04.05.1988
Neðri deild: 89. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7382 í B-deild Alþingistíðinda. (5385)

448. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. félmn. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 60/1984, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. kom frá hv. Ed. Hér er um að ræða breytingu á húsnæðislöggjöf að því er varðar byggingarsamvinnufélög og byggingarflokka þar sem ráðherra er heimilað eftir tillögu viðkomandi byggingarflokks, að fenginni umsögn stjórnar byggingarsamvinnufélags, að byggingarflokkur í heild segi sig úr félaginu. Slík úrsögn getur þó aldrei átt sér stað fyrr en fimm árum eftir að byggingarsamvinnufélagið hefur lokið framkvæmdum, enda hafi uppgjör byggingarflokksins farið fram og allir byggjendur hans séu skuldlausir við félagið.

Þetta er skv. ósk ýmissa byggingarfélaga, ekki síst á vegum BSRB, sem hafa lent í vandamálum út af þessu ákvæði laga, að þar er engin heimild til.

Nefndin hefur athugað þetta frv. og leggur til að það verði samþykkt eins og það var lagt fram og kom frá Ed. Steingrímur J. Sigfússon sat fundi nefndarinnar og er samþykkur áliti þessu. Undir þetta álit skrifa allir nefndarmenn í félmn. Nd.