11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 886 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Forseti (Jón Kristjánsson):

Vegna orða hv. þm. um þingsköp vil ég geta þess að að sjálfsögðu verður rætt við viðkomandi ráðherra um þau stjfrv. sem væntanleg eru. Forsetar hafa vissulega rætt þessi mál og hafa áhyggjur af því er líður á þingtímann því að reynslan sýnir að hér er mikið annríki þegar líður að áramótum þannig að þessi mál verða tekin upp og hafa reyndar þegar verið rædd.

Hvað varðar nefndafundi hefur það verið til siðs á undanförnum þingum af forseta hálfu að halda fundi með formönnum nefnda með nokkrum fresti til þess að fylgjast með gangi mála í nefndum og mun það verða gert nú eins og áður og fylgst með því hvað gengur í nefndastarfinu.

Skrá um fasta fundi nefnda er nú tilbúin og er í prentun, en það hefur dregist nokkuð að koma henni á og er ástæðan fyrir því þær breytingar sem hafa verið gerðar á fundatíma þingsins. Það var ekki hægt að ganga endanlega frá skrá um fasta fundi nefndanna fyrr en þær breytingar voru ákveðnar, en sú skrá er nú í prentun. En það breytir því ekki að nefndirnar eiga að hafa góðan tíma til starfa núna. Ég vil, og tala þar áreiðanlega fyrir munn forseta Sþ. og forseta Ed. einnig, vænta þess að nefndirnar snúi sér að sínum störfum skarplega þannig að við komumst hjá því mikla annríki sem verið hefur í desember, en þó veit ég að það annríki verður mikið.

Þetta vildi ég láta koma fram áður en lengra er haldið.