05.05.1988
Efri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7370 í B-deild Alþingistíðinda. (5361)

431. mál, virðisaukaskattur

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Ég tel mér skylt að mæla fyrir þeim brtt. sem við þingmenn Borgarafl. í Ed. höfum lagt fram við frv. til laga um virðisaukaskatt.

Eins og kom fram í málflutningi okkar við 2. umr. lýstum við því að við teldum besta kostinn að fella frv., en í ljósi þeirrar staðreyndar að það voru allar líkur á því, eins og raunin varð, að frv. yrði samþykkt við 2. umr. boðuðum við ýmsar brtt. Við teljum að með þeim till. sem við leggjum fram á þskj. 1040 sé hægt að sníða af marga slæma agnúa á frv. Skal ég nú gera frekari grein fyrir till. okkar.

Við 2. gr., en þar er fjallað um skattskyldusviðið, höfum við talið rétt að orða nákvæmar og betur nokkra töluliði. M.a. sýnist okkur að í 3. tölulið komi það ekki nægilega skýrt fram, og kann vel að vera að það sé heldur ekki ætlan stjórnarliða, um t.d. námskeiðshald og starfsemi sérskóla. Það má nefna málaskóla ýmiss konar, kvöldskóla eins og Námsflokka Reykjavíkur svo dæmi séu tekin. Við teljum eðlilegt að slíkar stofnanir beri ekki virðisaukaskatt, en það kemur ekki skýrt fram í frv. eins og það liggur hér fyrir.

Í 4. tölulið, um rekstur safna og bókasafna, finnst okkur eðlilegt að byrja á því að tala um að menningarstarfsemi sé undanþegin virðisaukaskatti og síðan verði talið upp frekar hvað við sé átt og e.t.v. í sama lið, ef ástæða þykir, að telja það sem ekki á að vera undanþegið skattskyldunni. En við höfum talið eðlilegt að tilgreina þarna menningarstarfsemi.

Í 8. tölulið höfum við fylgt þeirri brtt. sem meiri hl. fjh.- og viðskn. lagði til, en okkur þykir nauðsynlegt að tilgreina að útleiga á félagsheimilum verði einnig undanþegin virðisaukaskatti.

Í sambandi við 12. tölulið finnst okkur orðalagið vera ansi einkennilegt að tilgreina þar einungis rithöfunda og tónskáld. Það eru svo sannarlega fleiri listamenn til en bara rithöfundar og tónskáld. Hvað með málara og myndhöggvara? Nær væri að orða þetta með þeim hætti sem við leggjum til: „Vinna listamanna af menningarlegum toga svo og sýning og sala hugverka þeirra.“ Við höfum ekki frekari athugasemdir fram að færa né brtt. við 2. gr. laganna.

Þá komum við að 4. gr. laganna. En þar eru ákvæði um hverjir skuli undanþegnir skattskyldu. Þar segir í 3. tölulið: „Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 100 000 kr. á ári.“ Ég held að þetta sé mjög nauðsynlegt ákvæði vegna þess að svo háttar í íslensku atvinnulífi að laun fyrir átta stunda vinnudag eru mun lægri en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Þetta leiðir til þess að allir sem vettlingi geta valdið reyna að afla sér einhvers konar aukatekna. Þeir sem koma því við reyna að selja þjónustu sína þeim sem hana vilja kaupa. Því er mjög algengt að launamenn í fastri vinnu reyni með einhverju móti að skapa sér viðbótartekjur með því að selja ef þeir hafa yfir einhverju að búa sem er söluhæft.

Mig langar til að taka einfalt dæmi: Kennarar t.d. við heimspekideild Háskóla Íslands hafa fengist töluvert við það að fara yfir íslenskutexta á alls konar bæklingum og skýrslum og jafnvel á bókum, laga málfar og þess háttar og hafa fyrir þetta nokkrar aukatekjur. Þetta getur hæglega numið par hundrað þúsund kr. á ári. Svo er um fjölmarga í þjóðfélaginu. Ég held því að það væri ástæða til að koma eilítið á móts við þá fjölmörgu sem notfæra sér þetta eða reyna að afla sér aukatekna með þessum hætti og hafa þetta a.m.k. 300 þús. kr. á ári. Það er ekki mikið í lagt, finnst okkur.

