu. Það er það sem verið er að gera vegna þess að það er verið að apa upp eftir útlendingum, 25–30 milljón manna þjóðfélögum, kerfi sem passar ekki í þessu landi.

Það var beinlínis spaugilegt þegar hv. þm. Halldór Blöndal talaði þannig að þetta yrði væntanlega með þeim hætti að Búnaðarfélagið mundi framvegis gefa út þessar bækur fyrir bændur, þessar útskatts- og innskattsbækur, og menn mundu þá færa þetta rétt si svona um leið og rollubókina og gangmál búpenings. Ég held að menn þurfi að átta sig á því að þó að menn hafi reynslu af því að færa hjá sér rollubókina um aldir og hafi gert það vel og það sé oft óskaplega skemmtilegur „litteratúr“ er hér verið að búa til flækjur handa mönnum í bókhaldi sem eiga ekkert skylt við það sent menn hafa kynnst í þeim efnum.

Hv. þm. Halldór Blöndal vék að þeirri gagnrýni sem upp hefur komið hjá okkur um að þetta væri kerfi sem ekki þýddi tekjujöfnun, þvert á móti, því að það væri verið að láta einstaklingana borga meira, fyrirtækin minna, eins og kemur fram í grg. frv. Hann minnti á að það hefði verið gerð tilraun til að greiða fólki láglaunabætur. Mér þykir vænt um að hann skyldi nefna þetta fyrirbrigði, þessar láglaunabætur. Það tókst mjög illa. Fyrst og fremst vegna þess að heimildirnar sem skattkerfið veitir eru ekki nægilega góðar. Ég hef enga trú á því að þetta virðisaukaskattskerfi breyti þar nokkru um, leysi þar nokkurn vanda, hvorki til að gera bókhald gleggra né til að jafna lífskjörin í landinu.

Er það t.d. þannig að svokölluð nótulaus viðskipti hafi verið minni á Norðurlöndum þar sem hefur verið virðisaukaskattur en á Íslandi þar sem hefur verið söluskattur? Svarið er nei. Samkvæmt skýrslu skattsvikanefndar, sem hér hefur verið vitnað til af öðrum mönnum en mér, kemur það í ljós á bls. 34 að tíðni svokallaðra nótulausra viðskipta á Norðurlöndum er meiri í Noregi, meiri í Svíþjóð og meiri í Danmörku en hér á landi. Þetta segir mér að kenningar ykkar um að virðisaukaskatturinn þurrki svo að segja upp skattsvikamöguleika eru reistar á sandi. Þær standast ekki. Staðreyndirnar í kringum okkur á Norðurlöndunum m.a. í þessari skattasvikaskýrslu, sem sumir eru stundum að vitna í sér til hægðarauka og snúa út úr, sýna fullum fetum að þetta virðisaukaskattskerfi ykkar, þetta kontóristakerfi sem þið eruð að búa til, leysir ekki neitt í þeim efnum. (HBl: Hef ég haldið því fram?) Hv. þm. hefur haldið því fram í löngum og ítarlegum ræðum að þetta kerfi mundi svo að segja leysa allan vanda og væri alveg einstakt þjóðþrifakerfi í öllum efnum. Gott ef þetta væri ekki sérstakt menningarmál ef eitthvað var.

Hv. þm. taldi að niðurstöður nefndarinnar varðandi að taka upp tíu mál í sumar og skoða þau nánar væri ekki til marks um að frv. væri illa unnið heldur til marks um að menn vildu vanda málið og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir sagði að þetta væri forsenda þess að hún styddi frv. Þetta væri ekki veikleikamerki heldur styrkleikamerki. Þetta er afar fróðlegt og er kannski boð um nýja tíð á vegum stjórnarflokkanna, að þeir ætli að samþykkja frv. hvert á fætur öðru og skoða þau svo í sumar. Það er kannski þess vegna sem verið er að reka þingið heim núna, að þingið má ekki skoða málin heldur þessar embættismannanefndir, kontóristanefndir úr fjmrn., svo að þær hafi fimm mánuði til að skoða þetta. Það á að henda þinginu heim, kasta því héðan út til þess að þetta lið hafi tíma til að skoða þessa pappíra sína í sumar. Þetta er kostulegt, þetta er útúrsnúningur og þetta er veikleikamerki. Þetta sýnir að þið gátuð ekki komið málinu í gegn og þess vegna var reynt að búa til sitt lítið fyrir hvern, smávegis um menninguna fyrir Halldór hv. þm., smávegis um tímaritin fyrir Eykon hv. þm., smávegis um sjávarútveginn fyrir Guðmund H. Garðarsson hv. þm., smávegis um landbúnaðinn fyrir Valgerði Sverrisdóttur hv. þm. og þannig koll af kolli. Þannig var það. Búnar voru til litlar dúsur svo að þeir rétti upp hendina sína hér eins og maskínur á eftir til að styðja stjórnina, þægir og góðir og segðu svo já í nafnaköllunum og amen á eftir.

