04.05.1988
Efri deild: 88. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7369 í B-deild Alþingistíðinda. (5349)

360. mál, umferðarlög

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fór fram á það á fundi fyrr í dag að fá að rifja upp þetta mál. Ég hef verið önnum kafinn við virðisaukaskattsfrv. nú um hríð og ég vissi ekki betur en samkomulag hefði tekist um að við afgreiddum virðisaukaskattinn á þessum næturfundi. Ég held að það sé rétt að hafa þann háttinn á að taka þessi mál út af dagskrá og taka síðan virðisaukaskattinn til 3. umr. Mér líst ekki á það ef hugmyndin er sú að halda þessari löngu dagskrá áfram og byrja á því máli sem umdeildast er. Þvert á móti vek ég athygli hæstv. forseta á því að stjórnarandstaðan hefur verið mjög samvinnuþýð í sambandi við umræður um virðisaukaskattinn þannig að ég hygg að fá dæmi séu um í þingsögunni og ég held að það sé ástæða til að virða það og taka þessi mál af dagskrá og drífa sig í 3. umr. um virðisaukaskattinn og leyfa síðan þingmönnum að fara heim og hvílast. Fyrsti fundur í fyrramálið er hálfníu, starfsfólk þarf líka að ganga til hvílu og ástæðulaust að vera yfir smámálum fram á nótt því nægur tími er á morgun til að fjalla um þau.