05.05.1988
Efri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7375 í B-deild Alþingistíðinda. (5362)

431. mál, virðisaukaskattur

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Það fór eins og mig grunaði. Stjórnarmeirihlutinn, þingmennirnir, í hv. Ed. lét hafa sig út í það að samþykkja þetta frv. við 2. umr. og því finnst mér bæði rétt og eðlilegt að ég kynni þær brtt. sent ég hafði boðað að við mundum flytja í deildinni, kvennalistakonur. Þetta er smátilraun til að reyna að lappa upp á þetta ógæfulega ólukkufrv. sem nú virðist sigla næturbyri í gegnum þessa deild. Eins og ég sagði eru þetta brtt. sem fyrst og fremst varða matvæli og menningu. Við höfum leyft okkur, en Danfríður Skarphéðinsdóttir er meðflm. minn að þessari brtt., í fyrsta lagi að gera brtt. við 1. málsl. 1. mgr. 2. gr. sem orðist svo:

„Skattskyldan nær til allra vara og verðmæta, nýrra og notaðra, nema matvöru sem er undanþegin virðisaukaskatti.“ Þetta er meginefni.

Í öðru lagi höfum við gert nokkrar breytingar af mörgum sem við hefðum viljað gera. Við völdum þó þessar sem mjög veigamiklar án þess þó að aðrar hefðu ekki einnig verið mikilvægar. Það er þá við 4. tölul. 3. mgr. 2. gr. sem orðist svo:

„Menningarstarfsemi, m.a. rekstur safna og bókasafna, tónleikahald, óperu- og leiksýningar, svo og gerð og sýningar íslenskra kvikmynda.“

Í þriðja lagi: „Á eftir 12. tölul. 3. mgr. 2. gr. komi nýr tölul., 13. tölul., sem orðist svo: Útgáfa bóka á íslensku.“

Þessir tveir þættir menningarstarfsemi, sem ég hef nú tilgreint, viljum við að séu undanþegnir virðisaukaskatti og það er fyrst og fremst af þeim ástæðum sem ég hef ítrekað rætt um þetta mál bæði við 1. og 2. umr. hér í deildinni. Við teljum það vera meginefni til að við megum viðhalda sjálfstæði þessarar þjóðar að hér þróist öflugt og blómstrandi menningarlíf og við teljum okkur bera gæfu til að skilja það, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e., að til þess að svo megi verða verður að styðja við alla menningarviðleitni sem hér fer fram. Öðruvísi þrífst ekki nema lítill hluti hennar og við þurfum á öllu okkar að halda í þessum efnum.

Ég vona að hv. þm., þó að þeir séu ekki margir hér í deildinni, muni líta á þessar brtt. bæði af alvöru og vinsemd.