Eina röddin sem hefur heyrst í kvöld eða nótt sem er einhver vottur af glætu í hjá stjórnarliðinu er Guðmundur H. Garðarsson, 14. þm. Reykv. Hann sagðist ekki vera altekinn af skattagleði eins og aðrir þm. Sjálfstfl. Hann flutti sérstaka brtt. þar sem hann vildi breyta 12. gr. frv. um virðisaukaskatt. Ég tel það út af fyrir sig ágæta brtt. og vil taka fram fyrir mitt leyti að eins og fram kemur í áliti minni hl. fjh.og viðskn. var það ætlun okkar að flytja brtt. við 3. umr. ef svo færi að frv. kæmist í gegnum 2. umr. sem margt bendir reyndar til, að það sleppi í gegn þrátt fyrir að það er bersýnileg ókyrrð í stjórnarliðinu þessar mínúturnar.

Mér þótti líka mjög athyglisvert, sem fram kom hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni, að hann sagðist vilja hafa fleiri þrep í virðisaukaskattinum. Ja, það er nú kominn tími til að þetta komi fram verð ég að segja. Það er komið fram yfir elleftu stundu á klukkunni, en það er enn þá hægt að breyta frv. Spurningin er sú: Eru kannski fleiri þingmenn Sjálfstfl. sem bærist með þrá eftir að hafa einu sinni sjálfstæða skoðun? Gæti það kannski verið að það kæmu fleiri sem allt í einu springa undan fargi flokksvaldsins og vilja vera sjálfstæðir menn, eins og nafn flokksins bendir til, þegar komin er nótt? Það er spurning. Það væri kannski ástæða til þess, herra forseti, að fresta fundi og kanna hvort hér er orðinn til nýr meiri hluti, hvort kratagengið er allt í einu hætt að ráða. Getur það kannski verið að þetta sé vanheilagt bandalag hæstv. fjmrh., kratanna og hv. þm. Halldórs Blöndals og aðrir séu þar ekki með þennan vikivaka? Það skyldi þó ekki vera að það bærðist með einum og einum stjórnarliða snertur af sjálfstæði í augnakrókunum utan til. Það sést ekki mikið af því, ég viðurkenni það, en það gæti verið og lengi er von á einum, herra forseti.

Ég ætlaði þessu næst að víkja að því sem ég fór hér aðeins yfir fyrr í kvöld í þessari umræðu varðandi það að það hefði verið mikið eðlilegra ef við hefðum verið að fjalla um afkomu atvinnuveganna og efnahagslífið í landinu. Það hefði verið mikið eðlilegra en að vera að bjarga í gegn 20. skattafrv. fyrir ríkisstjórnina í vetur, sérstaklega þegar þess er gætt að núna í dag er gefin út skýrsla frá Þjóðhagsstofnun, greinargerð um stöðu og horfur í atvinnurekstri utan höfuðborgarsvæðisins. Það er skýrsla sem fjölmiðlarnir fá og hv. 4. þm. Vesturl. útvegaði einhvers staðar og ég fékk ljósritaða hjá honum og ég geri ráð fyrir að fleiri þingmenn gætu fengið. (StG: Það er ekki víst.) Jafnvel hv. þm. Stefán Guðmundsson gæti fengið plaggið. Hann hefði gaman af því að lesa það.

Þar eru upplýsingar um stöðu sjávarútvegsins og atvinnugreinanna í landinu, iðnaðar og landbúnaðar. Þar segir m.a., með leyfi forseta: „Áætlanir í apríllok sýna að afkoma sjávarútvegsins hefur versnað verulega að undanförnu og er frysting nú talin vera rekin með rúmlega 10% halla, saltfiskverkun með tæplega 3% hagnaði, en vinnslan í heild með nálægt 6% halla. Afkoma í botnfiskveiðum er hins vegar betri, hallinn er áætlaður tæplega 2%.