Það kom fram í umræðum í nefndinni, það var upplýst af þeim embættismönnum sem þar sátu og skýrðu út fyrir okkur það sem vekti fyrir með ýmsum ákvæðum þessum, að t.d. hjá Svíum er gert ráð fyrir að þessi upphæð sé 33 þús. kr. sænskar á ári að mig minnir. Ég þykist viss um að það sé enn meira um slík aukastörf á Íslandi en á nokkru hinna Norðurlandanna og það sé viðeigandi að þessi upphæð sé a.m.k. 300 þús. kr.

Síðan kemur ný grein, sem við leggjum til að verði 5. gr., svohljóðandi: „Þeir sem selja skattskylda vöru eða þjónustu fyrir minna en 4 millj. kr. á ári skulu með skattframtali sínu skila rekstraryfirliti sem sýnir innskatt og útskatt vegna starfseminnar á árinu. Skulu þeir greiða með öðrum álögðum opinberum gjöldum sínum þann mismun á útskatti og innskatti sem rekstraryfirlitið sýnir. Aðilar sem falla undir ákvæði 1. mgr. skulu við upphaf árs gera viðkomandi skattstjóra grein fyrir áætlaðri veltu ársins. Skattstjóra er heimilt að krefjast þess að viðkomandi aðili gerist virðisaukaskattsskyldur að fullu ef sýnt þykir að veltan fari upp fyrir tiltekin mörk.“

Hér erum við að reyna að koma til móts við þann mikla fjölda einyrkja og smáfyrirtækja, þar sem er vitað að veltan er ekki meiri en þetta 2, 3, 4 milljónir, og fría þá við þá kvöð að fara inn í þetta flókna virðisaukaskattskerfi. Gefa þeim heldur kost á að skila virðisaukaskattinum að ári liðnu eftir að starfsemin hefur verið gerð upp þannig að að lokum skila þeir sama virðisaukaskatti í ríkissjóð og hinir, en þeir fá að gera þetta með öðrum hætti, með miklu einfaldari hætti. Ég held að þetta sé tiltölulega einfalt í framkvæmd og auðvelt að koma þessu við. Þetta mundi einfalda málið mjög fyrir stórum hópi sjálfstæðra atvinnurekenda, t.d. einyrkjanna. Við skulum taka sem dæmi trillukarlana og marga, marga fleiri sem hafa ekki miklu meiri veltu af sinni atvinnustarfsemi en nægir þeim einum til lífsframfæris. Þetta mundi auðvelda þessum aðilum mjög og losa þá við þetta flókna virðisaukaskattsuppgjör að öðru leyti.

Þá er brtt. við 12. gr., en þar segir í frv. í 5. tölul.: „Vistir, eldsneyti, tæki og annar búnaður, sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum, svo og sú þjónusta sem veitt er slíkum förum. Undanþága þessi nær þó ekki til skemmtibáta og einkaloftfara.“

