11.11.1987
Neðri deild: 11. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 888 í B-deild Alþingistíðinda. (541)

Þingstörf og fjarvera ráðherra og þingmanna

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég var því miður ekki viðstaddur þegar málshefjandi, hv. 2. þm. Austurl., hóf mál um þingsköp í þessari hv. deild, og verð ég að biðja hann afsökunar á því. En ég heyrði hann líka segja frá því að hann hafi gert iðnrh. viðvart að hann ætlaði að ræða þetta mál hér eða reynt það. Hann gerði mér ekki viðvart. Kannski hefur hann reynt það. Ég veit það ekki. En hann hefur e.t.v. líka vitað að það væri ekki þörf á því því að ég hef mætt býsna vel í þingsali. Ég held að ég megi fullyrða að ég hafi setið hvern einasta þingdag frá því að þing kom saman í haust utan einn þegar ég af óviðráðanlegum ástæðum varð að biðja um fjarvistarleyfi. Það getur hent alla að svo gerist. Að öðru leyti held ég að ég hafi reynt að mæta nokkuð vel.

Hitt er svo rétt að það hafa ekki komið fram enn þá til deildar eða fyrir þingið frv. sem lögð verða fram af heilbrmrh., en það hafa valdið því, eins og stundum vill verða, tafir í þingflokkum og reyndar er það svo með mál sem þar er búið að samþykkja, frv. til læknalaga, sem er væntanlegt að ég vona þessa dagana, að því hafa valdið aðrar tæknilegar ástæður.

Af þeim málum sem ég hef hugsað mér að leggja hér fram er reyndar ekki mjög brýnt að nema 2–3 verði afgreidd fyrir áramót. Það er svo sem engin afsökun fyrir því að þau skuli ekki þegar vera komin fram og ég hef lagt á það áherslu og reynt að ýta eftir því í mínu ráðuneyti að það gerðist, að málin fengju þar skjóta vinnslu þannig að það væri hægt að koma þeim hér inn, m.a. vegna þess að við höfum séð að það hefur lítið verið á dagskrá.

Ekki veit ég hvað mörg af þessum boðuðu 104 málum þarf að afgreiða fyrir áramót, en samkvæmt reynslu er viðbúið að álag verði hér mikið fyrir jólin og það er auðvitað ekki gott vinnulag. Um vinnulag í þinginu sjálfu hef ég ekkert með að gera eða segja. Hæstv. forseti þessarar deildar hefur nú gert grein fyrir því hvernig hann hugsar sér að reyna að ýta á eftir því sem hér er nú þegar til meðferðar.

Varðandi þátttöku okkar í Norðurlandaráði held ég að hún sé mikilvæg og við eigum að taka þátt í því starfi. Það er ekki nýtt að mikill hluti þingmanna hefur þurft að fara á haustdögum til nefndarstarfa þar. Það hefur gerst á hverju hausti. Og vegna ummæla hv. síðasta ræðumanns um að þetta væri ekki vel valinn tími er ég honum ekki sammála. Ég held að einmitt þessi tími núna sé þó einna skástur til að sækja þessa fundi, þ.e. nokkru eftir að þing hefur komið saman en líka töluvert áður en kemur að því að við þurfum að taka þá lokatörn sem ævinlega er í þingstörfum fyrir áramótin. Ég sé ekki hvaða tími væri annar betri til þessara nefndarstarfa en einmitt núna. Og það vita auðvitað hv. þm. allir að það eru ekki aðeins óbreyttir þm. sem þar hafa sótt fundi heldur ráðherrar einnig. Þeir þurfa og eiga að taka þátt í nefndarstörfum þar til undirbúnings Norðurlandaráðsþinginu.

Hv. síðasti ræðumaður nefndi að ríkisstjórnin hefði lítið annað gert en verk sem hefðu gjarnan mátt vera óunnin. Það er hans pólitíska skoðun og hann verður að fá að hafa hana í friði. Ég er að sjálfsögðu ekki sammála því. Og varðandi það atriði sem hann nefndi og snertir heilbrmrn., að niður hefðu verið felld hlunnindi gamals fólks, þá kannast ég ekki við það. Ég veit ekki hver sú fullyrðing er og vil segja honum og öðrum hv. þm. að þar hefur þvert á móti verið unnið að því að bæta kjör eftirlaunaþega og öryrkja. Á haustmánuðum, 1. sept., hækkuðu eftirlaunagreiðslur verulega, milli 12 og 13% til sumra þeirra. Að vísu var það misjafnt, kom misjafnlega við einstaka bótaþega, eftir aðstæðum þeirra, af því að hækkunin kom ekki á alla bótaflokkana heldur aðeins suma. Síðan voru eftirlaun aftur hækkuð 1. okt. Þetta er mönnum kunnugt og þarf ekki að rekja það.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta, herra forseti. Ég get út af fyrir sig tekið undir þá gagnrýni, sem hér hefur komið fram, að mál hafi gengið of seint fyrir þingið frá ríkisstjórninni og mér er kunnugt um það að alveg þessa dagana koma mörg mál sem hafa verið afgreidd í þingflokkum stjórnarflokkanna núna. Við getum sjálfsagt sagt að það sé 2–3 vikum of seint. Þau hefðu þurft að vera fyrr á ferðinni. En ég hygg að þetta sé því miður ekki nýtt. En batnandi mönnum er best að lifa.