Þessar tölur sýna mikil umskipti til hins verra í sjávarútvegi. Að baki þessum umskiptum liggur einkum þrennt: mikil hækkun innlends kostnaðar, verðlækkun á botnfiskafurðum erlendis og samdráttur afla. Miðað við síðustu spár um verðlags- og launabreytingar það sem eftir er ársins, óbreytt gengi krónunnar og markaðsverð á botnfiskafurðum eins og það er núna mun halli botnfiskveiða og vinnslu halda áfram að versna á árinu.“

Ætli það hefði ekki verið nær, herra forseti, að þessi virðulega deild hefði tekið eins og einn næturfund í það að ræða um ráðstafanir til að treysta stöðu atvinnuveganna sem er undirstaðan undir öllu því sem við gerum í þessu landi, líka þessum virðisaukaskatti ef hann verður einhvern tímann lagður á? Ætli það hefði ekki verið eðlilegra og heilbrigðara að stjórnarliðið hefði verið að reyna að koma áleiðis tillögum um ráðstafanir vegna atvinnuveganna frekar en frv. um að fjölga opinberum starfsmönnum um 100 til að rukka inn virðisaukaskatt? (SkA: Er forsrh. ekki fundinn enn þá?) Hann hefur nú oft verið týndur í vetur, hv. þm., þannig að það kemur kannski engum á óvart þó að hann finnist ekki núna frekar en venjulega. En ég frétti af því að hæstv. forseti ætlaði að kanna hvort ráðherrann væri hér og ég var búinn að segja að ég mundi gleðjast ósegjanlega yfir því að fá hann í salinn, en ég geri enga kröfu um að hann verði vakinn til þess að koma hingað að hlýða á mál mitt.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að draga þessar andstæður fram á meðan ástandið er eins og það er á landsbyggðinni, ástandið í undirstöðuatvinnugreinunum eins og það er, sjávarútvegi og landbúnaði, og iðnfyrirtækin fara á hausinn hvert á fætur öðru, meðan ástandið er þannig, meðan Róm brennur eins og hæstv. utanrrh. kallar það er verið að ræða um eitt skattaplaggið í viðbót. (HBl: Er hann ekki farinn til Rómar?) Hann gæti verið farinn til Rómar, hæstv. utanrrh. Kannski ætlar hann að hitta þar einhverja á hótelherbergi til að ræða við þá um virðisaukaskatt, hver veit. Og allt um það. Það væri fróðlegt að sjá hvaða úrræði það eru sem þið hafið í sambandi við þennan vanda atvinnuveganna. (GHG: Það kemur.) Það kemur. En hvenær? Það er nefnilega verið að senda þingið heim. Það er verið að senda þingið heim til þess að þið getið læðupokast með þær ráðstafanir sem þið viljið gera. (HBl: Gömlu íhaldsúrræðin.) Það eru gömlu íhaldsúrræðin sem á að grípa til, gengislækkunin og þess háttar sem hv. þm. Eiður Guðnason var að kalla á sérstaklega í gærkvöld.

Þetta eru hlutir sem hljóta í rauninni að skelfa þjóðina og sérstaklega fólkið sem býr á landsbyggðinni. Hvað fréttir það héðan af þessari virðulegu stofnun? Fréttir það það að hér sé verið að taka á vanda sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar? Hvað fréttir það héðan? Virðisaukaskattur og bjór. Það er boðskapurinn að menn fái að taka á sig virðisaukaskatt og drekka bjór með. Það er boðskapurinn á þessum alvörutímum sem er eins og blaut tuska framan í þetta fólk frá þessari virðulegu stofnun sem heitir Alþingi Íslendinga.

Þessu mótmælum við og höfum gert með málflutningi okkar hér og við höfum tekið eftir því að þingmenn stjórnarflokkanna eru ekki allt of ánægðir með þessa pappíra hér og með þessi vinnubrögð. Það kemur enn í ljós sem áður hefur verið sagt: Hér er á ferðinni ríkisstjórn Alþfl. undir forustu Sjálfstfl. og með hlutleysi Framsfl.