Við teljum að hér sé óeðlilega að staðið. Við erum að reyna að gera Ísland að ferðamannalandi, laða til okkar erlenda ferðamenn m.a. Mér sýnist þetta vera andstætt þeirri stefnu vegna þess að þarna er verið að amast við t.d. erlendum skemmtibátum og erlendum einkaloftförum, sem hingað kynnu að vilja koma, gera þeim að borga fullan virðisaukaskatt af þeirri þjónustu sem þeir þyrftu á að halda með viðkomu sinni hér, t.d. eldsneyti og vistir. Þetta yrði eflaust til þess að slíkir aðilar mundu ekki kæra sig um að koma hingað aftur. Ég vek t.d. athygli á því að það hefur verið mjög algengt til margra ára að Ísland hefur verið millilendingarhöfn fyrir ferjuflutninga á einkaflugvélum milli Evrópu og Bandaríkjanna. Flugmenn hafa komið hingað og líkað vel og fengið hér góða þjónustu. Ég er á því að þessir flugmenn mundu fljótir að flytja sig eitthvað annað, t.d. nota Grænland heldur sem millihöfn eða jafnvel Færeyjar ef þeir yrðu varir við að þeim væri gert að greiða hér mikinn virðisaukaskatt af eldsneyti og öðrum vistum sem þeir mundu vilja taka hér. Það er að vísu ekki mjög algengt að hingað villist skemmtisnekkjur milljónamæringa, en ég held að við ættum ekki fyrir fram að búa þannig um hnútana að þeir væru óvelkomnir hingað af þessum sömu orsökum. Því leggjum við til að 5. tölul. verði orðaður svona: „Vistir, eldsneyti, tæki og annar búnaður sem afhentur er til nota um borð í millilandaförum, svo og sú þjónusta, m.a. viðhalds- og viðgerðarþjónusta, sem veitt er slíkum förum“ þannig að það fari ekki á milli mála að þessir aðilar, bæði skemmtisnekkjur, einkaloftför og erlendir fiskibátar sem hingað koma fái þessa þjónustu og vistir án virðisaukaskatts.

Við 9. tölul. teljum við rétt að betrumbæta tillögu meiri hl., en þar var ákveðið að afnotagjöld útvarpsstöðva yrðu án virðisaukaskatts. Ég vil taka undir það, sem kom fram í máli nokkurra hv. ræðumanna við 2. umr., að ég sé nú út af fyrir sig ekki þörf fyrir það að láta afnotagjöld útvarpsstöðva vera virðisaukaskattslaus meðan aðgöngumiðar að ýmiss konar menningarstarfsemi, konsertum og þess háttar er með fullum virðisaukaskatti. Þykir mér það afar einkennilegt. En þar sem ég geri ráð fyrir að þetta verði samþykkt, þar sem meiri hl. hefur ákveðið að leggja fram og raunar fengið samþykkta slíka brtt., tel ég rétt að minna á að það eru líka afnotagjöld loftnetsdreifikerfa sem starfa með sama hætti og útvarpsstöðvar og er rétt að taka það með svo að ekki sé um mismunun þar að ræða.

Þá er kannski veigamesta breytingin við 14. gr. Það er í frv. ákaflega saklaus setning sem hljóðar svo: „Virðisaukaskattur skal vera 22% og rennur í ríkissjóð.“ Hér greinir okkur á við þá stjórnarliða sem mynda meiri hluta hér í hv. þingdeild og vilja leggja sama skattþrep á allar vörur. Við höfum barist hart gegn því á þessu þingi að skattlagning sé á matvælum. Ég hef oft lýst því þannig að það er hneisa að skattleggja matvörur eins og ákveðið hefur verið með þeirri breytingu sem varð á söluskattinum um síðustu áramót. Fyrir því má færa ýmis rök.

Í fyrsta lagi er enginn vafi á því að matvara er líklega orðin dýrari á Íslandi en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Ég hef orðið þess aðnjótandi að ferðast mjög víða um heimsbyggðina. Ég hef hvergi komið í land þar sem matvara er eins dýr og á Íslandi, hvergi. Ég held að þetta sé alveg einsdæmi í heiminum, við erum þar alveg sér á báti með dýrari matvöru en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Þess vegna er alveg fráleitt að vera þar fyrir utan með einhverja hæstu skattprósentu á matvæli sem nokkurs staðar tíðkast.

Við getum gert okkur augljósa grein fyrir því að landbúnaður á Íslandi hlýtur alltaf að eiga erfitt uppdráttar. Bæði er það að við búum hér svo norðarlega að skilyrði til landbúnaðar eru ekki eins góð og t.d. í nágrannalöndunum þar sem veðurfar og önnur skilyrði eru hagstæðari. Markaðurinn er lítill, búin verða fyrir vikið lítil þannig að landbúnaðarvörur hljóta alltaf að vera dýrari á Íslandi en annars staðar. Við það verðum við að sætta okkur. Þess vegna er að sjálfsögðu algerlega fráleitt að leggja háan skatt ofan á íslenskar landbúnaðarafurðir. Það gengur einfaldlega ekki. Það er ekki líft í landinu ef það heldur áfram að matvara hér verði skattlögð með þeim hætti sem stjórnarliðarnir leggja til. Þess vegna höfum við lagt til að þessi grein verði orðuð á annan hátt. Hún hljóði svo:

