04.05.1988
Neðri deild: 90. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 7393 í B-deild Alþingistíðinda. (5429)

402. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 73 1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Frv. þetta er samið af nefnd sem skipuð var fulltrúum frá félmrn., fjmrn. og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Aðalmarkmið frv. er að flytja ákvörðun um innheimtuhlutfall útsvara til sveitarfélaganna sjálfra, en skv. núgildandi lagaákvæðum er innheimtuhlutfall útsvars við staðgreiðslu ákveðið í reglugerð sem félmrh. setur. Til þess að ná þessu markmiði þarf að breyta 26. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Einnig þarf að gera nokkrar breytingar á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og er frv. um það efni flutt samhliða þessu frv.

Skv. núgildandi tekjustofnalögum og staðgreiðslulögum er innheimtuprósenta útsvara sú sama í öllum sveitarfélögum og skil sveitarfélaga úr staðgreiðslukerfinu alls staðar sama hlutfall. Komið hefur fram mikil óánægja sveitarfélaganna með þetta fyrirkomulag og benda þau sérstaklega á mismunandi tekjuþörf sveitarfélaganna. Þótt endanlegt álagningarhlutfall útsvara sé nú í höndum sveitarfélaganna innan þeirra marka sem tekjustofnalögin setja benda sveitarfélögin réttilega á að miklar líkur eru á að innheimtuhlutfallið sem félmrh. ákveður verði í raun í flestum tilvikum endanlegt álagningarhlutfall. Ákvörðunarvaldið í þessu efni sé því í reynd ekki hjá sveitarstjórnunum.

Með frv. þessu er lögð til sú veigamikla breyting að hver sveitarstjórn ákveði fyrir fram hvaða álagningarhlutfall útsvara hún ætlar að nota og skil til sveitarfélagsins úr staðgreiðslukerfinu verði við það miðað. Mikil áhersla er lögð á að viðhalda einföldun staðgreiðslukerfisins með því að hafa eitt innheimtuhlutfall í staðgreiðslunni fyrir allt landið. Í frv. til l. um breytingu á lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem hér er á dagskrá og er fylgifrv. við þetta frv. og mun verða mælt fyrir því hér á eftir, kemur nánar fram hvernig lagt er til að samræma þessi tvö sjónarmið, þ.e. að hafa eitt innheimtuhlutfall í staðgreiðslu fyrir allt landið og að sveitarfélögin fái það í sinn hlut sem sveitarstjórnin sjálf ákveður.

Herra forseti. Ég vil undirstrika í lokin að þær breytingar sem lagðar eru til hérna hafa veruleg áhrif fyrir sveitarfélögin og er rétt að það komi fram að fyrir liggur eindreginn stuðningur Sambands ísl. sveitarfélaga við frv.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. félmn.