„Virðisaukaskattur skal lagður á með tveimur mismunandi skattþrepum og skulu þau ákveðin í fjárlögum ár hvert. Hið lægra virðisaukaskattsþrep, sem ekki má vera hærra en 6%, skal nota við álagningu á matvæli og aðrar helstu nauðsynjavörur heimilanna samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Allar aðrar vörur og þjónusta, svo og annað sem er virðisaukaskattsskylt skv. lögum þessum skal bera skatt samkvæmt hærra þrepinu sem ekki má vera hærra en 22%.“

Fyrir utan að leggja hér til að það séu notuð tvö þrep í virðisaukaskattskerfinu, lægra þrep fyrir matvæli og helstu nauðsynjavörur heimilanna, vil ég vekja athygli á að við leggjum til að skattþrepin verði ákveðin í fjárlögum ár hvert. Það er engin nauðsyn að binda svona hátt skattþrep í lögunum þannig að það skuli alltaf leggja á 22% virðisaukaskatt hverju svo sem hann skilar í ríkissjóð. Það getur vel farið svo að virðisaukaskatturinn skili ótöldum milljörðum meira í ríkissjóð en embættismennirnir hafa reiknað með og ég sé enga ástæðu til að binda það. Ég held að við eigum miklu frekar að reyna að lækka virðisaukaskattinn eins og framast er unnt strax og einhver reynsla er komin á hverju hann skilar í kassann.

Þá langar mig til að vekja athygli á einfaldri brtt. sem við höfum lagt til við 20. gr. laganna, en þar eru þessi margumtöluðu reikningseyðublöð sem skulu vera tölusett fyrir fram í samfelldri töluröð. Þar er kerfismennskan alveg augljós og þarna er henni vel lýst, þessi hrikalega árátta að keyra allt inn í samansúrrað kerfi, vantreysta öllum og reyna að þvinga alla inn í eitthvert ógnarskrifræðiskerfi, drepa niður alla sjálfstæða hugsun hjá einstaklingnum. Við leggjum til að orðin „fyrir fram“ verði strikuð út þannig að fyrirtækjunum sé einfaldlega treyst fyrir því að prenta númerin sjálf á þessi eyðublöð sem þau nota til þess að færa reikningshaldið með. Ég held að það sé kominn tími til að hæstv. fjmrh. eða embættismenn hans fari að treysta almenningi í þessu landi en ekki ganga út frá því sem gefnu að allir þeir sem reka fyrirtæki á Íslandi séu glæpamenn þangað til annað er sannað.

Síðan er brtt. við 34. gr., en þar teljum við sjálfsagt að allir innflytjendur fái greiðslufrest á aðflutningsgjöldum og virðisaukaskatti með svipuðum hætti og talað hefur verið um að veitt verði svokölluð tollkrít. Við teljum eðlilegt að það sama gildi um virðisaukaskattinn. Það á ekki að vera með mismunun þannig að fyrirtækin þurfi að vera ógnarstór til að fá þessa heimild heldur á þetta að gilda almennt um innflutning. Annars verður það, sem m.a. Félag ísl. stórkaupmanna og fulltrúar þeirra hafa varað við, að vöruverðið í landinu hlýtur að hækka stórlega ef versluninni verður gert að staðgreiða virðisaukaskattinn við innflutning og þurfa síðan að fjármagna þá upphæð þangað til varan selst. Þær heimildir til greiðslufrests sem getið er um í lögunum ganga of skammt að okkar mati. Því leggjum við til að þetta verði orðað svo:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má fjmrh. veita greiðslufrest á virðisaukaskatti á innfluttum vörum við tollafgreiðslu, enda setji innflytjandi fullnægjandi tryggingar.“